Síða 2145

Óður til kosninga

Eva Pandora Baldursdóttir

Það kólnar í lofti, haustlægðirnar koma yfir landið hver á fætur annarri, gróðurinn tekur á sig sinn fallega lit sem einkennir árstíðina og börnin fara aftur í skólann sinn. Já og svo eru auðvitað líka kosningar.

Þegar ganga á til kosninga í þriðja sinna sinn á aðeins fimm árum hlýtur að vera kominn tími til þess að staldra aðeins við og velta vöngum. Af hverju stafar þessi óstöðugleiki í stjórnmálunum?

Enn á ný hefur almenningur risið upp og látið í sér heyra og skilaboðin eru skýr. Við viljum breyta stjórnmálamenningunni. Við viljum betri vinnubrögð í stjórnmálunum, meira gagnsæi í stjórnsýslunni og við gerum þá kröfu að stjórnmálamenn starfi með hag almennings að leiðarljósi. Þjóðin á skilið að stjórnmálamenn starfi af heilum hug að því að byggja brú á milli hennar og stjórnmálanna, að stjórnmálamenn vinni af heilum hug að því að auka traust hennar til Alþingis.

Að skipta út stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum mun ekki breyta miklu nema grunngildum stjórnmálanna sé breytt, stjórnmálamenningunni sé breytt. Allir flokkar gefa fögur loforð í aðdraganda kosninga og flestir gera það af góðum hug og vilja til þess að bæta samfélagið. Þegar á hólminn er komið og flokkar jafnvel komnir í ríkisstjórn virðist oftar en ekki illmögulegt að standa við gefin loforð ýmist vegna „pólitísks ómöguleika“ eða einhverrar kerfislægrar tregðu.

Það ætti að vera krafa að stjórnmálamenn standi við gefin loforð. Ef það er ekki gert þá ætti almenningur að hafa óskoraðan rétt til þess að vera upplýstur um af hverju það er ekki hægt. Gagnsæi er lykilatriðið. Það þarf að eyða þeirri kerfislægu hneigð stjórnvalda að leyna upplýsingum fyrir almenningi til þess að vernda eigin hagsmuni. Alþingismenn starfa í umboði þjóðarinnar og því skal aldrei gleyma.

Í framtíðinni munu stjórnmál og stjórnsýsla vera gagnsæ og allar upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda munu vera tiltæk án undandráttar. Almenningur mun hafa tryggan aðgang að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða sýsla með.

Til þess að stuðla að þessari framtíð vil ég hvetja alla kjósendur, sérstaklega ungt fólk, til þess að taka framtíð sína í eigin hendur og nýta kosningarétt sinn.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi

Rjúpnastofninn í sókn

Rjúpna­stofn­inn þolir að veidd­ar verði 57 þúsund rjúp­ur á þessu veiðitíma­bili sam­kvæmt til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­unn­ar Íslands. Voru niður­stöðurn­ar kynnt­ar um­hverf­is- og auðlindaráðherra í bréfi síðasta föstu­dag. Til­laga stofn­un­ar­inn­ar ger­ir því ráðfyr­ir tölu­verðri hækk­un frá síðasta ári, þegar lagt var til að veiða mætti 40.000 fugla.

„Stofn­un­in legg­ur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heild­arafföll­um rjúp­unn­ar,“ seg­ir í frétt á vef Nátt­úru­stofn­unn­ar.

Var viðkoma rjúp­unn­ar met­in með taln­ing­um í tveim­ur lands­hlut­um síðsum­ars og reynd­ist hlut­fall unga vera 78% á Norðaust­ur­landi og 79% á Suðvest­ur­landi. Benda niður­stöður þess­ara rjúpna­taln­inga til þess að stærð rjúpna­stofns­ins í ár sé  í meðallagi víðast hvar um land, en þó ekki á Vest­fjörðum og Suðaust­ur­landi, þar sé stofn­inn í lág­marki.

„Reiknuð heild­ar­stærð varp­s­tofns rjúpu vorið 2017 var met­in 173 þúsund fugl­ar, en var 132 þúsund fugl­ar 2016. Fram­reiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fugl­ar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þess­ir út­reikn­ing­ar byggja á gögn­um fyr­ir Norðaust­ur­land og of­meta stærð stofns­ins nær ör­ugg­lega,“ seg­ir í fréttt­inni.

Um­hverf­is- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2013 að rjúpna­veiðitím­inn yrði 12 dag­ar á ári fyr­ir tíma­bilið 2013–2015, þetta var síðan fram­lengt 2016. Legg­ur nátt­úru­fræðistofn­un til að þeim veiðitíma verði haldið óbreytt­um þetta árið.

bryndis@bb.is

Tap í síðasta leik

Mynd úr safni.

Það var markaveisla á Torfnesvelli á Ísafirði um helgina þegar leikið var í síðustu umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Vestri og Höttur áttust við í fjörugum leik og mörkin létu ekki á sér standa og eftir einungis tveggja mínútna leik kom Viktor Júlíusson heimamönnum í 1-0 og á fjórðu mínútu var Vestri kominn með tveggja marka forystu með marki Friðriks Þóris Hjaltasonar. Sá síðarnefndi gat ekki fagnað markinu lengi því hann fauk út af með beint rautt spjald á 10 mínútu er hann braut á leikmanni Hattar í eigin vítateig og var dæmt víti sem Ignacio Gonzales Martin skoraði úr. Einum færri komust Vestramenn í 3-1 með vítaspyrnu Michael Saul Halpin á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Ignacio Gonzales Martin var aftur á ferðinni fyrir Hött á 56. mínútu og minnkaði muninn í 3-2 og einum leikmanni færri gekk Vestra illa að halda aftur af Hetti og á 76. mínútu jafnaði Brynjar Árnason leikinn og lokamínútum venjulegs leiktíma fengu gestirnir víti sem Nenad Zinovic skoraði úr og reyndist það vera sigurmarkið.

Vestri endaði deildina í níunda sæti með 27 stig.

smari@bb.is

Vitavörður handtekinn

Valgeir Ómar Jónsson, barnabarn Þorbergs Þorbergssonar vitavarðar á Galtarvita hefur gefið út bók um þessa einstöku en óskemmtilegu reynslu þegar breski herinn handtók nokkra Vestfirðinga og flutti í fangelsi í Bretlandi.

Á bakhlið bókarinnar er efni hennar lýst með þessum hætti:

Laust eftir miðnætti aðfaranótt 9. júní 1941 stóðu fjórir alvopnaðir breskir hermenn við vitavarðarhúsið á Galtarvita. Erindi þeirra var að handtaka vitavörðinn Þorberg Þorbergsson og flytja í fangelsi í Bretlandi. Áður en þeir gætu haldið frá landi með stríðsfangann varð hann sjálfur að gera við bát hermannanna sem brotnað hafði í fjörunni.

Sök vitavarðarins var að hafa skotið skjólshúsi yfir þýskan flóttamann. Ferðin til Bretlands var fyrsta utanför Þorbergs og honum minnisstæð. Í bókinni rekur Valgeir Ómar Jónsson sonarsonur Þorbergs sögu afa síns og samferðamanna hans og framvindu þessa sérstæða máls.

bryndis@bb.is

Að draga Ómar Ragnarsson organdi ofan úr vinnuvélum

Eiríkur Örn Norðdahl flutti ávarp á íbúafundur Fjórðungssambands Vestfirðinga í gær og má segja að góður rómur hafi verið gerður að. Á kjarnyrtu og ljóðrænu máli kom Eiríkur því til skila að á Vestfjörðum byggi fólks sem væri umhugað um náttúruna enda vildi „enginn skíta í deigið“, engu að síður værum við fólk í byggð og yrðum að fá að hegða okkur sem slík.

„Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi.“

Hlusta má á Eirík flytja ræðu sína í myndbandinu með fréttinni en Eiríkur hefur birt ræðuna í heild sinni á heimsíðunni Fjallabaksleiðin.

Ályktun samþykkt samhljóða

Eftir fjölmennan maraþoníbúafund á Ísafirði lagði fundarstjórinn Heimir Már Pétursson fram tillögu að ályktun fundarins og var hún samþykkt nær einróma. Á sjöttahundrað mættu á fundinn og voru umræður líflegar og fróðlegar. Í pallborði að loknum ávörpum sátu bæjarstjórar sveitarfélagana á Vestfjörðum sem áttu heimangengt og fjórir ráðherrar.

Það voru þrjú málefni til umræðu, í fyrsta lagi vegagerð í Gufudalssveit en þar hefur staðið styr um vegstæði í tólf ár og hvorki gengur né rekur, í öðru lagi raforkumál á Vestfjörðum og þá sérstaklega hringtenging Vestfjarða og í þriðja lagi um hvort laxeldi skuli leyfast í Ísafjarðardjúpi.

Hér kemur ályktunin og í meðfylgjandi myndbandi má sjá hana Heimir Már lesa upp tillöguna við góðar undirtektir.

„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.
Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:

– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa

– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.

– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

Hér eru nokkrar myndir frá fundinum.

Ný umhverfisstefna Ísafjarðarbæjar

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Tillaga Umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar um umhverfisstefnu Ísafjarðarbæjar var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar í gær, 21. september.

Umhverfisstefna Ísafjarðarbæjar

Ísafjarðarbær stefnir að því að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Til að ná sem mestum jákvæðum áhrifum í umhverfismálum hefur Ísafjarðarbær mótað sér umhverfisstefnu.

Markmið:

Markmiðið er að minnka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi stofnana Ísafjarðarbæjar. Stofnanirnar munu leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu.

Ísafjarðarbær leggur áherslu á:

  • Að tryggja stöðugar úrbætur í umhverfisstjórnun og mengunarvörnum með því að innleiða og framfylgja verkefnum eins og:
    • Earth Check
    • Bláfáni
    • Grænfáni
    • Græn skref
  • Að setja sér mælanleg markmið í umhverfismálum með að
    • skrá orkunotkun
    • skrá innkaup á vistvænum vörum

svo árangur geti verið samanburðarhæfur og upplýsingum safnað um notkun svo hægt sé að endurskoða með tilliti til sparnaðar.

  • Að velja við innkaup á vörum og þjónustu umhverfisvænar, umhverfismerktar og/eða endurunnar vörur, þar sem því verður við komið. Í útboðum og/eða verðkönnunum skal upplýst fyrirfram um kostnaðarvægi þessara þátta.
  • Að lágmarka notkun spilliefna og hámarka endurvinnslu og endurnýtingu innan stofnana i tengslum við verkefni eins og „græn skref“.
  • Að lágmarka hráefnanotkun og úrgangsmyndun innan stofnana.
  • Að hafa frumkvæði að því að upplýsa starfsfólk, almenning, fyrirtæki og stofnanir um endurvinnslu og endurnýtingu.
  • Að hafa vel þjálfað starfsfólk og stjórnendur á sviði umhverfismála til að auka árangur og öryggi í allri vinnu að umhverfismálum og koma reglulega og markvisst með fréttir um umhverfismál til starfsfólks og stjórnenda.

bryndis@bb.is

Tombólustrákar

Tómas Elí Vilhelmsson, Grétar Smári Samúelsson og Hákon Ari Heimisson

Þeir Grétar Smári Samúelsson, Hákon Ari Heimisson og Tómas Elí Vilhelmsson söfnuðu saman gömlu dóti sem fjölskyldur þeirra voru hættar að nota og héldu á dögunum tombólu í Neista á  á Ísafirði. 

 Þeir söfnuðu 2.518 kr. sem þeir færðu Rauða krossinum á Ísafirði. Peningarnir sem söfnuðust fara í að styðja við munaðarlaus börn í Sómalíu.

 Rauði krossinn á Íslandi hefur safnað saman öllum fjármunum sem berast frá tombólubörnum síðan 2012 og fyrir þá fjármuni hafa verið byggð heimili  eða fjölskylduhús fyrir fyrir munaðarlaus börn í bænum Hargeisa í Sómalíu. Í hverju húsi búa 18 börn á aldrinum 0 til 16 ára ásamt fullorðnum sem annast þau. Nú hafa fleiri komið að verkefninu og er fjórða húsið nú í byggingu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Rauða hálfmánann á svæðinu. 

bryndis@bb.is

Árshátíð Dýrfirðingafélagsins

Hver fjörður á sér sitt eigið átthagafélag sem mörg hver eru virk og standa fyrir allra handa samkomunum. Eitt þeirra er Dýrfirðingafélagið sem nú boðar til árshátíðar 30. september. Herlegheitin munu fara fram að Stangarhyl 4 og veislustjórar eru þau Ylfa Proppé Einarsdóttir og Steinþór Tómasson, það er svo hljómsveitin Delta sem mun leika fyrir dansi.

Forsala verður þriðjudaginn 26. september milli kl. 18:00 og 19:00 í Stangahyl 4.
Borðapantanir hjá Önnu Lilju Torfadóttur eftir kl. 16:00 í síma 898-8262 og á póstfangið alt68@simnet.is

bryndis@bb.is

Tannvernd í leikskóla

Þessir tveir gaurar eru engir aufúsugestir

Leikskólinn Glaðheimar hefur fengið styrk frá Lýðheilsusjóði til þess að vinna að verkefninu Tannvernd í leikskóla.

Verkefnið er hluti af verkefninu Heilsueflandi leikskóli sem Leikskólinn Glaðheimar hóf vinnu við síðastliðið haust.

Leikskólinn er byrjar í haust að vinna að tannverndarverkefninu m.a. mun tannlæknir koma og skoða börnin og einnig verður boðið upp á fyrirlestur fyrir foreldra ásamt ýmsu öðru.

Ragnheiður Ragnarsdóttir leikskólastjóri segir að ekki sé búin að setja skipulag verkefnisins niður en skólinn hafi fengið góð viðbrögð frá foreldrum sem kunni vel að meta frumkvæði leikskólans. Í vikunni hafi komið sérfræðingur frá Mennamálastofnun og haldið námskeið fyrir starfsfólk um kennslu tvítyngdra barna. Í síðustu viku var svo sérstök útiskólavika í Glaðheimum og þá æfðu nemendur sig í að fara í göngutúra út fyrir leikskólalóðina til dæmis í fjöru- og vettvangsferðir

Nýjustu fréttir