Síða 2141

Ólíkar eldisaðferðir kalla á endurmat áhættumatsins

Endurmeta þarf áhættumat Hafrannsóknastofnunar með hliðsjón af ólíkum eldisaðferðum. Þetta er mat Báru Gunnlaugsdóttur, eins stjórnenda Stofnfisks, en hún var frummælandi á morgunfundi sjávarútvegsráðuneytisins þar sem áhættumat Hafrannsóknastofnunar var til umræðu.

Það er fyrst og fremst útsetning á stórseiðum að hausti sem getur minnkað líkur á erfðablöndun. „Lífs­lík­ur haust­seiða eru sagðar minni en þeirra sem sleppa á vor­in, þess vegna skipt­ir máli hversu mikið er sett út á hverj­um tíma. Það er ekki sama áhætta hjá eld­is­fyr­ir­tæki sem set­ur út 50.000 haust­seiði og eld­is­fyr­ir­tæki sem set­ur út 50.000 göngu­seiði að vori. Til þessa er ekki tekið til­lit til í líkani Hafró,“ seg­ir Bára.

Hún benti einnig á að hjá eldishængum sem ganga í ár tekst hrygning í 1-3% tilvika en í um 30% tilvika hjá hrygnum. Þess vegna þurfi að taka tillit til hlutfalls hrygna og hænga sem sleppa og sagði að það ætti að vera hægt að nálgast kynþroska­töl­ur úr kví­um hjá fisk­vinnsl­um sem vinna eld­islax. Þá er til tækni til að draga úr tíðni kynþroska og er það gert með ljósastýringu.

„Það er ekki rétt að setja eld­isstaði með mis­mun­andi eldisaðferðir í sama áhættu­flokk. Líkanið verður að taka til­lit til þeirra aðferða sem fyr­ir­tæki hafa inn­leitt,“ sagði Bára.

smari@bb.is

Þindarlausir Vestfirðingar

Átta Ísfirðingar hlupu heilt maraþon í Berlín um síðustu helgi og voru flest að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur maraþonhlaupara var stemningin á hlaupadaginn ógleymanleg en þrír bestu maraþonhlauparar heims voru skráðir til keppni og búast var við að nú yrði heimsmet slegið enda þykir brautin í Berlín bjóða upp á mikinn hraða. Ekki varð af því og þóttu aðstæður þennan dag afar erfiðar og fór svo að tveir ef þessum þremur kempum luku ekki keppni.

Hólmfríður Vala, Arna Lára, Ólöf Dómhildur og Hafdís

Það var Eliud Kiphoge frá Kenýa sem sigraði og lét hann þau orð falla að þetta hefði verið erfiðasta maraþon sem hann hefði hlaupið en þátt tóku að þessu sinni tæplega 44 þúsund manns frá 137 löndum.

Ólöf Dómhildur og Hafdís

 

 

 

Ísfirðingarnir voru hins vegar alsælir með aðstæður og hentaði bæði raki og hitastig hinum vestfirsku víkingum vel. Þau sem hlupu voru Gullrillurnar Arna Lára Jónsdóttir, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Hafdís Gunnarsdóttir og með þeim voru Jóhann Dagur Svansson, Gunnar Bjarni Guðmundsson og þeir hlaupabræður Atli Þór Jakobsson og Daníel Jakobsson. Allir skiluðu sér yfir marklínuna.

Eftir rúmar tvær vikur munu 40 manna hópur frá Ísafirði keppa í Amsterdam maraþoninu.

bryndis@bb.is

Vestri og Sindri mætast í bikarnum

Í dag var dregið í 32 liða úrslit Maltbikarsins í höfuðstöðvum KKÍ – Körfuknattleikssamband Íslands. Meistaraflokkur Vestra mætir Sindra frá Hornafirði en liðið leikur í 2. deild Íslandsmótsins. Leikið verður í 32 liða úrslitunum dagana 14.-16. október og leikur Vestra og Sindra verður á Hornafirði.

Vestramenn hitta fyrir gamlan liðsmann, en Yima Chia-Kur sem lék með Vestra á síðasta tímabili er nú spilandi þjálfari Sindra.

B-lið Vestra tekur einnig þátt í Maltbikarnum og dróst liðið gegn B-liði KR og verður leikið í íþróttahúsinu á Torfnesi.

smari@bb.is

Starfshópur um skemmtiferðaskip – staða mála?

Mynd: Ágúst Atlason

Í vor stóð Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samstarfi við fleiri aðila. Þótti ráðstefnan takast vel og nú, hálfu ári síðar, er fróðlegt að vita hvernig stefnumótun Ísafjarðarbæjar í málaflokknum miðar áfram og hvort efniviður ráðstefnunnar hafi nýst í þeirri vinnu. Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir kemur í Vísindaport vikunnar til að fara yfir stöðu mála en Sigríður er formaður starfshóps bæjarins um komur skemmtiferðaskipa.

Um tuttugu ár eru síðan Ísafjarðarbær markaði sér fyrst stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Ísafirði. Markmiðið þá var að Ísafjarðarhöfn yrði þriðja stærsta viðkomuhöfn slíkra skipa á Íslandi. Það markmið náðist fyrir allmörgum árum og síðasta vetur var starfshópur settur á laggirnar á vegum bæjarins til að móta að nýju stefnu í málaflokknum. Bærinn tók einnig virkan þátt í ráðstefnunni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ sem fram fór á Ísafirði í byrjun apríl en ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Vesturferða og fleiri aðila. Á ráðstefnunni kenndi margra grasa og var tilgangur hennar m.a. sá að nýtast við frekari stefnumótun sveitarfélaga í þessum vaxandi hluta ferðaþjónustu á Íslandi.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Hún hefur víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu, hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Ísafjarðarbæ og gegnir nú formennsku í starfshópi bæjarins sem ætlað er að móta tillögur um hvernig best verður staðið að móttöku skemmtiferðaskipa í sveitarfélaginu til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Vísindaport er opið öllum áhugasömum en það stendur frá 12.10-13.00 á morgun föstudag í kaffistofu Háskólaseturs.

smari@bb.is

Grunnbreytingar sem snúa að byggðamálum

Ásmundur Einar Daðason

Það er þjóðhagslega mikilvægt að hafa öfluga byggð allt í kringum landið. Eftir efnahagshrunið varð landsbyggðin fyrir meiri blóðtöku í formi tapaðra opinberra starfa en höfuðborgarsvæðið, það var dregið meira úr stuðningi við menningartengda starfsemi á landsbyggðinni, meira var skorið niður hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum o.s.frv. Nú þegar góðæri ríkir í hagkerfinu erum við því miður að sjá sömu þróun halda áfram. Það segjast allir vera sammála um að mikilvægt sé að snúa þessari þróun við og ég trúi því að víðtækur vilji sé til þess. En af hverju gerist það ekki?

Mikil gagnrýni hefur komið fram á byggðastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Svo mikil að ákveðnir þingmenn eru þegar farnir að hlaupast undan eigin fjárlagatillögum í aðdraganda kosninga.

Fjárlagagerð ríkisins var nýlega breytt og höfðu margir áhyggjur af því að nýja vinnulagið myndi sjálfkrafa veikja dreifðar byggðir landsins. Verið væri að færa ráðuneytum aukið vald og minnka möguleika lýðræðislegra kjörinna fulltrúa til að hafa áhrif. Undirritaður var einn þeirra sem hafði áhyggjur af þessu og Framsóknarflokkurinn lagði til ýmsar breytingar til að tryggja stöðu hinna dreifðu byggða. M.a. var samþykkt að fjárlagafrumvarp hvers árs skyldi fara í sérstaka byggðaúttekt sem unnin væri af Byggðastofnun. Hugsunin var sú að Byggðastofnun ynni þvert á málaflokka, væri virkur aðili við fjárlagagerðina og veitti aðhald í ólíkum málaflokkum. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir að tillögur sem hefðu mjög byggðaraskandi áhrif væru lagðar fram. Byggðastofnun hefur sjálf sagt að markmið þeirrar hugsunar sem lýst er í lögum um opinber fjármál sé ekki að nást.

Það er algert lykilatriði að ráðast í grunnbreytingar sem snúa að byggðamálum.

  • Það verður að ráðast í breytingar á lögum um opinber fjármál. Þar verður að tryggja að byggðamál komist að á fyrri stigum fjárlagagerðar. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar verða líka að hafa óskerta möguleika til að þess að koma stefnu sinni til framkvæmda í gegnum fjárlagafrumvarpið.
  • Það verður að koma á þeirri vinnureglu að lagafrumvörp, reglugerðir og aðrar stjórnvaldsaðgerðir séu metnar út frá áhrifum á byggðir landsins áður en þær eru lagðar fram. Hefði slíkt vinnulag verið til staðar þá hefðu skelfilegar tillögur ríkisstjórnarinnar til lausnar á vanda sauðfjárræktarinnar aldrei litið dagsins ljós.

Ég er sannfærður um að þessar breytingar myndu oft á tíðum koma í veg fyrir það að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera þegar kemur að byggðamálum.

Gleymum því síðan aldrei að almennar byggðaaðgerðir efla ekki einungis dreifbýl svæði landsins heldur fær ríkissjóður og þjóðin öll ávinninginn margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Ásmundur Einar Daðason

 

Hefur öll einkenni eldislax

Laxinn sem veiddist í Laugardalsá í síðustu viku.

Lax sem veiddist í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi í síðustu viku hefur öll einkenni eldisfisks. Þegar fiskurinn veiddist vaknaði strax grunur um að fiskurinn væri af eldisuppruna og var honum komið til sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Guðni Guðbergsson, sviðstjóri ferskvatnslífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að fiskurinn hafi verið skemmdir á uggum eins er þekkt með eldislaxa. „Hann hafði líka samgróninga í innyflum sem koma í kjölfar bólusetningar eldisseiða en slíkt sést ekki í villtum fiskum. Greining á hreistri getur verið erfið án þess að hafa samanburð af hreistri úr kvíum á svæðinu því ýmiskonar meðhöndlun getur haft áhrif á hreisturmynstur,“ segir Guðni.

Hann telur líklegast að fiskurinn hafi sloppið úr kví sumarið 2016 og verið vetur í sjó og haldið sig þar framan af sumri í ár. Ekki er búið að DNA-greina fiskinn en það verður gert innan tíðar.

„Af útliti að dæma hafði þessi fiskur öll einkenni eldislax en ekki er hægt að svo stöddu að segja til um hvar hann hefur verið alinn,“ segir Guðni.

smari@bb.is

Skorar á Pawel og félaga að falla frá frumvarpinu

Lögreglufélag Vestfjarða hefur áhyggjur af umræðu í þjóðfélaginu um lögleiðingu fíkniefna. Í ályktun aðalfundar félagsins er skorað á þá þingmenn sem hafa lagt fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna að falla frá frumvarpinu. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og þau Sigrún Ingibjörg Gísladóttir frá Viðreisn og Píratarnir Gunnar Hrafn Jónsson og Jón Þór Ólafsson eru meðflutningamenn.

Í ályktun aðalfundar eru fyrri ályktanir félagsins ítrekaðar og skorað á stjórnvöld að efla og styrkja lögregluna í landinu með auknum fjárheimildum og fjölgun lögreglumanna. Fundurinn minnir á þverpólitíska skýrslu innanríkisráðuneytisins um löggæsluþörf, sem gefin var út árið 2014 þar sem kom fram að lögreglumenn á Vestfjörðum skyldu vera 27 árið 2017.  Fjárheimildir í dag leyfa aðeins 21 lögreglumann.

Fundurinn skorar á stjórnvöld að ganga frá kjarasamningi sem gerður var við lögreglumenn haustið 2015. Enn er ekki búið að ganga frá svokallaðri bókun 7 um álagsgreiðslur til lögreglumanna. Samkvæmt samningi átti bókunin að vera afgreidd 10.desember 2015.

smari@bb.is

Spáir eldi á geldfiski innan nokkurra ára

Sigurður Guðjónsson

„Áhrif­in eru mest næst eld­is­stöðvun­um þannig að all­ar ár lands­ins eru ekki í hættu, en við mun­um sjá eld­islaxa í laxveiðiám,“ sagði Sig­urður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, á morgunfundi sjávarútvegsráðuneytisins um áhættumat Hafrannsóknastofnunar. Að hans mati eru stóru fréttirnar í áhættumatinu að áhrif laxeldis á villta stofna eru staðbundnari en áður var talið.

Í máli hans kom fram að tvær leiðir eru færar til að koma í veg fyrir erfðablöndun villtra laxastofna og eldisfisks. Annars vegar með því að koma í veg fyrir strok og hins vegar með því að hindra æxlun með því notkun á ófrjóum fiski. „Það dró veru­lega úr stroki með breytt­um reglu­gerðum varðandi búnað í Nor­egi,“ sagði Sig­urður og bætti við að útsetning stórseiða í stað smáseiða sem mótvægisaðgerð. Smærri seiði eru líklegri til að komast út eldiskvíum og stærri seiði eru ólíklegri til að lifa af nái þau að sleppa.

Hann spáir því að innan nokkurra ára verði komin ófjór lax í fiskeldi og þá er sá áhættuþáttur eldisins úr sögunni. Eftir sem áður verða til staðar vandamál tengd laxalús, sjúkdómum og uppsöfnun úrgangs.

smari@bb.is

Segir Hvalárvirkjun forsendur fyrir hringtengingu

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Þetta kemur fram í umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar um breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps vegna áforma um byggingu Hvalárvirkjunar.

„Með virkjun Hvalár og hringtengingu verður því komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum, með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni,“ segir í umsögninni.

Nefndin gerir ekki athugasemdir við skipulagsbreytingarnar.

smari@bb.is

Leggur til óbreyttan lista

Fimm efstu á listanum fyrir ári ásamt Einari K. Guðfinnssyni sem skipaði heiðurssætið.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi leggur til að listi flokksins verði óbreyttur í kosningunum í lok október. Þetta kemur fram í bréfi kjördæmisráðsins til flokksmanna. Flokkurinn fékk þrá þingmenn kjörna í kosningnum í fyrra, þau Harald Benediktsson, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Teit Björn Einarsson. Í bréfinu frá kjördæmisráði segir meðal annars:

„Það er mat stjórnar kjördæmisráðsins að bæði tíma og kröftum okkar Sjálfstæðismanna sé betur varið í kosningabaráttu en samkomur flokkssystkina. Stjórn kjördæmisráðsins vill því freista þess að leiða fram niðurstöðu um framboðslista á sem skemmstum tíma. Það er því tillaga stjórnar kjördæmisráðs og kjörnefndar að leggja til að sami framboðslisti muni gilda við komandi kosningar og verður það tillaga fyrir fundinn sem boðaður er kl 12, sunnudaginn 1. október nk. Rætt hefur verið við alla frambjóðendur og eru þeir undantekningalaust tilbúnir til að taka sitt sæti og taka þátt í kosningabaráttunni.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir