Síða 2143

Gjörningur á Hjallahálsi

Mynd: Reykholahreppur.is

Þegar safnið framan af Þorskafjarðarheiði og úr Fjalldölum rann til réttar út með Þorskafirðinum laugardaginn, átti sér stað gjörningur sunnanvert í Hjallahálsinum. Það er á þeim stað þar sem hefur verið teiknaður jarðgangamunni í einni af fjölmörgum hugmyndum að vegstæði í Gufudalssveit.

Þennan gjörning framkvæmdi Reynir Bergsveinsson, en hann hefur verið býsna ötull að vekja fólk til umhugsunar um mál sem í raun koma okkur öllum við. Gjörningurinn var fólginn í að setja upp jarðgangamunna sem blasir við þegar ekið er um veginn yfir Hjallaháls.

Mynd: Reykhólahreppur.is

Þetta kemur fram á vef Reykhólahrepps

bryndis@bb.is

Enginn sýnt Núpi áhuga

Ríkiskaup auglýstu í júlí  til sölu þrjár húseignir sem tilheyrðu héraðsskjólanum á Núpi í Dýrafirði. Um er að ræða skólabyggingu og tvær heimavistir, alls rúmlega 4.500 fermetra. Guðmundur Ástvaldsson á Núpi átti að sýna áhugasömum eignirnar en enginn hefur haft samband við hann eftir því sem kemur fram í samtali við Guðmund í Morgunblaðinu í dag. Sumarhótel hefur verið rekið á Núpi en starfsemi hefur verið lítil yfir veturinn.

Eignirnar þrjár á Núpi sem ríkið vill selja eru þessar: Gamli skóli, sem er elsta húsnæði fyrrverandi héraðsskólans á Núpi. Húsnæðið er upprunalega byggt árið 1931 og með síðari viðbyggingum. Húsið er að hluta á þremur hæðum en tveggja hæða álmur til beggja handa og íþróttahús við bakhlið. Í húsinu voru skólastofur, heimavist, kennaraíbúðir, matsalur, eldhús, sundlaug og íþróttahús. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands  er stærð hússins 1.419 fermetrar, brunabótamat er kr. 225.550.000 og fasteignamat er kr. 27.955.000.

Heimavist, kennslustofur og íbúðir. Um er að ræða tvær aðalbyggingar með tengibyggingu. Húsin eru tvær hæðir og kjallari. Bygging húsanna hófst árið 1964. Í húsinu eru þrjár íbúðir og 36 herbergi, kennslustofur, matsalur, eldhús og þvottahús. Í tengibyggingu eru skrifstofur og móttaka en húsnæðið allt er í dag leigt undir ferðaþjónustu. Heildarflatarmál húsanna er 2.437 fermetrar. Brunabótamat kr. 616.550.000 og fasteignamat kr. 63.910.000.

Skólastjórahús og heimavist. Um er að ræða húsnæði, áður heimavist (kvennavist) héraðsskólans ásamt íbúð. Stærð hússins 733 fermetrar. Húsnæðið er byggt á árunum 1954 til 1956. Brunabótamat er kr. 151.950.000 og fasteignamat er kr. 16.640.000.

smari@bb.is

Stígamót opna aftur viðtalsþjónustu á Ísafirði

Stígamót hefur nú opnað aftur viðtalsþjónustu á Ísafirði og mun vera opið tvisvar í mánuði. Brotaþolar og aðstandendur geta sett sig samband við fulltrúa Stígamóta í síma 562-6868 eða senda póst í karen@stigamot.is og fengið tíma.

Að sögn fulltrúa Stígamóta var þjónustan vel nýtt í fyrra er Stígamót voru til reynslu frá október 2016 til maí 2017.

bryndis@bb.is

Bændur vilja 650 milljónir

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Fulltrúar aðildarfélaga Landssamtaka sauðfjárbænda komu saman í Bændahöllinni fyrir helgi og funduðu um aðgerðir vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Fyrir fundinum lá að bregðast við tillögum landbúnaðarráðherra og leggja fram ályktun um framhaldið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi landbúnaðarráðherra, mætti á fundinn og hélt ræðu þar sem hún fór yfir atburðarás síðustu mánaða og rökstuddi tillögur sínar. Vegna stjórnarslita og yfirvofandi þingkosninga eru sauðfjárbændur í lausu lofti og það verður á hendi stjórnvalda sem taka við að loknum kosningum að glíma við vandann.

Á fundinum var lagt til að bændur eigi kost á greiðslum sem miðist við innlögð kíló dilkakjöts árið 2017. Markmið aðgerðanna eru að koma í veg fyrir hrun í greininni og stórfellda byggðaröskun. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi framleiðandi búi á lögbýli og hafi fleiri en 100 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt skráningu Matvælastofnunar haustið 2016. Þetta yrði einsskiptisaðgerð og hugsuð til að bæta að hluta kjaraskerðingu sem er tilkomin vegna lækkunar á afurðaverði haustsins 2017. Aðgerðin verði fjármögnuð með sérstöku 650 milljóna kr. framlagi ríkisins.

smari@bb.is

Opinn fundur um áhættumat Hafró

Sjókvíar í Tálknafirði.

Fiskeldismál hafa verið í brennidepli umræðunnar og á morgun miðvikudag stendur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrir opnum morgunfundi um áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi sem stofnunin gaf út í sumar.

Frummælendur á fundinum eru Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, dr. Geir Lasse Taranger vísindamaður við systurstofnun Hafró í Noregi og Bára Gunnlaugsdóttir starfsmaður Stofnfisks.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrir fundinum.

Fundurinn verður í sal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og hefst kl. 9.

Íbúar við Ísafjarðardjúp eru eflaust áhugasamir um fundinn, enda kom matið illa við fyrirhugað laxeldi í Djúpinu. Fyrir áhugasama sem ekki eiga heimangengt verður fundurinn verður í beinni útsendingu á Facebooksíðu ráðuneytisins.

smari@bb.is

Dögun býður fram

.

Dögun hyggst bjóða fram í komandi Alþingiskosningum þann 28. október. Í tilkynnngu frá flokknum segir að þrátt fyrir að skammur tími sé til stefnu þá ætlar flokkurinn að gera sitt allra besta til að koma þeim málefnum á framfæri sem flokkurinn hefur talað fyrir í gegnum árin.

„Það er okkar markmið að breyta íslensku þjóðfélagi í samfélag þar sem allir geta þrifist og lifað mannsæmandi lífi í stað þess einkavina þjóðfélags sem að við búum við í dag. Nú er að hrökkva eða stökkva. Þetta er ekki spurning um getu okkar almennings heldur hvort að við þorum að grípa tækifærið sem okkur var fært upp í hendurnar nú á haustdögum með einni undirskrift,“ segir í tilkynningu.

smari@bb.is

Þrívíddargangbraut vekur athygli

Ný þrívíddargangbraut við Landsbankann á Ísafirði hefur vakið talsvert meiri athygli en þá Ralf Trylla umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar og Gaut Ívar Halldórsson hjá Vegamálun GÍH grunaði þegar þeir máluðu hana. Fjallað hefur verið um hana í Iceland Review, Cycling Weekly og frönsku vefjunum Golem 13, Creapills og Déplacementspros svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa myndir af gangbrautinni náð flugi á samfélagssafnmiðlunum Reddit og 9Gag, svo ekki sé minnst á Facebook og Twitter. Fyrst var fjallað um gangbrautina á bb.is

smari@bb.is

Borgarísjaki á Ströndum

Mynd: Litli Hjalli

Borgarísjaki sést frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík í morgun. Jakinn er ca um 18 km NNA af Nestanga við Litlu-Ávík, og ca 8 km A af Sæluskeri 8 (Selskeri.) Send var hafístilkynning á Hafísdeild Veðurstofu Íslands, um kl 10:38. Hann náðist sæmilega á mynd. Þann tuttugasta og fyrsta sást einnig borgarísjaki frá veðurstöðinni. Þetta kemur fram á Litla Hjalla, fréttavef Strandamanna.

bryndis@bb.is

Landsbyggðin fái bætur fyrir Reykjavíkurflugvöll

Byggð í Vatns­mýr­inni yrði um 143 millj­örðum verðmæt­ari en sam­bæri­leg byggð á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins, t.d. í Úlfarsár­dal. Þetta kem­ur fram í Markaðspunkt­um grein­ing­ar­deild­ar Ari­on banka en í henni eru sögð sterk rök fyr­ir því að að þeir sem beri skert­an hlut njóti góðs af því að sölu­verð íbúða á svæðinu væri hærra en á jaðrin­um.

Í grein­ing­unni seg­ir að vís­bend­ing­ar séu um að þjóðhags­lega hag­kvæmt sé fyr­ir heild­ina að flug­völl­ur­inn í Vatns­mýri víki. Þá séu sterk rök fyr­ir því að þeir sem tapi á ein­hvern hátt á því að Reykja­vík­ur­flug­velli verði lokaði fái ein­hvers kon­ar bæt­ur fyr­ir.

„Ef sölu­hagnaður íbúða á þessu svæði verður 143 millj­örðum króna hærri held­ur en hann ann­ars væri er erfitt að sjá annað en að það sé sann­gjarnt að íbú­ar á lands­byggðinni og aðrir sem treysta al­mennt meira á Reykja­vík­ur­flug­völl held­ur en meðal Reyk­vík­ing­ur­inn fái stóra sneið af þeirri köku. Þá má einnig færa rök fyr­ir því að þeir sem verða verr sett­ir á einn eða ann­an hátt eigi heimt­ingu á að njóta góðs af hærri fast­eigna­gjöld­um.“

Grein­ing­ar­deild­in met­ur að fast­eigna­verð sé al­mennt um og yfir 30% hærra í Vatns­mýr­inni en á jaðri höfuðborg­ar­inn­ar. Það þýði að virði íbúða í Vatns­mýri miðað við fast­eigna­mat sé meira en 30% hærra en á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins sem að öðru óbreyttu skýrist af mis­mun­andi lóðaverði. Þessi mun­ur þýði að heild­arfa­st­eigna­mat í Vatns­mýri verði um 143 millj­örðum króna hærra í Vatns­mýr­inni.

Jafn­framt skili byggð í Vatns­mýr­inni ein­um millj­arði króna meira í fast­eigna­gjöld á ári til Reykja­vík­ur­borg­ar en byggð á jaðrin­um.

smari@bb.is

Fimmtán í prófkjöri Pírata

Eva Pandora Baldursdóttir

Prófkjör Pírata í Norðvesturkjördæmi hófst á laugardaginn. Fimmtán frambjóðendur eru í kjöri. Eva Pandora Baldursdóttir, sem náði kjöri í kosningunum fyrir ári gefur áfram kost á sér í fyrsta sæti. Prófkjörið fer fram á netinu og þegar þetta er skrifað hafa 237 greitt atkvæði. Kosningunni lýkur á laugardaginn og úrslit verða kunngjörð svo skjótt sem auðið er.

Frambjóðendur í prófkjöri Pírata eru:

Halldór Óli Gunnarsson

Halldór Logi Sigurðsson

Gunnar Ingiberg Guðmundsson

Eva Pandora Baldursdóttir

Eiríkur Þór Theódórsson

Egill Hansson

Bragi Gunnlaugsson

Arndís Einarsdóttir

Ragnheiður Steina Ólafsdóttir

Vigdís Pálsdóttir

Sunna Einarsdóttir

Magnús Davíð Norðdahl

Leifur Finnbogason

Hinrik Konráðsson

smari@bb.is

Nýjustu fréttir