Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2140

Ætlar að bíða eftir stefnumótunarnefndinni

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, ætlar að móta sína afstöðu til framtíðar fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þegar nefnd um stefnumótun í fiskeldi hefur lokið störfum og skilað niðurstöðu. Hún ætlar að horfa til þess hvernig fiskeldisfyrirtækin kynni áform sín um öryggiskröfur og mótvægisaðgerða vegna slysasleppinga. „Ég mun hlusta á rök fagaðila með og á móti fiskeldi í Djúpinu í ljósi hagsmuna svæðisins, umhverfisþátta og áhættu fyrir laxastofninn og lífríkið,“ segir Lilja Rafney.

Hún segir afstöðu sína til sjókvíaeldis vera þekkta. „Ég hef verið hlynnt  sjókvíaeldi að uppfylltum ströngum skilyrðum um að til að mynda sé horft til umhverfisþátta, fullkomins búnaðar og sátt við annað atvinnulíf og að eldi sé staðbundið,“ segir Lilja Rafney sem telur ekki rétt að sjá sig frekar um málið að svo stöddu en vonar að „skynsamleg niðurstaða náist í málið þar sem miklir hagsmunir liggja undir.“

Stefnumótunarnefndin á að skila sínum tillögum þann 15. ágúst.

smari@bb.is

Stórtíðindi á Íslandsmeistaramóti í Kubbi

Íslandsmeistarar í kubbi 2017

Það var líf og fjör á flötinni við Hafnarstræti á Flateyri á sunnudaginn en þar fór fram „Íslandsmeistaramóti í kubbi 2017“. Það voru 23 lið sem öttu þar kappi og greinilegt að liðin komu betur undirbúin en í fyrra því liðið Hafberg sem hampaði meistaratitlinum 2016 komst ekki einu sinni í úrslit.

Það voru Reykjavíkurdætur sem komu, sáu og sigruðu og hlutu að launum gullfallegan og viðeigandi bikar sem hannaður var af Hönnu Jónsdóttir.  Í lýsingu Huldars Breiðfjörð mótshaldara segir að „liðið sé verðugur meistari með glæsilega spilamennsku og hafi sigrað með fallegu regnbogakasti í lokin, en það sé svar kubbsins við hjólhestaspyrnu í knattspyrnu“. Lið Reykjavíkurdætra skipar parið Emelía Eiríksdóttir og Guðlaug Jónsdóttir og dætur Guðlaugar.

Huldar sem er aðalmaðurinn í þessum nýja viðburði í viðburðaflóru Vestfjarða segir mótið komið til að vera.

bryndis@bb.is

„Ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni“

Gísli Halldór Halldórsson.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra kom til Ísafjarðar í gær og fundaði með sveitar- og bæjarstjórum í Súðavíkhreppi, Ísafjarðarbæ og Bolungarvík. Tilefni fundarins var uppbygging laxeldis í Ísafjarðardjúpi sem Hafrannsóknastofnun hefur lagst gegn. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að fundurinn sé ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni. „En við gerum þó ráð fyrir að ráðherra hlusti á okkar sjónarmið sem eru að áhættumat Hafró getur aldrei verið annað en lítill þáttur þegar heildarhagsmunir sjálfbærni, bæði náttúru og samfélaga, eru skoðaðir. Þá skiptir engu hversu góð eða slæm skýrsla Hafró er,“ segir Gísli Halldór.

Hann óttast að stjórnvöld ætli að taka of mikið tillit til áhættumats Hafró sem leggst gegn laxeldi í Djúpinu vegna neikvæðra áhrifa á þrjár laxveiðiár. „Þá er verið að verið að sleppa því að taka tillit til hagsmuna þeirra 5.000 íbúa sem búa í þessum sveitarfélögum. Annars vegar eru þetta heildarhagsmunir samfélaganna og hins vegar hagsmunir veiðiréttarhafa í þremur ám. En við trúum ekki öðru en að á okkur verði hlustað,“ segir Gísli Halldór.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, leggur áherslu á að það verður aldrei sátt um að loka Djúpinu. „Það er skýr krafa samfélagsins að það verði farið af stað með fiskeldi í Djúpinu með hliðsjón af þeim mótvægisaðgerðum sem er mælt með í skýrslu Hafró. Ég hef fulla trú á að sú leið er bæði skynsamleg og möguleg,“ segir Jón Páll.

 

smari@bb.is

Góður dagur í drullunni

Fjórtán karla- og kvennalið öttu kappi á Evrópumeistaramótinu í mýrarbolta sem fór fram í Bolungarvík á laugardag. Skraplið A stóð upp sem sigurvegari í karlaflokki og FC Drulluflottar í kvennaflokki. Skraplið er hugtak sem varð til snemma í sögu Mýrarboltans, en heitið nær yfir lið sem er skrapað saman á síðustu stundu og oft og tíðum þekkjast leikmenn ekki neitt. FC Drulluflottar hafa tekið þátt í Mýrarboltanum um árabil og hafa hampað Evrópumeistaratitlinum oftar en einu sinni.

„Þetta tókst bara mjög vel,“ segir Benedikt Sigurðsson, drullusokkur Mýrarboltans. „Það var frábært veður og góð stemning. Það þarf að bleyta betur upp í völlunum á næsta ári. Við erum að læra inn á svæðið enda er þetta í fyrsta skipti sem mótið er haldið í Bolungarvík.“

Stór kostur við að halda mótið í Bolungarvík er nálægð vallanna við sundlaugina. „Við heyrðum það frá mörgum að það væri gott að geta rölt yfir í sundlaug og skolað af sér drulluna.“

Benedikt segir að menn muni stefna að því ótrauðir að halda mótið í Bolungarvík að ári. „Við erum reynslunni ríkari og á næsta ári stefnum við á stærra mót með fleiri viðburðum fyrir alla fjölskylduna.“

smari@bb.is

Ókeypis námsgögn í Bolungarvík

Bæjarstjórn Bolungarvíkur ákvað við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 að nemendum í Bolungarvík verði útveguð öll námsgögn sem til þarf við skólagönguna. Í frétt á vef sveitarfélagsins segir að með ókeypis námsgögnum sé verið að koma í veg fyrir mismunun barna og styðja við að öll börn njóti jafnræðis í námi. Það sé stefna Bolungarvíkurkaupstaðar að gera sveitarfélagið að betri kosti fyrir fjölskyldur, búa vel að íbúum sínum og bjóða upp á bestu mögulegu þjónustu sem hægt er.

bryndis@bb.is

Engar forsendur fyrir lokun Djúpsins

Gunnar Bragi Sveinsson.

„Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis. Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.“ Þetta kemur fram í grein Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eitt af lokaverkum Gunnars Braga sem sjávarútvegsráðherra var að setja á laggirnar stefnumótunarnefnd í fiskeldi en hún hóf störf fyrir rétt rúmu ári.

Sveitar- og bæjarstjórar Súðavíkurhrepps, Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar gagnrýndu stefnumótunarnefndina harðlega eftir fund í síðustu viku. Í yfirlýsingu sögðu þeir að nefndin ætli ekki að taka tillit til samfélagslegra hagsmuna íbúa við Djúp af uppbyggingu laxeldis.

Í greininni segir Gunnar Bragi:

„Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.“

smari@bb.is

Stóra myndin í uppbyggingu fiskeldis

Gunnar Bragi Sveinsson.

Síðastliðið haust setti ég af stað sem sjávarútvegsráðherra, vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi en þar var lagt upp með að taka tillit til allra þeirra þátta sem varða uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Erfðablöndun er mikilvægur þáttur af þeirri heildarmynd en alls ekki sá eini. Árið 2004 var megnið af strandlengju landsins lokað fyrir fiskeldi til þess að passa uppá íslenska laxastofninn og þá sérstaklega gagnvart erfðablöndun. Í ráðherratíð minni var ég spurður útí þá aðgerð af ráðherrum annarra landa, sem fannst mikið til koma hve langt Íslendingar væru að ganga til þess að vernda íslenska laxastofninn.

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvöðrun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Þegar ég tók þá ákvörðun að fiskeldissvið Hafrannsóknarstofnunar skyldi staðsett á Ísafirði frá og með árinu 2018 og að eftirlit Matvælastofnunar yrði staðsett á Vestfjörðum og Austfjörðum, var það m.a. til að sýna í  verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina. Hlakka ég til að sjá starfsemi þessara stofnana vaxa og eflast á Vestfjörðum í nálægð við uppbygginguna.

Í stærra samhengi er svo fiskeldi að verða sífellt stærri hluti af fiskneyslu í heiminum og við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir. Mikil verðmætasköpun fylgir eldinu sem þjóðarbúið og byggðir landsins njóta, viðsnúningurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er lifandi dæmi þess.

Við erum í þeirri forréttindastöðu að vera að byggja eldi hér upp nánast frá grunni, þannig getum við lært af mistökum okkar og annarra eldisþjóða og tryggt að gera þetta rétt og vel. Vestfirðingum hefur fækkað um 25% á síðustu 30 árum og þeir eru ekki að biðja um álver eða stóriðju, þeir eru að biðja um sanngirni ríkisvaldsins, að það leggist ekki í veg fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu með boðum og bönnum heldur finni lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta slíkri starfsemi. Fyrir því mun ég berjast inní umhverfisnefnd þingsins og á þinginu sjálfu.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður og oddviti Framsóknarflokssins í Norðvesturkjördæmi

 

Styttir upp seint í kvöld

Eftir góða og sólríka en stundum kalda Verslunarmannahelgi liggur fyrir að það muni rigna hressilega í dag. Næstu daga mun svo taka við nokkur kuldatíð sem úr rætist þegar dregur að helgi.

Allt landið

Sunnan og suðvestan 8-15 með rigningu og súld. Hægari vindur og birtir til á austanverðu landinu, en bætir í vind og fer að rigna þar í kvöld. Norðvestan 5-13 á morgun og rigning með köflum en þurrt syðst. Hiti yfirleitt 6 til 16 stig að deginum, hlýjast austan- og suðaustanlands á morgun.

bryndis@bb.is

Mildi að ekki fór verr

Umferðin gekk að mestu vel fyrir sig um verslunarmannahelgina, að sögn Einars Magnúsar Magnússonar, sérfræðings hjá Samgöngustofu. Þó hefði getað farið enn verr þegar tveir slösuðust í bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði í gær  „En það verða síðan svona tilfelli sem vekja mann til umhugsunar eins og bílvelta sem varð á Steingrímsfjarðarheiði í hádeginu í gær. Þá er húsbíll sem veltur og vitni segja að hann hafi farið sjö veltur. Við megum þakka fyrir að það varð ekki banaslys þarna, því annar þeirra sem þarna voru kastaðist út úr honum. Að áliti okkar og lögreglu eru það sterkar vísbendingar um að það að viðkomandi hafi ekki verið í öryggisbelti,“ sagði Einar Magnús í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

smari@bb.is

Strandveiðikvótinn aukinn

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að auka aflaheimildir til strandveiða um 560 tonn og verða strandveiðiheimildir því 9.760 tonn á þessari vertíð. Í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að með þessari ákvörðun sé verið að koma til móts við samþykkt stjórnar Landssambands smábátaeigenda þar sem skorað var á ráðherra að auka aflaviðmiðin í ágúst þar sem strandveiðarnar í ár hafi ekki uppfyllt væntingar. Þrátt fyrir að færri stundi veiðarnar í ár en í fyrra, og meira komi í hlut hvers og eins, þá er aflaverðmæti nú fjórðungi minna en í fyrra. Mest kemur í hlut svæðis A, sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps, eða 250 tonn.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að ekki sé verið að auka heildaraflaheimildir heldur sé þetta tilfutningur á heimildum.

Auknar heimildir skiptast hlutfallslega á milli strandveiðisvæðanna fjögurra og er gert ráð fyrir því að þessi viðbót geti alla vega aukið sókn um tvo daga á hverju svæði.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir