Síða 2139

Komnir 111 metra inn í fjallið

Munni Dýrafjarðarganga en göngin opna haustið 2020.

Starfsmenn Suðurverks og tékkneska verktakafyrirtækisins Metrostav sem eru að grafa Dýfjarðargöng eru komnir 111 m inn í fjallgarðinn milli Arnarfjarðar og Dýrfjarðar. Þrjár vikur eru síðan gangagröftur hófst og með hverri vikunni eykst gangurinn. Í fyrstu vikunni, sem ekki var heil vinnuvika, voru grafnir 15 m, í viku tvö komust þeir 43 m og síðustu viku 52 m. Mestmegnis af efni úr göngum er keyrt í vegfyllingar. Á athafnsvæðinu í Arnarfirði er unnið að uppsetningu skrifstofuaðstöðu.

smari@bb.is

Eva Pandora efst hjá Pírötum

Eva Pandora Baldursdóttir

Prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi lauk á laugardaginn. Eva Pandora Baldursdóttir alþingismaður mun leiða lista Pírata í kosningunum síðar í mánuðinum, líkt og hún gerði fyrir ári. Gunnar I. Guðmundsson varð í öðru sæti í prófkjörinu rétt eins og í kosningunum 2016. Prófkjör Pírata fer fram á internetinu og gátu aðeins þeir tekið þátt sem voru skráðir í flokkinn 30 dögum áður en prófkjörið hófst.

Efstu menn í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi:

  1. Eva Pandora Baldursdóttir
  2. Gunnar Ingiberg Guðmundsson
  3. Rannveig Ernudóttir
  4. Ragnheiður Steina Ólafsdóttir
  5. Sunna Einarsdóttir

smari@bb.is

Heiðrúnu veitt heiðursslaufa

Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður Sigurvonar, afhenti Heiðrúnu barmnæluna fyrir hönd félagsins á föstudag.

Heiðrúnu Björnsdóttur var á föstudag afhent með viðhöfn fyrsta bleika slaufan á Vestfjörðum í þakkarskyni fyrir störf sín í þágu Krabbameinsfélagsins Sigurvonar. Bleika slaufan, árvekniátak Krabbameinsfélagsins er nú hafið en slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Heiðrún hefur starfað fyrir Sigurvon frá endurstofnun félagsins árið 2001 en starfsvæði þess eru norðanverðir Vestfirðir og Strandir. Fyrir þónokkrum árum kom hún ásamt Guðbjörgu Ólafsdóttur á fót stuðningshópnum Vinum í von fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hópurinn starfar enn í dag og hittist tvisvar í mánuði yfir vetrarmánuðina.

„Við eigum alltaf saman notalega stundir er við hittumst,“ segir Heiðrún um Vini í von. „Við fáum okkur morgunkaffi og léttar veitingar og röbbum saman um allt mögulegt. Ákveðinn kjarni mætir alltaf en við tökum alltaf vel á móti nýju fólki og hvetjum alla sem vilja til að kíkja við hjá okkur.“

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafaþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga um allt land sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Þess má geta Ráðgjafaþjónustan er faglegur bakhjarl starfsmanns þjónustumiðstöðvar Sigurvonar og gott samstarf verið þar á milli um árabil.

bryndis@bb.is

Óbreyttur listi

Efstu fimm á lista Sjálfstæðisflokkurinn.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins þingaði í Borgarnesi í gær. Tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að leggja fram óbreyttan lista frá því í þingkosningunum fyrir ári var samþykkt. Í efstu þremur sætunum eru Haraldur Benediktsson alþingismaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Teitur Björn Einarsson alþingismaður.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins:

  1. Haraldur Benediktsson frá Vestra-Reyni, bóndi og alþingismaður.
  2. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir frá Akranesi, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og lögfræðingur.
  3. Teitur Björn Einarsson frá Flateyri, alþingismaður og lögfræðingur.
  4. Hafdís Gunnarsdóttir frá Ísafirði, forstöðumaður
  5. Jónína Erna Arnardóttir í Borgarnesi, tónlistarkennari og sveitarstj.ftr.
  6. Aðalsteinn Orri Arason frá Varmahlíð, verktaki og búfræðingur.
  7. June Scholtz frá Hellissandi, fiskvinnslukona.
  8. Unnur Valborg Hilmarsdóttir frá Hvammstanga, oddviti Húnaþings vestra.
  9. Ásgeir Sveinsson frá Patreksfirði, form. bæjarráðs Vesturbyggðar og bóndi.
  10. Steinunn Guðný Einarsdóttir frá Flateyri, ferðamálafræðingur.
  11. Sigríður Ólafsdóttir frá Víðidalstungu, ráðunautur og sauðfjárbóndi.
  12. Böðvar Sturluson úr Stykkishólmi, framkvæmdastjóri og vörubifr.stjóri.
  13. Pálmi Jóhannsson úr Búðardal, framkvæmdastjóri og pípulagningamaður.
  14. Guðmundur Brynjar Júlíusson frá Akranesi, nemi.
  15. Þrúður Kristjánsdóttir úr Búðardal, fyrrverandi skólastjóri.
  16. Einar Kristinn Guðfinnsson frá Bolungarvík, fv. forseti Alþingis

smari@bb.is

Guðjón og Arna Lára í efstu sætum

Kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi samþykkti í gær framboðslista flokksins fyrir kosningarnar í lok mánaðarins. Guðjón S. Brjánsson leiðir listann áfram. Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, verður í öðru sæti. Hún er ekki ókunn þingstörfum, en hún sat sem varaþingmaður fyrir flokkinn kjörtímabilið 2009-2013.

Kjördæmisþingið var haldið á Hótel Bjarkalundi og var framboðslistinn samþykktur samhljóða.

Listinn í heild sinni:

  1. Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður, Akranesi
  2. Arna Lára Jónsdóttir, verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Ísafjarðarbæ
  3. Jónína Björg Magnúsdóttir, fiskverkakona, Akranesi
  4. Sigurður Orri Kristjánsson, leiðsögumaður, Reykjavík
  5. Gunnar Rúnar Kristjánsson, bóndi, Blöndósbæ
  6. Guðrún Eggertsdóttir, viðskiptafræðingur, Vesturbyggð
  7. Sólveig Heiða Úlfsdóttir, háskólanemi, Borgarbyggð
  8. Garðar Svansson, fangavörður, Grundarfjarðarbæ
  9. Ingimar Ingimarsson, organisti, Reykhólahreppi
  10. Pálína Jóhannsdóttir, kennari, Bolungarvík
  11. Pétur Ragnar Arnarsson, slökkviliðsstjóri, Húnaþingi vestra
  12. Guðjón Viðar Guðjónsson, rafvirki, Akranesi
  13. Guðrún Vala Elísdóttir, náms- og starfsráðgjafi, Borgarbyggð
  14. Helgi Þór Thorarensen, prófessor, Sauðárkróki
  15. Inga Björk Bjarnadóttir, háskólanemi, Borgarbyggð
  16. Sigrún Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi, Akranesi

smari@bb.is

Dögun býður ekki fram

.

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði býður ekki fram lista á landsvísu í komandi Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu til fjölmiðla. Þar er þó ekki nánar greint frá því hvað býr að baki þessari ákvörðun.

„Þrátt fyrir þessa niðurstöðu mun Framkvæmdaráð Dögunar vera opið fyrir því að ræða um samstarf á grundvelli málefna Dögunar – við þá sem að öðru leyti geta átt málefnalega samleið,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að félagsmenn í einstaka kjördæmum hafi þó frjálsar hendur um framboð undir listabókstaf flokksins, T. Boðið hefur verið fram undir merkjum flokksins frá árinu 2012 og hlaut Dögun 1,7% atkvæða í Alþingiskosningunum 2016 og var langt frá því að ná inn manni.

smari@bb.is

 

Gæludýr fái að fara á veitingastaði

Þessi gæti fengið inngöngu á kaffihús

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingu á reglugerð um hollustuhætti. Breytingar á reglugerðinni  kveða á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sé heimilt að leyfa gestum að koma með hunda, ketti og önnur gæludýr inn á veitingastaði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Einnig er gert ráð fyrir breytingu á reglugerðinni þar sem tilgreindir eru þeir staðir sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.

Frestur til að skila umsögnum um reglugerðardrögin er til 13. október.

smari@bb.is

Afnám tolla og lækkun VSK skilaði sér til neytenda

Í maí óskaði forsætisráðuneytið eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki að sér að greina áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag. Skýrsla Hagfræðistofunar liggur nú fyrir. Niðurstaðan er sú að lækkun gjalda hafi skilað sér í vasa  neytenda.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á tollum, vörugjöldum og virðisaukaskatti á síðustu árum. Tollar á allar vörur, að búvörum undanskildum, voru afnumdir í tveimur skrefum í ársbyrjun 2016 (föt og skór) og 2017 (aðrar vörur). Almenn vörugjöld voru afnumin í einum áfanga í ársbyrjun 2015. Almennur virðisaukaskattur var lækkaður úr 25,5% í 24% í ársbyrjun 2015 en lægra skattþrepið var hækkað úr 11% í 14% á sama tíma.

Hagfræðistofnun mat álagningu kaupmanna á átta tegundum innfluttra matvara, fatnaðar og heimilistækja á árunum 2014-2017. Verð eru borin saman fyrir og eftir kerfisbreytingu. Álagning kaupmanna er reiknuð út sem afgangsstærð þegar tillit hefur verið tekið til annarra verðþátta, aðflutningsgjalda og virðisaukaskattshlutfalls. Þróun álagningar í krónum er síðan notuð sem mælikvarði á kjarabætur neytenda. Stofnunin telur rétt að miða við álagningu í krónum fremur en hlutfallslega álagningu því stærstur hluti af rekstrarkostnaði verslana er óháður innkaupsverði á þeim vörum sem verslað er með.

Smásöluverð allra varanna lækkaði. Álagning kaupmanna, mæld í krónum, lækkaði eða breyttist lítið á sjö vörum af átta. Þannig lækkaði álagning á 1 kg. af strásykri úr 65 kr. árið 2014 í 41 kr. árið 2017, álagning á gallabuxum úr 8.462 kr. í 7.961 kr. og álagning á ísskápum úr 26.962 kr. í 20.515 kr. Álagning á skyrtum hækkaði hins vegar úr 5.729 kr. í 6.092 á sama tímabili.

smari@bb.is

Gistinóttum fjölgar

Gistinætur á hótelum í ágúst voru 457.600 sem er 2% aukning miðað við ágúst 2016. Um 53% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 243.600, sem er 2% aukning miðað við ágúst 2016. Gistinætur á Suðurnesjum voru 28.600 sem er 33% aukning frá fyrra ári, en á sama tíma jókst framboð herbergja á Suðurnesjum um 64%. Einnig fjölgaði gistinóttum á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða um 4% og á Suðurlandi um 3%. Gistinóttum á hótelum fækkaði frá sama mánuði í fyrra á Norðurlandi um 11% og á Austurlandi 3%.

Flestar gistinætur í ágúst áttu Bandaríkjamenn með 129.200, svo Þjóðverjar með 57.800 og Bretar með 39.000, en íslenskar gistinætur í ágúst voru 32.100. Gistinætur erlendra gesta voru 93% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum, en þeim fjölgaði um 3% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 9%.

Á tólf mánaða tímabili frá september 2016 til ágúst 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.197.000 sem er 21% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Á Vestfjörðum og Vesturlandi fjölgaði gistinóttum um 11% á tímabilinu.

smari@bb.is

Lítil veiði í Laugardalsá

Veiði er lokið í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi og sumarið er það næst lélegasta frá aldamótum. Í tölum sem birtast á vef Landssambands veiðifélaga kemur fram að 175 laxar bárust á land, 16 fleiri en hörmungarsumarið 2012 þegar veiðin var 159 laxar. Meðalveiðin frá 2000 er 338 laxar og veiðin í sumar því rétt rúmlega helmingur af því sem áin hefur gefið í meðalári.

Ekki eru komnar lokatölur úr Langadalsá en veiði lauk þar á sunnudaginn. Síðustu tölur eru frá 6. september og þá voru komnir 125 laxar á land.

Ytri-Rangá trónir sem fyrr á toppi íslenskra laxveiðiá með 6.835 laxa en veiði er ekki lokið í Rangánum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir