Síða 2140

Fyrirtækjamót Kubba í pútti

Á dögunum fór fram fyrirtækjamót í pútti hjá Kubba, íþróttafélagi eldir borgara í Ísafjarðarbæ. Í mótinu tóku þátt 21 fyrirtæki og félög. Keppendur fyrirtækjanna voru bæði félagar úr Kubba og frá fyrirtækjunum sjálfum.

Fyrirtækjamótið er ein helsta fjáröflun félagsins og hefur verið haldið undanfarin átta ár.

Sigurvegari þetta árið var Fos.Vest á Ísafirði og lék Heiðar Guðmundsson fyrir þeirra hönd. Það var Finnur Magnússon sem landaði öðru sæti fyrir Hótel Ísafjörð og í þriðja sæti var Halldór Margeirsson fyrir hönd Tannsa á Torfnesi. Í fjórða sæti var Kristinn Kristjánsson sem keppti fyrir hönd Hraðfrystihússins Gunnvör.

bryndis@bb.is

Sigmundur vildi Harald Benediktsson

Haraldur Benediktsson.

Haraldi Benediktssyni, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, var boðið að sæti á lista Miðflokksins í komandi kosningum. Frá þessu er greint á vef RÚV. Haraldur þáði ekki boðið, en hann ætlar að bjóða sig fram aftur fyrir Sjálfstæðisflokkinn og allar líkur á að hann muni áfram leiða listann í kjördæminu. Miðflokkurinn er nýr flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins. Haraldi var boðið 1. sæti í Norðvesturkjördæmi, sem í frétt RÚV er sagt „öruggt sæti á lista Miðflokksins“.

„Þetta var nú ósköp vel meint og ég vona sannarlega að þeim gangi vel í sínu,“ er haft eftir Haraldi í fréttinni og jafnframt að það komi honum ekki á óvart að Miðflokkurinn beri í hann víurnar í ljósi áherslna hans í byggða- og landbúnaðarmálum sem eru í anda skandinavískar miðflokka.

smari@bb.is

Kostnaðurinn aukist um 7,5%

Meðal­rekstr­ar­kostnaður á hvern nem­anda í grunn­skól­um lands­ins hef­ur auk­ist um 126 þúsund krón­ur á milli ára, miðað við sept­em­ber 2016 og sama mánuð í ár.

Sam­kvæmt töl­um frá Hag­stof­unni er meðal­kostnaður á hvern grunn­skóla­nema 1.806.951 kr. í þess­um mánuði en var 1.680.683 kr. í sept­em­ber 2016, hækkun um 7,5%.

Við út­reikn­inga sína tek­ur Hag­stof­an mið af al­menn­um launa­hækk­un­um starfs­manna grunn­skóla og breyt­ing­um á vísi­tölu neyslu­verðs, að teknu til­liti til væg­is hvors þátt­ar fyr­ir sig í rekstr­ar­kostnaði grunn­skól­anna.

smari@bb.is

Ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig

Í síðustu umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu fengu tveir ungir leikmenn tækifæri til að spreyta sig með meistaraflokki Vestra. Þetta eru Guðmundur Arnar Svavarsson og Ívar Breki Helgason, báðir fæddir árið 2002 og eru því rétt staðnir upp úr strigaskónum. Ívar Breki var 15 ára og 265 daga gamall þegar leikurinn fór fram og Guðmundur Arnar 14 ára og 329 daga gamall.

Drengirnir stóðu sig vel og munu væntanlega og vonandi festa sig í sessi sem reglulegir leikmenn meistaraflokks í framtíðinni. Það er ekki algengt að svo ungir leikmenn fái tækifæri í knattspyrnunni, enda mikil líkamleg átök í þessum leikjum. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir félagar, og allir þeirra liðsfélagar í 3. flokki Vestra, þroskast í náinni framtíð í þeirri von að Vestri geti stillt upp fleiri heimamönnum í liði sínu.

Á myndinni má sjá þá félaga í svokallaðri Hæfileikamótun KSÍ, en þangað eru valdir leikmenn sem líklegir þykja til framtíðarverka í yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu.

smari@bb.is

Þjóðleikhúsið frumsýnir á Ísafirði

Oddur og Siggi gera víðreist um landið í haust.

Þjóðleikhúsið frumsýnir verkið Oddur og Siggi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á þriðjudaginn og mun í kjölfarið halda hringinn í kringum landið og bjóða börnum á aldrinum 10-12 ára á sýninguna.

Leikritið Oddur og Siggi er nýtt íslenskt leikrit sem Björn Ingi Hilmarsson hefur samið í samstarfi við leikara í sýningunni, þá Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson. Björn Ingi er jafnframt leikstjóri verksins en það er hugsað sérstaklega fyrir börn á aldrinum 10-12 ára og verður sýnt á yfir 20 stöðum á landsbyggðinni á þessu leikári, börnum að kostnaðarlausu. Með þessu er leikhúsið að gefa börnum á öllu landinu kost á að njóta leiklistar óháð búsetu og efnahag.

Oddur og Siggi hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða okkur í veislu þar sem þeir fagna áratuga vinskap sínum og skemmta okkur eins og þeim einum er lagið. Þeir rifja upp ýmislegt úr sinni vinskapartíð. Grunnskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími, ekki satt? En það getur orðið flókið að eiga vini. Stundum verulega flókið. Þá getur verið gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. En maður getur víst ekki alltaf verið þar, eða hvað? Oddur og Siggi er skemmtileg, sorgleg og hjartnæm sýning, sem getur aukið meðlíðan og skilning, þar sem er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

Oddur og Siggi heimsækja eftirtalda staði:

Ísafjörð • Hólmavík •  Patreksfjörð • Akureyri • Mývatnssveit • Húsavík • Raufarhöfn • Vopnafjörð • Eskifjörð • Egilsstaði  • Fjallabyggð • Blönduós • Skagafjörð

smari@bb.is

Flugslysaæfing á Ísafjarðarflugvelli

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Flugslysæfing verður haldin á Ísafjarðarflugvelli þann 7. október. Æfingin verður á almannavarnarstigi sem felur í sér að allir viðbragðsaðilar sem tengjast almannavarnar viðbragði á svæðinu eru boðaðir til æfingarinnar.

Flugslysaæfingar eru haldnar á 4 ára fresti á öllum áætlunarflugvöllum landsins.

Um 150 manns komu að síðustu æfingu á Ísafjarðarflugvelli sem haldin var 2013.

Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að bæjarbúar eigi ekki láta sér bregða þótt þeir sjái reyk og blikkandi blá ljós á Ísafjarðarflugvelli um miðjan dag þann 7.október.

Þessar lögbundnu æfingar hafa einn megintilgang og hann er að auka öryggi flugfarþega á Íslandi.

smari@bb.is

Ólíkar eldisaðferðir kalla á endurmat áhættumatsins

Endurmeta þarf áhættumat Hafrannsóknastofnunar með hliðsjón af ólíkum eldisaðferðum. Þetta er mat Báru Gunnlaugsdóttur, eins stjórnenda Stofnfisks, en hún var frummælandi á morgunfundi sjávarútvegsráðuneytisins þar sem áhættumat Hafrannsóknastofnunar var til umræðu.

Það er fyrst og fremst útsetning á stórseiðum að hausti sem getur minnkað líkur á erfðablöndun. „Lífs­lík­ur haust­seiða eru sagðar minni en þeirra sem sleppa á vor­in, þess vegna skipt­ir máli hversu mikið er sett út á hverj­um tíma. Það er ekki sama áhætta hjá eld­is­fyr­ir­tæki sem set­ur út 50.000 haust­seiði og eld­is­fyr­ir­tæki sem set­ur út 50.000 göngu­seiði að vori. Til þessa er ekki tekið til­lit til í líkani Hafró,“ seg­ir Bára.

Hún benti einnig á að hjá eldishængum sem ganga í ár tekst hrygning í 1-3% tilvika en í um 30% tilvika hjá hrygnum. Þess vegna þurfi að taka tillit til hlutfalls hrygna og hænga sem sleppa og sagði að það ætti að vera hægt að nálgast kynþroska­töl­ur úr kví­um hjá fisk­vinnsl­um sem vinna eld­islax. Þá er til tækni til að draga úr tíðni kynþroska og er það gert með ljósastýringu.

„Það er ekki rétt að setja eld­isstaði með mis­mun­andi eldisaðferðir í sama áhættu­flokk. Líkanið verður að taka til­lit til þeirra aðferða sem fyr­ir­tæki hafa inn­leitt,“ sagði Bára.

smari@bb.is

Þindarlausir Vestfirðingar

Átta Ísfirðingar hlupu heilt maraþon í Berlín um síðustu helgi og voru flest að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur maraþonhlaupara var stemningin á hlaupadaginn ógleymanleg en þrír bestu maraþonhlauparar heims voru skráðir til keppni og búast var við að nú yrði heimsmet slegið enda þykir brautin í Berlín bjóða upp á mikinn hraða. Ekki varð af því og þóttu aðstæður þennan dag afar erfiðar og fór svo að tveir ef þessum þremur kempum luku ekki keppni.

Hólmfríður Vala, Arna Lára, Ólöf Dómhildur og Hafdís

Það var Eliud Kiphoge frá Kenýa sem sigraði og lét hann þau orð falla að þetta hefði verið erfiðasta maraþon sem hann hefði hlaupið en þátt tóku að þessu sinni tæplega 44 þúsund manns frá 137 löndum.

Ólöf Dómhildur og Hafdís

 

 

 

Ísfirðingarnir voru hins vegar alsælir með aðstæður og hentaði bæði raki og hitastig hinum vestfirsku víkingum vel. Þau sem hlupu voru Gullrillurnar Arna Lára Jónsdóttir, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Hafdís Gunnarsdóttir og með þeim voru Jóhann Dagur Svansson, Gunnar Bjarni Guðmundsson og þeir hlaupabræður Atli Þór Jakobsson og Daníel Jakobsson. Allir skiluðu sér yfir marklínuna.

Eftir rúmar tvær vikur munu 40 manna hópur frá Ísafirði keppa í Amsterdam maraþoninu.

bryndis@bb.is

Vestri og Sindri mætast í bikarnum

Í dag var dregið í 32 liða úrslit Maltbikarsins í höfuðstöðvum KKÍ – Körfuknattleikssamband Íslands. Meistaraflokkur Vestra mætir Sindra frá Hornafirði en liðið leikur í 2. deild Íslandsmótsins. Leikið verður í 32 liða úrslitunum dagana 14.-16. október og leikur Vestra og Sindra verður á Hornafirði.

Vestramenn hitta fyrir gamlan liðsmann, en Yima Chia-Kur sem lék með Vestra á síðasta tímabili er nú spilandi þjálfari Sindra.

B-lið Vestra tekur einnig þátt í Maltbikarnum og dróst liðið gegn B-liði KR og verður leikið í íþróttahúsinu á Torfnesi.

smari@bb.is

Starfshópur um skemmtiferðaskip – staða mála?

Mynd: Ágúst Atlason

Í vor stóð Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samstarfi við fleiri aðila. Þótti ráðstefnan takast vel og nú, hálfu ári síðar, er fróðlegt að vita hvernig stefnumótun Ísafjarðarbæjar í málaflokknum miðar áfram og hvort efniviður ráðstefnunnar hafi nýst í þeirri vinnu. Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir kemur í Vísindaport vikunnar til að fara yfir stöðu mála en Sigríður er formaður starfshóps bæjarins um komur skemmtiferðaskipa.

Um tuttugu ár eru síðan Ísafjarðarbær markaði sér fyrst stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Ísafirði. Markmiðið þá var að Ísafjarðarhöfn yrði þriðja stærsta viðkomuhöfn slíkra skipa á Íslandi. Það markmið náðist fyrir allmörgum árum og síðasta vetur var starfshópur settur á laggirnar á vegum bæjarins til að móta að nýju stefnu í málaflokknum. Bærinn tók einnig virkan þátt í ráðstefnunni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ sem fram fór á Ísafirði í byrjun apríl en ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Vesturferða og fleiri aðila. Á ráðstefnunni kenndi margra grasa og var tilgangur hennar m.a. sá að nýtast við frekari stefnumótun sveitarfélaga í þessum vaxandi hluta ferðaþjónustu á Íslandi.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Hún hefur víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu, hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Ísafjarðarbæ og gegnir nú formennsku í starfshópi bæjarins sem ætlað er að móta tillögur um hvernig best verður staðið að móttöku skemmtiferðaskipa í sveitarfélaginu til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Vísindaport er opið öllum áhugasömum en það stendur frá 12.10-13.00 á morgun föstudag í kaffistofu Háskólaseturs.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir