Síða 2141

Hefur öll einkenni eldislax

Laxinn sem veiddist í Laugardalsá í síðustu viku.

Lax sem veiddist í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi í síðustu viku hefur öll einkenni eldisfisks. Þegar fiskurinn veiddist vaknaði strax grunur um að fiskurinn væri af eldisuppruna og var honum komið til sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Guðni Guðbergsson, sviðstjóri ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að fiskurinn hafi verið skemmdir á uggum eins er þekkt með eldislaxa. „Hann hafði líka samgróninga í innyflum sem koma í kjölfar bólusetningar eldisseiða en slíkt sést ekki í villtum fiskum. Greining á hreistri getur verið erfið án þess að hafa samanburð af hreistri úr kvíum á svæðinu því ýmiskonar meðhöndlun getur haft áhrif á hreisturmynstur,“ segir Guðni.

Hann telur líklegast að fiskurinn hafi sloppið úr kví sumarið 2016 og verið vetur í sjó og haldið sig þar framan af sumri í ár. Ekki er búið að DNA-greina fiskinn en það verður gert innan tíðar.

„Af útliti að dæma hafði þessi fiskur öll einkenni eldislax en ekki er hægt að svo stöddu að segja til um hvar hann hefur verið alinn,“ segir Guðni.

smari@bb.is

Skorar á Pawel og félaga að falla frá frumvarpinu

Lögreglufélag Vestfjarða hefur áhyggjur af umræðu í þjóðfélaginu um lögleiðingu fíkniefna. Í ályktun aðalfundar félagsins er skorað á þá þingmenn sem hafa lagt fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna að falla frá frumvarpinu. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og þau Sigrún Ingibjörg Gísladóttir frá Viðreisn og Píratarnir Gunnar Hrafn Jónsson og Jón Þór Ólafsson eru meðflutningamenn.

Í ályktun aðalfundar eru fyrri ályktanir félagsins ítrekaðar og skorað á stjórnvöld að efla og styrkja lögregluna í landinu með auknum fjárheimildum og fjölgun lögreglumanna. Fundurinn minnir á þverpólitíska skýrslu innanríkisráðuneytisins um löggæsluþörf, sem gefin var út árið 2014 þar sem kom fram að lögreglumenn á Vestfjörðum skyldu vera 27 árið 2017.  Fjárheimildir í dag leyfa aðeins 21 lögreglumann.

Fundurinn skorar á stjórnvöld að ganga frá kjarasamningi sem gerður var við lögreglumenn haustið 2015. Enn er ekki búið að ganga frá svokallaðri bókun 7 um álagsgreiðslur til lögreglumanna. Samkvæmt samningi átti bókunin að vera afgreidd 10.desember 2015.

smari@bb.is

Spáir eldi á geldfiski innan nokkurra ára

Sigurður Guðjónsson

„Áhrif­in eru mest næst eld­is­stöðvun­um þannig að all­ar ár lands­ins eru ekki í hættu, en við mun­um sjá eld­islaxa í laxveiðiám,“ sagði Sig­urður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, á morgunfundi sjávarútvegsráðuneytisins um áhættumat Hafrannsóknastofnunar. Að hans mati eru stóru fréttirnar í áhættumatinu að áhrif laxeldis á villta stofna eru staðbundnari en áður var talið.

Í máli hans kom fram að tvær leiðir eru færar til að koma í veg fyrir erfðablöndun villtra laxastofna og eldisfisks. Annars vegar með því að koma í veg fyrir strok og hins vegar með því að hindra æxlun með því notkun á ófrjóum fiski. „Það dró veru­lega úr stroki með breytt­um reglu­gerðum varðandi búnað í Nor­egi,“ sagði Sig­urður og bætti við að útsetning stórseiða í stað smáseiða sem mótvægisaðgerð. Smærri seiði eru líklegri til að komast út eldiskvíum og stærri seiði eru ólíklegri til að lifa af nái þau að sleppa.

Hann spáir því að innan nokkurra ára verði komin ófjór lax í fiskeldi og þá er sá áhættuþáttur eldisins úr sögunni. Eftir sem áður verða til staðar vandamál tengd laxalús, sjúkdómum og uppsöfnun úrgangs.

smari@bb.is

Segir Hvalárvirkjun forsendur fyrir hringtengingu

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar um breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps vegna áforma um byggingu Hvalárvirkjunar.

„Með virkjun Hvalár og hringtengingu verður því komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum, með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni,“ segir í umsögninni.

Nefndin gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytingarnar.

smari@bb.is

Leggur til óbreyttan lista

Fimm efstu á listanum fyrir ári ásamt Einari K. Guðfinnssyni sem skipaði heiðurssætið.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi leggur til að listi flokksins verði óbreyttur í kosningunum í lok október. Þetta kemur fram í bréfi kjördæmisráðsins til flokksmanna. Flokkurinn fékk þrá þingmenn kjörna í kosningnum í fyrra, þau Harald Benediktsson, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Teit Björn Einarsson. Í bréfinu frá kjördæmisráði segir meðal annars:

„Það er mat stjórnar kjördæmisráðsins að bæði tíma og kröftum okkar Sjálfstæðismanna sé betur varið í kosningabaráttu en samkomur flokkssystkina. Stjórn kjördæmisráðsins vill því freista þess að leiða fram niðurstöðu um framboðslista á sem skemmstum tíma. Það er því tillaga stjórnar kjördæmisráðs og kjörnefndar að leggja til að sami framboðslisti muni gilda við komandi kosningar og verður það tillaga fyrir fundinn sem boðaður er kl 12, sunnudaginn 1. október nk. Rætt hefur verið við alla frambjóðendur og eru þeir undantekningalaust tilbúnir til að taka sitt sæti og taka þátt í kosningabaráttunni.“

smari@bb.is

Þurrt og aðgerðarlítið veður

Meðan rigningin lemur allt utan á Austurlandi er veðrið aðgerðalítið og þurrt á Vestfjörðum, spámenn Veðurstofunnar spá norðlægri átt 5-13 m/s og hvassast á annesjum. Skýjað og yfirleitt þurrt en gæti rignt síðdegis. Hiti 6-11 stig.

Það er útlit fyrir áframhaldandi votviðri og vatnavöxtum á Suðausturlandi og Austfjörðum en rigningarnar á Austurlandi hafa valdið miklu tjóni og eru um 70 ferðalangar strandaglópar í fjöldahjálparstöðvum sem voru opnaðar í Hofgarði og Mánagarði. Þjóðvegurinn hefur verið tekinn sundur á nokkrum stöðum og brýr eru í hættu. Flætt hefur yfir tún og á vef RÚV kemur fram að óttast er að um 50 lömb hafi drukknað. Talsverðri úrkomu er spáð í fyrripartinn í dag og aukinni hættu á skriðuföllum.

smari@bb.is

Nýr götusópur

Sveinn Sörensen, Kristján Andri og Grímur Fannar Eiríksson, sölumaður hjá Krafti ehf.

Starfsmenn þjónustumiðstöðvar (áhaldahúss) Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun nýjan og glæsilegan götusóp af gerðinni Bucher CityFant 6000. Kristján Andri Guðjónsson bæjarverkstjóri og Sveinn Sörensen tækjamaður tóku á móti sópnum sunnan heiða í gær og óku á honum vestur á firði. Nú eru tækjamenn þjónustumiðstöðvar að máta sig við sópinn og prufa nýju græjuna á planinu við áhaldahúsið, en í beinu framhaldi verður byrjað að nota hann á götum Ísafjarðarbæjar.
Með öllu kostar sópurinn tæplega 33 milljónir króna. Gamli sópurinn, sem hefur staðið fyrir sínu í áratugi, var orðinn ansi viðhaldsfrekur eins og gerist með aldrinum. Óvíst er hvort hann verður seldur eða hvort hann nýtt hlutverk. Þetta kemur fram á facebook síðu Ísafjarðarbæjar.

bryndis@bb.is

Uppf. 10:35. Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ kostaði gripurinn 27 milljónir en ekki 33 milljónir.

Vandræðaskáld í Edinborg

Vandræðaskáldin Vilhjálmur og Sesselía.

Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason halda í tónleikaför og munu á leið sinni koma fram á Ísafirði, en þau hafa ekki gerst svo fræg fyrr. Á tónleikunum sem bera yfirskriftina „Vandræðaskáld vega fólk“ gera Vandræðaskáldin einmitt það, halda út á veginn og vega fólk og meta, en vega það þó ekki nema nauðsyn beri til. Vopnuð sínum kolsvarta húmor og hárbeittri þjóðfélagsádeilu ætla þau að fjalla um lífið, ástina og dauðann á sinn einstaka hátt. Á ferðalaginu er ekkert heilagt og Vandræðaskáldin hika ekki við að segja óborganlegar og óviðeigandi sögur, grípa til hyldjúprar heimspeki og að vitna í bílaleiguna Hertz.

Vandræðaskáldin verða í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardagskvöld kl. 21.

smari@bb.is

Rótary boðar til fundar um fiskeldi

Einar Kristinn Guðfinnson

Rótaryklúbbur Ísafjarðar boðar til opins fundar um fiskeldismál í kvöld á Hótel Ísafirði og hefst hann klukkan 20:00. Einar Kristinn Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva er frummælandi fundarins.

bryndis@bb.is

Missa starfsfólk vegna skorts á húsnæði

Hagstofan spáir miklum íbúðafjárfestingum.

Dæmi eru um að atvinnurekendur á landsbyggðinni missi starfsfólk vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Lágt markaðsverð kemur í veg fyrir nýbyggingar. Á fundi Íbúðalánasjóðs á Akureyri í gær var rætt um slæmt ástand í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Frá fundinum var greint á vef RÚV. Víða í hinum dreifðu byggðum hefur fólki fjölgað en sá hængur hefur verið á að nýtt húsnæði hefur ekki fylgt. Flestar nýbyggingar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutdeild landsbyggðarinnar í nýju húsnæði dregist verulega saman eftir hrun.

„Það eru aukin atvinnutækifæri, ferðaþjónusta hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og ekki síst úti á landsbyggðinni en á sama tíma sjá atvinnurekendur fram á að missa starfsfólk vegna þess að það er ekki til húsnæði og virðist ekkert vera í uppbyggingu,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir