Síða 2147

Kosningarnar kosta um 350 milljónir

.

Það er langt frá því að vera ókeypis að blása til alþingiskosninga. Samkvæmt svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV kosta kosningarnar um 350 milljónir króna. Kosningar til Alþingis haustið 2016 kostuðu 350 milljónir króna og ráðuneytið gerir ráð fyrir að kostnaður verði svipaður við komandi kosningar.

Í dómsmálaráðuneytinu er undirbúningur hafinn með hefðbundnum hætti. Utankjörfundarkosning getur hafist frá og með deginum í dag og skrá yfir listabókstafi framboða síðustu kosninga á að birtast í dag.

Vefurinn kosning.is verður virkjaður vegna kosninganna og má búast við að hann geti farið af stað eigi síðar en í vikulok.

Kosning utankjörfunar hófst í dag og verður hægt að greiða atkvæði hjá sýslumönnum og erlendis á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins.

smari@bb.is

Innkalla innflutt spínat vegna húsamúsarunga

Óvænt viðbót uppgötvaðist í salati á veitingastað í Reykjavík í gær, agnarsmár músarungi, aðeins 6 grömm að þyngd. Viðbótin vakti ekki mikla lukku og er þessi smávaxna skepna nú til rannsóknar og beinist hún nú helst að því að finna ríkisfang ungans. Til öryggis hefur Innnes ehf innkallað Azora spínat vegna gruns um að unginn litli hafi svindlað sér inn í landið með því. Í fréttatilkynningu Matvælastofnunar segir „Um er að ræða innköllun í varúðarsjónarmiði með tilliti til neytendaverndar“.

Eftirfarandi upplýsingar auðkenna vöruna sem innköllunin einskorðast við:

  • Vöruheiti:  Azora spínat.
  • Strikanúmer: 8436539071136 og 8436539070764
  • Nettómagn: 150 g og 500 g.
  • Best fyrir: 17.09.17 og 24.09.17.
  • Framleiðandi: Verdimed.
  • Framleiðsluland: Spánn.
  • Innflytjandi: Innnes ehf., Bæjarflöt 2, 112 Reykjavík.
  • Dreifing: Sölustaðir um land allt.

Vörunni má skila í þeirra verslun sem hún var keypt.

bryndis@bb.is

Byggingarkostnaður hækkar

Hagstofan spáir miklum íbúðafjárfestingum.

Vísi­tala bygg­ing­ar­kostnaðar reiknuð um miðjan sept­em­ber 2017 hef­ur hækkað um 1,5% frá fyrri mánuði. Inn­lent efni hækkaði um 4,1% (áhrif á vísi­tölu 1,5%), vél­ar, flutn­ing­ur og orku­notk­un hækkaði um 0,7% milli mánaða (0,1%) en verð á inn­fluttu efni lækkaði um 0,6% (-0,1%). Á síðustu tólf mánuðum hef­ur vísi­tala bygg­ing­ar­kostnaðar hækkað um 3,0%, seg­ir í frétt á vef Hag­stofu Íslands.

smari@bb.is

Útgerðum hefur fækkað um 60 prósent

Samþjöppun í sjávarútvegi hefur haldið áfram á síðustu 12 árum. Útgerðarfyr­ir­tækj­um með afla­hlut­deild hef­ur fækkað um næst­um 60% á 12 árum. Alls áttu 946 út­gerðarfyr­ir­tæki afla­hlut­deild á fisk­veiðiár­inu 2005/​2006 en nú deila 382 fyr­ir­tæki hlut í afl­an­um. Fjöldi út­hlutaðra þorskí­gildist­onna er þá næst­um sá sami, eða um 400 þúsund tonn. Þetta kem­ur fram á vef Fiski­stofu.

Litl­ar breyt­ing­ar eru á hvaða fyr­ir­tæki eru í efstu sæt­un­um frá því sams kon­ar upp­lýs­ing­ar voru birt­ar í mars síðastliðnum, í kjöl­far út­hlut­un­ar afla­marks í deili­stofn­um um ára­mót­in og viðbótar­út­hlut­un­ar á loðnu, að því er seg­ir í til­kynn­ingu Fiski­stofu.

Eins og und­an­far­in ár eru HB Grandi og Sam­herji í tveim­ur efstu sæt­un­um. HB Grandi er með um 10,4% af hlut­deild­un­um en var í mars með 11,3%. Sam­herji er með 6,2%. Sam­an­lagt ráða þessi tvö stærstu út­gerðarfyr­ir­tæki lands­ins því yfir 16,6% af hlut­deild­un­um í kvóta­kerf­inu. Í 3. til  5. sæti eru Síld­ar­vinnsl­an í Nes­kaupstað, Þor­björn í Grinda­vík og FISK-Sea­food Sauðár­króki. Efninu tengd, má geta þess að fyrir örfáum dögum keypti FISK-Seafood allt hlutafé í Soffaníasi Cecilssyni hf. á Grundarfirði en fyrirtækið ræður yfir 3.200 tonna kvóta í þorskígildum talið.

smari@bb.is

Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd

Laugardaginn 16. september 2017 opnaði Ingibjörg Magnadóttir sýninguna ,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði.

Ingibjörg Magnadóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2000 og var einnig við nám í Kaupmannahöfn 1999.  Hún lagði stund á sviðslistanám í Fredriksstað í Noregi 2001-2 og útskrifaðist með MA í ritlist frá Háskóla Íslands 2015.  Hún hefur komið víða við og tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og listviðburðum hér heima og erlendis undanfarin ár. Heimasíða:  imagnadottir.com

Sýning Ingibjargar Magnadóttur í Gallerí Úthverfu opnar kl. 16 á laugardaginn og stendur til sunnudagsins 22. október.

bryndis@bb.is

Svartfellingur til Vestra

Nemanja Knezevic og Ingólfur Þorleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vestra.

Körfuknattleiksdeild Vestra hefur samið við Svartfellinginn Nemanja Knezevic um að leika með liðinu. Nemanja er þrítugur 205 sentímetra hár miðherji sem býr yfir góðri tækni og miklum hreyfanleika. Það er mikill fengur að þessum geðþekka pilti og mun hann styrkja lið Vestra mikið í komandi átökum í 1. deildinni í vetur.

Rétt er að taka fram að þótt Nemanja beri sama ættarnafn og Nebojsa Knezevic leikmaður Vestra eru þeir óskyldir með öllu. Félagarnir eru þó ekki ókunnugir hvor öðrum því þeir léku saman með serbneska liðinu Vojvodina Novi Sad í annari deildinni í Serbíu tímabilið í þrjú ár á sínum yngri árum.

smari@bb.is

Utankjörfundarkosning hafin

.

Kjördagur fyrir kosningar til Alþingis hefur verið ákveðinn hinn 28. október 2017 og mun utankjörfundarkosning hefjast hjá sýslumönnum og utanríkisþjónustunni hefjast í dag, miðvikudaginn 20. september.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

Innanlands: Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum stað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. Upplýsingar um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er hægt að finna á vefsíðu sýslumanna. Sýslumenn auglýsa hver á sínum stað hvar og hvenær atkvæðagreiðslan fer fram.

Erlendis: Á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.

smari@bb.is

Flestir vilja VG í stjórn

Katrín Jakobsdóttir, .

Meirihluti þeirra sem tóku afstöðu í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, eða 57 prósent, vill sjá Vinstri græn í nýrri ríkisstjórn. Næstflestir vilja að Framsóknarflokkurinn taki sæti í ríkisstjórn, eða 35 prósent, og 33 prósent vilja sjá Samfylkinguna í næstu ríkisstjórn.

Þá vilja 31 prósent að Sjálfstæðisflokkurinn taki sæti í nýrri ríkisstjórn, 30 prósent vilja Pírata og 26 prósent Bjarta framtíð. Þá vilja 19 prósent Viðreisn.

Af þeim flokkum sem ekki hafa sæti á Alþingi í dag nefndu 19 pró­sent svar­enda Flokk fólks­ins og Dögun var nefnd af fjögur pró­sent þeirra sem tóku afstöðu til spurn­ing­ar­inn­ar.

Sú sam­setn­ing flokka sem fólk nefndi oft­ast var sam­steypu­stjórn Fram­sókn­ar­flokks­ins og Sjálf­stæð­is­flokks­ins. 14 pró­sent þeirra sem svör­uðu nefndu það. Ann­ars sögð­ust sex pró­sent vilja rík­is­stjórn Pírata, Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna.

Fimm pró­sent svar­enda nefndu rík­is­stjórn­ar­sam­starf milli Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna. Fjögur pró­sent svar­enda nefndu Vinstri græn og Bjarta fram­tíð og önnur fjögur pró­sent sögð­ust vilja sjá sam­starf Vinstri grænna og Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

bryndis@bb.is

Hræringar innan Framsóknar

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir að hann viti til þess að unnið sé gegn honum í flokknum með það að markmiði að koma honum af lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 28. október næstkomandi. Rætt er við hann á Eyjunni í dag. „Ég hef engar áhyggjur. Ég býð mig fram aftur og tel mig geta gert gagn. Ég fer bara í þetta með hagsmuni flokksins í fyrirrúmi,“ segir Gunnar Bragi.

Eiríkur Jónsson blaðamaður veltir því upp á vefsíðu sinni í gær að Framsóknarmenn í Skagafirði vilji sjá Stefán Vagn Stefánsson í forystusætinu, en hann hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði í sjö ár. Eiríkur skrifar að fleiri spjót standi á Gunnari Braga og segist hafa heimildir fyrir því að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi þingmaður, hugsi sér til hreyfings.

smari@bb.is

Teigsskógur, laxeldi og hringtenging

Teigsskógur í Þorskafirði.

Komin er fram tillaga að ályktun sem Fjórðungssamband Vestfirðinga óskar eftir að sveitarfélögin á Vestfjörðum setji fram í aðdraganda borgarafundar sem verður haldinn á Ísafirði á sunnudaginn. Á borgarafundinum að ræða hitamál sem hafa verið í kastljósinu síðustu misseri og jafnvel ár.

Tillaga að ályktuninni er svohljóðandi:

„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.

Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:

– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa

– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.

– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir