Síða 2143

Býður sig fram gegn Guðjóni

Sigurður Orri ætlar í prófkjörsslag við Guðjón Brjánsson.

Sigurður Orri Kristjánsson hefur gefið kost á sér til að sitja í 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Sigurður Orri er 29 ára gamall og er frá Stykkishólmi og Hólmavík. „Ég lít á það sem nauðsyn að Samfylkingin verði að styrkja sig í kjördæminu fyrir komandi kosningar. Ég tel að ég sé rétti maðurinn vegna þess að ég hef óbilandi baráttugleði og sannfæringu fyrir því hvað þarf að gera í Samfylkingunni og fyrir samfélagið,“ skrifar hann í framboðsyfirlýsingu.

Guðjón S. Brjánsson alþingismaður var efsti maður á lista flokksins í kosningunum fyrir ári og hann ætlar að gefa kost á sér í oddvitasætið á ný.

Guðjón Brjánsson

„Það er erfitt að bjóða sig fram gegn sitjandi þingmanni, ég geri mér fulla grein fyrir því,“ skrifar Sigurður Orri en segist meta það svo að til þess að Samfylkingin eigi möguleika á að stækka þá verði hún að bjóða fram nýtt fólk með ferska framsetningu, ferskar hugmyndir og kjark til þess að láta í sér heyra.

„Þó ég þekki þingmann okkar í kjördæminu af góðu, er hann frekar langþreyttur til vandræða og hefur ekki skapað sér nafn á þeim 248 dögum sem hann hefur setið á Alþingi. Ég lít svo á að 6% fylgi okkar í kjördæminu síðast sé ákall á breytingar, ekki ákall á sama lista,“ segir í yfirlýsingunni.

Um helgina verður aukafundur í kjördæmisráði flokksins og þar verður kosið um fjóra efstu menn á lista Samfylkingarinnar.

smari@bb.is

Þurfa að færa kvíar vegna uppsöfnunar úrgangs

Sjóvkíar við Hlaðseyri. Mynd: mbl.is/Helgi Bjarnason.

Botndýralíf í innanverðum Patreksfirði hefur tekið breytingum vegna uppsafnaðs lífræns úrgangs frá laxeldi við Hlaðseyri. Í skýrslu Náttúrstofu Vestfjarðar kemur fram að botndýrasamfélög á kvíasvæðinu og innan við það hafi verið í slæmu ástandi en í nokkra tuga metra fjarlægð frá kvíunum var ástandið betra. Frá þessu var fyrst greint í Fréttablaðinu.

Sjávarbotninn við Hlaðseyri er tiltölulega flatur en dreifing lífræns úrgangs virðist ekki jöfn umhverfis kvíarnar. Útlitsleg einkenni og brennisteinslykt sets sýndu merki um lífræna uppsöfnun við kvíarnar og mælingar sýna að lífræn uppsöfnun hafi einnig átt sér stað innan við kvíasvæðið og sjávarstraumar virðast því flytja lífrænan úrgang meira í áttina inn fjörðinn.

Arnarlax óskaði eftir botnsýnatöku við Hlaðseyri í Patreksfirði á síðasta ári og vann Náttúrustofa Vestfjarða rannsóknina. Fyrirtækið var að reyna að fá alþjóðlega ASC-vottun sem er vottun fyrir ábyrgt og sjálfbært fiskeldi í sjó. Eldissvæðið við Hlaðseyri stenst ekki þær kröfur.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Kristian Matthíassyni, forstjóra Arnarlax, að kvíarnar verði færðar og fiskur fari ekki aftur út við Hlaðseyri. „Við erum búin að slátra úr kvíunum og munum svo setja kvíarnar annað. Þessi staðsetning uppfyllir ekki þau skilyrði sem við setjum umhverfinu okkar,“ segir Kristian.

Kort af kvíasvæðinu.

smari@bb.is

Fær 13,8 milljónir vegna vangoldinna launa

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Ríkissjóður þarf að greiða Erni Erlendi Ingasyni, lækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Dómur þess efnis féll í Hæstarétti í síðustu viku. Örn starfaði sem yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og í kjölfar sameiningar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar var Erni tilkynnt um að starf hans hafi verið lagt niður frá og með 1. janúar 2015. Var hann á biðlaunum frá þeim degi til loka sama árs.

Í málinu krafðist Örn að viðurkennt væri að niðurlagning á starfi hans væri ólögmæt og í öðru lagi krafðist hann greiðslu vegna svokallaðra gæsluvakta sem hann taldi sig eiga rétt til á biðlaunatímanum. Í þriðja lagi krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar niðurlagningar starfsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af öllum kröfum Arnar í júlí í fyrra og áfrýjaði hann málinu til Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttar er þeim hluta er varðar ólögmæta uppsögn og greiðslu miskabóta vísað frá dómi en fallist á að ríkinu ber að greiða honum fyrir gæsluvaktir á biðlaunatímanum, alls 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta.

Í rökstuðningi Hæstaréttar er vísað til að gæsluvaktir hefði verið óháðar vinnuframlagi og væru því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefðu verið taldar falla undir biðlaun. Þá segir í lögum réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn heldi óbreyttum launakjörum á biðlaunatíma.

smari@bb.is

Lögð áhersla á köld svæði

Ferðamenn á Látrabjargi.

Nú hefur verið kallað eftir umsóknum í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir árið 2018. Sérstök áhersla í tengslum við úthlutunina nú er lögð á styrkumsóknir sem miða að því að fjölga viðkomustöðum ferðamanna, dreifa þar með álagi af ferðamönnum og efla ferðamennsku á minna sóttum svæðum.

Vakin er sérstök athygli á að í kjölfar lagabreytinga er nú í fyrsta sinn auglýst í samræmi við nýjar reglur sem um sjóðinn gilda. Meginbreyting felst í því að ekki er lengur gert ráð fyrir því að ríkið sæki um í sjóðinn heldur er hægt að sækja um styrki til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga eða einkaaðila. Vert er að undirstrika að aðeins eru veittir styrkir til tiltekinna verkefna á ferðamannastöðum, ekki til staðanna sem slíkra eða til aðila.

Nánar tiltekið styrkir sjóðurinn framkvæmdir sveitarfélaga og einkaaðila á ferðamannastöðum sem:

  1. a) Stuðla að náttúruvernd.
  2. b) Auka öryggi ferðamanna.
  3. c) Bæta úr skorti á nauðsynlegum innviðum.
  4. d) Framkvæmdum sem búa til nýja ferðamannasegla/staði á „köldum“ svæðum eða árstímum.
  5. e) Undirbúning og hönnun fyrir ofangreint.

smari@bb.is

„Sauðfjárbændur eiga líka börn“

Gunnar Bragi Sveinsson.

Ofangreind fyrirsögn er á pistill Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, sem hann skrifaði á Facebook í gær. Þar útskýrir hann ummæli sín á Alþingi í gær, þar sem hann sagði að staða sauðfjárbænda væri ekki síður mikilvægt mál en þau sem verið væri að ræða og til stæði að afgreiða á þingi í dag. Þar á meðal væri breyting á útlendingalögum sem kæmi flóttabörnum í skjól – það væri ekki mikilvægara mál en að bjarga sauðfjárbændum.

„Hvers vegna þessi undarlega fyrirsögn á þessari færslu?“ spyr Gunnar Bragi og rekur að samið hafi verið þrjú mál sem átti að klára fyrir þinglok og tekur fram að þau séu öll mikilvæg. „Hins vegar náðist ekki samkomulag um að grípa til aðgerða vegna vanda sauðfjárbænda. Nú eru einhverjir að missa „kúlið“ og stilla því upp börn eða bændur,“ skrifar Gunnar Bragi.

Þingmálin þrjú eru breytingar á útlendingalögum, afnám uppreistar æru og kosningalögin.

„En hvers vegna segi ég að vandi sauðfjárbænda sé jafn mikilvægur og þessi þrjú mál? Mikil hætta er á að sauðfjárbændur lendi í þroti vegna afurðaverðs. Það þýðir að þeir missa jarðir sínar, húsnæði, fjölskyldur flosna upp og flytja. Ljósin hverfa í sveitinni , skólinn lokar, ferðaþjónustan leggst af og samfélagið hverfur,“ skifar hann og spyr að kannski þyki einhverjum ekkert mál að íslenskir bændur lendi í slíkum hremmingum.

„Það er mikilvægt mál að hjálpa börnum á flótta en það líka mikilvægt mál að hjálpa íslenskum bændafjölskyldum sem leggja það á sig að framleiða mat fyrir okkur hin. Ég spyr því líkt og í ræðu minni, hverjir komu í veg fyrir að sauðfjárbændur fengju aðstoð?“

smari@bb.is

Gjörningur á Hjallahálsi

Mynd: Reykholahreppur.is

Þegar safnið framan af Þorskafjarðarheiði og úr Fjalldölum rann til réttar út með Þorskafirðinum laugardaginn, átti sér stað gjörningur sunnanvert í Hjallahálsinum. Það er á þeim stað þar sem hefur verið teiknaður jarðgangamunni í einni af fjölmörgum hugmyndum að vegstæði í Gufudalssveit.

Þennan gjörning framkvæmdi Reynir Bergsveinsson, en hann hefur verið býsna ötull að vekja fólk til umhugsunar um mál sem í raun koma okkur öllum við. Gjörningurinn var fólginn í að setja upp jarðgangamunna sem blasir við þegar ekið er um veginn yfir Hjallaháls.

Mynd: Reykhólahreppur.is

Þetta kemur fram á vef Reykhólahrepps

bryndis@bb.is

Enginn sýnt Núpi áhuga

Ríkiskaup auglýstu í júlí  til sölu þrjár húseignir sem tilheyrðu héraðsskjólanum á Núpi í Dýrafirði. Um er að ræða skólabyggingu og tvær heimavistir, alls rúmlega 4.500 fermetra. Guðmundur Ástvaldsson á Núpi átti að sýna áhugasömum eignirnar en enginn hefur haft samband við hann eftir því sem kemur fram í samtali við Guðmund í Morgunblaðinu í dag. Sumarhótel hefur verið rekið á Núpi en starfsemi hefur verið lítil yfir veturinn.

Eignirnar þrjár á Núpi sem ríkið vill selja eru þessar: Gamli skóli, sem er elsta húsnæði fyrrverandi héraðsskólans á Núpi. Húsnæðið er upprunalega byggt árið 1931 og með síðari viðbyggingum. Húsið er að hluta á þremur hæðum en tveggja hæða álmur til beggja handa og íþróttahús við bakhlið. Í húsinu voru skólastofur, heimavist, kennaraíbúðir, matsalur, eldhús, sundlaug og íþróttahús. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands  er stærð hússins 1.419 fermetrar, brunabótamat er kr. 225.550.000 og fasteignamat er kr. 27.955.000.

Heimavist, kennslustofur og íbúðir. Um er að ræða tvær aðalbyggingar með tengibyggingu. Húsin eru tvær hæðir og kjallari. Bygging húsanna hófst árið 1964. Í húsinu eru þrjár íbúðir og 36 herbergi, kennslustofur, matsalur, eldhús og þvottahús. Í tengibyggingu eru skrifstofur og móttaka en húsnæðið allt er í dag leigt undir ferðaþjónustu. Heildarflatarmál húsanna er 2.437 fermetrar. Brunabótamat kr. 616.550.000 og fasteignamat kr. 63.910.000.

Skólastjórahús og heimavist. Um er að ræða húsnæði, áður heimavist (kvennavist) héraðsskólans ásamt íbúð. Stærð hússins 733 fermetrar. Húsnæðið er byggt á árunum 1954 til 1956. Brunabótamat er kr. 151.950.000 og fasteignamat er kr. 16.640.000.

smari@bb.is

Stígamót opna aftur viðtalsþjónustu á Ísafirði

Stígamót hefur nú opnað aftur viðtalsþjónustu á Ísafirði og mun vera opið tvisvar í mánuði. Brotaþolar og aðstandendur geta sett sig samband við fulltrúa Stígamóta í síma 562-6868 eða senda póst í karen@stigamot.is og fengið tíma.

Að sögn fulltrúa Stígamóta var þjónustan vel nýtt í fyrra er Stígamót voru til reynslu frá október 2016 til maí 2017.

bryndis@bb.is

Bændur vilja 650 milljónir

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Fulltrúar aðildarfélaga Landssamtaka sauðfjárbænda komu saman í Bændahöllinni fyrir helgi og funduðu um aðgerðir vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Fyrir fundinum lá að bregðast við tillögum landbúnaðarráðherra og leggja fram ályktun um framhaldið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi landbúnaðarráðherra, mætti á fundinn og hélt ræðu þar sem hún fór yfir atburðarás síðustu mánaða og rökstuddi tillögur sínar. Vegna stjórnarslita og yfirvofandi þingkosninga eru sauðfjárbændur í lausu lofti og það verður á hendi stjórnvalda sem taka við að loknum kosningum að glíma við vandann.

Á fundinum var lagt til að bændur eigi kost á greiðslum sem miðist við innlögð kíló dilkakjöts árið 2017. Markmið aðgerðanna eru að koma í veg fyrir hrun í greininni og stórfellda byggðaröskun. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi framleiðandi búi á lögbýli og hafi fleiri en 100 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt skráningu Matvælastofnunar haustið 2016. Þetta yrði einsskiptisaðgerð og hugsuð til að bæta að hluta kjaraskerðingu sem er tilkomin vegna lækkunar á afurðaverði haustsins 2017. Aðgerðin verði fjármögnuð með sérstöku 650 milljóna kr. framlagi ríkisins.

smari@bb.is

Opinn fundur um áhættumat Hafró

Sjókvíar í Tálknafirði.

Fiskeldismál hafa verið í brennidepli umræðunnar og á morgun miðvikudag stendur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrir opnum morgunfundi um áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi sem stofnunin gaf út í sumar.

Frummælendur á fundinum eru Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, dr. Geir Lasse Taranger vísindamaður við systurstofnun Hafró í Noregi og Bára Gunnlaugsdóttir starfsmaður Stofnfisks.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrir fundinum.

Fundurinn verður í sal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og hefst kl. 9.

Íbúar við Ísafjarðardjúp eru eflaust áhugasamir um fundinn, enda kom matið illa við fyrirhugað laxeldi í Djúpinu. Fyrir áhugasama sem ekki eiga heimangengt verður fundurinn verður í beinni útsendingu á Facebooksíðu ráðuneytisins.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir