Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2144

Fiskeldið gjörbreytti stöðunni

Sjókvíar í Arnarfirði.

Friðbjörg Matthíasdóttir starfandi sveitarstjóri í Vesturbyggð og Indriði Indriðason sveitatstjóri á Tálknafirði segja fiskeldi hafa gjörbreytt atvinnulífi svæðisins. Íbúum sé aftur tekið að fjölga. Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. Friðbjörg segir atvinnulífið hafa breyst til batnaðar með tilkomu fiskeldis. Það hafi meðal annars vegið upp samdrátt í hefðbundinni fiskvinnslu. Hún segir að vegna fiskeldis hafi margt ungt fólk snúið aftur til Vestfjarða. „Fiskeldið skapar fjölbreytt störf á sjó og landi, meðal annars fyrir iðnmenntað fólk. Það skapar störf fyrir skrifstofufólk og fjölbreytt kvennastörf, sem einmitt skorti mikið. Það skapar líka mörg tækifæri í afleiddum störfum.“

Spurð um þróun atvinnuleysis á svæðinu segir Friðbjörg slíkar tölur ekki segja allt. „Fólkið bara fór,“ segir hún. „Nú er börnum að fjölga í grunnskólum og leikskólum.“

Ekið á búfé

Lögreglunni á Vestfjörðum bárust sjö tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé á vegum í umdæminu. Flest þessara tilvika urðu í Dýrafirði, en einnig í Vesturbyggð og Strandasýslu. Í yfirliti lögreglunnar um verkefni síðustu viku kemur fram að ökumaður fjórhjóls var kærður fyrir að aka án skráningarmerkja ásamt því að hann var ekki með hjálm á höfði.

43 ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru í akstri í Strandasýslu en einnig í Vesturbyggð og Reykhólasveit.

Að kveldi 28. júlí voru björgunarsveitarmenn fengnir til að fara í Veiðileysufjörð og sækja þangað göngumann sem hafði hrasað og hlaut sár á höfði og þurfti læknisaðstoð. Björgunarsveitarmenn á björgunarbát fóru í verkefnið.

Þyrlan náði í göngumann í sjálfheldu

Björgunarsveitir á sunnanverðum Vestfjörðum voru kallaðar út um klukkan fjögur í gær vegna ferðamanns sem var í sjálfheldu vestan Rauðasands. Þyrla landhelgisgæslunnar var í öðru verkefni á Vestfjörðum og var því kölluð til aðstoðar. Þyrlusveitin fann manninn, hýfði hann upp í þyrluna og kom honum til björgunarsveitarmanna frá Patreksfirði sem voru komnir á vettvang. Maðurinn var í sjálfheldu í brattri hlíðinni á gönguleið milli Keflavíkur og Rauðasands.

Sleppti 160 þúsund eldisseiðum í sjó

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Níels Ársælsson, útgerðarmaður frá Tálknafirði, segist hafa sleppt um eitt hundrað og sextíu þúsund laxaseiðum af norskum stofni í sjó við Gileyri á Tálknafirði árið 2002. Greint er frá því í Fréttablaðinu í dag að fyrirtæki Níels, Eyrar-fiskeldi hf., keypti 160 þúsund laxaseiði árið 2001 og komu þau sama ár til Tálknafjarðar og áttu að fara í sjó sumarið eftir. Þessar áætlanir urðu að engu þegar norskur samstarfsaðili Eyrar varð gjaldþrota. Þrátt fyrir tilraunir fékk félagið hvorki lánsfjármagn né nýtt hlutafé til kaupa á eldiskvíum. Um mitt ár 2002 þraut fjármagnið og eftir að laxaseiðin höfðu verið í þriggja mánaða svelti ákvað Níels að hleypa 160 þúsund seiðunum seiðunum í sjó við Gileyri í gegnum botnlokur. Seiðin voru um 350 til 600 grömm þegar þeim var sleppt. Níels ber við miklum kostnaði við förgun seiðanna í samtali í Fréttablaðinu.

Setja markið á fyrstu sprengingu eftir þrjár vikur

Mynd tekin af efsta palli á framkvæmdasvæðinu en þar munu rísa skrifstofur.

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við Dýrafjarðargöng eru á fullum skriði og nú er unnið að uppsetningu vinnubúða vestan við Mjólka í Arnarfirði. Vinnubúðirnar hafa verið teknar í notkun til bráðabirgðar, en þær verða tilbúnar eftir eina til tvær vikur. Í síðustu viku lögðu starfsmenn Snerpu ehf. á Ísafirði ljósleiðara í vinnubúðirnar. Gísli Eiríksson, verkfræðingur hjá jarðgangadeild Vegagerðarinnar, segir að á miðvikudag hafi fyrsti verkfundur hafi verið haldinn á framkvæmdasvæðinu en til þessa hafa verkfundir verið haldnir á Ísafirði eða í Reykjavík. Á fundinum í síðustu viku var bókað stefna að fyrstu gangasprengingu þann 18. ágúst, en Gísli telur það nokkuð bjartsýnt markmið.

Þá er einnig unnið að gerð plana í hlíðinni utan við gangamunna fyrir verkstæðisskemmur, steypustöð og skrifstofur. Gísli segir að á svæðinu er nokkuð þykkt moldarlag og leirkennt efni undir og frekar mikil bleyta í jarðvegi sem gerir framkvæmdir seinlegar.

„Þess má geta að starfsmenn sem eru þarna halda til í húsum Mjólkárvirkjunar og fá einnig mat þar hjá heimafólki í Mjólká. Það er mikils virði fyrir verkið að samvinna við heimamenn skuli vera svo góð,“ segir Gísli.

Aflaverðmæti minnkaði um fjórðung

Löndun á Ísafirði.

Aflaverðmæti íslenskra skipa í apríl var tæpir 8,4 milljarðar króna sem er um 26% minna en í apríl 2016. Fiskafli íslenskra skipa í apríl var þó 5% meiri en heildaraflinn í apríl 2016, eða 109 þúsund tonn. Að magninu til munar mestu um aukinn kolmunnaafla. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Verðmæti botnfiskaflans nam 6,5 milljörðum sem er 22,6% samdráttur miðað við apríl 2016. Verðmæti þorskaflans dróst saman um 25,2%, og samdráttur varð einnig í verðmæti svo til allra annarra tegunda. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 34,9% og verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 29%.

Á 12 mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 115 milljörðum króna sem er 20,1% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.

Ráðherra endurskoði veiðigjöldin

Stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér nú þegar fyrir breytingu á lögum um veiðigjald, en 1. september nk. hækkar gjaldið um tugi prósenta. „Þetta er á annað hundrað prósenta hækkun en fiskverðið lækkar,“ segir Örn Pálsson, formaður LS,  í samtali við Morgunblaðið en veiðigjald hækkar t.d. á þorsk um 107% og ýsu um 127%. Örn segir þessa ákvörðun byggjast á forsendum ársins 2015 þegar útgerð gekk vel, en sterkt gengi íslensku krónunnar ásamt lækkandi fiskverði hafi veikt sjávarútveginn. „Við komum jafnframt með hugmyndir um hvernig hægt sé að jafna stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna með þrepaskiptingu í gjaldtöku,“ segir Örn, en hann telur að minni sjávarútvegsfyrirtækin og smábátaeigendur muni fara sérstaklega illa út úr hækkununum.

81 milljarða halli á vöruviðskiptum

Rúmlega 81 milljarðs króna halli varð á vöruviðskiptum við útlönd á fyrri helmingi þessa árs. Vörur voru fluttar inn fyrir 325,5 milljarða króna, en út fyrir 244,4 milljarða.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar. Á sama tíma í fyrra voru vöruviðskiptin óhagstæð um rúma 64 milljarða króna.  Vöruviðskiptajöfnuðurinn var því tæplega 17 milljörðum króna lakari í ár en á sama tíma í fyrra.

Iðnaðarvörur voru rúmlega 55% alls útflutnings. Sjávarafurðir voru 38% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra tæplega 22%  minna en á sama tíma í fyrra. Mestur samdráttur var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum. Þess má geta að sjómenn voru í rúmlega tveggja mánaða verkfalli í byrjun árs.

Óvíst hvort forsætisráðherra vilji ræða fiskeldismál

Bjarni Benediktsson. Mynd: RÚV.

Forráðamenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa ekki fengið staðfestingu á því hvort að verði af fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem ræða á laxeldismál á Vestfjörðum. Í byrjun júlí óskuðu sveitarfélögin eftir fundi með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og ráðherrum málaflokss fiskeldis, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra og Björtu Ólafsdóttur umhverfisráðherra. Auk þess var óskað eftir að Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, sitji fundinn sem og forstjórar þeirra ríkisstofnana sem málaflokkurinn heyrir undir, þ.e. forstjórar Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Pétur G. Markan.

„Við höfum ekki fengið svar við beiðni okkar en við erum að ýta eftir þessum fundi því það er mjög mikilvægt í þessari stöðu að forsætisráðherra og ráðherrar málaflokksins komi saman og ræði við okkur um þá stöðu er í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Pétur segir að sveitarfélögin hafi fengið jákvæð viðbrögð frá Þorgerði Katrínu og Jóni Gunnarssyni um þennan sameiginlega. „Enda hafa ráðherrarnir tveir verið mjög fylgjandi eldisuppbyggingu á Vestfjörðum en hvað varðar þennan fund, þá er boltinn hjá forsætisráðherra,“ segir Pétur.

Dalli kosinn íbúi ársins í Reykhólahreppi

Meðal frumkvöðlaverkefna Dalla er þróun Glæðis sem er lífrænn áburður úr þangi.

Guðjón Dalkvist Gunnarsson, betur þekktur sem Dalli, var kosinn íbúi ársins í Reykhólahreppi. Dómnefndin, skipuð þeim Ástu Sjöfn Kristjánsdóttur, Helgu Garðarsdóttur og Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur var einhuga um að  útnefna Dalla íbúa ársins 2017, fyrir frumkvöðlastarf, hugmyndaauðgi, hjálpsemi og jákvæðar ábendingar um það sem má bæta, og að sjá skemmtilegu hliðar tilverunnar.

Sjö tilnefningar bárust um íbúa ársins. Þau nöfn sem bárust dómefndinni voru Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, Friðrún Gestsdóttir, Málfríður Vilbergsdóttir, Steinunn Ó. Rasmus, Guðjón Dalkvist, Karl Kristjánssson og Vilberg Þráinsson. Einnig var hreppsnefndin tilnefnd í heild sinni, en dómnefnd kaus að að einblína á einstaklinga fremur en hópa.

Nýjustu fréttir