Síða 2139

Gæludýr fái að fara á veitingastaði

Þessi gæti fengið inngöngu á kaffihús

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingu á reglugerð um hollustuhætti. Breytingar á reglugerðinni  kveða á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sé heimilt að leyfa gestum að koma með hunda, ketti og önnur gæludýr inn á veitingastaði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Einnig er gert ráð fyrir breytingu á reglugerðinni þar sem tilgreindir eru þeir staðir sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.

Frestur til að skila umsögnum um reglugerðardrögin er til 13. október.

smari@bb.is

Afnám tolla og lækkun VSK skilaði sér til neytenda

Í maí óskaði forsætisráðuneytið eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki að sér að greina áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag. Skýrsla Hagfræðistofunar liggur nú fyrir. Niðurstaðan er sú að lækkun gjalda hafi skilað sér í vasa  neytenda.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á tollum, vörugjöldum og virðisaukaskatti á síðustu árum. Tollar á allar vörur, að búvörum undanskildum, voru afnumdir í tveimur skrefum í ársbyrjun 2016 (föt og skór) og 2017 (aðrar vörur). Almenn vörugjöld voru afnumin í einum áfanga í ársbyrjun 2015. Almennur virðisaukaskattur var lækkaður úr 25,5% í 24% í ársbyrjun 2015 en lægra skattþrepið var hækkað úr 11% í 14% á sama tíma.

Hagfræðistofnun mat álagningu kaupmanna á átta tegundum innfluttra matvara, fatnaðar og heimilistækja á árunum 2014-2017. Verð eru borin saman fyrir og eftir kerfisbreytingu. Álagning kaupmanna er reiknuð út sem afgangsstærð þegar tillit hefur verið tekið til annarra verðþátta, aðflutningsgjalda og virðisaukaskattshlutfalls. Þróun álagningar í krónum er síðan notuð sem mælikvarði á kjarabætur neytenda. Stofnunin telur rétt að miða við álagningu í krónum fremur en hlutfallslega álagningu því stærstur hluti af rekstrarkostnaði verslana er óháður innkaupsverði á þeim vörum sem verslað er með.

Smásöluverð allra varanna lækkaði. Álagning kaupmanna, mæld í krónum, lækkaði eða breyttist lítið á sjö vörum af átta. Þannig lækkaði álagning á 1 kg. af strásykri úr 65 kr. árið 2014 í 41 kr. árið 2017, álagning á gallabuxum úr 8.462 kr. í 7.961 kr. og álagning á ísskápum úr 26.962 kr. í 20.515 kr. Álagning á skyrtum hækkaði hins vegar úr 5.729 kr. í 6.092 á sama tímabili.

smari@bb.is

Gistinóttum fjölgar

Gistinætur á hótelum í ágúst voru 457.600 sem er 2% aukning miðað við ágúst 2016. Um 53% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 243.600, sem er 2% aukning miðað við ágúst 2016. Gistinætur á Suðurnesjum voru 28.600 sem er 33% aukning frá fyrra ári, en á sama tíma jókst framboð herbergja á Suðurnesjum um 64%. Einnig fjölgaði gistinóttum á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða um 4% og á Suðurlandi um 3%. Gistinóttum á hótelum fækkaði frá sama mánuði í fyrra á Norðurlandi um 11% og á Austurlandi 3%.

Flestar gistinætur í ágúst áttu Bandaríkjamenn með 129.200, svo Þjóðverjar með 57.800 og Bretar með 39.000, en íslenskar gistinætur í ágúst voru 32.100. Gistinætur erlendra gesta voru 93% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum, en þeim fjölgaði um 3% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 9%.

Á tólf mánaða tímabili frá september 2016 til ágúst 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.197.000 sem er 21% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Á Vestfjörðum og Vesturlandi fjölgaði gistinóttum um 11% á tímabilinu.

smari@bb.is

Lítil veiði í Laugardalsá

Veiði er lokið í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi og sumarið er það næst lélegasta frá aldamótum. Í tölum sem birtast á vef Landssambands veiðifélaga kemur fram að 175 laxar bárust á land, 16 fleiri en hörmungarsumarið 2012 þegar veiðin var 159 laxar. Meðalveiðin frá 2000 er 338 laxar og veiðin í sumar því rétt rúmlega helmingur af því sem áin hefur gefið í meðalári.

Ekki eru komnar lokatölur úr Langadalsá en veiði lauk þar á sunnudaginn. Síðustu tölur eru frá 6. september og þá voru komnir 125 laxar á land.

Ytri-Rangá trónir sem fyrr á toppi íslenskra laxveiðiá með 6.835 laxa en veiði er ekki lokið í Rangánum.

smari@bb.is

Hvalárvirkjun

Gunnar Njálsson

Það hefur verið ótrúlegt og hreint dapurlegt að hlusta á alla þá umræðu sem hefur farið fram um hina fyrirhuguðu Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Umræða sem einkennist af ótrúlegri græðgi, skemmdarfýsn, skammsýni og meðvirkni með þeim sem hafa skipað sig sem björgunarmenn íbúa á Vestfjörðum. Margt gékk á í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar á sýnum tíma sem einkenndist af mikilli spillingu og ofbeldi og nú eru margir á Vestfjörðum og víðar í hlutverki Smára Geirssonar fyrrverandi bæjarstjóra Fjarðarbyggðar og þeir munu svo sannarlega umbun fyrir seinna meir.

Nú eru flestir sammála um að friðlýsa eigi Þjórsárverin og stóran hluta miðhálendisins. Er einhver munur á ósnortnum víðernum á Ófeigsfjarðarheiði og víðar á Vestfjörðum og á Þjórsárverum? Þar sem ríkisstjórnir og þjóðin hefur gerst aðilar af margsskonar samningum um bætta meðferð á íslenskri náttúru, þá vil ég spyrja. hafa þeir landeigendur og forsvarsmenn sveitarstjórna sem hafa landsumráð á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum á Ófeigsfjarðarheiði, spurt næstu kynslóðir um leifi? Nei, líklega ekki, en þeir mega vita það, að þeir eru ekki bara eigendur, heldur aðeins gæslumenn landsins. Íslenska þjóðin á þetta land. Hefur sala á vatnsréttindum landeigenda farið lögformlega leið og samþykkt í hreppsnefnd Árneshrepps?

Nú keppist mannkynið sem mest við að eyðileggja sem mest af okkar fagra hnetti sem er svo sannarlega lifandi og finnur til af þessum sárum sem sífellt bætast við. Eins er með eyjuna okkar fögru og nú er ætlunin að setja flögusár á höfuð hennar. Það er ekki mitt, eða þeirra sem mótmæla þessari aðför að Vestfirskri náttúru að leita lausnar á því hvernig á að koma á hringtengingu og útvega raforku á Vestfjörðum. Lausnin er til, en hún á ekki að felast í því að stórskemma ósnortin víðerni.

Gunnar Njálsson

Grundarfirði

Hafsteinn og Auður í U17 landsliðið

Hafsteinn Már Sigurðsson og Auður Líf Benediktsdóttir

Þau Hafsteinn Már Sigurðsson og Auður Líf Benediktsdóttir í Vestra hafa verið valin í U17 landsliðið í blaki og fara um miðjan október  til Ikast í Danmörku.

Auður Líf var í janúar kjörin efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðabæjar 2016 og er að hefja sitt þriðja tímabil í meistaraflokki Vestra. Þetta er í annað sinn sem Auður fer til Danmerkur með landsliði U17.

Feðgarnir Hafsteinn Már Sigurðsson og Sigurður Jón Hreinsson

 

 

Hafsteinn er heldur enginn nýgræðingur í blaki en hann fór með landsliði U17 til Búlgaríu í vor og til Danmerkur í desember 2016, sömuleiðis hampaði hann meistaratitli með Vestra í vor.

Thiomir Paunovski þjálfari Vestra mun fylgja þeim til Danmerkur en hann er aðstoðarþjálfari kvennaliðsins í þessari ferð. Guðrún Ósk Ólafsdóttir hjá Vestri var valin til vara .

 

Um helgina má svo fylgjast með þeim Auði og Guðrúnu keppa við Þrótt Reykjavík og ÍK a.

bryndis@bb.is

Pétur, Daði Freyr og Þórður Gunnar verðlaunaðir

F.v. Pétur Bjarnason, Daði Freyr Arnarsson og Hafþór Halldórsson sem tók við verðlaununum fyrir hönda Þórðar sonar síns, en Þórður er í Finnlandi að spila með U-17 landsliðinu.

Á laugardaginn fór fram lokahóf knattspyrnudeildar Vestra. Þrátt fyrir að gengi liðsins í sumar hafi verið vonbrigði gátu leikmenn, stjórn og velunnarar skemmt sér vel um kvöldið og lögðu línurnar fyrir næsta keppnistímabil. Þrír leikmenn fengu viðurkenningar, þeir Pétur Bjarnason sem var markahæstur í sumar, Daði Freyr Arnarsson sem var valinn leikmaður ársins og Þórður Gunnar Hafþórsson sem var valinn efnilegasti leikmaður meistaraflokks.

smari@bb.is

Brúðuleikhús í Bolungarvík

Handbendi er brúðuleikhús með höfuðstöðvar á Hvammstanga og á sunnudaginn kl. 17:00 sýnir Handbendi brúðuverkið Tröll eftir Gretu Clough í Félagsheimili Bolungarvíkur.

Síðar mun verkið verða sýnt á nokkrum stöðum á Norðurlandi, og eftir að sýningum á Íslandi lýkur mun verkið fara til South Bank Centre í Lundúnum. Það er einstakur viðburður að verk frá atvinnuleikhúsi sem rekið er í litlu þorpi eins og Hvammstanga sé að fara að sýna í jafn glæsilegu húsi og South Bank Centre er, við bakka Thames í miðborg Lundúna. Tröll hefur verið sýnt rúmlega 30 sinnum nú þegar, og mun fá 40 sýningar í viðbót áður en október rennur sitt skeið. Tröll verða sýnd í Tjarnarbíó þann 30. september og fara leikferð um Norðurland til 5. október þegar sýningin heldur til Lundúna til mánaðarloka, og lýkur leikferðinni í South Bank Centre. Handbendi er líka að sýna Kúrudag víða um heim, og býður upp á brúðusýninguna Búkollu fyrir skóla á Íslandi í gegnum verkefnið List fyrir alla.
bryndis@bb.is

Kaupfélagið á Norðurfirði lokar í dag.

Kaupfélagshúsið á Norðurfirði.

Nú í dag föstudaginn 29 september lokar Kaupfélag Steingrímsfjarðar útibúi sínu á Norðurfirði, og er þetta síðasti dagur sem hægt er að versla þar. Lilja Björk Benediktsdóttir sem hefur verið verslunarstjóri frá fyrsta júní lætur þá af störfum. Hún hefur staðið í ströngu undanfarið að fara yfir allan lager og skrá allt og hafa útsölur á ýmsum vörum. Að sögn kaupfélagsstjóra er ekki grundvöllur fyrir að reka þetta útibú áfram.

Lilja Björk Benediktsdóttir síðasti verslunarstjórinn í KSH Norðurfirði.

Ekki er vitað hvað tekur við en Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps segir að tveir aðilar séu heitir með að taka við rekstrinum í einhverri mynd. En hvort verður úr því veit engin enn. Nú verður fólk að keyra til Hólmavíkur í aðalverslun Kaupfélags Steingrímsfjarðar þar. En það er um hundrað kílómetra leið önnur leiðin eða alls um 200 KM.

 

 

Þetta kemur fram á Litla Hjalla í dag.

bryndis@bb.is

Blakveisla á helginni

Það er annasöm helgi hjá blakstúlkum Vestra um helgina. 2. Flokkur stúlkna spilar við Þrótt Reykjavík kl. 11:00 á laugardaginn í Íþróttahúsinu á Þingeyri og er það í fyrsta sinn sem 2. flokkur spilar leiki heima og að heiman.

Á sunnudaginn kl. 14:00 tekur meistaraflokkur kvenna á móti ÍK a á Torfnesi en meistaraflokkur er að mestu byggður upp á yngri leikmönnum sem spila enn með 2. flokki.

bryndis@bb.is

 

Nýjustu fréttir