Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2141

Hundur að sunnan er ekki nóg fyrir Vestfirðinga!

„Vesturlína, aðalorkuflutningslína Landsnets til Vestfjarða, bilaði aðfaranótt föstudags og er hún enn biluð. Búist er við að viðgerð á henni ljúki í kvöld. Síðastliðna nótt varð bilun í Mjólkárvirkjun sem veldur því að þar er nú engin orka framleidd. Í morgun bilaði díselvél á Þingeyri og í kjölfar þeirrar bilunar hefur þurft að skammta rafmagn á norðanverðum Vestfjörðum. Búast má við rafmagnsleysi í 1-2 tíma í senn þar sem skammtað er. Skorað er á íbúa á norðanverðum Vestfjörðum að spara rafmagn sem kostur er.“

Svo segir í Morgunblaðinu 24. janúar 2009.

Slíkar og þvílíkar fréttir og tilkynningar hafa verið daglegt brauð hér fyrir vestan í áratugi. Menn eru löngu orðnir hundleiðir á þessu ástandi. Oft kemur það fyrir að spenna fer upp eða niður eftir atvikum. Þá verða menn fyrir alls konar fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Þetta er vont og það venst ekki. Rekstraröryggið í rafmagnsmálum Vestfirðinga hefur sárvantað og er úti í Hróa hetti! Svo er verið að keyra díselvélar þegar allt um þrýtur.  Þetta sjá allir menn, eins og síra Baldur tók oft til orða. Spyrja verður: Þarf þetta að vera svona?

Sagan segir okkur, að Mjólkárvirkjun í botni Borgarfjarðar, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar, hafi tekið til starfa 1958. Mjólká 1 var 2,400 kílówött. Seinna komu svo ýmsar dótturvirkjanir þar til sögunnar ásamt nokkrum smávirkjunum annarsstaðar. Síðan kom „hundur að sunnan“ í formi rafmagnslínu sem kallast Vesturlína. Hefur hún séð Vestfirðingum fyrir stórum hluta þeirrar raforku sem þeir hafa þurft á að halda. Þetta er góður hundur, en klikkar oft þegar verst gegnir.

Nú er vitað að flestar ef ekki allar stórvirkjanir okkar eru staðsettar á sívirku eldgosabelti landsins. Og flutningslínur eru þvers og kruss um allt það landssvæði. Sú staða getur því hæglega komið upp að Vestfirðir fái ekki eitt einasta kílóvatt eftir hundinum að sunnan, jafnvel langtímum saman. Á þetta hafa vísir menn margoft bent.

Mjólká 1 var byggð við mjög frumstæðar aðstæður. Hálfgert kraftaverk. Hún veitti birtu og yl um Vestfirði og gerði þá byggilegri. Ráðherra raforkumála sagði við vígslu hennar, að virkjunin myndi duga Vestfirðingum í nánustu framtíð. Sá spádómur rættist nú ekki. Þá þurfti að reisa stauravirki og strengja víra yfir fjöll og firnindi, strendur, firði og dali. Mikilvirkir, stórhuga og lagtækir menn voru þar að verki. Það er ekki þeirra sök að náttúruöflin hafa stundum kubbað rafmagsstaurana sundur eins og eldspýtur, oft í tugatali í einu. Þá hefur fjalladeild Orkubús Vestfjarða og fleiri oft unnið þrekvirki við að koma rafmagni aftur á. Svona hefur þetta gengið endalaust.

Það var kraftaverk að rafvæða Vestfirði á sínum tíma. Og koma orkunni nánast á hvert byggt ból þegar upp var staðið. En það þurfti staura og línur. Ekki er vitað til að nokkur Vestfirðingur né aðrir hafi beðið tjón á sálu sinni þrátt fyrir alla þá nauðsynlegu tréstaura sem stóðu undir rafmagnslínunum og standa enn. Hitt er annað að auðvitað vilja flestir góðir menn að rafstrengir séu í jörðu. Það ætti nú ekki að vera ofverkið okkar í dag miðað við fyrri afrek í dreifingu rafmagns.

Vestfirðinga sárvantar öruggt og stöðugt rafmagn. Lái þeim það hver sem vill. Þetta eilífa basl þeirra að halda rafmagninu inni er löngu orðinn brandari. En þeir eiga að framleiða sitt rafmagn sjálfir. Þeir eru ekkert of góðir til þess! Á Vestfjörðum er hægt að reisa og reka öruggustu vatnsvirkjanir landsins. Það hlýtur bara að vera þjóðhagslega hagkvæmt. Vestfirðingar gætu svo selt öðrum landsmönnum pottþétta orku allan ársins hring í smáum stíl, ef út í það væri farið. Þetta vita allir menn, góði, hefði sálusorgarinn í Vatnsfirði sagt!

Upp með Vestfirði!

Hallgrímur, Guðmundur og Bjarni

Tófan er gæludýr í Arnarfirði

Mari vinnukona sér um að baða tófurnar.

Á afskekktum sveitabæ við Arnarfjörð hafa menn tekið upp á því að ala refi sem gæludýr. Bóndinn segir að eftir nokkrar vikur í tamningu fylgi refurinn þér eins og hundur. Í fréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við Árna B. Erlingsson á Laugarbóli í Arnarfirði og Mari Kemppainen, finnska vinnukonu á bænum.

„Við höfum bara oft haft yrðlinga hér sem gæludýr og við höfum oft getað haft þá í nokkur ár,” segir Árni bóndi á Laugabóli.

Yrðlingarnir tveir, sem nú eru á bænum, komu úr greni sem refaskyttur unnu í vor, – þeir einu sem fengu að lifa af sjö.

„Við biðjum nú bara refaveiðimenn, sem eru að vinna greni, um að hlífa einum eða tveimur fyrir okkur. Og þeir færa okkur þetta. Svo höfum við þá bara hér eins og gæludýr, núna aðallega fyrir ferðamennina, því núna erum við komin í ferðaþjónustu. Ásamt lauginni hefur þetta bara töluvert aðdráttarafl,” segir Árni.

smari@bb.is

Vissara að taka til hlý og vatnsvarin föt

Veður­fræðing­ur Veður­stofu Íslands mæl­ir með því að fólk sem hygg­ur á ferðalög um helg­ina hafi til ör­ygg­is regn­föt og hlýj­an fatnað með í fartesk­inu. Veður­spá­in er ágæt fyr­ir helg­ina.

Veður­spá fyr­ir næstu daga

Hæg breyti­leg átt eða haf­gola, en norðaust­an 5-10 m/​s við NV-strönd­ina á morg­un. Skýjað með köfl­um og sums staðar skúr­ir, einkum inn til lands­ins síðdeg­is. Hiti 9 til 16 stig, hlýj­ast SV-lands.

Á laug­ar­dag og sunnu­dag:
Hæg breyti­leg átt eða haf­gola. Skýjað með köfl­um og lík­ur á síðdeg­is­skúr­um í flest­um lands­hlut­um, einkum inn til lands­ins. Hiti 10 til 16 stig um há­dag­inn, en mun sval­ara að næt­ur­lagi.

Á mánu­dag (frí­dag­ur versl­un­ar­manna) og þriðju­dag:
Lík­ur á norðanátt með vætu öðru hvoru á N- og A-landi, en ann­ars bjartviðri. Hiti 7 til 16 stig, hlýj­ast syðst.

Á miðviku­dag og fimmtu­dag:
Lík­lega hægviðri, skýjað með köfl­um og milt veður, en skúr­ir á víð og dreif.

„Bú­ist er við þokka­legu ef ekki ágætis­veðri um helg­ina, frem­ur hæg­um vind­um, en skúr­um á víða og dreif og sums staðar síðdeg­is­demb­um. Hiti verður á bil­inu 10 til 16 stig að deg­in­um, en mun sval­ara að næt­ur­lagi, jafn vel næt­ur­frost á stöku stað. Sum­ar tölvu­spár gera ráð fyr­ir norðanátt á frí­degi versl­un­ar­manna með rign­ingu á Norður- og Aust­ur­landi, en spá­in ætti ekki að fæla neinn frá úti­vist né úti­leg­um í nátt­úru lands­ins, sem skart­ar sínu feg­ursta um þess­ar mund­ir. Til að spilla ekki gleðinni er þó viss­ara að hafa hlý og vatns­var­in föt meðferðis þegar haldið er á vit æv­in­týr­anna,“ seg­ir í hug­leiðing­um veður­fræðings á vef Veður­stofu Íslands.

smari@bb.is

Stefnir í hörkumót í forinni

Eins og flestir vita verður Evrópumeistaramótið í mýrarbolta haldið í Bolungarvík í ár, en frá upphafi hefur mótið haft heimilisfesti á Ísafirði. Benedikt Sigurðsson er drullusokkur Mýrarboltans og mótið leggst vel í hann. „Mér sýnist að skráningar séu fleiri en í fyrra og það eru komin 20 lið. Vanir mýrarboltamenn segja að oft bætast við lið á síðustu stundu svo liðunum gæti fjölgað,“ segir Benedikt. Leikið verður á tveimur splunkunýjum völlum og Benedikt hefur staðið í ströngu við að vökva vellina í þeirri þurrkatíð og brakandi sól sem hefur verið fyrir vestan síðustu daga. „Drullan er að ná príma ástandi og veðurspáin fyrir morgundaginn er góð svo það stefnir í hörkumót,“ segir Benedikt.

Blásið verður til leiks á morgun á slaginu tólf og Benedikt segir að mótið klárist á morgun. Hann vill koma á framfæri áskorun. „Það er enginn Mýrarbolti án Fallega smiðsins, Péturs Magnússonar. Hann var fæddur til að spila mýrarbolta. Ég skora á Pétur og lið hans, FC Kareoke, að mæta á morgun og verja titilinn frá því í fyrra.“

smari@bb.is

Íslandsmeistaramót í Kubbi

Hefð mun vera komin á að halda Íslandsmeistaramót í kubbi á verslunarmannahelginni á Flateyri og verður það haldið á sunnudaginn kl. 14:00. Að sögn keppnishaldara munu vegleg verðlaun vera í boði og dómari að þessu sinni er Tryggvi Jónsson.

Spilað verður í þriggja manna liðum og fer mótið fram á flötinni við Hafnarstræti, fyrir framan Vagninn. Skráningu þarf að senda fyrir kl. 18:00 laugardaginn 5. ágúst á netfangið semsagt@gmail.com.

Að móti loknu munu Hálfdán Pedersen og Freyr Frostason stjórna flugeldasýningu og er themað er að þessu sinni „Aldingarðurinn Eden, forboðnir ávextir“

Meðfylgjandi myndir voru teknar á mótinu í fyrra sem var fjölmennt og skemmtilegt.

bryndis@bb.is

Þórður spilað í öllum leikjum

Þórður Gunnar Hafþórsson

Þórður Gunnar Hafþórsson leikmaður Vestra er þessa dagana að spila með U17 ára landsliði Íslands á Norðurlandamótinu sem haldið er hér á landi.  Þórður kom inn á sem varamaður í fyrsta leik Íslands sem endaði með góðum sigri á Norður Írum 3-0.  Þórður var svo í byrjunarliðinu þegar Ísland gerði 1-1 jafntefli við Noreg á þriðjudag. Hann var aftur í byrjunarliðinu í gær í tapleik við Pólverja.

Ísland endaði í þriðja sæti riðilsins á eftir Noregi og Póllandi, en Norður-Írland rak lestina í fjórða sæti. Síðasti leikur liðsins er á morgun þegar liðið mætir Finnum í leik um fimmta sætið á mótinu.

smari@bb.is

Skjól í Gallerí Úthverfu

Á laugardag opnar ný sýning í Gallerí Úthverfu að að þessu sinni er það myndskáldið Halla Birgisdóttir.

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum ýmist sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og/eða kvik-teikningar. http://www.hallabirgisdottir.org

Sýning Höllu Birgisdóttur í Gallerí Úthverfu opnar kl. 16 á laugardaginn og stendur til sunnudagsins 10. september.

Skjól

Skjól getur verið af tvennum toga, annars vegar skjól sem griðastaður og hins vegar skjól sem felustaður.  

Sum myndlist segir mikið um listamanninn sjálfan, til dæmis hvaða lífsýn hann hefur og hvað vekur áhuga hans. Hvort við hlustum á það fer eftir því hvað myndlistarmaðurinn er áhugaverður. 

Önnur myndlist leitar út fyrir sjálfa sig og vill koma pólitískum skilaboðum áleiðis til fjöldans, til dæmis um spillingu í stjórnmálum eða umhverfismál. Hvort sú myndlist nái eyrum manns fer gjarnan eftir því hvort skilaboðin staðfesti eigin sýn á þessi málefni eða ekki. 

Svo er til myndlist sem talar hvorki um sjálfa sig né umhverfið í heild sinni. Þetta er myndlist sem á í einkasamtali við hvern og einn áhorfanda. Þannig er myndlistin hennar Höllu Birgisdóttur.

Steinunn Lilja Emilsdóttir

 

Aukið umferðareftirlit

Lögreglan á Vestfjörðum hefur eflt umferðareftirlit í umdæminu öllu með hliðsjón af aukinni umferð. Allt er þetta gert í þágu umferðaröryggis og eru ökumenn hvattir til að fara að lögum enda er það farsælast og öruggast.

Átján ökumenn voru kærðir í gær fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi en einnig í Strandasýslu. Einn þessara ökumanna var kærður í tvígang fyrir hraðakstursbrot í Djúpinu.

smari@bb.is

Tugir hnýðinga í Steingrímsfirði

Fleiri tug­ir hnýðinga stukku og léku sér í Stein­gríms­firði í gær gest­um hvala­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Láki Tours frá Hólma­vík til mik­ils yndis­auka. Hnýðing­ar eru smá­hval­ir, eða allt að tveir metr­ar að stærð og eru af höfr­unga­kyni.

Líkt og höfr­ung­ar sjást þeir gjarn­an við Íslands­strend­ur og eru oft marg­ir sam­an í hjörð. Þá er það ekki gefið að þeir séu í svona miklu stuði eins og í gær.

 

Stórafmæli ungmennafélagsins Geisla

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Ungmennafélagið Geisli í Súðavík á fertugsafmæli um þessar mundir og haldin verður afmælisveisla af því tilefni samhliða gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina. Afmælisdagskráin verður á laugardag, 5. ágúst,  kl. 14 í Samkomuhúsi Súðavíkur. Þar verður risastór afmæliskaka í boði og kaffi og gos fyrir alla. Fyrsti formaður Geisla, Egill Heiðar Gíslason, mun fara yfir vel valin brot úr sögu félagsins. Þjálfari Geisla, Halldór Jónbjörnsson, mun segja nokkur orð og formaður Geisla, Birgir Ragnarsson, mun afhenda viðurkenningar og peningastyrk í tilefni afmælisins. Eftir ræðuhöld þá verður slegið upp dansleik fyrir börnin, þar sem hinir eldri eru líka hvattir til að sýna hvað í þeim býr. Um kvöldið verður svo dansleikur í Samkomuhúsinu kl. 22, með karaoke og fjölbreyttri tónlist að því loknu þar sem ballgestir fagna afmælinu inn í nóttina. Félagar í Geisla munu grilla pylsur utan við Samkomuhúsið eftir miðnætti til að tryggja að enginn fari svangur út í nóttina.

Nýjustu fréttir