Síða 2147

Teigsskógur, laxeldi og hringtenging

Teigsskógur í Þorskafirði.

Komin er fram tillaga að ályktun sem Fjórðungssamband Vestfirðinga óskar eftir að sveitarfélögin á Vestfjörðum setji fram í aðdraganda borgarafundar sem verður haldinn á Ísafirði á sunnudaginn. Á borgarafundinum að ræða hitamál sem hafa verið í kastljósinu síðustu misseri og jafnvel ár.

Tillaga að ályktuninni er svohljóðandi:

„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.

Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:

– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa

– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.

– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

smari@bb.is

Sveitarfélögum verði snarfækkað

Það er mikilvægt að nýta tæknina og hafa það rafrænt sem hægt er til að koma til móts við landsbyggðina. Súðavík: Mats Wibe Lund.

Fækka ætti sveitarfélögum og festa lágmarksíbúafjölda þeirra í lög. Þetta eru niðurstöður starfshóps um eflingu sveitarstjórnastigsins. 40 sveitarfélög uppfylla ekki þá lágmarksstærð sem lögð er til. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Hópurinn leggur til að sett verði lög um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og að hann hækki í þrepum. Í byrjun árs 2020 verði lágmarksíbúafjöldi 250 manns, tveimur árum seinna 500 íbúar og í byrjun árs 2026 verði lágmarksíbúafjöldinn 1000 manns.

„Ég held að við getum samt öll verið sammála um það að fyrsta skrefið sem lagt er til í þessari skýrslu að verði stigið, að ekkert sveitarfélög verði með færri en 250 íbúa, mér finnst liggja nokkuð í augum uppi að sveitarfélag með innan við 250 íbúa er varla í stakk búið til að sinna þeim skyldum sem á það eru lagðar. Svo geta landfræðilegar aðstæður verið þannig að sameining er ómöguleg og það þarf að taka tillit til þess,“ segir Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samtali við fréttastofu RÚV.

smari@bb.is

Íbúum á Flateyri bent á að sjóða vatnið

Allir sem vettlingi geta valdið eru velkomnir á Flateyri á laugardaginn.

Ísafjarðarbær beinir því til íbúa Flateyrar að sjóða vatnið í dag. Ástæðan er vegna vinnu Orkubús Vestfjarða er ekki hægt að tryggja að geislunarbúnaður verði í gangi í dag. Þar að auki eru miklar rigningar sem getur spillt neysluvatni.

Vonast er til að tækin verði kominn inn klukkan 19:00 í dag.

Nánari upplýsingar veitir þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar.

bryndis@bb.is

Hvasst og hviðótt á Suðausturlandi

Haustlægðirnar eru nú farnar að dúkka upp og hafa sunn- og austlendingar helst fengið að finna fyrir þeim hingað til. Í dag er hins vegar blautur dagur á Vestfjörðum og rétt að taka stígvélin til kostanna.  Á veður.is segja fræðingar um veðrið á Vestfjörðum „Norðaustan 13-18 m/s og rigning en hægari sunnan átt og úrkomu minna í nótt. Austan 8-13 á morgun og skýjað en norðlægari annað kvöld. Hiti 6 til 11 stig.“

Það verður hvasst og hviðótt á Suðausturlandi, í Öræfum gæti meðalvindur náð 25 m/s með hviðum nærri 40 m/s. Talsverð rigning austantil á landinu og á köflum mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum fram yfir hádegi.

bryndis@bb.is

Borgarafundurinn tækifæri til samtals við ráðamenn

Pétur G. Markan.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum í samstarfi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Fjórðungssamband Vestfirðinga standa fyrir borgarafundi í íþróttahúsinu á Ísafirði á sunnuduaginn. Til umræðu verða mál sem hafa verið brennidepli á Vestfjörðum síðustu ár og misseri; raforkumál, laxeldi og samgöngumál. Fundurinn var fastsettur fyrir nokkrum vikum og þá hugsaður til að mynda þrýsing á stjórnvöld en í millitíðinni hefur ríkisstórnin fallið og búið að boða til þingkosninga. „Það voru hugmyndir um að fresta fundinum í ljósi þessara vendinga í landsmálunum en niðurstaðan var að halda fundinn því á honum gefst gott tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál við ráðamenn,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins.

Þrír ráðherrar hafa boðað komu sína; Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðmála, iðnaðar og nýsköpunar. Fundarstjóri verður Heimir Már Pétursson fréttamaður.

Pétur segir að fleiri raddir en raddir stjórnmálamanna fái að heyrast á fundinum. „Til dæmis verður rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl með framsögu. Þessi mál sem við ætlum að ræða eru kannski ekki pólitísk í eðli sínu og því síður flokkspólitísk. Ef við tökum til dæmis vegaframkvæmdi í Gufudalssveit, Teigsskóg, þá er það mál búið að vera í pattstöðu í áraraðir og varla nokkur maður skilur hvað hefur gerst þarna og hinn almenni Vestfirðingur er orðinn mjög þreyttir á þeim slag,“ segir Pétur sem vill sjá fundinn sem hópefli Vestfirðinga og tækifæri til uppbyggilegs samtals við ráðamenn þjóðarinnar.

„Aðalatriðið á næstu vikum og misserum er að Vestfirðingar þétti raðirnar, en þar með er ekki sagt að við þurfum að vera eintóna, en við verðum að ná að harmónera,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Vertu snjall undir stýri

Í gær ýtti Slysavarnafélagið Landsbjörg ásamt nokkrum samstarfsfyrirtækjum úr vör verkefni sem kallað er “Vertu snjall undir stýri”.

Gríðarlega hröð þróun hefur verið í notkun snjalltækja undanfarin ár og sýna slysatölur, bæði frá Evrópu og Ameríku, að um 25% allra slysa í umferðinni megi rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri. Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að heimfæra megi þessar tölur á Ísland. Landsbjörg mun nú taka höndum saman með fyrirtækjum í landinu og þá sérstaklega þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem eru með mikið af bílum í umferðinni.

Samstarfið gengur út á það að atvinnubílstjórar á vegum fyrirtækjanna fái fræðslu um málefnið og hætturnar sem fylgja notkun snjalltækja undir stýri. Fyrirtækin merkja svo bílana sína með slagorði verkefnisins og miðla því þannig boðskapnum til annara ökumanna um leið og atvinnubílstjórarnir sýna gott fordæmi og “vera snjallir undir stýri”.

Markmið verkefnisins er því að vekja bílstjóra til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem því fylgir að vera út í umferðinni, jafnvel á stórum ökutækjum, og nota snjalltæki undir stýri með mögulegum lífshættulegum afleiðingum.

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að í raun þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting hjá landsmönnum, því það krefst fullrar athygli að stýra ökutæki í umferðinni. Það að lesa og svara skilaboðum, horfa á myndefni, skoða samfélagsmiðla eða senda myndskilaboð undir stýri er einfaldlega of hættulegt til þess að það eigi að teljist í lagi. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna fram á að viðbragðstími ökumanna, verði þeir fyrir truflun, lengist töluvert við notkun snjalltæki undir stýri.

Til þess að gefa fólki hugmynd um hætturnar, þá fékk Landsbjörg þrjá aðila til að gera tilraunir í raunverulegu umhverfi í akstursbraut hjá Ökuskóla 3. Aðilarnir eru Páll Óskar Hjálmtýsson, Sólrún Diego og Sigvaldi Kaldalóns.

Þau fengu öll mismunandi verkefni sem öll snúa að notkun á snjalltæki á þann hátt sem flestir Íslendingar kannast við, þetta gerðu þau á meðan þau voru í akstri. Óvæntir hlutir urðu á vegi þeirra með tilheyrandi afleiðingum og verða myndbönd frá tilraununum birt á næstu dögum.

bryndis@bb.is

Blábankinn opnar í dag

Blábankinn á Þingeyri

Samfélagsmiðstöðin Blábankinn opnar formlega í dag með hátíð sem hefst kl. 16:00 þar sem verkefnið verður kynnt og ávörp flutt. Að ávörpum loknum mun Íþróttafélagið Höfrungur bjóða gestum upp á grillaðan fisk.

Blábankinn er nýsköpunar- og þjónustumiðstöð sem heldur utan um bankaþjónustu Landsbankans á Þingeyri og er tenging íbúa við ýmsa þjónustu Ísafjarðarbæjar. Blábankinn er samvinnuverkefni opinberra stofnanna og einkaaðila.

Blábankinn mun bjóða uppá sköpunarrými í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð sem og samvinnurými með skrifborðum í tímabundinni útleigu. Í Blábankanum getur fólk hist og rætt saman yfir kaffi, unnið saman, framleitt, öðlast þekkingu, færni, lært og skapað.

Markmið Blábanka þjónustukjarna er að hægt verði að bjóða upp á grunnþjónustu í smærri byggðarlögum sem eykur lífsgæði íbúanna sem og að koma á fót atvinnu- og þekkingarsetri á Þingeyri.

bryndis@bb.is

Eldur í vélarrúmi

Eld­ur kom upp í vél­ar­rúmi Bjargeyj­ar ÍS 41 er verið var að landa úr bátn­um í Ísa­fjarðar­höfn skömmu fyr­ir sex í morg­un. Greiðlega gekk að slökkva eld­inn og varð skipsverj­um ekki meint af. Mbl.is hefur eftir varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði að fjórir hafi verið um borð í bátnum þegar eldurinn kom upp, en báturinn var við bryggju. Slökktu þeir eld­inn og gekk greiðlega að reykræsta. Bjargey er 14 brúttó­lest­ir að stærð.

smari@bb.is

Vestfirskir buðu einir í Bjarnafjarðarbrú

Bjarnarfjörður á Ströndum.

Í síðustu viku var opnað tilboð í smíði nýrrar brúar yfir Bjarnarfjarðará á Strandavegi í Strandasýslu. Einungis eitt tilboð barst í verkið, frá Vestfirskum verktökum ehf. á Ísafirði. Tilboð Vestfirskra var 179 milljónir kr. en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 146 milljónir kr. og tilboðið því 22 prósentum yfir kostnaðaráætlun.

Brúin verður 50 m löng og verklok samkvæmt útboði þann 1. júlí 2018.

smari@bb.is

Skýrsla starfshópsins ánægjuleg fyrir sunnanverða Vestfirði

Landssamband veiðifélaga telur álit Skipulagsstofnunar eigi að standa.

Atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar lýsir ánægju sinni með niðurstöðu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, hvað varðar sunnanverða Vestfirði, en ráðið telur eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa beina hagsmuni af uppbyggingu fiskeldis hefðu átt fulltrúa í starfshópnum til að tryggja sanngjarna og bráðnauðsynlega umfjöllun um byggðamál. Þetta kemur fram í bókun ráðsins.

Jafnframt fagnar ráðið niðurstöðu starfshópsins sem leggur til að 85% af auðlindagjaldi sem lagt verður á greinina renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

Samhliða vinnu starfshóps sjávarútvegsráðherra vann Byggðastofnun skýrslu um byggðaleg áhrif fiskeldis og atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar fagnar skýrslunnar en telur þó að betur hefði mátt vanda til verka og auðveldlega hefði verið hægt að koma með betri greiningu á stöðunni.

Athugasemd er gerð við það að ekki var leitað eftir aðkomu sveitarfélagsins að neinu leyti við gerð skýrslunnar og ekki var óskað eftir því að skýrslan væri lesin yfir þrátt fyrir að ítrekað væri vísað í svör sveitarfélagsins við spurningum starfshóps ráðuneytisins um mótun stefnu í fiskeldi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir