Síða 2142

Þurrt og aðgerðarlítið veður

Meðan rigningin lemur allt utan á Austurlandi er veðrið aðgerðalítið og þurrt á Vestfjörðum, spámenn Veðurstofunnar spá norðlægri átt 5-13 m/s og hvassast á annesjum. Skýjað og yfirleitt þurrt en gæti rignt síðdegis. Hiti 6-11 stig.

Það er útlit fyrir áframhaldandi votviðri og vatnavöxtum á Suðausturlandi og Austfjörðum en rigningarnar á Austurlandi hafa valdið miklu tjóni og eru um 70 ferðalangar strandaglópar í fjöldahjálparstöðvum sem voru opnaðar í Hofgarði og Mánagarði. Þjóðvegurinn hefur verið tekinn sundur á nokkrum stöðum og brýr eru í hættu. Flætt hefur yfir tún og á vef RÚV kemur fram að óttast er að um 50 lömb hafi drukknað. Talsverðri úrkomu er spáð í fyrripartinn í dag og aukinni hættu á skriðuföllum.

smari@bb.is

Nýr götusópur

Sveinn Sörensen, Kristján Andri og Grímur Fannar Eiríksson, sölumaður hjá Krafti ehf.

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar (áhaldahúss) Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun nýjan og glæsilegan götusóp af gerðinni Bucher CityFant 6000. Kristján Andri Guðjónsson bæjarverkstjóri og Sveinn Sörensen tækjamaður tóku á móti sópnum sunnan heiða í gær og óku á honum vestur á firði. Nú eru tækjamenn þjónustumiðstöðvar að máta sig við sópinn og prufa nýju græjuna á planinu við áhaldahúsið, en í beinu framhaldi verður byrjað að nota hann á götum Ísafjarðarbæjar.
Með öllu kostar sópurinn tæplega 33 milljónir króna. Gamli sópurinn, sem hefur staðið fyrir sínu í áratugi, var orðinn ansi viðhaldsfrekur eins og gerist með aldrinum. Óvíst er hvort hann verður seldur eða hvort hann nýtt hlutverk. Þetta kemur fram á facebook síðu Ísafjarðarbæjar.

bryndis@bb.is

Uppf. 10:35. Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ kostaði gripurinn 27 milljónir en ekki 33 milljónir.

Vandræðaskáld í Edinborg

Vandræðaskáldin Vilhjálmur og Sesselía.

Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason halda í tónleikaför og munu á leið sinni koma fram á Ísafirði, en þau hafa ekki gerst svo fræg fyrr. Á tónleikunum sem bera yfirskriftina „Vandræðaskáld vega fólk“ gera Vandræðaskáldin einmitt það, halda út á veginn og vega fólk og meta, en vega það þó ekki nema nauðsyn beri til. Vopnuð sínum kolsvarta húmor og hárbeittri þjóðfélagsádeilu ætla þau að fjalla um lífið, ástina og dauðann á sinn einstaka hátt. Á ferðalaginu er ekkert heilagt og Vandræðaskáldin hika ekki við að segja óborganlegar og óviðeigandi sögur, grípa til hyldjúprar heimspeki og að vitna í bílaleiguna Hertz.

Vandræðaskáldin verða í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardagskvöld kl. 21.

smari@bb.is

Rótary boðar til fundar um fiskeldi

Einar Kristinn Guðfinnson

Rótaryklúbbur Ísafjarðar boðar til opins fundar um fiskeldismál í kvöld á Hótel Ísafirði og hefst hann klukkan 20:00. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva er frummælandi fundarins.

bryndis@bb.is

Missa starfsfólk vegna skorts á húsnæði

Hagstofan spáir miklum íbúðafjárfestingum.

Dæmi eru um að atvinnurekendur á landsbyggðinni missi starfsfólk vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Lágt markaðsverð kemur í veg fyrir nýbyggingar. Á fundi Íbúðalánasjóðs á Akureyri í gær var rætt um slæmt ástand í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Frá fundinum var greint á vef RÚV. Víða í hinum dreifðu byggðum hefur fólki fjölgað en sá hængur hefur verið á að nýtt húsnæði hefur ekki fylgt. Flestar nýbyggingar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutdeild landsbyggðarinnar í nýju húsnæði dregist verulega saman eftir hrun.

„Það eru aukin atvinnutækifæri, ferðaþjónusta hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og ekki síst úti á landsbyggðinni en á sama tíma sjá atvinnurekendur fram á að missa starfsfólk vegna þess að það er ekki til húsnæði og virðist ekkert vera í uppbyggingu,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs.

smari@bb.is

10 milljarða soprbrennslustöð í Súðavík?

Súðavíkurhreppur er með til skoðunar að reisa risavaxna sorpbrennslustöð í sveitarfélaginu sem gæti annað stórum hluta landsins, ef ekki öllu landinu. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að málið sé á frumstigi og fleiri staðsetningar en Súðavíkurhreppur komi til greina. „Það er verið að ræða um hátæknisorbrennslustöð, sem er það umhverfisvænasta sem þekkist í sorpeyðingu í dag,“ segir Pétur. Hann bætir við að Íslendingar standi ekki frammi fyrir neinu vali þegar kemur að sorpförgun, urðun er á útleið innan ekki margara ára. „Við erum með tímabundna undanþágu til að fá að urða sorp og í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við þá er verið að brenna sorp í hátæknisorpbrennslustöðvum,“ segir Pétur.

Verkefnið er risastórt og heildarfjárfesting áætluð í kringum 10 milljarðar króna. Að sögn Péturs verður hægt að nýta hita úr stöðinni til að keyra hitaveitu fyrir svæðið.

Fyrir rúmlega 20 árum opnaði sorpeyðingarstöðin Funi á Ísafirði og þá voru gefin fyrirheit um að stöðin væri umhverfisvæn og í takt við allar nútímakröfur. Fyrir tæpum 7 árum var stöðinni lokað eftir að í ljós kom díoxínmengun frá stöðinni.

Pétur segir að sporin eigi ekki að hræða en segir að Funi eigi að kenna mönnum að hægt er að standa illa að rekstri svona stöðvar. „Að bera saman Funa og þessa stöð sem er til skoðunar í dag er eins og að bera saman epli og appelsínur. Að gera þetta á svona stórum skala, við erum að tala um 100 þúsund tonn af sorpi á ári, það veitir rekstrargrundvöll fyrir hátæknistöð eins og eru starfræktar miðsvæðis í Osló og Kaupmannahöfn. En við verðum að læra af Funa og átta okkur á því að það er hægt að gera þetta illa og það er hægt að gera þetta vel. En það er ljóst að framtíðin er ekki í urðun, það verður hreinlega ólöglegt. Og þá munu menn færa sig í sorpbrennslu og því ættum við Vestfirðingar ekki að taka af skarið.“

Samkvæmt hugmyndinni verða 8-10 afhendingarstaðir sorps hringinn í kringum landið og sem strandsiglingaskip koma á förgunarstað. Aðspurður hverjir standa að baki verkefninu segir Pétur að engir fjárfesta séu komnir að borðinu en Verkís hefur leitt vinnuna.

„Eðlilegasta næsta skref er að stofna þróunarfélag um verkefnið sem vonandi sveitarfélögn við Djúp verða aðilar að,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Frumvarp um Teigsskóg tilbúið

Teigsskógur í Þorskafirði.

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis að Lilju Rafneyju Magnúsdóttur undanskilinni standa að baki frumvarpi sem veitir Vegagerðinni framkvæmdaleyfi á veglínunni Þ-H á Vestfjarðarvegi 60, vegur sem í daglegu tali nefnist vegurinn um Teigsskóg. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er fyrsti flutningsmaður málsins. Hann skrifar á Facebook í dag að hafi verið vonbrigði að ekki hafi náðst samstaða um að setja málið á dagskrá, en þingstörfum lauk í nótt. Hann segir að fái hann til þess umboð í kosningunum í október verði það hans fyrsta verk að leggja málið fram að nýju.

Frumvarpið er einungis ein lagagrein og er hún svohljóðandi: Vegagerðin hefur leyfi til framkvæmda á leið Þ-H á Vestfjarðavegi (60) milli Bjarkalundar og Skálaness, þrátt fyrir ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010. Viðkomandi sveitarfélag skal eftir sem áður hafa eftirlit með framkvæmdunum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

Í frumvarpinu eru tiltekin tvö skilyrði fyrir heimild Vegagerðarinnar en þau eru að fyrir liggi rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á botnseti í Þorskafirði og enn fremur að fyrir liggi breyting á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna nýrra efnistökustaða.

Um tilgang og nauðsyn lagasetningarinnar segja flutningsmennirnir í greinargerð með frumvarpinu:

„Ekki þarf að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í vegabætur á svæðinu sem um ræðir, enda ber gamli malarvegurinn um Gufudalssveit ekki lengur þá umferð sem um hann fer og skapar alvarlega hættu. Óásættanleg töf hefur nú þegar orðið á málinu eins og rakið var í síðasta kafla, en málið hefur nú þegar velkst í kerfinu í tæp 15 ár. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi lengur að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfi til framkvæmda hefur þurft að feta. Það hefur varla verið vilji löggjafans að hægt sé að halda jafn brýnni samgöngubót í gíslingu flækjustigs stjórnsýslunnar í jafn langan tíma og raun ber vitni. Tímabært er að umræða um rétt íbúa gegn svifaseinni stjórnsýslu eigi sér stað.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja að nauðsynlegt sé því að grípa í taumana í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari tafir að óþörfu og flýta því eins og kostur er að framkvæmdir geti hafist. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa á undanförnu sett fram sambærileg sjónarmið. Er tilgangur þessa frumvarps að veita framkvæmdaleyfi til framkvæmdarinnar með lögum til að eyða óvissu um það atriði. Eftir sem áður þurfa önnur skilyrði að uppfyllast, svo sem getur í frumvarpstextanum.“

smari@bb.is

Býður sig fram gegn Guðjóni

Sigurður Orri ætlar í prófkjörsslag við Guðjón Brjánsson.

Sigurður Orri Kristjánsson hefur gefið kost á sér til að sitja í 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Sigurður Orri er 29 ára gamall og er frá Stykkishólmi og Hólmavík. „Ég lít á það sem nauðsyn að Samfylkingin verði að styrkja sig í kjördæminu fyrir komandi kosningar. Ég tel að ég sé rétti maðurinn vegna þess að ég hef óbilandi baráttugleði og sannfæringu fyrir því hvað þarf að gera í Samfylkingunni og fyrir samfélagið,“ skrifar hann í framboðsyfirlýsingu.

Guðjón S. Brjánsson alþingismaður var efsti maður á lista flokksins í kosningunum fyrir ári og hann ætlar að gefa kost á sér í oddvitasætið á ný.

Guðjón Brjánsson

„Það er erfitt að bjóða sig fram gegn sitjandi þingmanni, ég geri mér fulla grein fyrir því,“ skrifar Sigurður Orri en segist meta það svo að til þess að Samfylkingin eigi möguleika á að stækka þá verði hún að bjóða fram nýtt fólk með ferska framsetningu, ferskar hugmyndir og kjark til þess að láta í sér heyra.

„Þó ég þekki þingmann okkar í kjördæminu af góðu, er hann frekar langþreyttur til vandræða og hefur ekki skapað sér nafn á þeim 248 dögum sem hann hefur setið á Alþingi. Ég lít svo á að 6% fylgi okkar í kjördæminu síðast sé ákall á breytingar, ekki ákall á sama lista,“ segir í yfirlýsingunni.

Um helgina verður aukafundur í kjördæmisráði flokksins og þar verður kosið um fjóra efstu menn á lista Samfylkingarinnar.

smari@bb.is

Þurfa að færa kvíar vegna uppsöfnunar úrgangs

Sjóvkíar við Hlaðseyri. Mynd: mbl.is/Helgi Bjarnason.

Botndýralíf í innanverðum Patreksfirði hefur tekið breytingum vegna uppsafnaðs lífræns úrgangs frá laxeldi við Hlaðseyri. Í skýrslu Náttúrstofu Vestfjarðar kemur fram að botndýrasamfélög á kvíasvæðinu og innan við það hafi verið í slæmu ástandi en í nokkra tuga metra fjarlægð frá kvíunum var ástandið betra. Frá þessu var fyrst greint í Fréttablaðinu.

Sjávarbotninn við Hlaðseyri er tiltölulega flatur en dreifing lífræns úrgangs virðist ekki jöfn umhverfis kvíarnar. Útlitsleg einkenni og brennisteinslykt sets sýndu merki um lífræna uppsöfnun við kvíarnar og mælingar sýna að lífræn uppsöfnun hafi einnig átt sér stað innan við kvíasvæðið og sjávarstraumar virðast því flytja lífrænan úrgang meira í áttina inn fjörðinn.

Arnarlax óskaði eftir botnsýnatöku við Hlaðseyri í Patreksfirði á síðasta ári og vann Náttúrustofa Vestfjarða rannsóknina. Fyrirtækið var að reyna að fá alþjóðlega ASC-vottun sem er vottun fyrir ábyrgt og sjálfbært fiskeldi í sjó. Eldissvæðið við Hlaðseyri stenst ekki þær kröfur.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Kristian Matthíassyni, forstjóra Arnarlax, að kvíarnar verði færðar og fiskur fari ekki aftur út við Hlaðseyri. „Við erum búin að slátra úr kvíunum og munum svo setja kvíarnar annað. Þessi staðsetning uppfyllir ekki þau skilyrði sem við setjum umhverfinu okkar,“ segir Kristian.

Kort af kvíasvæðinu.

smari@bb.is

Fær 13,8 milljónir vegna vangoldinna launa

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Ríkissjóður þarf að greiða Erni Erlendi Ingasyni, lækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Dómur þess efnis féll í Hæstarétti í síðustu viku. Örn starfaði sem yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og í kjölfar sameiningar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar var Erni tilkynnt um að starf hans hafi verið lagt niður frá og með 1. janúar 2015. Var hann á biðlaunum frá þeim degi til loka sama árs.

Í málinu krafðist Örn að viðurkennt væri að niðurlagning á starfi hans væri ólögmæt og í öðru lagi krafðist hann greiðslu vegna svokallaðra gæsluvakta sem hann taldi sig eiga rétt til á biðlaunatímanum. Í þriðja lagi krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar niðurlagningar starfsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af öllum kröfum Arnar í júlí í fyrra og áfrýjaði hann málinu til Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttar er þeim hluta er varðar ólögmæta uppsögn og greiðslu miskabóta vísað frá dómi en fallist á að ríkinu ber að greiða honum fyrir gæsluvaktir á biðlaunatímanum, alls 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta.

Í rökstuðningi Hæstaréttar er vísað til að gæsluvaktir hefði verið óháðar vinnuframlagi og væru því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefðu verið taldar falla undir biðlaun. Þá segir í lögum réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn heldi óbreyttum launakjörum á biðlaunatíma.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir