Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2143

Kvittar ekki upp á að loka Djúpinu

Teitur Björn Einarsson alþingismaður

Það yrði mjög afdrifarík ákvörðun að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi líkt og Hafrannsóknastofnun leggur til, að sögn Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. „Það er ekki ásættanlegt að þessi eina skýrsla, sem er einstök, loki fyrir framþróun fiskeldis í Ísafjarðardjúpi,“ segir Teitur Björn.

Að hans mati má lesa úr áhættumati Hafrannsóknastofnunar að grípa má til margskonar mótvægisaðgerða til að bregðast við hættu á erfðablöndun. „Þannig verði hægt hefja og byggja upp fiskeldi í Djúpinu, en það segir sig sjálft að það verður ekki byrjað í 30 þúsund tonnum strax. En að byrja í nokkrum þúsund tonnum og byggja eldið upp í skrefum með hliðsjón af umhverfi og mótvægisaðgerðum er það sem við eigum að stefna að,“ segir Teitur Björn.

Hann leggur áherslu á að framþróun fiskeldis muni alltaf byggja á vísindum. „Sú framþróun verður að vera með þeim hætti að hagsmunir veiðiréttarhafa, fiskeldisfyrirtækja og samfélagsins alls fari saman og það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að finna þann meðalveg.“

Teitur Björn bendir á að árið 2004 hafi verið stigið stórt skref í að friða strandlengjuna fyrir sjókvíaeldi. „Þá var nær öllu landinu lokað nema hluta Austfjarða og Vestfjarða, þar með talið Ísafjarðardjúpi og ég sé ekki að svo stöddu að þær upplýsingar sem hafa komið fram eigi að breyta því mati og ég kvitta ekki upp á að loka Ísafjarðardjúpinu,“ segir Teitur Björn að lokum.

Rækjukvótinn verði 5.000 tonn

Haf­rann­sókn­ar­stofn­un legg­ur til að leyfðar verði veiðar á fimm þúsund tonn­um af út­hafs­rækju á fisk­veiðiár­inu 2017/​2018 sem er nokk­ur aukn­ing frá rá­gjöf yf­ir­stand­andi fisk­veiðiárs sem var 4.100 tonn.

Í frétta­til­kynn­ingu kem­ur fram að stofn­vísi­tala út­hafs­rækju sé svipuð og hún hef­ur verið frá ár­inu 2012 og yfir varúðarmörk­um. Einnig var mikið af þorski á öllu svæðinu, eða svipað og hef­ur verið frá ár­inu 2015.

Í veiðiráðgjöf Hafró kemur fram að vísitala ungrækju hefur verið lág frá 2004 og var í sögulegu lágmarki árin 2015 og 2016. Stofnvísitalan hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2012. Stofn­mælingin bendir til að stofninn muni ekki stækka á næstu árum.

Ráðherra hækki aflaviðmiðun í ágúst

Stjórn Lands­sam­bands smá­báta­eig­enda beinir því til Þor­gerðar Katrínar Gunn­ars­dótt­ur sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að aflaviðmiðun til strand­veiða verði hækkuð þannig ekki komi til stöðvun­ar veiða í ágúst.

„Strand­veiðar 2017 hafa ekki upp­fyllt þær vænt­ing­ar sem þátt­tak­end­ur gerðu til þeirra,“ seg­ir í álykt­un sem samþykkt var á fundi stjórn­ar LS fyr­ir helgi. „Þrátt fyr­ir að ell­efu pró­sent færri stundi veiðarn­ar í ár en í fyrra, fækk­un um 72 báta, og því meira sem kem­ur í hlut hvers og eins er afla­verðmæti nú fjórðungi lægra en í fyrra. Hrun fisk­verðs og ónæg­ar veiðiheim­ild­ir eru helstu or­saka­vald­arn­ir.“

Í álykt­un­inni bend­ir stjórn­in á að vegna vinnu­stöðvun­ar á fisk­veiðiár­inu verður þorskafli nokkuð und­ir því sem afla­regla ger­ir ráð fyr­ir að veitt verði, 244 þúsund tonn. „Sam­kvæmt töl­um Fiski­stofu var þorskafli á fisk­veiðiár­inu þann 21. júlí 212 þúsund tonn, sem er um 17 þúsund tonn­um minna en á sama tíma á fisk­veiðiár­inu 2015/​2016,“ seg­ir þar.

Vestri fær liðsauka

Yngvi Páll og Björn Ásgeir handsala samninginn.

Björn Ásgeir Ásgeirsson úr Hamri er genginn til liðs við körfuknattleiksdeild Vestra og mun hann leika með meistaraflokki félagsins á komandi keppnistímabili. Hann verður einnig meðal lykilmanna í unglingaflokki Vestra en stjórn hefur nú ákveðið að tefla fram unglingaflokki í vetur líkt og í fyrra.

Björn Ásgeir er fæddur árið 2000 og er því aðeins 17 ára gamall á þessu ári. Þrátt fyrir ungan aldur lék hann 16 leiki með meistaraflokki Hamars á síðasta tímabili og væntir Vestri mikils af honum í vetur. Hann komst í lokahóp U16 ára landsliðsins í fyrra og er því meðal fremstu leikmanna landsins í sínum árgangi.

Björn Ásgeir mun leika undir stjórn Yngva Páls Gunnlaugssonar, bæði í meistaraflokki og unglingaflokki, en Yngva til aðstoðar við þjálfun í vetur verður Nebojsa Knezevic, leikmaður meistaraflokks.

Matthías í liði mánaðarins

Matthías Vilhjálmsson. Mynd: Ole Martin Wold

Ísfirski knattspyrnumaðurinn Matth­ías Vil­hjálms­son er í liði mánaðar­ins í norsku úrvalsdeildinni í knatt­spyrnu sam­kvæmt whoscor­ed.com. Landi hans, Björn Bergmann Sigurðsson, er einnig í liðinu.

Matth­ías skoraði í öll­um þrem­ur deild­ar­leikj­um Rosen­borg í júlí, ásamt því að gefa eina stoðsend­ingu. Matth­ías var með 7.8 í meðal­ein­kunn fyr­ir leik­ina þrjá, en hann er marka­hæst­ur í liði Rosen­borg á leiktíðinni með sjö mörk.

Björn Berg­mann fékk 8,0 í meðal­ein­kunn fyr­ir frammistöðu sína með Molde í júlí. Hann skoraði tvö mörk í þrem­ur leikj­um og var tvisvar val­inn maður leiks­ins hjá vefsíðunni. Björn hef­ur farið á kost­um í deild­inni í sum­ar og skoraði tíu mörk.

Vill aðgangsstýringu inn í friðlandið

Hornvik.

Ráðherra ferðamála vonast til þess að landeigendur og ríkisvaldið komist að samkomulagi um aðgangsstýringu að Hornströndum. Tæplega tvö hundruð farþegar fransks skemmtiferðaskips gengu á land í friðlandinu á sunnudag. „Ég hef sjálf nefnt að Hornstrandir séu dæmi um stað, og kannski helsta dæmið, þar sem þyrfti mögulega að koma á ákveðinni aðgangsstýringu, út af því hvernig svæðið er. Þetta svæði er í höndum einkaðila þannig að það er nú ekki þannig að ríkisvaldið sé með algjörlega frjálsar hendur í því, ég á ekki von á öðru en að mönnum takist að leysa úr þessu,“ sagði Þórdís Kolbrún í kvöldfréttum Sjónvarps í gær.

Sjö sælir dagar með Skúla mennska

Tónleikaröðin Sjö dagana sæla hóf göngu sína á sunnudag í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað, annað árið í röð. Skúli mennski Þórðarson stígur á stokk sjö kvöld í röð að loknu borðhaldi ásamt einstökum gestum. Skúli segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að hann haldi þessa sérstæðu tónleikaröð í Tjöruhúsinu í ár líkt og í fyrra. „Það er bara að koma heim til Ísafjarðar og njóta lífsins og spila í skemmtilegu húsi. Tjöruhúsið er lifandi rými og það tekst undantekningarlaust að ná upp góðri stemningu í húsinu,“ segir Skúli.

Meðal gesta Skúla er dúettinn Between Mountains sem sigraði Músíktilraunir í vor, en þær verða gestir Skúla á fimmtudagskvöld.

„Daníel Helgason gítarleikari verður með mér öll kvöld og Una Stefánsdóttir söngkona verður með okkur frá og með fimmtudeginum og Lilja Björk júrúvisjónfari ætti að detta inn einhvern tímann í vikunni.“

Á föstudagskvöld verður spunasett með Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara og Daníel gítarleikara og tónleikaröðin endar með feiknarballi á laugardagskvöldið þar sem Skúli verður með fullskipaða hljómsveit sér til fulltingis.

Næst á döfinni hjá Skúla að loknum sjö dögum sælum í Tjöruhúsinu eru landvinningar á Norðurlöndum. „Það er Skandinavíutúr í september. Við verðum tveir á ferð, ég og Danni gítaristi og verðum aðallega í Noregi og Danmörku og ætlum að reyna að troða Svíþjóð inn í túrinn,“ segir Skúli að lokum.

Gönguhátíð í Súðavík

Hinn tignarlegi Kofri.

Gönguhátíð verður haldin í Súðavík um verslunarmannahelgina og er hún ætluð fyrir fólk á öllum aldri. Hátíðin er haldin í samvinnu Súðavíkurhrepps, Göngufélags Súðavíkur, gönguklúbbsins Vesens og vergangs og Eyvindar ehf. Í göngunum gefst fólki kostur á að fara um vestfirskt landslag í fylgd heimamanna, þar sem sagt verður frá örnefnum og sagðar sögur sem tengjast landslaginu og lífinu á svæðinu fyrr og nú.

Stefnt er á morgun-, miðdegis-, síðdegis- og kvöldgöngur á hina ýmsu staði í Álftafirði og nágrenni í fallegu landslagi við Ísafjarðardjúpið. Í undirbúningi eru göngur á Kofra, í Valagil, úr Skötufirði yfir í Heydal, um Hvítanes í Skötufirði, um Skákina milli Sauradals og Arnardals, upp í Naustahvilft, á Sauratinda og um Þjófaskörð á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Auk þess verða skipulagðar styttri göngur í þorpinu sjálfu og hægt að fara í göngur á svæðinu og nota Wapp – Walking app leiðsagnarappið í símanum.

Landmenn aldrei fleiri

Fjórfalt fleiri fluttu til landsins en frá því á öðrum ársfjórðungi 2017 og fæddir umfram látna voru tvöfalt fleiri. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um fólksfjölda sem gefnar voru út í dag. Íslendingar eru orðnir 343.960 talsins eftir að hafa fjölgað um 3.850 á þremur mánuðum. Landsmenn hafa aldrei verið fleiri.

Á 2. ársfjórðungi fæddust 1.000 börn, en 550 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 3.400 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 270 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 3.130 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 130 manns á 2. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 270 íslenskir ríkisborgarar af 430 alls. Af þeim 590 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 150 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar voru frá Danmörku (170), Noregi (190) og Svíþjóð (110), samtals 480 manns af 710. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 1.670 til landsins af alls 3.720 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 490 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok 2. ársfjórðungs bjuggu 34.460 erlendir ríkisborgarar á Íslandi.

Ráðherra gerir víðreist

Ráðherra og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, heimsóttu Vélsmiðjuna Loga á Patreksfirði.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur undanfarna daga verið á ferð um landið og hitt sveitarstjórnarmenn. Á þessum óformlegu fundum eru rædd sveitarstjórnar- og byggðamál, svo og samgöngumál. Undanfarið hefur ráðherra átt fundi með fulltrúum sveitarfélaga á Norðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Jón hefur meðal annars rætt við sveitarstjórnarfólk í Vesturbyggð, Tálknafirði, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi, Bolungarvík og í Reykhólahreppi.

Jón segir fundi sem þessa gagnlega þar sem hann fái góðar upplýsingar um það sem efst er á baugi hjá sveitarfélögunum og hvað helst brenni á sveitarstjórnarfulltrúum sem ræða opinskátt um það sem þeim býr í brjósti. Einnig gefist honum tækifæri til að greina frá helstu málum sem unnið er að í ráðuneytinu og snerta sveitarfélögin. Jón segir það sameiginlegt öllum þessum stöðum þar ríki alls staðar bjartsýni bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, verið sé að byggja íbúðarhúsnæði og atvinna næg. Því sé mikilvægt í fjárlögum næstu ára að leggja áherslu á á eflingu innviða á þessum svæðum á sviði orku, samgangna og fjarskipta. Jafnframt er einnig mikilvægt á landsbyggðinni að tryggja framboð á góðri menntun og tryggri heilbrigðisþjónustu fyrir öryggi og bætt búsetuskilyrði.

Nýjustu fréttir