Síða 2140

Kaupfélagið á Norðurfirði lokar í dag.

Kaupfélagshúsið á Norðurfirði.

Nú í dag föstudaginn 29 september lokar Kaupfélag Steingrímsfjarðar útibúi sínu á Norðurfirði, og er þetta síðasti dagur sem hægt er að versla þar. Lilja Björk Benediktsdóttir sem hefur verið verslunarstjóri frá fyrsta júní lætur þá af störfum. Hún hefur staðið í ströngu undanfarið að fara yfir allan lager og skrá allt og hafa útsölur á ýmsum vörum. Að sögn kaupfélagsstjóra er ekki grundvöllur fyrir að reka þetta útibú áfram.

Lilja Björk Benediktsdóttir síðasti verslunarstjórinn í KSH Norðurfirði.

Ekki er vitað hvað tekur við en Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps segir að tveir aðilar séu heitir með að taka við rekstrinum í einhverri mynd. En hvort verður úr því veit engin enn. Nú verður fólk að keyra til Hólmavíkur í aðalverslun Kaupfélags Steingrímsfjarðar þar. En það er um hundrað kílómetra leið önnur leiðin eða alls um 200 KM.

 

 

Þetta kemur fram á Litla Hjalla í dag.

bryndis@bb.is

Blakveisla á helginni

Það er annasöm helgi hjá blakstúlkum Vestra um helgina. 2. Flokkur stúlkna spilar við Þrótt Reykjavík kl. 11:00 á laugardaginn í Íþróttahúsinu á Þingeyri og er það í fyrsta sinn sem 2. flokkur spilar leiki heima og að heiman.

Á sunnudaginn kl. 14:00 tekur meistaraflokkur kvenna á móti ÍK a á Torfnesi en meistaraflokkur er að mestu byggður upp á yngri leikmönnum sem spila enn með 2. flokki.

bryndis@bb.is

 

Gunnar Bragi hættur í Framsókn

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra flokksins, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann hafi ákveðið að yfirgefa flokkinn. „Ég kveð flokkinn minn með mikilli sorg en sáttur við framlag mitt til hans. Ég mun sakna alls þess frábæra fólks sem þar er en margir þeirra hafa verið mér samferða þennan tíma,“ skrifar Gunnar Bragi á Facebook. Gunnar Bragi hefur verið oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi síðan 2009.

Gunnar Bragi  grein­ir frá því, að nú sé svo komið „að hrein­lyndið er á und­an­haldi í flokkn­um mín­um. Ein­hver ann­ar­leg öfl virðast hafa tekið for­ystu í flokkn­um, öfl sem ég hef lík­lega ekki verið nógu und­ir­gef­inn. Kaf­báta­hernaður er stundaður.“

Hann sóttist eftir oddvitasætinu í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í lok október, en fékk óvænt mótframboð frá Ásmundi Einari Daðasyni, fyrrverandi þingmanni flokksins.

Gunnar Bragi skrifar:

„Framsóknarfélagið mitt er klofið og ég sé að fólki er skipt í fylkingar. Gamla góða vinalega kveðjan er í sumum tilfellum orðin í besta falli kurteisisleg. Þetta á ekki að vera svona, þetta þarf ekki að vera svona. Öllu þessu mátti forða hefðu menn hlustað eða komið hreint fram. Því miður er það nú að rætast sem ég og fleiri vöruðum við og ég sagði við marga vini mína síðla sumars 2016 í upphafi innanflokksátakanna.

Þegar svona er komið þá veltir maður framtíðinni fyrir sér. Vil ég vinna í þessu umhverfi? Get ég unnið með fólki sem starfar með þessum hætti eða lætur það viðgangast? Ég hef undanfarið hitt eða hringt í fjöldann allan af frábæru fólki sem ýmist hvetur mig til að taka slaginn, „ekki láta þá komast upp með þetta“, eða þá að það hvetur mig til að draga mig í hlé vegna ástandsins í flokknum.“

smari@bb.is

Kynningarfundur um kalkþörungaverksmiðju í Súðavík

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á miðvikudaginn í næstu viku verður haldinn kynningarfundur vegna áforma Íslenska kalkþörungafélagsins efh. að reisa kalkþörungaverksmiðju í Súðavíku. Fyrirtækið hóf fyrir nokkru vinnu við gerð umhverfismats og á fundinum, sem verður í Samkomuhúsinu í Súðavík, verður frummatsskýrslan kynnt.

Áætlað er að kynna tilhögun framkvæmdarinnar og úttekt á hagrænum og félagslegum áhrifum kalkþörungaverksmiðju fyrir Súðavík og önnur byggðarlög við Djúp.

Eftir kynningar verður opnað fyrir spurningar frá íbúum, aukinheldur sem fulltrúar fundarins verða til skrafs og svara eftir fundinn.

Í tilkynningu frá Súðavíkurhreppi er íbúar sveitarfélagsins og nágrannasveitarfélaga hvattir til að mæta og kynna sér efni fundarins.

Fundurinn verður eins og áður segir í Samkomuhúsinu í Súðavík á miðvikudaginn og hefst kl. 17.

smari@bb.is

Fyrirtækjamót Kubba í pútti

Á dögunum fór fram fyrirtækjamót í pútti hjá Kubba, íþróttafélagi eldir borgara í Ísafjarðarbæ. Í mótinu tóku þátt 21 fyrirtæki og félög. Keppendur fyrirtækjanna voru bæði félagar úr Kubba og frá fyrirtækjunum sjálfum.

Fyrirtækjamótið er ein helsta fjáröflun félagsins og hefur verið haldið undanfarin átta ár.

Sigurvegari þetta árið var Fos.Vest á Ísafirði og lék Heiðar Guðmundsson fyrir þeirra hönd. Það var Finnur Magnússon sem landaði öðru sæti fyrir Hótel Ísafjörð og í þriðja sæti var Halldór Margeirsson fyrir hönd Tannsa á Torfnesi. Í fjórða sæti var Kristinn Kristjánsson sem keppti fyrir hönd Hraðfrystihússins Gunnvör.

bryndis@bb.is

Sigmundur vildi Harald Benediktsson

Haraldur Benediktsson.

Haraldi Benediktssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, var boðið að sæti á lista Miðflokksins í komandi kosningum. Frá þessu er greint á vef RÚV. Haraldur þáði ekki boðið, en hann ætlar að bjóða sig fram aftur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og allar líkur á að hann muni áfram leiða listann í kjördæminu. Miðflokkurinn er nýr flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins. Haraldi var boðið 1. sæti í Norðvesturkjördæmi, sem í frétt RÚV er sagt „öruggt sæti á lista Miðflokksins“.

„Þetta var nú ósköp vel meint og ég vona sannarlega að þeim gangi vel í sínu,“ er haft eftir Haraldi í fréttinni og jafnframt að það komi honum ekki á óvart að Miðflokkurinn beri í hann víurnar í ljósi áherslna hans í byggða- og landbúnaðarmálum sem eru í anda skandinavískar miðflokka.

smari@bb.is

Kostnaðurinn aukist um 7,5%

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um lands­ins hef­ur auk­ist um 126 þúsund krón­ur á milli ára, miðað við sept­em­ber 2016 og sama mánuð í ár.

Sam­kvæmt töl­um frá Hag­stof­unni er meðal­kostnaður á hvern grunn­skóla­nema 1.806.951 kr. í þess­um mánuði en var 1.680.683 kr. í sept­em­ber 2016, hækkun um 7,5%.

Við út­reikn­inga sína tek­ur Hag­stof­an mið af al­menn­um launa­hækk­un­um starfs­manna grunn­skóla og breyt­ing­um á vísi­tölu neyslu­verðs, að teknu til­liti til væg­is hvors þátt­ar fyr­ir sig í rekstr­ar­kostnaði grunn­skól­anna.

smari@bb.is

Ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig

Í síðustu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu fengu tveir ungir leikmenn tækifæri til að spreyta sig með meistaraflokki Vestra. Þetta eru Guðmundur Arnar Svavarsson og Ívar Breki Helgason, báðir fæddir árið 2002 og eru því rétt staðnir upp úr strigaskónum. Ívar Breki var 15 ára og 265 daga gamall þegar leikurinn fór fram og Guðmundur Arnar 14 ára og 329 daga gamall.

Drengirnir stóðu sig vel og munu væntanlega og vonandi festa sig í sessi sem reglulegir leikmenn meistaraflokks í framtíðinni. Það er ekki algengt að svo ungir leikmenn fái tækifæri í knattspyrnunni, enda mikil líkamleg átök í þessum leikjum. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir félagar, og allir þeirra liðsfélagar í 3. flokki Vestra, þroskast í náinni framtíð í þeirri von að Vestri geti stillt upp fleiri heimamönnum í liði sínu.

Á myndinni má sjá þá félaga í svokallaðri Hæfileikamótun KSÍ, en þangað eru valdir leikmenn sem líklegir þykja til framtíðarverka í yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu.

smari@bb.is

Þjóðleikhúsið frumsýnir á Ísafirði

Oddur og Siggi gera víðreist um landið í haust.

Þjóðleikhúsið frumsýnir verkið Oddur og Siggi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á þriðjudaginn og mun í kjölfarið halda hringinn í kringum landið og bjóða börnum á aldrinum 10-12 ára á sýninguna.

Leikritið Oddur og Siggi er nýtt íslenskt leikrit sem Björn Ingi Hilmarsson hefur samið í samstarfi við leikara í sýningunni, þá Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson. Björn Ingi er jafnframt leikstjóri verksins en það er hugsað sérstaklega fyrir börn á aldrinum 10-12 ára og verður sýnt á yfir 20 stöðum á landsbyggðinni á þessu leikári, börnum að kostnaðarlausu. Með þessu er leikhúsið að gefa börnum á öllu landinu kost á að njóta leiklistar óháð búsetu og efnahag.

Oddur og Siggi hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða okkur í veislu þar sem þeir fagna áratuga vinskap sínum og skemmta okkur eins og þeim einum er lagið. Þeir rifja upp ýmislegt úr sinni vinskapartíð. Grunnskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími, ekki satt? En það getur orðið flókið að eiga vini. Stundum verulega flókið. Þá getur verið gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. En maður getur víst ekki alltaf verið þar, eða hvað? Oddur og Siggi er skemmtileg, sorgleg og hjartnæm sýning, sem getur aukið meðlíðan og skilning, þar sem er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

Oddur og Siggi heimsækja eftirtalda staði:

Ísafjörð • Hólmavík •  Patreksfjörð • Akureyri • Mývatnssveit • Húsavík • Raufarhöfn • Vopnafjörð • Eskifjörð • Egilsstaði  • Fjallabyggð • Blönduós • Skagafjörð

smari@bb.is

Flugslysaæfing á Ísafjarðarflugvelli

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Flugslysæfing verður haldin á Ísafjarðarflugvelli þann 7. október. Æfingin verður á almannavarnarstigi sem felur í sér að allir viðbragðsaðilar sem tengjast almannavarnar viðbragði á svæðinu eru boðaðir til æfingarinnar.

Flugslysaæfingar eru haldnar á 4 ára fresti á öllum áætlunarflugvöllum landsins.

Um 150 manns komu að síðustu æfingu á Ísafjarðarflugvelli sem haldin var 2013.

Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að bæjarbúar eigi ekki láta sér bregða þótt þeir sjái reyk og blikkandi blá ljós á Ísafjarðarflugvelli um miðjan dag þann 7.október.

Þessar lögbundnu æfingar hafa einn megintilgang og hann er að auka öryggi flugfarþega á Íslandi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir