Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2142

Námsgögn verða ókeypis í Bolungarvík

Grunnskóli Bolungarvíkur.

 

Við upphaf haustannar 2017 í Grunnskóla Bolungarvíkur verður nemdendum útveguð öll námsgögn sem til þarf skólagönguna. Þessi ákvörðun var tók sveitastjórn Bolungarvíkur við gerð fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2017.

Með ókeypis námsgögnum er verið að koma í veg fyrir mismunun barna og styðja við að öll börn njóti jafnræðis í námi og gerir sveitarfélagið að betri kosti fyrir fjölskyldur hvað varðar búsetu enda er það stefna sveitarfélagsins að búa vel að íbúum sínum og bjóða upp á besta mögulega þjónustu sem hægt er.

Námsgögn hafa verið í ókeypis í Ísafjarðarbæ um árabil og á síðustu misserum hafa fleiri sveitarfélög bæst í hópinn og enn fleiri bætast við á næsta ári.

Safna fyrir nýju þaki

Eigendahópurinn sem tók yfir Vagninn í vor.

Í vetur urðu eigendaskipti á hinni fornfrægu krá Vagninum á Flateyri og eru eigendur svokallaðir sumarfuglar á Flateyri, það er að segja íbúar sem hafa keypt sér hús í þorpinu og dvelja þar á sumrin og eftir föngum á vetrum líka. Húsnæði Vagnsins er orðið afar lúið og þar þarf að taka verulega til hendinni og fyrsta verkefnið er að skipta um þak. Nú er hafin söfnun á Karolina Fund og takmarkið er að eiga fyrir nýju þaki.

Það hefur verið líf og fjör á Vagninum í sumar, á stokk hafa stigið Bjartmar, Sniglabandið og Andrea, útvarpsmaðurinn Andri Freyr, Daði og í kvöld ætlar Mugison að mæta í miklu stuði. Eyvindur Atli Ásvaldsson er kokkur Vagnins í sumar en öðru hvoru detta inn gestakokkar og um Verslunarmannahelgina ætlar að Snorri Birgir Snorrason að hræra í pottunum.

Á laugardaginn munu ljúfir tónar KK fá að njóta sín en hann er Flateyringum afar kær.

Fækkar í sjávarútvegi

Dregið hef­ur úr fjölg­un launþega á Íslandi milli ára. Þeim hef­ur fækkað í sjáv­ar­út­vegi en launa­greiðend­um hef­ur fjölgað í bygg­ing­ariðnaði og ferðaþjón­ustu. Þetta kem­ur fram í frétt sem Hag­stofa Íslands birti á heima síðu sinni.

Í frétt­inni seg­ir að á 12 mánaða tíma­bili, frá júlí 2016 til júní 2017 hafi að jafnaði verið 17.166 launa­greiðend­ur á Íslandi. Þeim fjölgaði um 4,4% frá síðustu 12 mánuðum á und­an en á sama tíma­bili greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 184.200 ein­stak­ling­um laun sem er aukn­ing um 4,9% aukn­ing sam­an­borið við 12 mána tíma­bil ári fyrr.

Skipt eft­ir at­vinnu­grein­um hef­ur launþegum fjölgað milli ára hjá launa­greiðend­um í bygg­ing­ariðnaði og ferðaþjón­ustu. Þó hef­ur dregið úr hraða vaxt­ar og launþegum hef­ur fækkað í sjáv­ar­út­vegi.

Hótelgisting hækkað um meira en 60%

Verð á hót­elgist­ingu hefur hækkað um meira en 60 pró­sent hér­lendis í erlendri mynt á tveimur árum. Sú hækkun er vel umfram styrk­ingu á gengi krón­unnar og því útskýrir hún hækk­un­ina ekki nema að hluta. Stóran hluta hækk­unar megi rekja til hærri gjald­skrár hót­ela og hót­elgist­ing hækkað langt umfram þróun verð­lags. Þetta er haft eftir Gústaf Stein­gríms­syni, hag­fræð­ingi í hag­fræði­deild Lands­bank­ans, í Frétta­blað­inu í dag.

Þar segir hann að stór­aukin eft­ir­spurn ferða­manna eftir gisti­rými sé senni­leg­asta ástæða þess hve mikið þjón­usta hót­ela og gisti­heim­ila hafi hækkað í krónum talið á und­an­förnum árum.„­Menn virð­ast hafa verið í það góðri stöðu, og gistinýt­ingin er það há, að þeir hafa getað leyft sér að hækka verð­ið,“ segir Gústaf í sam­tali við Frétta­blað­ið. Hann nefnir aukin launa­kostnað sem aðra breytu sem gæti skýrt miklar hækk­an­ir.

Hagsmunir íbúanna verði settir í fyrsta sæti

Nefnd sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldismálum hefur hagsmuni íbúa á Vestfjörðum ekki að leiðarljósi. Þetta sögðu sveitar- og bæjarstjórar Súðavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar í yfirlýsingu í gær. Í yfirlýsingu Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra í Bolungarvík, og Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, segja þeir frá fundi sem þeir áttu með nefnd sem á að móta stefnumótun til framtíðar í fiskeldi. Nefndin vinnur að þeirra mati fyrst og fremst að því að úthluta fyrirtækjum svæði fyrir starfsemi sína frekar en eiginlegri stefnumótun um uppbyggingu fiskeldis.

„Ef raunin verður sú að tillaga nefndarinnar um stefnumótun í fiskeldi verður á þeim nótum sem við upplifðum á fundinum þá getur slík tillaga aldrei orðið meira en innlegg í málið og undirbúningur að víðtækari og heildstæðari stefnumótun þar sem hagsmunir íbúa, bæði Vestfirðinga og annarra landsmanna, verði settir í fyrsta sæti. Þeir gríðarlegu þjóðarhagsmunir sem geta legið í laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru alltof miklir til að verða skiptimynt í hrossakaupum,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni rekja þeir að nefndin hafði ekki fundað með fulltrúum sveitarfélaganna við Djúp og það var ekki fyrr en að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra skarst í leikinn að nefndin settist niður með heimamönnum, en það var á þriðjudaginn síðasta.

„Það að verður að segjast eins og er að fundurinn með nefndinni olli okkur verulegum vonbrigðum. Svo virðist sem ætlun nefndarinnar sé að ná einhvers konar samkomulagi milli eldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa um svæðaskiptingu fyrir laxeldi – að mestu án tillits til hagsmuna íbúa svæðanna – en minna horft til raunverulegrar stefnumótunar í fiskeldismálum þar sem samfélög og sjálfbærni yrðu lögð til grundvallar. Það er því varla að sjá að frá nefndinni muni koma eiginlega stefnumótum um hvernig uppbyggingu fiskeldis skuli háttað á Íslandi, heldur sé fyrst og fremst verið að úthluta fyrirtækjum svæðum fyrir starfsemi sína.“

Mat þremenninganna er að áhættumat Hafrannsóknastofnunar, þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi, sé lagt til grundvallar í vinnu nefndarinnar.

„Svo var að heyra sem ein skýrsla Hafró – sem er umdeild í þokkabót – eigi að verða hornsteinn einhverskonar sáttar milli þessara hagsmunaaðila, laxeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa, án þess að íbúarnir og hagsmunir þeirra eigi sæti við borðið. Einungis tvo mánuði tók að setja saman skýrslu Hafró. Ef það var svona veigalítið verk að slá laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi út af borðinu, hvers vegna var þessi skýrsla þá ekki unnin fyrir mörgum árum síðan þegar áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi voru fyrst kynnt. Það er algerlega óásættanlegt að skýrsla Hafró fái að ráða því að hagsmunir íbúanna séu virtir að vettugi og hagsmunum þeirra jafnvel fórnað fyrir tvær veigalitlar laxveiðiár í Djúpinu.
Það er krafa okkar að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði höfð til grundvallar, rétt eins og áhættumat hafrannsóknarstofnunnar, við ákvörðun um fiskeldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi,“ segir í yfirlýsingunni.

Stórveldi fest á filmu

Kareokimennirnir Halldór Eraclides og Pétur Magnússon stappa stálinu hvor í annan.

Heimildarmyndin Goðsögnin FC Kareoke verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó í kvöld, en myndin fjallar að mestu um Bjarmalandsför samnefnds mýrarboltaliðs til Finnlands. Myndin er eftir Herbert Sveinbjörnsson sem á að baki allnokkrar heimildarmyndir. Þetta er í annað sinn sem Herbert sækir efnivið vestur á firði, en fyrir 6 árum gerði hann myndina Rokknefndina sem fjallar um Aldrei fór ég suður. En hvers vegna ákvað hann að gera mynd um mýrarboltalið? Herbert segir að þegar hann kláraði myndina Ösku þá fór hann að hugsa um að gera mynd um Mýrarboltann á Ísafirði og ætlaði þá að fókusa á mótið sjálft og kannski þrjú lið. „Ég var í sambandi við Hálfdán Bjarka [Hálfdánsson] og hann sagði mér að Kareoke hefði unnið mótið árið áður og væru á leið til Finnlands til að taka þátt í heimsmeistaramótinu. Þegar ég heyrði að í liðinu væru Pétur Magg og fleiri litríkir karakterar þá sá ég um leið að þetta væri myndin og hætti við þessa þriggja liða mynd,“ segir Herbert.

Herbert Sveinbjörnsson kvikmyndagerðarmaður.

Úr varð að Herbert fylgdi liðinu á HM í Finnlandi sumarið 2015. „Ég vissi ekkert um mýrarbolta og hvað þá að þetta væri alþjólegt fyrirbæri með heimsmeistaramóti í Finnlandi, ég hélt að þetta væri eitthvað ísfirskt dæmi.“

Herbert er dulur þegar hann er spurður út í frammistöðu liðsins í Finnlandi. „Fólk verður bara að sjá myndina. En þeir ákváðu að hætta eftir Finnlandsferðina.“

Herbert var langt kominn með myndina þegar þýsk/franska sjónvarpsstöðin Arte fór að sýna henni áhuga. „En þeir vilja meira myndefni svo ég næ að sannfæra liðið um að taka skóna af hillunni og þeir taka þátt Mýrarboltanum á Ísafirði í fyrra og gera sér lítið fyrir og vinna mótið.“

Þegar saga Mýrarboltans á Ísafirði verður skrifuð þá verður nafn FC Karaoke ritað með stóru letri, enda er liðið stórveldi í íþróttagreininni. Í myndinni er farið yfir sögu liðsins sem var stofnað í árdaga Mýrarboltans. „Þeir eiga sér sína erkifjendur í Gemlingunum og það er farið yfir þann ríg sem hefur oft á tíðum verið hatrammur,“ segir Herbert.

Myndin verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó í kvöld kl. 20.

Segir réttmætar væntingar í uppnámi

Pétur G. Markan.

Uppbygging tengd laxeldi Háafells ehf. í Súðavík er í uppnámi eftir niðurstöðu skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat á erfðablöndun sem mælir gegn eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Þetta segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Pétur bendir á að Háafell er alíslenskt eldisfyrirtæki í eigu útgerðarfyrirtækisins Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. og hefur stundað eldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2002 og hefur verið með 7000 tonna umsókn um laxeldisleyfi í stjórnkerfinu síðan árið 2011.

„Hraðfrystihúsið Gunnvör er fyrirtæki í eigu heimamanna sem hefur stundað útgerð við Djúp í 75 ár og stundað farsælt eldi í Djúpinu síðan árið 2002 héðan frá Súðavík. Fyrstu viðbrögð við því að loka Djúpinu fyrir laxeldi eru að þetta setur ekki einungis áform fyrirtækisins í uppnám heldur líka réttmætar væntingar sveitarfélaganna og íbúanna,“ segir Pétur.

Pétur áréttar að áformað laxeldi Háafells sé mjög víðtækt og snerti ekki einungis Súðavíkurhrepp. „Sem dæmi er seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri í umdæmi Strandabyggðar, þjónusta og slátrun á eldisfiskinum er í Súðavíkurhrepp en vinnslan er í Ísafjarðarbæ.“

Að hans mati tekur Hafrannsóknastofnun ekki tillit til mótvægisaðgerða í áhættumati sínu. „Mótvægisaðgerðirnar gagnvart veiðiréttarhöfunum er að notast við þá tækni og þekkingu sem best hefur reynst erlendis til þess að koma í veg fyrir að mögulegur strokufiskur geti blandast í ánum en Hafrannsóknastofnun tekur ekki tillit til þessara aðgerða í sinni skýrslu,“ segir Pétur

Yfirlýsingar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra um að áhættumatið sé ekki endanlega niðurstaða er fagnaðarefni að sögn Péturs. „Stjórnvöldum gefst núna tækifæri í framhaldinu að meta þessar aðgerðir inní reikniregluna, horfa svo á heildarmyndina þar sem hagsmunir íbúa og fyrirtækja við Djúp hljóta að vega þungt og halda áfram skynsamlegri uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi“ segir Pétur.

Hann segir það skýlausa kröfu sveitarfélaganna við Djúp að auk áhættumats á áhrifum laxeldis á villta stofna verði gerð hagræn og félagsleg úttekt á áhrifum fiskeldis á samfélög við Djúp. „Það eru fleiri stofnar við Djúp en laxastofnar, hér býr fólk og það vill skjóta nýjum stoðum undir okkar góða samfélag. Við sveitarstjórnarmenn erum að vinna fyrir þetta fólk og við unum okkur ekki hvíldar fyrr en uppbygging fiskeldis í Ísafjarðardjúpi verður komin í réttan og farsælan farveg,“ segir Pétur G. Markan að lokum.

Tungumálatöfrar – sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn

Vikuna 7. – 11. ágúst fer fram sumarnámskeið fyrir 5 – 8 ára börn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Námskeiðinu er ætlað að örva íslenskukunnáttu þar sem íslenska er annað mál barnanna eða eitt af mörgum tungumálum. Lögð verður áhersla á að börn sem búa erlendis geti ræktað tengsl sín við Ísland og skapað tengingar við börn sem búa á Íslandi.  Hugmyndin að verkefninu vaknaði í fyrra þegar áhugafólk um fjöltyngi fundaði á Ísafirði. Anna Hildur Hildibrandsdóttir stýrir framkvæmd þess í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg og Ísafjarðarbæ.

Dagskráin verður frá kl. 10 – 12 alla daga og hefst með söngstund sem Jóngunnar Biering Margeirsson leiðir. Myndlistarkonurnar Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nína Ivanova leiðbeina börnunum í gegnum myndlist, leik og sögur.   Öll börn eru velkomin á námskeiðið og skráning á anna@annahildur.com og Jóngunnar í síma 6205778

Námskeiðið í sumar er tilraun sem tengist hugmyndum um að stofna sumarskóla fyrir fjöltyngd börn á Ísafirði.

Botnlaus grundvöllur í Edinborg

Myndlistarkonurnar Rannveig Jónsdóttir og Sigrún Gyða Sveinsdóttir opna sýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á morgun, fimmtudag. Sýningin nefnist Botnlaus grundvöllur. Þær stunduðu báðar myndlistarnám við Listaháskóla Íslands og útskrifuðust nú í vor. Botnlaus grundvöllur er þeirra fyrsta opinbera sýning eftir útskrift. Í sumar störfuðu þær að list sinni í Skapandi sumarstörfum í Kópavogi sem listamannadúóið DJ VHS (video-hljóð-skúlptúr) en verk þeirra eru flest á mörkum myndbandslistar, hljóðverka og rýmistengdra verka.

Opnunin á morgun er kl. 16.

 

Mýrarbolti og dúndrandi dansleikur í Trékyllisvík

Blek og byttur með Trékyllisvíkina fögru í baksýn.

Það verður nóg um að vera um verslunarmannahelgina í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins. Á föstudagskvöld ætlar Linda Guðmundsdóttir frá Finnbogastöðum að leika á harmonikku fyrir gesti á Kaffi Norðurfirði. Ungmennafélagið Leifur heppni stendur fyrir mýrarboltamóti á Melum á laugardaginn og hefst það kl. 13 og tilvalið fyrir ungna sem aldna að skella sér í forina og etja kappi. Á laugardagskvöldið er árlegur dansleikur í félagsheimilinu í Trékyllisvík sem Leifur heppni og björgunarsveitin Strandasól halda. Líkt og fyrri ár leika Blek og byttur fyrir dansi, en árvissir dansleikir sveitarinnar í Trékyllisvík eru rómaðir af fagurkerum í dansleikjafræðum.

Nýjustu fréttir