Síða 2144

Sautján umsóknir um dómarastarfið

Sautján umsóknir bárust um embætti dómstjóra við Héraðdsóm Vestfjarða. Sigríður Elsa Kjartansdóttir lét af störfum við dóminn í byrjun mánaðarins og hóf störf við Héraðsdóm Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu verður nýr dómstjóri skipaður svo skjótt sem auðið er en þangað til skipta fjórir dómarar með sér verkum við Héraðsdóm Vestfjarða.

Umsækjendur um embættið eru:

  1. Arnaldur Hjartarson – aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn
  2. Bergþóra Ingólfsdóttir – hæstaréttarlögmaður
  3. Brynjólfur Hjartarson – lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
  4. Guðfinnur Stefánsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  5. Guðmundur Örn Guðmundsson – héraðsdómslögmaður
  6. Hákon Þorsteinsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  7. Hrannar Hafberg – ráðgjafi Fiskistofu
  8. Indriði Þorkelsson – hæstaréttarlögmaður
  9. Ólafur Freyr Frímannsson – héraðsdómslögmaður
  10. Ólafur Karl Eyjólfsson – héraðsdómslögmaður
  11. Sigurður Jónsson – hæstaréttarlögmaður
  12. Sólveig Ingadóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  13. Unnsteinn Örn Elvarsson – héraðsdómslögmaður
  14. Valborg Steingrímsdóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  15. Þór Hauksson Reykdal – forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun
  16. Þórhildur Líndal – aðstoðarmaður héraðsdómara
  17. Þórir Örn Árnason – héraðsdómslögmaður

 

Smari@bb.is

Lögreglan rannsakar kynferðisbrot

Um helgina barst lögreglunni á Vestfjörðum kæra er varðar meint kynferðisbrot sem talið er hafa átt sér stað í heimahúsi þar sem gleðskapur fór fram. Einn aðili var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Honum hefur verið sleppt lausum þar sem lögregla taldi ekki ástæðu til að halda honum lengur í þágu rannsóknarhagsmuna. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Á mánudagskvöld fyrir viku hafði lögreglan á Vestfjörðum afskipti af skipstjóra fiskibáts sem kom úr veiðiferð og til löndunar í höfn á norðanverðum Vestfjörðum. Þrír voru í áhöfn bátsins og reyndist lögskráningu ábótavant. Við þessi afskipti lögreglunnar vaknaði grunur um að skipstjórinn væri undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og sleppt lausum að viðeigandi sýnatöku lokinni. Málið er til rannsóknar.

Snemma morguns þann 20. september varð eldur laus í vélarrúmi báts sem verið var að landa úr við Sundahöfn á Ísafirði. Skipverjum tókst að einangra eldinn og kom slökkvilið fljótt á vettvang og réði niðurlögum eldsins. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. Um var að ræða bílveltu á Örlygshafnarvegi þann 19. september. Ökumaður og farþegar hlutu ekki meiðsl en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Fjórar tilkynningar bárust lögreglunni um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Rétt er að minna ökumenn á að víða í umdæminu er verið að smala fé af fjalli og því rétt að vera á varðbergi, enn frekar en áður.

smari@bb.is

Aka um á göngustígum

Guðrún Anna Finnbogadóttir íbúi á Patreksfirði flutti ræðu á íbúafundinum sem haldinn var í gær á Torfnesi. Guðrún segir vera vor fyrir vestan, atvinnulífið að vakna úr dvala, húsin fyllast af fólki og lífi, ný fyrirtæki spretti upp og þau gömlu braggast og standa sterk eins og gömul tré. En áhrif fiskeldis á suðurfjörðum Vestfjarða í kjölfar uppbyggingar fiskeldis dylst engum. Guðrún minntist annars íbúafundar sem haldinn var vorið 2007 með yfirskriftinni „Lifi Vestfirðir“, þá var upp hávært ákall um atvinnutækifæri, samgöngur, menningarlíf og réttlátari leikreglur í viðskiptalífinu.

Guðrún gerði einnig að umtalsefni þá stöðu sem uppi er í vegamálum á suðurfjörðum, hún kallar vegina göngustíga en aðrir hafa sagt þjóðvegina á þessu svæði engu betri en hestatroðninga.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá Guðrúnu flytja sína ræðu og hér að neðan hefur hún góðfúsleg leyft bb.is að birta ræðuna í heild sinni.

LIFI VESTFIRÐIR – Ræða Guðrúnar

Að búa í sveitarfélagi þar sem atvinnulífið er að vakna úr dvala er eins og að búa í vorinu. Hvert húsið á fætur öðru springur út fullt af fólki sem vill fegra þau og  bæta. Ný fyrirtæki spretta upp og gömlu fyrirtækin standa sterk eins og gamalt tré og eflast við kraft samfélagsins. Vestfirðingar sem lengi hafa þráð að búa heima í firðinum sínum koma aftur, því alla þyrstir í vorið og hvar er betra að njóta þess en í faðmi fjölskyldu, vina og fjallanna.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að síðustu áratugi hefur fólkið á fjörðunum fögru mátt horfa á eftir vinum sínum og fjölskyldum flytjast á brott vegna skorts á atvinnutækifærum.

Mig langar að vitna í frétt í Morgunblaðinu frá því vorið 2007. „ÞVERPÓLITÍSKUR hópur almennra borgara á Ísafirði hefur boðað til baráttu- og hvatningarfundar á sunnudag undir yfirskriftinni „lifi Vestfirðir“. Tilefni fundarins eru þær blikur sem nú eru á lofti í atvinnumálum svæðisins.“  Þar flutti ég ræðu um „hagkvæmni smæðarinnar“ og stöðuna sem upp var komin.

Þar var uppi hávært ákall um atvinnutækifæri, samgöngur, menningarlíf og réttlátari leikreglur í viðskiptalífinu.  Í hruninu, ári síðar, kom svo í ljós að rekstur flestra fyrirtækja á Vestfjörðum var ekki eini vandinn, hinsvegar hafði verið vitlaust gefið þegar kom að aðgengi að lánsfé, tækifærum og fleiri þáttum þjónustu í landinu. Enda var lítið fyrir og eftir krepputal í fjórðungnum, allt var þá þegar í kyrrstöðu.

Staðan var reyndar þannig að fljótlega eftir þennan fund flutti ég ásamt fjölskyldunni til Danmerkur frá Ísafirði þegar útibú Marel var lagt niður og bjuggum við þar í sex ár.

Fyrsti valkostur þegar ákveðið var að flytja heim aftur voru auðvitað Vestfirðirnir en atvinnumálum var þannig háttað að við fluttumst á Patreksfjörð þar sem við höfum unað hag okkar vel. Okkur óraði ekki fyrir að samgöngulega séð fluttum við á eyju og einu öruggu samgöngurnar yfir vetrartímann var ferja og flug einu sinni á dag, sex daga vikunnar, til og frá meginlandinu, en engar samgöngur á laugardögum.

Þegar við vorum nýflutt fór ég einn daginn með son minn þá 10. ára í bíltúr og þar sem við ókum út á Vestfirskan holóttan þjóðveginn kemur hönd milli sætanna og hann segir mjög ávítandi „ Mamma, nú stoppar þú, þetta er göngustígur“.

Enn hossumst við á þessum „göngustígum“ síðan á sjöttaáratgunum og ekkert vald í þessu landi virðist geta breytt því.  Þarna keyra flutningabílar með tengivagna daglega, því atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum hefur verið að blómgast, hinsvegar hefur enginn tölu á því hversu oft trukkar hafa farið útaf á síðustu árum enda er það ekki einu sinni frétt Þó enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi í fleiri klukkustundir á Vestfjörðum. Það er dýrt að missa bíla fulla af verðmætum útaf veginum og hvimleitt að sitja fastur með fjölskylduna á fjöllum, símasambandslaus, svo ekki sé talað um áhættuna sem af þessu hlýst.

Það er hluti af samfélagslegri ábyrgð að allir landsmenn fái vegi sem eru boðlegir árið um kring og auðvitað net og símasamband sem gerir okkur kleyft að nýta heldstu auðlindina sem við eigum hugvit Vestfirðinga.

Opinber þjónusta hefur verið dregin saman á Vestfjörðum því íbúunum hefur fækkað og er óhætt að segja að heilbrigð skynsemi hafi ekki alltaf ráðið þar för. Ber þar hæst þegar heilbrigðisstofnanir Ísafjarðar og Patreksfjarðar voru sameinaðar í óþökk beggja stofnana. Á þeirri sameiningu er aðeins einn örlítill hængur að ekki er hægt að ferðast þar á milli í 5-8 mánuði á ári eftir árferði. Ferðalagið er mjög spennandi bæði fyrir íbúana og starfsmenn heilbrigðisstofnunarinnar yfir vetrartímann sem vita aldrei á hverju er von. Samlegðaráhrifin af þessari sameiningu eru engin eins og staðan er í dag.

Komum þá að virkjanamálum á Íslandi því búið er að virkja vítt og breytt um landið. Í upphafi til að tryggja orku fyrir fólkið og fyrirtækin og heita vatnið notað til að kynda íbúðarhúsnæði. Umhverfisvænni orka er vandfundin í heiminum og höfum við verið í forystu í nýtingu jarðvarma og notkun á grænni orku. Hin síðari ár hefur hinsvegar orkan verið notuð til stóriðju og merkilegt nokk, það er ekki næg raforka í landinu til að senda á Vestfirðina ef íbúum fjölgar og fyrirtækin dafna. Varaafl Vestfirðinga nú er díselolía um 600 tonn á ári.

Víkur þá sögunni að Hvalárvirkjun, sóknarfærið sem íbúarnir sjá er auðvitað umhverfisvæn orka, hringtenging raforku og afhendingaröryggi á rafmagni á Vestfjörðum yrði stórbætt og næg rafmagnsframleiðsla fyrir fjórðunginn til framtíðar. Á umhverfisfræðamáli heitir þetta að verða sjálfbær um græna orku.

Ég hef kynnt mér matsskýrsluna um umhverfisáhrif virkjunarinnar og þar stendur. „Sjónræn áhrif framkvæmdanna munu hafa bein áhrif á upplifun af svæðinu og eru að mati skipulagsstofnunnar líkleg til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna kemur til með að breytast á svæðinu.“

Í skýrslunni kemur auk þess fram að „Umhverfisáhrif virkjunarinnar eru ekki talin umtalsverð nema að víðerni sem nær frá Hornströndum að Steingrímsfjarðarheiði verður ekki lengur samfellt.“ Það er vitað að ferðamenn elska víðerni og fallega náttúru en höfum þó líka í huga að flestir þeirra heimsækja Reykjavík, Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Þetta snýst ekki um þetta tæplega 1% ferðamanna sem leggja leið sína á Strandir heldur hvað viljum við og hvaða hagsmunir eru í húfi.

Strandamenn horfa auðvitað í að þeir fá bílfæra vegi og hvenær áður hafa sveitahéröð í byggð verið flokkuð sem víðerni?

Við viljum vöxt og viðgang í fjórðungnum en engan hef ég heyrt sem hefur áhuga á stóriðju og stórfelldum náttúruspjöllum. 

Eftir áratuga lægð í atvinnumálum er komin ný atvinnugrein „laxeldi“ á svæðið. Það er mikil samlegð með sjávarútvegi og laxeldi hvað varðar mannafla, þekkingarþörf og aðbúnað. Þjónustufyrirtækin á svæðinu hafa eflst og ný fræðistörf hafa orðið til. Hinsvegar hefur ekki verið settur sá kraftur í rannsóknir sem til þarf til að byggja upp nýja atvinnugrein og virðist þáttur opinberra aðila vera mjög fálmkenndur.

Við þurfum að taka ákvarðanir um framhaldið en neysla á laxi hefur aukist gríðarlega í hinum stóra heimi og það er mikilvægt að vega og meta hvort við viljum taka þátt í þeirri fæðuframleiðslu.

Allskonar upphrópanir heyrast um áhrif laxeldis og eru þar ólíkir hagsmunahópar að kallast á. Til gamans má geta þess að laxeldismenn á norðurlöndum hafa meira að segja gengið svo langt að auglýsa lax sem eina „umhverfisvæna“ fiskinn fyrir neytendur. Það er hinsvegar efni í aðra umræðu hvort er umhverfisvænna að borða villta ýsu með kartöflum eða ræktaðan lax. Allar öfgar í umræðunni eru ekki til bóta og mikilvægast er að finna jafnvægi en umhverfisfræði gengur einmitt út á að finna jafnvægi í sátt við náttúru og samfélag.

Ég hef hér stiklað á stóru um hvernig staðan er og ljóst að það eru grunn innviðirnir sem þurfa að vera í lagi og í takti við þarfir fjórðungsins.

Vestfirðingar vilja nota umhverfisvæna og örugga orku.

Vesfirðingar vilja góða, örugga vegi og netsamgöngur sem er lífæð samfélagsins.

Vestfirðingar vilja öfluga þjónusu fyrir íbúana og að sú opinbera þjónusta sem hefur minnkað vegna fólksfækkunar aukist aftur í réttu hlutfalli við fjölgun íbúanna.

Vestfirðingar vilja öflugt atvinnulíf í fullri sátt við náttúruna, öflugt mannlíf og sjálfbæra Vestfirði.

Það er vor fyrir Vestan.

 Guðrún Anna Finnbogadóttir

 

 

Íhugar framboð fyrir Samfylkinguna

Kristinn H. Gunnarsson

Kristinn H. Gunnarsson er genginn til liðs við Samfylkinguna og íhugar framboð fyrir flokkinn í þingkosningunum í lok október. Kristinn skráði sig í flokkinn fyrir skömmu síðan. „Fyrst ég er genginn til liðs við stjórnmálaflokk aftur þá ætla ég að reyna að starfa í honum,“ segir Kristinn.

Um næstu helgi verður aukafundur hjá kjördæmisræði flokksins í Norðvesturkjördæmi og á fundinum verður kosið um fjögur efstu sætin á framboðslistanum. Aðspurður hvort að hann gefi kost á sér í forkosningunum segir Kristinn að það sé til athugunar. „Ég er að velta því fyrir mér en þetta er stuttur fyrirvari til að undirbúa framboð.“

Kristinn hefur setið á þingi fyrir þrjá flokka, fyrst fyrir Alþýðubandalagið og síðar fyrir Framsóknarflokkinn og Frjálslynda flokkinn. Hann sat á þingi frá 1991 til 2009.

smari@bb.is

Uppstilling hjá VG

Lilja Rafney sækist eftir oddvitasætinu.

Samþykkt var ein­róma til­laga stjórn­ar kjör­dæm­aráðs VG í Norðvest­ur­kjör­dæmi í gær að stilla upp á lista flokks­ins í kjör­dæm­inu fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar. Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir var í efst á lista Vinstri grænna í Norðvest­ur­kjör­dæmi í síðustu kosn­ing­um og hún sækist eftir fyrsta sætinu á nýjan leik. Flokkurinn stefnir á að kynna framboðslistann sem fyrst, enda stutt í kosningar. Kosningabaráttan er að hefast þessi dægrin og í kvöld verður Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, með opinn stjórnmálafund í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

smari@bb.is

Hádegissteinn ekki alveg hættulaus

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Að beiðni Ísafjarðarbæjar hefur teymi frá Veðurstofu Íslands skoðað Hádegisstein sem er í Bakkahyrnu í Hnífsdal en grunur lék á að hann hefði hreyfst úr stað. Í skýrslu Veðurstofunnar kemur fram að steinninn sé „aðfluttur“, það er að segja sennilega jökulborinn og slíkir steinar eru gjarnan nefndir Grettistök.

Niðurstaða teymisins er að engin ummerki séu um að breytingar hafi orðið umhverfis steininn á síðustu áratugum, umfram veðrun og átroðning eða að hann hafi nýlega hreyfst úr stað. Hættan af honum er því ekki metin meiri nú en hún hefur verið undanfarna áratugi. Engu að síður er bent á að steinninn standi tæpt í brattri hlíðinni ofan á uppbrotnu klettabletti og veðrun og þyngd steinsins munu halda áfram að vinna á því. Kanna þarf möguleika á að minnka hættuna af steinunum, til dæmis sprengja hann eða festa með ankerum eða með öðrum ráðum.

Það voru þeir Jón Kristinn Helgason og Magni Hreinn Jónsson, starfsmenn Veðurstofunnar á Ísafirði sem skoðuðu aðstæður við steinninn og nálgast má skýrslu þeirra hér.

bryndis@bb.is

Eru að kynnast berginu

Góður gangur var í greftri Dýrafjarðarganga í síðustu viku, en það var fyrsta heila vikan frá því gröftur hófst. Jarðgangamenn grófu 42,9 m í vikunni sem telst nokkuð gott þar sem þeir eru enn að kynnast berginu, prófa sig áfram með réttar hleðslu og slíkt og slípa saman vinnuflokkinn.

Efnið sem kemur út úr göngunum er flutt beint í vegfyllingu. Enn er unnið að því að ljúka við aðstöðuna í síðustu viku var settur upp GSM semdir frá Símanum við vinnubúðirnar, sambandið í þeim var mjög lélegt en er nú  mjög gott og um allt vinnusvæðið. Einnig er verið að ganga frá skrifstofum við gangamunnann bæði fyrir verktaka og eftirlit.

smari@bb.is

Óður til kosninga

Eva Pandora Baldursdóttir

Það kólnar í lofti, haustlægðirnar koma yfir landið hver á fætur annarri, gróðurinn tekur á sig sinn fallega lit sem einkennir árstíðina og börnin fara aftur í skólann sinn. Já og svo eru auðvitað líka kosningar.

Þegar ganga á til kosninga í þriðja sinna sinn á aðeins fimm árum hlýtur að vera kominn tími til þess að staldra aðeins við og velta vöngum. Af hverju stafar þessi óstöðugleiki í stjórnmálunum?

Enn á ný hefur almenningur risið upp og látið í sér heyra og skilaboðin eru skýr. Við viljum breyta stjórnmálamenningunni. Við viljum betri vinnubrögð í stjórnmálunum, meira gagnsæi í stjórnsýslunni og við gerum þá kröfu að stjórnmálamenn starfi með hag almennings að leiðarljósi. Þjóðin á skilið að stjórnmálamenn starfi af heilum hug að því að byggja brú á milli hennar og stjórnmálanna, að stjórnmálamenn vinni af heilum hug að því að auka traust hennar til Alþingis.

Að skipta út stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum mun ekki breyta miklu nema grunngildum stjórnmálanna sé breytt, stjórnmálamenningunni sé breytt. Allir flokkar gefa fögur loforð í aðdraganda kosninga og flestir gera það af góðum hug og vilja til þess að bæta samfélagið. Þegar á hólminn er komið og flokkar jafnvel komnir í ríkisstjórn virðist oftar en ekki illmögulegt að standa við gefin loforð ýmist vegna „pólitísks ómöguleika“ eða einhverrar kerfislægrar tregðu.

Það ætti að vera krafa að stjórnmálamenn standi við gefin loforð. Ef það er ekki gert þá ætti almenningur að hafa óskoraðan rétt til þess að vera upplýstur um af hverju það er ekki hægt. Gagnsæi er lykilatriðið. Það þarf að eyða þeirri kerfislægu hneigð stjórnvalda að leyna upplýsingum fyrir almenningi til þess að vernda eigin hagsmuni. Alþingismenn starfa í umboði þjóðarinnar og því skal aldrei gleyma.

Í framtíðinni munu stjórnmál og stjórnsýsla vera gagnsæ og allar upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda munu vera tiltæk án undandráttar. Almenningur mun hafa tryggan aðgang að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða sýsla með.

Til þess að stuðla að þessari framtíð vil ég hvetja alla kjósendur, sérstaklega ungt fólk, til þess að taka framtíð sína í eigin hendur og nýta kosningarétt sinn.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi

Rjúpnastofninn í sókn

Rjúpna­stofn­inn þolir að veidd­ar verði 57 þúsund rjúp­ur á þessu veiðitíma­bili sam­kvæmt til­lög­um Nátt­úru­fræðistofn­unn­ar Íslands. Voru niður­stöðurn­ar kynnt­ar um­hverf­is- og auðlindaráðherra í bréfi síðasta föstu­dag. Til­laga stofn­un­ar­inn­ar ger­ir því ráðfyr­ir tölu­verðri hækk­un frá síðasta ári, þegar lagt var til að veiða mætti 40.000 fugla.

„Stofn­un­in legg­ur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heild­arafföll­um rjúp­unn­ar,“ seg­ir í frétt á vef Nátt­úru­stofn­unn­ar.

Var viðkoma rjúp­unn­ar met­in með taln­ing­um í tveim­ur lands­hlut­um síðsum­ars og reynd­ist hlut­fall unga vera 78% á Norðaust­ur­landi og 79% á Suðvest­ur­landi. Benda niður­stöður þess­ara rjúpna­taln­inga til þess að stærð rjúpna­stofns­ins í ár sé  í meðallagi víðast hvar um land, en þó ekki á Vest­fjörðum og Suðaust­ur­landi, þar sé stofn­inn í lág­marki.

„Reiknuð heild­ar­stærð varp­s­tofns rjúpu vorið 2017 var met­in 173 þúsund fugl­ar, en var 132 þúsund fugl­ar 2016. Fram­reiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fugl­ar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þess­ir út­reikn­ing­ar byggja á gögn­um fyr­ir Norðaust­ur­land og of­meta stærð stofns­ins nær ör­ugg­lega,“ seg­ir í fréttt­inni.

Um­hverf­is- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2013 að rjúpna­veiðitím­inn yrði 12 dag­ar á ári fyr­ir tíma­bilið 2013–2015, þetta var síðan fram­lengt 2016. Legg­ur nátt­úru­fræðistofn­un til að þeim veiðitíma verði haldið óbreytt­um þetta árið.

bryndis@bb.is

Tap í síðasta leik

Mynd úr safni.

Það var markaveisla á Torfnesvelli á Ísafirði um helgina þegar leikið var í síðustu umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Vestri og Höttur áttust við í fjörugum leik og mörkin létu ekki á sér standa og eftir einungis tveggja mínútna leik kom Viktor Júlíusson heimamönnum í 1-0 og á fjórðu mínútu var Vestri kominn með tveggja marka forystu með marki Friðriks Þóris Hjaltasonar. Sá síðarnefndi gat ekki fagnað markinu lengi því hann fauk út af með beint rautt spjald á 10 mínútu er hann braut á leikmanni Hattar í eigin vítateig og var dæmt víti sem Ignacio Gonzales Martin skoraði úr. Einum færri komust Vestramenn í 3-1 með vítaspyrnu Michael Saul Halpin á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Ignacio Gonzales Martin var aftur á ferðinni fyrir Hött á 56. mínútu og minnkaði muninn í 3-2 og einum leikmanni færri gekk Vestra illa að halda aftur af Hetti og á 76. mínútu jafnaði Brynjar Árnason leikinn og lokamínútum venjulegs leiktíma fengu gestirnir víti sem Nenad Zinovic skoraði úr og reyndist það vera sigurmarkið.

Vestri endaði deildina í níunda sæti með 27 stig.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir