Síða 2144

Dögun býður fram

.

Dögun hyggst bjóða fram í komandi Alþingiskosningum þann 28. október. Í tilkynnngu frá flokknum segir að þrátt fyrir að skammur tími sé til stefnu þá ætlar flokkurinn að gera sitt allra besta til að koma þeim málefnum á framfæri sem flokkurinn hefur talað fyrir í gegnum árin.

„Það er okkar markmið að breyta íslensku þjóðfélagi í samfélag þar sem allir geta þrifist og lifað mannsæmandi lífi í stað þess einkavina þjóðfélags sem að við búum við í dag. Nú er að hrökkva eða stökkva. Þetta er ekki spurning um getu okkar almennings heldur hvort að við þorum að grípa tækifærið sem okkur var fært upp í hendurnar nú á haustdögum með einni undirskrift,“ segir í tilkynningu.

smari@bb.is

Þrívíddargangbraut vekur athygli

Ný þrívíddargangbraut við Landsbankann á Ísafirði hefur vakið talsvert meiri athygli en þá Ralf Trylla umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar og Gaut Ívar Halldórsson hjá Vegamálun GÍH grunaði þegar þeir máluðu hana. Fjallað hefur verið um hana í Iceland Review, Cycling Weekly og frönsku vefjunum Golem 13, Creapills og Déplacementspros svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa myndir af gangbrautinni náð flugi á samfélagssafnmiðlunum Reddit og 9Gag, svo ekki sé minnst á Facebook og Twitter. Fyrst var fjallað um gangbrautina á bb.is

smari@bb.is

Borgarísjaki á Ströndum

Mynd: Litli Hjalli

Borgarísjaki sést frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík í morgun. Jakinn er ca um 18 km NNA af Nestanga við Litlu-Ávík, og ca 8 km A af Sæluskeri 8 (Selskeri.) Send var hafístilkynning á Hafísdeild Veðurstofu Íslands, um kl 10:38. Hann náðist sæmilega á mynd. Þann tuttugasta og fyrsta sást einnig borgarísjaki frá veðurstöðinni. Þetta kemur fram á Litla Hjalla, fréttavef Strandamanna.

bryndis@bb.is

Landsbyggðin fái bætur fyrir Reykjavíkurflugvöll

Byggð í Vatns­mýr­inni yrði um 143 millj­örðum verðmæt­ari en sam­bæri­leg byggð á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins, t.d. í Úlfarsár­dal. Þetta kem­ur fram í Markaðspunkt­um grein­ing­ar­deild­ar Ari­on banka en í henni eru sögð sterk rök fyr­ir því að að þeir sem beri skert­an hlut njóti góðs af því að sölu­verð íbúða á svæðinu væri hærra en á jaðrin­um.

Í grein­ing­unni seg­ir að vís­bend­ing­ar séu um að þjóðhags­lega hag­kvæmt sé fyr­ir heild­ina að flug­völl­ur­inn í Vatns­mýri víki. Þá séu sterk rök fyr­ir því að þeir sem tapi á ein­hvern hátt á því að Reykja­vík­ur­flug­velli verði lokaði fái ein­hvers kon­ar bæt­ur fyr­ir.

„Ef sölu­hagnaður íbúða á þessu svæði verður 143 millj­örðum króna hærri held­ur en hann ann­ars væri er erfitt að sjá annað en að það sé sann­gjarnt að íbú­ar á lands­byggðinni og aðrir sem treysta al­mennt meira á Reykja­vík­ur­flug­völl held­ur en meðal Reyk­vík­ing­ur­inn fái stóra sneið af þeirri köku. Þá má einnig færa rök fyr­ir því að þeir sem verða verr sett­ir á einn eða ann­an hátt eigi heimt­ingu á að njóta góðs af hærri fast­eigna­gjöld­um.“

Grein­ing­ar­deild­in met­ur að fast­eigna­verð sé al­mennt um og yfir 30% hærra í Vatns­mýr­inni en á jaðri höfuðborg­ar­inn­ar. Það þýði að virði íbúða í Vatns­mýri miðað við fast­eigna­mat sé meira en 30% hærra en á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins sem að öðru óbreyttu skýrist af mis­mun­andi lóðaverði. Þessi mun­ur þýði að heild­arfa­st­eigna­mat í Vatns­mýri verði um 143 millj­örðum króna hærra í Vatns­mýr­inni.

Jafn­framt skili byggð í Vatns­mýr­inni ein­um millj­arði króna meira í fast­eigna­gjöld á ári til Reykja­vík­ur­borg­ar en byggð á jaðrin­um.

smari@bb.is

Fimmtán í prófkjöri Pírata

Eva Pandora Baldursdóttir

Prófkjör Pírata í Norðvesturkjördæmi hófst á laugardaginn. Fimmtán frambjóðendur eru í kjöri. Eva Pandora Baldursdóttir, sem náði kjöri í kosningunum fyrir ári gefur áfram kost á sér í fyrsta sæti. Prófkjörið fer fram á netinu og þegar þetta er skrifað hafa 237 greitt atkvæði. Kosningunni lýkur á laugardaginn og úrslit verða kunngjörð svo skjótt sem auðið er.

Frambjóðendur í prófkjöri Pírata eru:

Halldór Óli Gunnarsson

Halldór Logi Sigurðsson

Gunnar Ingiberg Guðmundsson

Eva Pandora Baldursdóttir

Eiríkur Þór Theódórsson

Egill Hansson

Bragi Gunnlaugsson

Arndís Einarsdóttir

Ragnheiður Steina Ólafsdóttir

Vigdís Pálsdóttir

Sunna Einarsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl

Leifur Finnbogason

Hinrik Konráðsson

smari@bb.is

Sækist eftir öðru sæti á lista Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir

Halla Signý Kristjánsdóttir, skrifstofu- og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, ætlar að gefa kost á sér í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum. Elsa Lára Arnardóttir hefur vermt sætið í tvennum kosningum en ætlar að draga sig í hlé.

„Það brennur ýmislegt á mér nú sem endranær og hef skoðanir á ýmsum málum og hef fundið mínar leiðir til að koma þeim á framfæri. Margar leiðir eru færar og tækifærin nokkur.

Því hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar,“ skrifar Halla Signý á Facebooksíðu sinni.

Hún segir verkefni næsta kjörtímabils vera að koma á festu í íslenskum stjórnmálum og vinna af heilindum til að auka traust á þeim sem vinna að stefnumótun í íslenskum stjórnmálum.

Gunnar Bragi Sveinsson sækist eftir oddvitasæti Framsóknar í kjördæminu, en hann hefur leitt listann síðan í kosningunum 2009. Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi þingmaður VG og Framsóknarflokks, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið.

Á auka­kjör­dæmaþingi Fram­sókna­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi, sem fór fram um helgina, var ákveðið fara skuli fram tvö­falt kjör­dæm­isþing fyr­ir val á lista flokks­ins í kjör­dæm­inu fyr­ir kom­andi alþing­is­kosn­ing­ar. Kjör­dæm­isþingið fer fram á Bif­röst 8. októ­ber og sama dag verður einnig haldið auka­kjör­dæmaþing þar sem list­inn verður samþykkt­ur.

smari@bb.is

Öll skjöl verkalýðshreyfingarinnar á Héraðskjalasafnið

Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verk Vest og Jóna Símonía Bjarnadóttir forstöðumaður Safnahússins.

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum var formlega afhent Héraðsskjalsafninu Ísafirði við athöfn í Baldurshúsinu á Ísafirði fyrir helgi. Skjalasafnið telur 524 skjalaöskjur sem skráðar eru í 34 deildir verkalýðsfélaga, stofnana, fyrirtækja og samtaka sem félögunum tengjast. Safnið geymir skjöl Alþýðusambands Vestfjarða frá stofnun þess 1927 og einstakra félaga sem störfuðu innan þess, allt til stofnunar Verkalýðsfélags Vestfirðinga á árunum 2002-2005. Afhending safnsins er ein stærsta einstaka afhending sem Héraðsskjalsafninu hefur verið færð og einstök að því leyti að safnið er frágengið, flokkað og skráð þannig að það er tilbúið til notkunar fyrir fræðimenn og aðra áhugasama.

Við formlega afhendingu safnsins sagði Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga að í kjölfar þess að Verk Vest tók yfir hlutverk Alþýðusambands Vestfjarða árið 2916, hafi stjórn félagsins ákveðið að afhenda skjalasafn Alþýðusambands Vestfjarða og aðildarfélaga þess til varðveislu í Héraðsskjalasafninu og tryggja þar með örugga varðveislu og aðgang að safninu. Við flutning skrifstofu félagsins úr Baldurshúsinu var ákveðið að félagið héldi áfram því starfi sem áður fór fram á vegum ASV og léti skrá skjalasafn sambandsins, aðildarfélaga þess og skrifstofu verkalýðsfélaganna til þess tíma sem 12 félög ASV sameinuðust í Verkalýðsfélag Vestfirðinga á árunum 2002-2005. Sigurður Pétursson sagnfræðingur vann að skráningu safnsins og með honum Sigrún María Árnadóttir.

smari@bb.is

 

Finnskt-íslenskt dansverk

Finnsk-íslenska dans-, tónlistar- og leiklistarverkið Undir yfirborði verður sýnt í tvígang í Edinborgarsal á Ísafirði dagana 27. og 28. september klukkan 20. Verkið gerir hið ósýnilega sýnilegt og segir margar ósagðar sögur sem segja sitt um norræn sérkenni. Undir yfirborði byggir á sögu Guðrúnar Jónsdóttur. Sagan er af konunni sem birtist sem draugur í vondu veðri.

Vinnuhópur og listamenn sem koma að verkinu eru Marjo Lahti, handritshöfundur og leikkona, Johanna Eränkö, tónskáld og fiðluleikari og Henna-Riikka Nurmi, danshöfundur og dansari.

Auk þess koma fram gestalistamenn frá Norðurlöndunum í hvorri sýningu.

smari@bb.is

Sautján umsóknir um dómarastarfið

Sautján umsóknir bárust um embætti dómstjóra við Héraðdsóm Vestfjarða. Sigríður Elsa Kjartansdóttir lét af störfum við dóminn í byrjun mánaðarins og hóf störf við Héraðsdóm Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu verður nýr dómstjóri skipaður svo skjótt sem auðið er en þangað til skipta fjórir dómarar með sér verkum við Héraðsdóm Vestfjarða.

Umsækjendur um embættið eru:

  1. Arnaldur Hjartarson – aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn
  2. Bergþóra Ingólfsdóttir – hæstaréttarlögmaður
  3. Brynjólfur Hjartarson – lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
  4. Guðfinnur Stefánsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  5. Guðmundur Örn Guðmundsson – héraðsdómslögmaður
  6. Hákon Þorsteinsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  7. Hrannar Hafberg – ráðgjafi Fiskistofu
  8. Indriði Þorkelsson – hæstaréttarlögmaður
  9. Ólafur Freyr Frímannsson – héraðsdómslögmaður
  10. Ólafur Karl Eyjólfsson – héraðsdómslögmaður
  11. Sigurður Jónsson – hæstaréttarlögmaður
  12. Sólveig Ingadóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  13. Unnsteinn Örn Elvarsson – héraðsdómslögmaður
  14. Valborg Steingrímsdóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  15. Þór Hauksson Reykdal – forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun
  16. Þórhildur Líndal – aðstoðarmaður héraðsdómara
  17. Þórir Örn Árnason – héraðsdómslögmaður

 

Smari@bb.is

Lögreglan rannsakar kynferðisbrot

Um helgina barst lögreglunni á Vestfjörðum kæra er varðar meint kynferðisbrot sem talið er hafa átt sér stað í heimahúsi þar sem gleðskapur fór fram. Einn aðili var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Honum hefur verið sleppt lausum þar sem lögregla taldi ekki ástæðu til að halda honum lengur í þágu rannsóknarhagsmuna. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Á mánudagskvöld fyrir viku hafði lögreglan á Vestfjörðum afskipti af skipstjóra fiskibáts sem kom úr veiðiferð og til löndunar í höfn á norðanverðum Vestfjörðum. Þrír voru í áhöfn bátsins og reyndist lögskráningu ábótavant. Við þessi afskipti lögreglunnar vaknaði grunur um að skipstjórinn væri undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og sleppt lausum að viðeigandi sýnatöku lokinni. Málið er til rannsóknar.

Snemma morguns þann 20. september varð eldur laus í vélarrúmi báts sem verið var að landa úr við Sundahöfn á Ísafirði. Skipverjum tókst að einangra eldinn og kom slökkvilið fljótt á vettvang og réði niðurlögum eldsins. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. Um var að ræða bílveltu á Örlygshafnarvegi þann 19. september. Ökumaður og farþegar hlutu ekki meiðsl en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Fjórar tilkynningar bárust lögreglunni um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Rétt er að minna ökumenn á að víða í umdæminu er verið að smala fé af fjalli og því rétt að vera á varðbergi, enn frekar en áður.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir