Píratar hafa ákveðið að hafa opið prófkjör um allt land, framboðsfrestur í öllum kjördæmum rennur út laugardaginn 23. september kl. 15:00 og hefst kosning í kosningakerfi Pírata sama dag og mun standa í viku. Í Norðvesturkjördæmi verður opið prófkjör þar sem allir skráðir Píratar á landsvísu geta kosið og er það fyrirkomulag í öllum kjördæmum nema Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Kjördæmisráð Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi mun funda á laugardaginn og þar verður aðferð við val á framboðslista valinn.
Lísbet Harðar Ólafardóttir almúligtkona og samkvæmt facebook eigandi fyrirtækisins Laxi og lagsi, hefur nú lagfært sundparið fyrir framan Sundhöll Ísafjarðar. Nef sundkonunnar hafði brotnað en nú hefur hún fengið sterklegt og fallegt nýtt nef og máluð frá toppi til táar.
Sundmaðurinn eftir Marinus Simson
Það var Martinus Simson sem bjó til stytturnar, sá hinn sami og gerði Simsonsgarð inn í Tungudal. Simson var afar merkilegur maður, hann smíðaði útvarpstæki, kenndi radíotækni, lagði stund á listmálun, teikningu og höggmyndasmíð, en hans ær og kýr voru andleg vísindi. Áður en hann flutti á Ísafjörð um þrítugt starfaði hann sem trúður tannaflaraunamaður og hugsanalesari í farandflokki fjölleikamanna.
Morgunblaðið tók viðtal við Martinus í tilefni 85 ára afmælis hans, árið 1971, þar segir hann meðal annars „Það hefur verið sagt og skrifað um mig, að ég væri meiri Íslendingur en margir þeirra sem hér eru fæddir og uppaldir. En þetta er ekki rétt. Ég hef aldrei haft þessa föðurlandsást eða ölluheldur föðurlandseigingirni sem aðrir hafa. Fyrir mér er allt fólk jafngott, hvort sem þar er um að ræða Þjóðverja, Englendinga, Dani eða Íslendingar. Þetta er fyrst og fremst fólk.“
Lokaorð hans í þessu viðtali ættu að hlýja Ísfirðingum um hjartarætur „Ég hlakka til að koma aftur heim til Ísafjarðar, því að dásamlegri staður er ekki til á jörðinni og þar hef ég mætt svo mikilli hlýju, vináttu og kærleika.“
Sundkonan
Það vakti athygli tíðindakonu bb.is hvað börnin sóttu í styttunna, í stuttu stoppi í garðinum hlupu tvö börn skyndilega að styttunni og föðmuðu hana, stukku svo aftur í leik.
Sundkonan er heit stuðningskona afrekskvennahóps Gullrilla
Eins og sjá má á þessari mynd var komin tími til að lagfæra þessa fallegu styttu.
Dómsmálaráðuneytið heldur skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar. Hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út, þ.e. eigi síðar en kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 10. október 2017
Við alþingiskosningarnar 29. október 2016 buðu eftirtalin stjórnmálasamtök fram lista og voru þeir merktir sem hér segir:
A-listi Björt framtíð
B-listi Framsóknarflokkur
C-listi Viðreisn
D-listi Sjálfstæðisflokkur
E-listi Íslenska þjóðfylkingin
F-listi Flokkur fólksins
H-listi Húnamistaflokkurin
P-listi Píratar
R-listi Alþýðufylkingin
S-listi Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands
T-listi Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði
Séra Fjölnir Ásbjörnsson og synir sáu um að velja myndir á rússneska kvikmyndahátíð Ísafjarðarbíós á laugardaginn. Í tilkynningu frá bíóinu kemur fram að um sé að ræða fjölbreyttar verðlaunamyndir, sýndar á rússnesku með texta, frítt inn og allri velkomnir.
Rússneska ævtýramyndin He’s a Dragon (On – drakon) verður sýnd laugardaginn 23. september kl 18:00 í Ísafjarðarbíó.
Miroslövu prinsessu er rænt í miðju brúðkaupi en ægilegur dreki nemur hana á brott í kastalann sinn á afskekktri eyju. Í einsemd sinni verður dularfullur ungur maður á vegi hennar á eyjunni að nafni Arman, – hver er hann og hvað er hann að gera þarna? Ástin tekur ýmsa snúninga þegar hún verður ástfanginn af drekanum.
Rússneska stórmyndin The Icebraker (Ledokol) verður sýnd laugardaginn 23. september kl 20:00 í Ísafjarðarbíó.
English. Based on a true story. Antarctic, 1985. The Icebreaker “Gromov” got captured on the ice trying to dodge a giant berg. For 133 days in cold and ringing silence the crew tries to find the way out. One false move – and they will be crashed in the ice.
bryndis@bb.is
Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða hefur göngu sína á ný í dag eftir gott sumarfrí. Fyrst til að ríða á vaðið þennan veturinn er dr. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið. Í erindi sínu mun Catherine fjalla um rannsóknir sínar meðal íslenskra smábátasjómanna, m.a. viðhorf þeirra til og reynsla af fiskveiðastjórnun.
Sjálfbærar fiskveiðar byggja á því að jafnvægi sé á milli félagslegra, hagrænna og umhverfislegra markmiða. Stjórnmálahagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Elinor Ostrom hélt því fram að eiginlegar áherslur fiskveiðastjórnunarkerfa væru á fólk en ekki fisk. Í fyrirlestrinum mun Catherine fjalla um rannsókn sína á sjávarbyggðum og fiskveiðistjórnunarkerfum á Íslandi þar sem komið er inn á hvað einkenni smábátasjómenn, reynslu þeirra af fiskveiðistjórnun og og skoðanir þeirra þar um.
Catherine tók við starfi fagstjóra Haf- og strandsvæðastjórnunarnámsins í janúar á þessu ári. Hún er þverfaglegur vísindamaður á sviði haffræði með víðtæka reynslu bæði frá Alaska og Íslandi. Meðal þess sem hún hefur unnið að eru staðbundin matvælakerfi, fiskveiðistjórnun, málefni Norðurslóða og haftengd ferðaþjónusta. Hún lauk doktorsprófi í sjávarútvegsfræði við Alaska háskólann í Fairbanks og meistarnámi í dýrafræði frá Southern Illionois háskólanum. Hún hefur verið búsett á Íslandi frá 2008 og unnið við Háskólann á Hólum og Þekkingarsetrið á Blönduósi. Hún er einnig vísindavinur við stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólasetursins og er að vanda öllum opið. Það sendur frá kl. 12.10-13.00. Catherine mun flytja fyrirlestur sinn á ensku.
Byggingar-, skipulags- og umhverfisnefnd og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps gera athugasemdir við frágang Skeljungs á olíutangi við Tálknafjarðarhöfn. Farið verður fram á við Skeljung að gengið verði frá tankinum á varanlegan hátt sem allra fyrst enda er frágangur hans ólíðandi og ekki í samræmi við gildandi reglur. Tankurinn inniheldur 12.000 lítra af gasolíu og stendur á stafla af gangstéttarhellum.
Vonast er eftir góðri mætingu á íbúafundinn sem halda á að sunnudaginn í Íþróttahúsinu á Torfnesi, þingmenn kjördæmisins sem og ráðherrar sem telja sig málið varða og eiga heimangengt hafa boðað komu sína.
Pétur G. Markan formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Eiríkur Örn Norðdahl, Guðrún Anna Finnbogadóttir munu hafa framsögu á fundinum, sem og fulltrúi KPMG sem mun kynna skýrslu um efnahags- og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi. Síðan verða panelumræður og spurningar.
Aðstandendur fundarins hafa gefið út eftirfarandi tillögu að ályktun sem lögð verður fyrir fundargesti til umræðu.
„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.
Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:
– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa
– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.
– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“
Sigmundur Þórðarson íbúi á Þingeyri flutti ávarp við opnun Blábankans á Þingeyri í gær og lýsti mikilli ánægju með þetta framtak og hann bindur mikla vonir við starfsemina. Sigmundur sagði að bylting væri framundan í samfélaginu þegar Dýrafjarðargöng opnast og margt jákvætt að gerast. Hér má horfa á upptöku af ávarpi Sigmundar.
Arna Lára Jónsdóttir og Þórarinn Gunnarsson frá Nýsköpunarmiðstöð óskuðu Dýrfirðingum til hamingju með þessa samfélagsmiðstöð sem Blábankanum er ætlað að vera. Hugmyndin kom upphaflega frá forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar en hefur þróast og þroskað í meðförum þeirra aðila sem að hafa komið.
Stofnendur Blábankans eru Vestinvest, Ísafjarðarbær og Simbahöllin en bakhjarlar og samtarfsaðilar eru, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landsbankinn, Arctic Fish, Snerpa, Ísafjarðarbær, Simbahöllin, Verkvest, Vestinvest ehf, PricewaterhouseCoopers og Pálmar Kristmundsson.
Hægt er að fylgjast með Blábankanum á heimasíðu hans.
Nýstárlegri hraðahindrun/gangbraut hefur nú verið komið upp á Hafnarstrætinu á Ísafirði, hún minnir örlítið á pappalöggurnar frægu sem stillt var upp á Reykjanesi um árið, þær vöktu ekki mikla lukku. Hraðahindrunin/gangbrautin er nokkurs konar sjónhverfing og hefur þann kost að geta með engu móti skaðað bila sem yfir hana keyra.
Þann 7. september opnaði vefur um íslenskar skáldkonur, www.skald.is. Að verkefninu standa Ásgerður Jóhannsdóttir og Jóna Guðbjörg Torfadóttir. Vefurinn hverfist um konur og skáldskap þeirra og verður leitast við að birta þar viðburði, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilega texta um konur, eftir konur. Þar er einnig að finna skáldatal íslenskra kvenskálda.
Vefurinn er unninn í sjálfboðavinnu og af hugsjón einni saman og Von þeirra sem að vefnum standa er að hann eigi eftir að stækka og dafna og verða verðugur vettvangur fyrir íslenskar skáldkonur. Skáldatalið er í vinnslu og bætast ný skáld við vikulega. Allar konur sem skrifað hafa um kvennabókmenntir eða gefið út skáldskap eru hvattar til að senda inn efni til birtingar á skald@skald.is.