Þriðjudagur 8. apríl 2025
Síða 2145

Vegagerðin fái framkvæmdaleyfi strax

Kristinn Bergsveinsson

Tilefni þess að ég fer einu sinni enn að skipta mér af hlutum sem koma mér ekki við að mati margra hér í sveit eru ummæli sveitarstjóra Reykhólahrepps á fundi á Ísafirði um „ótta hennar um málaferli“. Einnig útgáfa Reykhjólahrepps á riti sem nefnist Aðalskipulagsbreyting Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness. Í riti þessu leggur hreppsnefndin fram tvo valkosti. D-1 veglínu með jarðgöngum undir Hjallaháls og hinn kosturinn er Þ-H veglína í gegnum hinn heilaga Teigsskóg. Tveir af fimm nefndarmönnum hafa þegar sagt að þeir eru andvígir Þ-H veglínu í gegnum Teigsskóg og hér vita það allir sem vilja að nefndin er margklofin og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Því gerist ég fífldjarfur og sendi henni eftirfarandi línur í þeirri von að nefndin fari að ná áttum og hafi fólk í fyrirrúmi.

Til sveitarstjórnar Reykhólahrepps:

Breyting á aðalskipulagi Reykjólahrepps felist í því að veglína B færist og verði veglína Þ-H eins og Vegagerðin leggur til í niðurstöðu umhverfismats í nóvember 2016. „Leið Þ-H er besti kosturinn varðandi umferðaröryggi og umhverfisáhrif“, segir í rökum Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leið eftir að fimm leiðir hafa farið í umhverfismat.

Afleggjarar að bæjunum Djúpadal, Gufudal og Fremri-Gufudal verði lagðir bundnu slitlagi og hannaðir fyrir 90 km hraða.

Hugmyndir um B-2 leið og jarðgöng eru og hafa alltaf verið rökleysa. Peningaloforð nú eru einskis verð kosningaloforð. Kostnaður yrði líklega 5-6 milljörðum meiri en Þ-H leið. Öll jarðgöng á Íslandi fara 20-30 prósent fram úr áætluðum kostnaði.

Ég skora á hreppsnefndina að sýna nú kjark og gefa Vegagerðinni strax framkvæmdaleyfi eftir veglínu Þ-H svo útboð geti hafist. Annað er kjarkleysi fyrir stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

Körfuboltabúðir Vestra heiðraðar á þingi UMFÍ

Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók hvatningarverðlaununum úr hendi Hauks Valtýssonar, formanns UMFÍ.

Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ 2017 á 50. sambandsþingi UMFÍ sem fram fór á Hótel Hallormsstað um helgina. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði áður en hann afhenti verðlaunin á þinginu að þau væru afhent HSV fyrir öflugar og metnaðarfullar körfuknattleiksbúðir Íþróttafélagsins Vestra á Ísafirði. Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók við verðlaununum í lok þings í gær fyrir hönd HSV.

Körfuboltabúðir Vestra hlutu einnig hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar í fyrra og er þetta því í annað sinn sem búðirnar hljóta viðurkenningu af þessum toga. Í frétt á heimasíðu UMFÍ segir: „Búðirnar, sem hófu göngu sína árið 2009, hafa stækkað og eflst ár frá ári og þykja nú einstakar á landsvísu.“

Þess má geta að búðirnar fagna tíu ára afmæli á næsta ári en þær fara fram dagana 5.-10. júní 2018.

smari@bb.is

Níu listar bjóða fram

Frestur til að skila inn framboðslistum fyrir alþingiskosningarnar eftir tæpar tvær vikur rann út á föstudaginn. Níu flokkar verða í framboði í Norðvesturkjördæmi. Þeir eru A-listi Bjartrar Framtíðar, B-listi Framsóknarflokks, C-listi Viðreisnar, D-listi Sjálfstæðisflokks, F-listi Flokks fólksins, M-listi Miðflokks, P-listi Pírata, S-listi Samfylkingar og V-listi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Þetta er einu framboði færra en í kosningunum í fyrra. Íslenska þjóðfylkingin og Dögun buðu fram í kosningunum 2016 en bjóða ekki fram í ár. Eitt nýtt framboð býður fram, en það er Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

smari@bb.is

Tveir sigrar um helgina

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Vestri tók á móti nýliðum Gnúpverja í þriðju umferð 1. deildar karla í körfubolta á föstudag. Leikurinn var fjörugur og mikið skorað. Heimamenn rufu hundrað stiga múrinn og gestirnir voru ekki fjarri því en leiknum lauk með sigri Vestra 105 : 92.

Nemanja Knezevic og Nebojsa Knezevic voru atkvæðamestir leikmanna Vestra. Sá fyrrnefndi afrekaði svokallað tröllatvennuna, 21 stig og 22 fráköst auk 6 stoðsendinga og sá síðarnefndi með skoraði 35 stig og náði 8 fráköstum.

Vestri er í þriðja sæti í 1. deild Íslandsmótsins að loknum þremur umferðum, hefur sigrað tvo leiki og tapað einum.

Það er leikið hratt og örugglega í körfunni þessa dagana og í gær var komið að bikarleik gegn Sindra frá Höfn í Hornafirði og var leikið á heimavelli Sindra. Vestri vann öruggan sigur, 68 : 108.

smari@bb.is

Hvalfjarðargöng lokuð í þrjár nætur

Vegna viðhalds og hreingerninga eru Hvalfjarðargöng lokuð aðfaranætur þriðjudags, miðvikudags og fimmtudags í þessari viku, frá miðnætti til kl. 6:00 að morgni. Þetta mun vera árlegur viðburður að vori og hausti og lokunin því hefðbundin.

bryndis@bb.is

Háskólamenntuðum fjölgar

Há­skóla­menntuðum lands­mönn­um á aldr­in­um 25–64 ára held­ur áfram að fjölga en þeir voru rúm 40% í fyrra, alls 68.300. Þeim hef­ur fjölgað stöðugt frá ár­inu 2010 eða um 7,8 pró­sentu­stig. Þeir sem ein­göngu hafa grunn­mennt­un voru 37.200 í fyrra eða 22% í þess­um sama ald­urs­hópi. Þeim fækkaði um 3,4 pró­sentu­stig frá ár­inu á und­an. Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Færri íbúar utan höfuðborgarsvæðis með háskólamenntun

Alls hafa 28,5% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 25–64 ára lokið háskólamenntun. Þetta er töluvert lægra hlutfall en hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins á sama aldursbili (47,3%). Flestir sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins hafa lokið starfs- og framhaldsmenntun, eða 38,8% (24.100), en 32,7% hafa einungis lokið grunnmenntun (20.200).

Fleiri konur en karlar á aldrinum 25–64 ára hafa háskólamenntun hvort heldur sem er innan eða utan höfuðborgarsvæðisins. Munurinn er þó meiri utan höfuðborgarsvæðisins en þar hafa 38,5% kvenna lokið háskólamenntun en 18,8% karla.

Talsvert fleiri karlar en konur 25–64 ára hafa eingöngu starfs- og framhaldsmenntun (45% á móti 30%) og fjölgaði nokkuð jafnt milli ára. Nokkuð fleiri konur en karlar hafa hins vegar háskólamenntun í þessum sama aldurshópi (48% á móti 33%). Lítill munur er á kynjunum í þeim hópi landsmanna sem eingöngu hefur grunnmenntun, um 22% í hvorum hópi.

Atvinnuleysi er mest meðal þeirra sem lokið hafa starfs- og framhaldsmenntun

Atvinnulausum á aldrinum 25–64 ára fækkaði í fyrra óháð menntunarstöðu. Flestir þeirra höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun (2,8%) en minnst atvinnuleysi var hjá háskólamenntuðum (1,6%). Atvinnuleysi var 2,3% meðal þeirra sem lokið höfðu grunnmenntun.

Atvinnuþátttaka karla og kvenna á aldrinum 25–64 ára var mest meðal þeirra sem lokið höfðu háskólamenntun. Þannig voru liðlega 95% háskólamenntaðra á vinnumarkaði í fyrra, 91% þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun og 81% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun.

smari@bb.is

Kjartan í U19 landsliðið

Kjartan Óli Kristinsson

Í síðustu viku sögðum við frá því að Hafsteinn Már Sigurðsson og Auður Líf Benediktsdóttir hafi verið valin í U17 landslið í blaki og nú hefur Kjartan Óli Kristinsson úr Vestra verið valinn í U19 landsliðið og heldur með þeim til Englands þann 26. október.

Kjartan er afar efnilegur blakari og var aðeins 14 ára þegar hann var valinn í U17 landslið og fór á norðurlandamót til Englands. Árið 2015 fór hann aftur til Englands með U17 landsliðinu og til Ítalíu og Danmörku árið 2016. Með U18 fór hann til Rúmeníu í byrjun þessa árs. Kjartan hefur æft með U19 landsliðinu frá 2015 og fór með þeim til Danmerkur það ár.

Afrek Kjartans hér innanlands eru ekki síður glæsileg og byrjuðu snemma en hann varð íslandsmeistari með fjórða flokki árið 2013. Hann var líka lykilmaður í liði Vestra á liðnu leiktímabili en meistaraflokkur Vestra í blaki gerði sér lítið fyrir og sigraði 1. deild Íslandsmótsins og komst í úrslit í bikarnum.

Meistaraflokkur karla 2016-2017

Hægt verður að fylgjast með leikni þeirra Kjartans og Hafsteins í fyrsta heimaleik meistaraflokks Vestra þann 22. október er BF frá Siglufirði sækir liðið heim. Helgina 18-19 nóvember munu bæði karla og kvennahlið Hamars úr Hveragerði mæta á Ísafjörð og þá má fylgjast með þessu efnilega unga fólki á vellinum.

bryndis@bb.is

Björg fær nýjan bát

Nýr harðbotna slöngubátur Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri er kominn í hendur björgunarsveitarmanna, en Samskip styðja sveitina með flutningi bátsins þangað frá Bretlandi. Björgunarbáturinn kom með áætlunarskipi Samskipa til Ísafjarðar um miðja þessa viku.

„Já, hann kom með Skaftafellinu núna á miðvikudag,“ segir Valur S. Valgeirsson formaður Björgunarsveitarinnar Bjargar. Bátinn, sem er harðbotna slöngubátur af gerðinni Atlantic 75, kaupir sveitin í gegn um Slysavarnafélagið Landsbjörgu frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu, RNLI, í Bretlandi.

Valur segir vissulega nokkuð fyrirtæki fyrir litla björgunarsveit að ráðast í þessa fjárfestingu, en kostnaður við bátinn sé um sjö milljónir þegar búið sé að búa hann tækjum. „Samskip gerðu vel við okkur í að flytja bátinn til landsins og hafa staðið sig mjög vel,“ segir hann. Sveitin reiði sig við kaupin á stuðning bæði fyrirtækja og einstaklinga. „En þetta náum við að kljúfa með dyggri aðstoð bæði heimamanna og fyrirtækja í kring um okkur.“

Bátur sem sveitin átti fyrir varð fyrir tjóni í sumar og þá segir Valur að ákveðið hafi verið að ráðast í endurnýjun. „Og núna er hann kominn og næstu skref að græja hann upp.“ Tækjum er þá bætt í bátinn og hann búinn undir skipaskoðun.

Valur segir reiknað með því að vígja nýja bátinn 4. nóvember næstkomandi og gefa honum þá nafn. „Við verðum með smá húllúmhæ í kring um þetta, en þá er líka afmælishelgi hjá björgunarsveitinni sem verður 87 ára, var stofnuð 1930.“ Tvö síðustu ár hafa þessa helgi verið haldin „Kótelettukvöld“ en nú verði vígslu nýja bátsins blandað í afmælisfögnuðinn.

smari@bb.is

Gunnar Bragi flyst milli kjördæma

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunn­ar Bragi Sveins­son skip­ar efsta sæti lista Miðflokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi. Gunnar Bragi var oddviti Framsóknarflokksin í Norðvesturkjördæmi frá 2009 en sagði sig úr flokknum fyrir skemmstu í kjölfar klofnings í flokknum. Lengi vel var talið að Gunnar Bragi myndi leiða lista Miðflokksins í Norðvesturkjödæmi en það hlutverk kom í hlut í Bergþórs Ólasonar. Framsóknarflokkurinn svipti hulunni af fleiri oddvitum í dag, en Þorsteinn Sæmundsson skipar efsta sætið í Reykjavíkur S og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir í Reykjavík N. Þorsteinn var þingmaður Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili og Guðfinna borgarfulltrúi flokksins til skamms tíma.

smari@bb.is

Verulega ósátt við Pál Óskar

Vagna Sólveig Vagnsdóttir

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, trélistakona á Þingeyri, er ekki allskostar sátt við tónlistarmanninn Pál Óskar Hjálmtýsson. Málið snýst um að fyrr í sumar tilkynnti Páll Óskar að hann ætlaði að dreifa nýjustu breiðskífu sinni persónulega og í byrjun júlí sagði hann aðdáendum sínum að ef þeir pöntuðu plötuna fyrir 14. júlí þá kæmi hann með hana upp að dyrum sjálfur og skipti búseta kaupenda engu máli. Rætt er við Vögnu Sólveigu á Vísi í dag og greinir hún frá svohljóðandi tölvupósti frá Páli Óskari:

„Ég ætlaði að vera svo kúl og dreifa plötunni sjálfur til allra þeirra sem forpöntuðu hana og hlakkaði mikið til að hitta alla.  En sú vinna krefst meiri andlegrar og líkamlegrar orku en mig óraði fyrir og ég verð einfaldlega að játa mig sigraðan. Ég get ekki dreift fleiri plötum. Ég vona að þú getir fyrirgefið mér.”

Vagna Sólveig er verulega sár út í goðið, sem hún hefur haft í hávegum um árabil. „Hann er að plata fólk til að kaupa plötu sem hann er að gefa út. Sagðist ætla að koma og afhenda hana og margir keyptu plötuna bara vegna þess. Nú sendir hann tölvupóst og segist ætla að senda hana í pósti. Hvað kallast svona sölumennska?“ spyr hún.

Hún var búin að undirbúa komu Páls Óskar og ætlaði að færa honum að gjöf útskorna rjúpu, en ekkert verður úr því. „Hann fær rjúpuna ekki úr þessu. Ég gef ekki fólki sem svíkur mig,“ segir Vagna Sólvegi í samtali við blaðamann Vísis.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir