Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2146

Eina löggilda kafbátabryggja landsins

Kafbátabryggja !!! Mynd: Eyþór Jóvinsson

Við sögðum frá því um miðjan júlí að ekki væri hægt að bíða lengur með viðgerðir á bryggjunni á Flateyri en hún hefur sigið mikið og á háflóði fer hún að stórum hluta í kaf. Meðfylgjandi mynd birti Eyþór Jóvinsson á facebook síðu sinni og telur að þarna sé um að ræða einu löggildu kafbátabryggju landssin.

Þráttað er um hvort um hönnunarmistök eða framkvæmdamistök er að ræða en hvort heldur sem er þarf að gera við og að mati Vegagerðarinnar verður að fara að gera. Þetta er umfangsmiklar aðgerðir og áætlaður kostnaður er tæpar 50 milljónir.

bryndis@bb.is

Raggagarður fagur sem aldrei fyrr

Fjölskyldugarðurinn Raggagarður í Súðavík er einstakt afdrep fyrir börn og fullorðna, garðurinn er skjólsæll og afar fjölbreytt og skemmtileg leiktæki. Garðinum er mjög vel við haldið, af sjálfboðaliðum og vinnuskóla sveitarfélagsins.

Í lok júní var haldinn vinnudagur heimamanna þar sem sjálfboðaliðar fóru eins og stormsveipur um garðinn, hreinsuðu og máluðu. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá þeim degi.

 

Flugstöð til sölu

Flugstöðin á Patreksfirði er nú auglýst til sölu hjá Ríkiskaupum, um er að ræða tæpa 270 fm og er óskað eftir tilboðum sem skila má til 1. september. Að sögn Arnórs Magnússonar sem fer með söluna fyrir Ríkiskaup var vellinum lokað 2011 en áætlun var hætt fyrir síðustu aldamót. Arnór segir að byggingarnar þarfnist viðhalds.

Flugvöllurinn er í Sauðlauksdal og talsverður spotti að aka frá flugvellinum inn á Patreksfjörð.

bryndis@bb.is

 

Makrílvaða í pollinum

Reglugerð um viðbótarheimild á makríl til smábáta tekur væntanlega gildi 31. júlí. Veiðiheimildirnar eru einkum ætlaðar til aðila sem ekki höfðu tækifæri til á ávinna sér veiðireynslu á viðmiðunarárum.Greiða þarf 2,78 fyrir kg í makrílheimild. Þetta kemur fram á heimasíðu Landsambands Smábátaeigenda.

Í gær mátti sjá myndarlega vöðu makríls spóka sig í pollinum við Ísafjörð.

bryndis@bb.is

Skýr merki um erfðablöndun

Villtur lax. Mynd: Þorleifur.

Á vefnum fiskifrettir.is í dag er frétt um að „fundist hafi í fyrsta sinn sterkar vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna“ og vísað er í nýbirta skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að í íslenskri vísindagrein frá árinu 2013 hafi í fyrsta sinn verið sýnt fram á erfðablöndun úr eldisfiski yfir í náttúrulega íslenska stofna en það var árkerfi Elliðaáa og um var að ræða að bæði eldisfiskar og hafbeitarfiskar sóttu í það vatnakerfi.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skýr merki um erfðablöndum hafi mátt sjá í tveimur laxastofnum á Vestfjörðum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostanfirði. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði. Í Sunndalsá fundust fimm blendingar eldisfiska og villtra laxa og í Mjólká fundust tveir kynþroska laxar. Þess má geta að í skýrslu Veiðimálastofnunar fyrir árið 2015 og 2014 eru ekki skráðir neinir laxar á land í þessum ám! Það kemur líka fram í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar að „mjög lítil laxagengd er að jafnaði í þessar ár“, skilgreining á hvað telst „mjög lítið“ kemur ekki fram.

Umfangsmiklar hafbeitartilraunir hófust í Kollafirði 1987 en í frétt Morgunblaðsins frá árinu 1989 kemur fram að 300 fjölskyldur af ólíkum stofnum laxfiska hafi verið teknar í eldi í Kollafirði. Leiða má að því líkum að afrakstur þessa eldis gæti mjög víða í laxveiðiám landsins. Laxeldisstöð ríkisins hóf árið 1961 rannsóknir á hafbeit hér við land og síðar kynbætur. Hin íslenski víkingalax gæti hafa tekið stórstígum breytingum með þessum kynbótum.

Hér er hlekkur á skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

bryndis@bb.is

„Þá vill fólk heldur ekki að búið sé í fjörðunum“

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Heimir Már Pétursson fréttamaður á Stöð 2 ræddi við Atla Gregersen forstjóra eldisfyrirtækisins Hiddenfjord um fiskeldi í Færeyjum og á Íslandi. Atli gengst við margskonar mistökum sem gerð voru í upphafi fiskeldis í Færeyjum, til að mynda byrjuðu 60 fyrirtæki í tuttugu fjörðum og leiddi það til ófriðar og að smit barst milli stofna fyrirtækjanna. Eins var fiskur í öllum fjörðum árið um kring en árið 2003 var lögum breytt þannig að í hverju sinni væri bara ein kynslóð af fiski í hverjum firði og þeir hvíldir milli kynslóða. 2006 var lögum breytt aftur og nú má bara einn framleiðandi vera í hverjum firði. Atli segir að með því að hvíla firðina milli kynslóða hafi tekist að útrýma nær öllum sjúkdómum.

Íslenskt hrognkelsi í baráttuna við laxlús

Laxalús hefur valdið talsverðum vandræðum í Færeyjum en Atli segir að nú fái þeir aðstoð frá íslensku hrognkelsi sem sé sólgið í færeyska laxalús.

Atli telur ekki að áhrif laxeldis á umhverfið þurfi að valda áhyggjum, það eigi að setja strangar umhverfisreglur en rétt að geta þess að á Íslandi er allt eldi kynslóðaskipt og Atli segir nauðsynlegt að mjög reglulega fari fram lúsatalning hjá öllum ræktendum.

„Ef ekki má hafa athafnalíf á Vestfjörðum, hvernig á fólk að búa þar“

Lesa má viðtalið í heild hér.

bryndis@bb.is

Stutt og laggott

Veðurspáin fyrir Vestfirði í dag á vedur.is er stutt, það er norðausta 5 – 13 og yfirleitt léttskýjað. Hiti 10 – 16 stig. Semsagt, fínasta sumarveður.

Fyrir þá sem eru á ferðinni þá er austurland ekki málið í dag, það er hvasst og rigning í nánd. Suðvesturland lítur vel út fyrir helgina, þó gæti hvesst.

Annars eru veðurspár þessa dagana ekki mjög nákvæmar og breytast stöðugt.

bryndis@bb.is

Gönguhátíðin í Súðavík

Hinn tignarlegi Kofri.

Hin árlega gönguhátíð í Súðavík verður á sínum stað um Verslunarmannahelgina og hefst hún með tónleikum í Melrakkasetrinu fimmtudaginn 3. ágúst. Bæði laugardagur og sunnudagur hefjast með sameiginlegum hafragraut með lifrapylsu og lýsisskammti og þá eiga allir að vera tilbúnir í góðar göngur.

Afar fjölbreyttar göngur eru í boði, gengið verður úr Skötufirði í Heydal í Mjóafirði, um Valagil, milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur um Þjófaskörð og Heiðarskar, á Sauratinda, upp í Naustahvilft og síðasta gangan er ganga á Kofra.

Nánari upplýsingar um göngurnar má fá hér.

bryndis@bb.is

Björgunarsveitir standa í ströngu

Mynd úr safni, frá björgun ferðamenna úr Eyrarfjalli

Miklar annir voru hjá björgunarsveitum landsins í gær fyrir utan þær vestfirsku. Öklabrotnum göngumanni við Arnarstapa á Snæfellsnesi þurfti að koma til byggða og var það björgunarsveit þaðan sem kom honum í sjúkrabíl. Stuttu seinna voru björgunarsveitir frá Egilstöðum og Seyðisfirði kallaðar út vegna konu sem villtist í þoku í Seyðisfirði. Og á Fimmvörðuhálsi örmagnaðist göngumaður.

Þeim ökklabrotna var komið í sjúkrabíl enn aðgerðum hætt á Fimmvörðuhálsi.

Konan í þokunni fannst ekki fyrr en eftir tæpa fjóra tíma. Hún hafði villst í brattlendi svo sérþjálfaða björgunarsveit þurfti í verkefnið. Leit hófst um kl. 20:00 í gærkvöldi og fannst hún rétt fyrir miðnætti, það voru 50 manns tóku þátt í leitinni og var konunni fylgt til byggða en sem betur var hún ómeidd.

bryndis@bb.is

Blessað barnalán á fjalirnar

Þið munið hann Jörund

Litli leikklúbburinn á Ísafirði hefur ákveðið að næst skuli Blessað barnalán á svið á Ísafirði, klúbburinn hefur því auglýst eftir áhugasömum til að taka að sér hlutverk en stykkið er afar mannfrekt. Það eru 12 hlutverk, þar af 7 konur og 5 karlar svo nú er tækifærið fyrir þá sem hafa borið með sér leikaradrauminn að láta vita af sér, það er hægt að gera á facebook eða hringja í formanninn Svövu Trausta í síma 867 9127.

Æfingar hefjast í byrjun september og frumsýning er áætluð um miðjan október, þetta er snöggt og skemmtilegt ferli og uppskeran er víðfrægur farsi sem á eftir kæta áhorfendur.

Litli leikklúbburinn var stofnaður árið 1965 og er víðfrægur fyrir metnaðarfulla leiklist. Árið 2003 setti klúbburinn upp Söngvaseið en sú uppsetningar var valin áhugaleiksýning ársins og sett á svið Þjóðleikhússins það sumarið.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir