Síða 2138

Gef kost á mér í 2.- 3. sæti

Lilja Sigurðardóttir

Ég heiti Lilja Sigurðardóttir, er sjávarútvegsfræðingur frá Patreksfirði og gef kost á mér í 2.-3.sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar þann 28.október 2017. Ég er núna 2.varaþingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Ég er fædd og uppalin á Patreksfirði og býr þar núna ásamt unnusta mínum og tveimur börnum. Ég hef lokið BS gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og MS gráðu í Forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Einnig lauk ég grunnnámi í flugumferðarstjórn frá Keili. Ég starfa núna sem verslunarstjóri í matvöruversluninni Fjölval á Patreksfirði en hef m.a. verið gæðastjóri hjá fiskeldisfyrirtækinu Arnarlax, og verk- og gæðastjóri í fiskvinnslunni Odda hf á Patreksfirði. Ég var formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka frá 2011-2017, sat í stjórn Byggðastofnunar 2016-2017, var varaformaður Slysavarnadeildarinnar Unnar á Patreksfirði frá 2015-2017 og er núna formaður deildarinnar.

Í jómfrúarræðu minni á Alþingi vakti ég athygli á því hversu mikill kostnaður og aukaálag leggst á fólk sem þarf að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimilum sínum, en skerðing á fæðingarþjónustu um allt land hefur valdið því að fjölskyldur þurfa að standa undir gríðarlegum aukakostnaði á meðan beðið er eftir fæðingu barns, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði. Oftar en ekki þurfa fjölskyldur að halda tvö heimili, missa úr vinnu áður en mögulegt er að hefja fæðingarorlof og vera fjarri fjölskyldu og vinum í lengri tíma. Þegar fæðingarþjónusta var skert þá gleymdist algjörlega að huga að þessum þáttum og í dag er engin aðstoð veitt, eini styrkurinn er í formi endurgreiðslu á ferðakostnaði frá heimili að fæðingarstað og tilbaka. (sjá meira hér http://www.ruv.is/frett/ekkert-i-stadinn-fyrir-skerta-faedingarthjonustu ) Þessu þarf að breyta og auka þarf stuðning við fólk í þessum aðstæðum sem fyrst.

Helstu baráttumál:

Styðja þarf betur við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og sérstaklega þarf að huga að fiskeldi, landbúnaði og ferðaþjónustu á þessu landsvæði.

Mikilvægt er að halda áfram með hugmyndir um heilstæða stefnu í heilbrigðismálum um allt land. Geðheilbrigðismál þarf sérstaklega að skoða og móta stefnu til að auka þjónustu, andleg heilsa er gríðarlega mikilvæg og þarf að huga mun betur að en hefur verið gert. Einnig þarf að endurskoða styrki til þeirra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu langt frá heimili sínu, í dag er nánast enginn styrkur á meðan útgjöld fólks tvöfaldast á þeim tíma sem beðið er, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði.

Samgöngur þarf að bæta, uppbyggingin þarf að ganga hraðar fyrir sig og klára þarf málin hratt og örugglega, ekki láta þau hanga í kerfinu til lengri tíma.

Auðlindagjöld þarf að innheimta frá öllum nýttum auðlindum, ekki bara sjávarútvegi.

Lilja Sigurðardóttir

Eignir landsmanna aukast umfram skuldir

Eigið fé landsmanna hækkaði um 13% á síðasta ári og fór í liðlega 3.300 milljarða króna. Það er þó minni hækkun en árið 2015 þegar eigið fé jókst um 17% milli ára. Þau 10% sem eiga mest eigið fé eiga alls um 62% heildarupphæðar eigin fjár eða 2.100 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði líkt og undanfarin ár. Árið 2016 voru 5.856 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða um 20% færri en árið 2015. Að meðaltali var eiginfjárstaða þessara fjölskyldna neikvæð um 5 milljónir króna sem er svipuð upphæð og árið á undan

Heildareignir fóru úr 4.800 milljörðum króna í árslok 2015 í 5.200 milljarða króna í lok árs 2016 sem er aukning um 9% milli ára. Eignir samanstanda af fasteignum, ökutækjum, innistæðum í bönkum og verðbréfum. Hlutur fasteigna var 73%, ökutækja 5%, bankainnistæða 12% og verðbréfa 9%.

Samanlagðar eignir fjölskyldna sem eru í hæstu tíund eigna nema 2.300 milljörðum króna eða alls 45% af heildareignum. Þessi sami hópur á samtals 400 milljarða króna í verðbréfum eða 86% af heildarverðbréfaeign.

Heildarskuldir námu 1.900 milljörðum króna í árslok 2016 og jukust um 3% frá fyrra ári. Árið 2016 voru 23% fjölskyldna skuldlausar sem er aukning um tvö prósentustig frá fyrra ári. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur rúmlega 5 milljónir króna eða minna og 90% minna en 32 milljónir króna. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 700 milljörðum króna eða 39% heildarskulda.

smari@bb.is

Spánarsnigill fannst á Patreksfirði

Spánarsnigillinn sem fannst á Patreksfirði.

Spánarsnigill fannst á Patreksfirði fyrir skemmstu og var komið með hann til greiningar á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Náttúrustofan hvetur fólk á Patreksfirði til að svipast um eftir stórum sniglum líkum þeim sem sést á meðfylgjandi mynd. Ef grunur vaknar um spánarsnigil er fólki bent á að hafa samband við Náttúrustofuna. Spánarsnigill hefur áður fundist á Vestfjörðum, en sá var í Hnífsdal.

Spánarsnigill er ágeng tegund og dreifist nær eingöngu af mannavöldum, einkum sem egg eða ungviði með plöntum og jarðvegi. Hann er orðinn geysialgengur í nágrannalöndunum og er þar orðinn til mikils skaða í görðum og garðrækt. Snigillinn hefur því átt greiða leið til Íslands með innfluttum plöntum og jarðvegi í blómapottum.

Spánarsnigill er að öllu jöfnu auðþekktur frá öðrum sniglum hérlendum, þar sem hann er einlitur rauður þó rauði liturinn geti verið breytilegur. Fullvaxinn er hann tröllvaxinn, miklu stærri en aðrir sniglar af Arion ættkvíslinni. Reyndar hefur þróunin orðið sú að spánarsniglar sem fundist hafa á seinni árum eru mun smávaxnari en þeir sem fundust fyrstu árin og er það aðlögun að stuttu sumri hér á norðurslóðum.

Spánarsnigill á að líkindum eftir að reynast eitt mesta meindýr sem hefur borist til landsins. Mikilvægt er að sporna gegn landnámi spánarsnigils eins og frekast er unnt og skal því tortíma þeim sniglum sem ekki gefst kostur á að skila til Náttúrustofunnar.

smari@bb.is

Nýtt gólf kostar 38 milljónir

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að taka tilboði Sport-tækja ehf. um lagningu nýs gólfefnis í íþróttahúsið á Torfnesi. Tilboðið hljóðar upp á 36 milljónir kr. Með hönnunar- og eftirlitskostnaði er gert ráð fyrir að heildarkostnaður verði 38 milljónir kr. Í fjárfestingaráætlun bæjarins er gert ráð fyrir 35 milljón kr. framlagi til verksins og því hefur bæjarráð samþykkt gerð viðauka við fjárfestingaráætlun.

Gólfið í íþróttahúsinu er komið til ára sinna, enda mikið búið að skarka á því í rás tímans.

smari@bb.is

Guðlaug efst hjá Bjartri framtíð

Guðlaug Kristjánsdóttir.

Guðlaug efst hjá Bjartri framtíð

Björt framtíð samþykkti í gær sex efstu frambjóðendur á listum flokksins fyrir þingkosningarnar í lok mánaðarins. Guðlaug Kristjánsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar skipar efsta sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Guðlaug er oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði og er forseti bæjarstjórnar.

Efstu sex á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi:

  1. Guðlaug Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari og stjórnarformaður Bjartrar framtíðar
  2. Kristín Sigurgeirsdóttir, skólaritari í tónlistarskóla
  3. Elín Matthildur Kristinsdóttir, meistaranemi
  4. Gunnsteinn Sigurðsson, þroskaþjálfi og kennari
  5. Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir, stuðningsfulltrúi og nemi.
  6. Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur

smari@bb.is

Fyrsta hretið væntanlegt, fyrir norðan

Það er ekki búist við úrkomu á Vestfjörðum í fyrramálið

Hér á Vestfjörðum hefur haustið farið vel með okkur, blíðan með eindæmum dag eftir dag. Veðurspámenn segja að hér verði norðlæg eða breytinleg átt næsta sólarhringinn, 3-8 m/s, skýjað að mestu og jafnvel rigning á köflum, hiti 4-9 stig. Á morgun gæti eitthvað hvesst og létt til.

Hvað varðar aðra landshluta þá er von á fyrsta hreti ársins og það á Norðurlandi. Víðast verður um rigningu að ræða á láglendi en slydda eða snjókoma til fjalla. Búast má við hálku og krapa á heiðum austan Blöndóss.

bryndis@bb.is

Andri Rúnar bestur í Pepsi-deildinni

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

Andri Rúnar Bjarnason, knattspyrnukempa frá Bolungarvík, var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla. Keppnistímabilinu lauk um helgina og framherjinn skæði skoraði í lokaleik deildarinnar í 2-1 sigri Grindavíkur á Fjölni og var það 19. mark kappans og þar með jafnaði hann markametið í deildinni.

Það er Knattspyrnusamband Íslands sem veitir viðurkenninguna.

Andri Rúnar fékk afhent Icelandairhornið eftir leik Grindavíkur og Fjölnis, ásamt því að fá eignarskjöld og ferðavinning frá Icelandair.

smari@bb.is

Kaldalind hætt við vatnskaup

Fyrirtækið Kaldalind ehf. hefur hætt við markaðsstentingu og útflutningi á vatni frá Ísafirði. Um áratugur er síðan fyrirtækið og Ísafjarðarbær skrifuðu undir fyrsta samninginn um útflutning á vatni úr Vestfjarðagöngum. Í bréfi Birgis Viðars Halldórssonar, framkvæmdastjóra Köldulinda, til Ísafjarðarbæjar segir að í gegnum markaðssetningu í tíu ár, sem hafi kostað tugi milljóna króna, hafi fyrirtækið kynnt Ísafjarðarbæ vel. Það sem er efsti í huga Birgis Viðars við þessi tímamót er frábært samstarf og þolinmæði frá mörgum aðilum á Ísafirði og nefnir hann Gísla Halldór Halldórsson bæjarstjóra og forvera hans í starfi, þá Daníel Jakobsson og Halldór Halldórsson.

smari@bb.is

Takk fyrir traustið.

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Auka kjördæmisþing Framsóknar í Norðvesturkjördæmi fór fram fyrir stuttu síðan. Þar gaf ég ekki kost á mér til áframhaldandi starfa á þingi, að minnsta kosti ekki á næsta kjörtímabili. Þegar ákvörðun sem þessi er tekin, þá er vel við hæfi að skrifa nokkur orð niður á blað og þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í störfum mínum sem þingmaður.

Þingmannsstarfið hefur verið afar lærdómsríkur tími og ég er þakklát fyrir svo margt. Fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt, fyrir vináttusambönd milli mín og þingmanna í hinum ýmsu flokkum og fyrir þann skóla sem starfið hefur verið.

Ég er ekki sammála þeim sem segja að þingmenn séu eingöngu stimpilpúði fyrir ráðuneytin. Þingmenn geta haft áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku um strauma og stefnur ríkisstjórna. Þetta snýst um að undirbúa sig vel, mæta vel og hafa þannig áhrif.

Í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins fékk ég sæti í Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem grunnur var lagður að nýju húsnæðiskerfi. Ég náði í gegn mikilvægum breytingartillögum í almannatryggingakerfinu, í barnaverndarmálum, húsnæðismálunum og barðist gegn matarskatti Sjálfstæðismanna, svo að eitthvað sé nefnt. Á síðasta ári samþykktu allir þingmenn tillögu mína um stefnumótun í heilbrigðiskerfinu og sú vinna var komin á fullt innan heilbrigðisráðuneytisins og mikilvægt er að sú vinna verði kláruð á nýju kjörtímabili. Á þessu þingi voru forgangsmálin mín, húsnæðismál og afnám verðtryggingar. Þau mál voru bæði tilbúin þegar það slitnaði upp úr þinginu. Auk þessa vann stór hluti þingmannahóps Norðvesturkjördæmis að lagasetningu um Teigsskóg. Ekkert þessara mála komst á dagskrá þingsins fyrir þinglok og er það miður.

Ákvörðunin um að gefa ekki kost á mér að þessu sinni, var ekki auðveld, sérstaklega ekki þar sem ég fékk fjölda áskorana um að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa. Ég finn þó að ákvörðunin er rétt við þessar aðstæður. Ánægjulegt er að fjöldi frambærilegra einstaklinga hefur gefið kost á sér á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og kosið verður um listann á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer næsta sunnudag. Ég óska þeim öllum góðs gengis.

Næstu vikur verða notaðar í tíma með fjölskyldu og vinum. Þeim sem hafa verið á hliðarlínunni undanfarin ár og stutt mig til allra verka.

Ég er sannur Framsóknarmaður og trúi á gildi Framsóknarflokksins. Þess vegna ætla ég að halda áfram að vinna fyrir flokkinn, þó á öðrum vettvangi, að minnsta kosti um sinn fái ég brautargengi til þess.

Ég þakka ykkur enn og aftur það mikla traust sem þið hafið sýnt mér. Það er ómetanlegt.

Elsa Lára Arnardóttir

– fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins

Alþýðufylkingin býður ekki fram í Norðvestur

Þorvaldur Þorvaldsson er leiðtogi Alþýðufylkingarinnar.

Alþýðufylk­ing­in hygg­ur á fram­boð í fjór­um kjör­dæm­um í alþing­is­kosn­ing­un­um sem fram fara 28. októ­ber. Fyrir kjósendur í Norðvesturkjördæmi sem eru lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi verður það að teljast vonbrigði að flokkurinn býður ekki fram í kjördæminu. Í fréttatilkynningu kemur fram Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Það eru því Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi sem verða útundan hjá Alþýðufylkingunni í kosningunum í lok október.

„Eins og gef­ur að skilja er erfitt fyr­ir flokk, sem hef­ur ekki launaða starfs­menn, að koma sam­an fram­boðslist­um þegar fyr­ir­var­inn er jafn stutt­ur og nú,“ seg­ir enn­frem­ur og bætt við að fram­boðslist­ar flokks­ins verði birt­ir á næstu dög­um.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir