Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2138

Fjölgun á norðanverðum Vestfjörðum

Svo virðist sem viðsnúningur sé að verða á mannfjöldaþróun á Vestfjörðum og tölur Hagstofunnar sýna að íbúum á norðanverðum Vestfjörðum hefur fjölgað um 1,16% frá 31. maí 2016 til 31. maí 2017 eða um 80 einstaklinga, á sama tíma í fyrra hafði verið fækkun um 0,32% eða um 30 einstaklinga.

Í prósentum talið fjölgar mest í Bolungarvík eða 3,3% eða um 30 manns en á Ísafirði fjölgar um 1,67% eða um 60 manns. Súðavíkurhreppur stendur í stað en í fyrra var fækkun um 2,63%,

Ef teknir eru saman Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Strandabyggð er fækkun um 20, á sama tíma í fyrra fækkaði líka um 20. Í Kaldrananeshreppi er fjölgun en fækkun í Árneshreppi og Strandabyggð.

bryndis@bb.is

 

Hinsegin dagar í Reykjavík

Mynd: hinsegindagar.is

Dagskrá Hinsegin daga í Reykjavík hófst formleg á þriðjudaginn og stendur yfir fram á sunnudag. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og inniheldur fundi, ráðstefnur, fyrirlestra og listviðburði. Hápunktur hennar er þó Gleðigangan sem fer fram á laugardaginn og hefst kl. 14:00.

Í ár verða breytingar gerðar á gönguleið gleðigöngunnar. Uppstilling göngunnar verður frá kl. 11 á Hverfisgötu, milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs. Gangan leggur stundvíslega af stað frá gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis kl. 14:00. Gengið verður niður Hverfisgötuna, eftir Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu þar sem glæsilegir útitónleikar taka við í Hljómskálagarðinum.

Á vef hinsegin daga er kemur fram að í Gleðigöngunni sameinis lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sina, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli skipta hverju sinni.

bryndis@bb.is

Fé borið á Súgfirðinga

Mynd: Róbert Schmidt

Menn slá á létta strengi á facebook þar sem birtar eru myndir af blómgráðugum kindum í görðum á Suðureyri. Sumir telja þetta vera gesti á einleikjahátíðinni Act alone sem hefst einmitt í kvöld en aðrir að um sé að ræða heimsendingu á grillið, nú eða sjálfvirkar sláttuvélar og áburðardreifarar. Í einhverjum görðum eru öll blómin horfin í varginn og þar er mönnum ekki skemmt.

Kallað er eftir viðbrögðum „Sauðfjárvarna Ísafjarðarbæjar“.

Mynd: Róbert Schmidt
Mynd: Róbert Schmidt

bryndis@bb.is

Takast á sveinar tveir

Halldór Jónsson.

Ísland er einstök náttúruperla. Það er skoðun flestra er landið byggja og flestra þeirra sífjölgandi gesta er það heimsækja. Þrátt fyrir mikla náttúrfegurð hafa íbúar frá fyrstu tíð skapað sér eins góða búsetukosti og þeim framast hefur verið unnt. Þannig hafa þeir best tryggt búsetuna sjálfa því þrátt fyrir allt er landið um margt harðbýlt.

Undanfarna áratugi hefur átt sér stað fordæmalaus uppbygging á suðvesturhorni landsins. Uppbyggingunni hefur ráðið sá vilji almennings og kjörinna fulltrúa þeirra að tryggja sem bestar aðstæður til byggðar. Hagsmunir íbúa hafa vegið þyngst. Maðurinn hefur notið vafans.

Að nýta og njóta

Mörg dæmi má nefna um þessa uppbyggingu. Nýir vegir hafa verið lagðir og eldri endurnýjaðir, sumir við og í gegnum náttúruperlur, til að flýta för íbúa og stytta leiðir. Hvar væri mannlíf á fegurstu kjarrivöxnum svæðum suðvesturhornins án vega? Gæti Hvalfjörður verið án vega og hvernig myndu menn njóta Þingvalla án vegasambands? Malbikaðir vegir og göngustígar hafa verið lagðir um Elliðaáardalinn. Hagsmunir íbúa í forgangi.

Verksmiðjur hafa risið til að tryggja atvinnu íbúa, sumar fjarri byggð í upphafi en síðar hafa aðstæður breyst þannig að dæmi eru um að íbúabyggð hafi verið skipulögð að og í kring. Ekki verður þó annað séð að íbúuar í Hafnarfirði séu sáttir við nábýlið í Straumsvík, nú sem áður. Virkjanir hafa risið til að tryggja rafmagn í  athafnasemi íbúa svæðisins, sumar þeirra í öðrum landshlutum, aðrar í túnfætinum. Tónninn var sleginn með virkjun Elliðaáa og síðar var heita vatnið virkjað til rafmagnsframleiðslu. Ráðist var í stórhuga framkvæmdir á Hellisheiði og þannig tryggð orka. Náttúra Hellisheiðar vék og Hvergerðingar súpa seyðið af framkvæmdunum, eða réttara sagt anda því að sér. Þarna réðu hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins ferðinni.

Lengra skal ganga

Náttúrperlan Þríhnjúkagígur er við bæjardyr höfðuðborgarbúa, einstök á heimsmælikvarða. Þar eru langt komnar áætlanir um að sprengja sig inn í gíginn til þess að tryggja meiri umferð ferðafólks, tekju- og atvinnuskapandi verk. Ekki hafa (enn) verið stofnuð samtökin Þyrmum Þríhnjúkagíg af þessu tilefni.  Á sama svæði hefur skíðasvæði íbúa verið byggt þrátt fyrir að það standi við og á svokölluðu vatnsverndarsvæði byggðarinnar. Hagsmunir íbúa ráða ferðinni.

Reykvíkingar hafa lengi reynt að endurheimta Vatnsmýrina úr klóm flugvallar úr seinni heimsstyrjöld. Ekki til að endurheimta þá náttúruperlu sem Vatnsmýrin í raun er, til að fara að ákvæðum Ramsar-sáttmálans um endurheimt votlendis. Nei, nærtækara er að nýta Vatnsmýrina undir íbúabyggð enda mikil þörf á fjölgun íbúða. Náttúran víkur, hagsmunir íbúa ráða.

Stórfelld uppbygging á suðvesturhorninu hefur verið tryggð með nánu samstarfi sveitarstjórna á svæðinu. Fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka hafa í gegnum tíðina flestir verði sammála um að tryggja heildarhagsmuni íbúa hverju sinni.

Leiðtogar skipta máli

Einn áhrifamesti og farsælasti kjörni fulltrúi undanfarinna áratuga á þessu svæði er efalítið Sveinn Kristinsson á Akranesi. Sem bæjarfulltrúi um áratugaskeið á Akranesi hefur hann ásamt félögum sínum á höfuðborgarsvæðinu lyft Grettistaki íbúum til heilla. Hann hefur stutt dyggilega uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Grundartanga og sem stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og síðar starfsmaður lagði hann sitt lóð á vogarskálar virkjana á Hellisheiði. Sem bæjarfulltrúi á Akranesi studdi hann hugmyndir um lagningu vegar við Grunnafjörð. Allt samviskusamlega gert með það að leiðarljósi að auðvelda byggð á sínu svæði. Íbúar treystu dómgreind hans í þessum málum. Hagsmunir íbúa hafa ráðið för.

Trjágróður í forgangi

Byggð á Vestfjörðum hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum. Atvinnulíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar og látið stórlega á sjá. Uppbygging innviða þar er langt á eftir öðrum landshlutum. Rafmagn er ótryggt og treyst á orku frá öðrum landshlutum um veikt dreifikerfi. Stóran hluta árs er stólað á framleiðslu rafmagns með olíu. Þrífasa rafmagn er ekki til staðar víða í dreifbýli og hamlar mjög uppbyggingu atvinnukosta. Fjarskipti eru veikburða og netsamband víða fjarri því sem aðrir landshlutar búa við. Þrátt fyrir framfarir í vegasamgöngum er staðan sú að sunnanverðir Vestfirðir eru 60 árum á eftir öðrum landshlutum. Ráðlegur hámarkshraði drjúgs hluta vegakerfisins þar er enn 20-30 km/klst. Skilningur hefur undanfarin ár verið fyrir endurbótum til að tryggja  heilsárs vegasamband milli svæðisins og annarra landshluta. Þær framkvæmdir hafa legið niðri í nokkur ár vegna deilna um vegagerð um svonefndanTeigsskóg. Þrátt fyrir augljósa hagsmuni íbúa hafa aðrir hagsmunir vegið þyngra. mestu ráða hagsmunir tveggja landeigenda í nefndum Teigsskógi. Ekki vegna búsetu þeirra þar þá fáu daga er þeir dvelja þar í sumarhúsum sínum árlega heldur vegna kjarrlendis. Ekki vegna þess að það sé ósnortið, enda fyrir löngu búið að ryðja þar í gegn vegslóða til nota fyrir landeigendur og gesti þeirra. Í öðrum landshlutum hafa almennir hagsmunir íbúa ráðið en á  sunnanverðum Vestfjörðum ráða hagsmunir tveggja landeiganda sem drepa þar niður fæti nokkra daga á ári. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúa.

Uppbygging víkur

Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur á síðustu  árum rétt úr kútnum, einkum vegna uppbyggingar laxeldis. Laxeldi á Vestfjörðum er byggt á ákvörðun sem tekin var 2004 um að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, en beina því í staðinn á þau svæði þar sem litlar sem engar laxveiðiár eru.  Íbúum er tekið að fjölga á sumum svæðum Vestfjarða, nokkuð sem fyrir örfáum árum var talið ómögulegt. Þegar laxeldið var að komast á legg kom fram félagsskapur veiðirétthafa sem kvaðst beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir þessa atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að hverfandi laxveiði sé í ám á Vestfjörðum. Þeir hafa svo sannarlega staðið við þá hótun og eru nú með færustu lagatækna landsins í vinnu.

Á dögunum birti Hafrannsóknarstofnun svo áhættumat þar sem lögð var til stöðvun uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi vegna laxveiða í þremur ám.

Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til  í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis.  Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.

Fyrir hverju?

Tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi, Hvannadalsá, Laugardalsá og Langadalsá eru í besta falli 20-25 milljónir á ári. Ekkert starf hefur skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi,  svo vitað sé. Hver eru hin náttúrulegu verðmæti í þessum ám sem í hættu geta verið vegna hugsanlegra slysa við laxeldi? Engin þeirra státar af sínum upprunalega náttúrlega stofni heldur hefur um árabil verið stunduð þar skipuleg laxarækt með stofnum annars staðar frá. Ein þessara áa, Laugardalsá, er í grunninn ekki laxveiðiá. Hún varð það ekki fyrr en hún var sprengd upp og í hana byggður mikill laxastigi. Ekki er hér lagt til að slík á skuli flokkuð sem manngert leiktæki, en fráleitt er hún náttúruverðmæti. Veiði í þessum ám er hverfandi. Á síðasta ári voru dregnir úr ám laxar um þrjú hundruð sinnum, sumir oftar en aðrir.  Það eru hagsmunir um tylftar veiðirétthafa þessara laxa sem eiga að ganga framar hagsmunum þúsunda íbúa svæðisins. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna.

Eigi skal virkja

Eva Sigurbjörnsdóttir hefur um árabil barist fyrir byggð í Strandasýslu, allt frá því að hún settist þar að og hóf rekstur í Djúpuvík. Hún hefur á undanförnum árum verið í fararbroddi sveitarstjórnarmanna á svæðinu líkt og áðurnefndur Sveinn syðra og hefur ásamt sveitungum sínum barist fyrir og trúað á möguleika á  blómlegri byggð og viljað láta hagsmuni íbúa ráða. Hún hefur viljað tryggja að íbúar njóti í einhverjum mæli nútíma þæginda sem sjálfsögð þykja í öðrum landshlutum.  Um margra ára skeið hefur verið unnið að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og hefur sá virkjanakostur ágreiningslaust verið   í nýtingarflokki. Hörðustu andstæðingar frekari virkjana hafa aldrei talið nauðsynlegt að hún fari í verndunarflokk enda er þar um að ræða afturkræfar framkvæmdir. Með virkjun Hvalár verða stigin löngu tímabær framfaraskref. Ekki bara í Strandasýslu heldur einnig á Vestfjörðum öllum. Af þeirri ástæðu hafa flestir sveitarstjórnarmenn í gegnum tíðina stutt virkjanir og Eva er þar engin undantekning.

Nýlega, þegar undirbúningur virkjunar Hvalár er á lokastigi, kom fram hópur fólks sem er andsnúinn henni. Hópurinn telur að með virkjuninni hverfi ósnortin víðerni á Vestfjörðum og hagsmunir þeirra eigi að hafa forgang, á kostnað íbúa. Einn forvígismanna þessa hóps er Sveinn Kristinsson á Dröngum, sem þar hefur búsetu hluta úr sumri. Í fjölmiðlum hefur Sveinn á Dröngum lýst þeirri skoðun sinni að með bættum búsetukostum í kjölfar virkjunarinnar sé verið að bera fé á íbúa á Ströndum. Það sé alþekkt leið sem orkufyrirtæki hafi oft nýtt sér! Hvað skyldu stjórn og starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur segja við því?

Sveinar kallast á

Í Sveini Kristinssyni á Dröngum og Sveini Kristinssyni á Akranesi kristallast mismunandi hagsmunamat fólks eftir búsetu. Sveinn á Dröngum, sem aðeins býr aðeins  lítinn hluta ársins á Dröngum, telur huglæga hagsmuni sína eiga að ganga framar hagsmunum þeirra er hafa trú á áframhaldandi mannlífi allt árið á Ströndum. Sveinn á Akranesi telur hins vegar að hagmunir íbúa á höfuðborgarsvæðinu eigi að ganga fyrir þar til að tryggja blómstrandi mannlíf. Sveinninn syðra vill nýta sér til hagsbóta og þæginda allt sem náttúran getur gefið. Sá á Dröngum vill að geta drepið niður fæti á Ströndum og þar eigi allt að vera eins og áður.

Ólíkar skoðanir þessara tveggja sveina vekja upp nokkrar spurningar:  Á ekki að ríkja jafnræði milli landshluta þegar innviðir þeirra eru byggðir upp? Er eðlilegt að örfáir íbúar suðvesturhornsins geti heft eðlilegar framfarir í byggð á Vestfjörðum? Eiga íbúar á Vestfjörðum að vera safnverðir horfinna lífshátta og samgangna svo örfáir aðrir íbúar landsins geti örstutt drepið þar niður fæti, hallað sér aftur í kvöldsólinni og angurværir rifjað upp liðna tíð?

Best væri að Sveinn á Akranesi myndi taka Svein á Dröngum tali og reyni að fá hann ofan af því að hlusta bara á íbúa á Tvískinnungi og Eiginhagsmunum. Þannig tryggjum við jöfn tækifæri og jafnræði allra landsmanna.

Halldór Jónsson

99 prósenta öryggi laxastofna

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Elías Jónatansson fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur ritar grein á bb.is í dag þar sem hann bendir á það mikla tækifæri í atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum sem fiskeldið sé. Elías bendir á að möguleg erfðablöndun væri staðbundin og í ám þar sem innan við 1% villtra laxa veiðist á Íslandi.

Stefnumótandi ákvörðun um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hafi verið tekin árið 2004 og ef breyti eigi þeirri stefnu þurfi að koma til afar sterk rök.

Elías segir að viðbragðsáætlun og forvarnir séu lykilatriði og til dæmis er áhrifarík mótvægisaðgerð að rækta upp náttúrulega stofna í Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá því það dregur úr hættu á erfðabreytingum.

Vegna landfræðilegra aðstæðna er hér hægt að taka algjöra lágmarks áhættu til að ná ótrúlegum ávinningi.  Hér er því um einstakt tækifæri að ræða.

Elías segir niðurstaðan verða alltaf þá að áhættan sem tekin er með því að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi er algjörlega staðbundin og engin hætta á að hún berist út í lax um landið allt.

Lokaorð Elíasar eru

„Með því að taka ákvörðun núna um 30 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi fær villti laxastofninn og náttúran að njóta 99% en íbúarnir 1% vafans.

Slík ákvörðun myndi leggja grunnin að mesta ævintýri sögunnar í uppbyggingu atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum.“

bryndis@bb.is

Kalt en þurrt

Það þarf að taka lopapeysuna til kostana í dag en regnstakkurinn má hvíla, veðurspámenn ríkisins segja að það verði norðaustan 5-10 í dag og skýjað með köflum. Á morgun hins vegar verði bjartviðri og breytileg átt og gæti skúrað seinnipartinn.

Allt landið

Norðan og norðaustan 5-13 m/s, en 8-15 suðaustantil í nótt. Léttskýjað sunnan jökla en rigning eða súld með köflum norðaustan og austanlands. Lægir smám saman á morgun með síðdegisskúrum suðaustantil og á Vestfjörðum en dregur úr úrkomunni norðaustanlands annað kvöld. Hiti 10-17 stig S-lands, en 5 til 14 stig annars staðar.

bryndis@bb.is

Act alone hefst í kvöld

Fjórtánda Act alone listahátíðin hefst í dag og fer af stað af miklum metnaði. Hið hefðbundna fiskismakk í félagsheimilinu hefst kl. 19:00 og í kjölfarið verður frumsýning á Fjallkonunni og um það verk segir á vef Act alone :

Fjallkonan er einleikur eftir leikkonuna og leikstjórann Heru Fjord sem hefur síðustu ár kynnt sér vel sögu langalangömmu sinnar Kristínar Dahlstedt sem fæddist árið 1876 að Botni í Dýrafirði. Kristín fór 18 ára til Danmerkur þar sem hún lærði um matseld og veitingarekstur en kom aftur til Íslands árið 1905 og rak eigin veitinga og gistiheimili í Reykjavík í hálfa öld, oftast undir nafninu Fjallkonan á Laugaveginum. Kristín var mikill frumkvöðull og lét ekki mótlæti stöðva sig en í verkinu speglar Hera sig í lífi langalangömmu sinnar ásamt því að velta fyrir sér sínu eigin lífi.

Næsta dagskrálið þarf vart að kynna en þar fer okkar eigin Elfar Logi á kostum sem Gísli á Uppsölum

Kvöldinu er svo lokað með ljóðalestri Eyrúnar Ósk Jónsdóttur sem mun flytja ljóð úr ljóðabók sinni Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa en hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar. Ljóðin fjalla um lygar sem fullorðnir segja við börn, hættulega barnaleiki og bernskubrek. Í verkinu fjallar Eyrún á óvæginn hátt um ýmislegt úr eigin bernsku og lætur allt flakka.

Dagskrá má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar.

Ókeypis akstur

Það ætti að vera einfalt að komast frá Ísafirði til Suðureyrar til að njóta listviðburða helgarinnar því það er boðið upp á fríar ferðir milli þessara bæja. Áætlun er sem hér segir:

Fimmtudagur 10. ágúst

Ísafjörður brottför kl.18.30

Suðureyri brottför kl. 23.59

 

Föstudagur 11. ágúst

Ísafjörður brottför kl. 15.30

Ísafjörður brottför kl. 19.00

Suðureyri brottför kl. 01.00

 

Laugardagur 12. ágúst

Ísafjörður brottför kl. 12.30

Suðureyri brottför kl. 17.00

Ísafjörður brottför kl. 18.30

Suðureyri brottför kl. 01.00

bryndis@bb.is

Staða atvinnuleysis er svipuð á milli ára

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 205.800 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í júní 2017, sem jafngildir 85,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 201.100 starfandi og 4.700 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 83,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,3%. Samanburður mælinga fyrir júní 2016 og 2017 sýnir mjög litlar breytingar milli ára. Atvinnuþátttaka jókst lítillega eða um 0,3 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 4.700 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda hækkaði um 0,2 stig. Staða atvinnuleysis er svipuð á milli ára, en atvinnulausir voru í júní 2017 um 300 fleiri en í júní 2016 og hlutfallið nánast það sama.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 2,5% í júní
Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 197.600 í júní 2017 sem jafngildir 82,6% atvinnuþátttöku, sem er lækkun um 0,4 prósentustig frá maí 2017. Fjöldi atvinnulausra í júní var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 5.000 og fækkaði um 600 manns frá áætluðum fjölda atvinnulausra í maí. Hlutfall atvinnulausra lækkaði því á milli maí og júní 2017 um 0,3 stig, úr 2,8% í 2,5%. Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júní 2017 var 80,5%, sem er litlu lægra en í maí eða sem nemur 0,2 stigum. Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að þær nánast standa í stað hvort sem litið er til atvinnuleysis eða starfandi fólks.

bryndis@bb.is

99 prósenta öryggi laxastofna

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Vestfirðingar hafa aldrei staðið frammi fyrir viðlíka tækifæri í atvinnuuppbyggingu og nú.  Þróun fiskeldis í góðri sátt við náttúruna er  þegar hafin á sunnanverðum Vestfjörðum og augljóst að tækifærin eru síst minni við Ísafjarðardjúp.

30 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi er í samræmi við burðarþolsmat Hafró,  en með því væri tekin algjör lágmarksáhætta á tímabundinni erfðablöndun á 1% íslenska laxastofnsins í tveimur laxveiðiám i Ísafjarðardjúpi.    99 prósent laxastofna við Ísland yrðu hinsvegar alveg örugg áfram.  Það sýna útreikningar sérfræðinga.

Líkurnar vinna með eldinu
Allt bendir til að erfðabreyting gæti verið afturkræf í þessum ám þar sem veiddir eru innan við 1% villtra laxa á Íslandi, vegna þess að erfðablöndunin væri staðbundin og erfðamengið er áfram til ómengað.
Vöktun á ánum og viðbragðsáætlun eru mikilvæg atriði, en mikilvægast er að beita ýmsum forvörnum sem draga mundu úr líkum á erfðablöndun.  Manngerðir laxastigar sem þegar eru fyrir hendi gætu t.d. nýst til aðgöngustýringar kynþroska fisks að ánum.

Ég tel einsýnt að stefna beri að 30 þúsund tonna laxeldi við Ísafjarðardjúp, um leið og tryggð verði lágmarksáhrif þess á það 1% íslenska laxastofnsins sem á aðsetur í Djúpinu.  Ein leiðin til þess er að samhliða uppbyggingu fiskeldisins verði unnið að uppbyggingu villta laxastofnsins í Ísafjarðardjúpi.

Langtímasjónarmið höfð að leiðarljósi
Oft eru stjórnmálamenn gagnrýndir fyrir að hafa ekki mótað stefnu í tíma.  Ákvarðanir séu teknar án undangenginnar umræðu og yfirvegunar.  Stefnumótandi ákvörðun um að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi var  hinsvegar tekin strax árið 2004.  Forráðamenn sveitarfélaganna hafa því í áranna rás hvatt menn og fyrirtæki til dáða í uppbyggingu fiskeldis.  Fyrirtækin hafa hér verið að fóta sig í fiskeldi á annan áratug a.m.k. og talið sig verið í góðri sátt við umhverfið, samfélagið og stjórnvöld.

Sveitarstjórnir hvetja til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi
Sú vinna og útlagður kostnaður sem einstaklingar og fyrirtæki hafa þegar lagt í við að koma á fót fiskeldi við Ísafjarðardjúp er ómæld.  Stefnumörkun stjórnvalda hefur haft afgerandi áhrif á stefnu einstaklinga og sjávarútvegsfyrirtækja að setja fjármuni í rannsóknir og þróun fiskeldis fremur en að byggja bara upp hefðbundnar greinar eins og útgerð eða fiskvinnslu.

Detti stjórnvöldum í hug að breyta skyndilega um stefnu nú þá þurfa að vera til þess afar sterk rök, enda væri þá verið að gera forráðamenn sveitarfélaganna, núverandi og fyrrverandi, að ómerkingum.

Nýlegt burðarþolsmat Hafró segir  að leyfa mætti 30 þúsund tonna eldi í Ísafjarðardjúpi.  Til viðbótar matinu  óskuðu stjórnvöld eftir áhættumati vegna hugsanlegrar erfðablöndunar úr eldislaxi í villtan.  Áhættumatið er sett fram í skýrslunni: „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“  sem unnin er af sérfræðingum sömu stofnunar ásamt erlendum sérfræðingum, Hér kölluð skýrsla eða áhættumat Hafró.  Skýrslan byggir á líkani sem reiknar líkur á innblöndun (flakki) eldislax í ár og erfðamengun af völdum hennar.

Viðbragðsáætlun og forvarnir eru lykilatriði
Ótal leiðir virðast færar til að minnka hættu á erfðablöndun vegna innblöndunar eldislax í þær tvær ár, Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá sem eru metnar í hættu í Ísafjarðardjúpi í tengslum við 30 þús. tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Ein mótvægisaðgerð sem grípa má til er að rækta upp náttúrulega stofninn í ánum tveimur, en það drægi mjög úr hættu á erfðabreytingum.  Mörg dæmi eru um að veiðitölur hafa margfaldast við  ræktun laxastofna.  Ef takast mætti að tvöfalda náttúrulega stofninn í þeim tveimur ám sem um ræðir í Ísafjarðardjúpi þá lækkar það hlutfall strokulaxa úr eldi úr 7,5% í 3,8% sem er innan marka sem höfundar setja sem viðmið gagnvart erfðablöndun.  (sjá myndir 7 og 8 á bls. 26 og 27 í skýrslunni).  Fræðimenn telja reyndar mun minni líkur á að flökkulax nái að valda erfðablöndun í á sem er „þéttsetin“ af villtum laxi fyrir því hann finni sér ekki hrygningarstað. Því leggja höfundar til að lögð verði áhersla á að tryggja að ávallt sé næg hrygning til staðar í náttúrulegum laxveiðiám (bls. 5).  Vöktun laxastiga eins og nefnd var hér á undan er önnur mikilvæg leið í forvörnum.

Eldi á geldlaxi gæti svo komið síðar þótt þróun á slíku eldi eigi langt í land og algjörlega útilokað að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði látið bíða þess að það verði hagkvæmt.

99% trygging þýðir ásættanlega áhættu
Við mat á hættu á erfðablöndun á laxi  er mönnum nokkur vandi á höndum enda ekkert fordæmi til fyrir slíku áhættumati  í heiminum.  Mikið er þó horft til rannsókna Norðmanna í því sambandi sem hafa sett  ströng viðmið um hámarksfjölda eldislaxa í laxveiðiám.    Skýrsluhöfundar leggja til að miða hámarksfjölda á eldislaxi í íslenskum laxveiðiám sem eru nærri fiskeldi við 4%, en þar miða Norðmenn við 10%.  Í ám sem eru „langt“ frá laxeldisstöð miða Norðmenn hinsvegar við 4% eins og skýrsluhöfundar leggja til.

30 þúsund tonna laxeldi í Djúpinu þýðir skv. líkaninu   að verið væri að taka  áhættu á að innblöndun strokulaxa í tveimur laxveiðiám í Djúpinu yrði   7,5% sem er yfir því viðmiði sem skýrsluhöfundar setja við 4%.   Það er hinsvegar vel innan þess 10% viðmiðs sem Norðmenn nota.  Viðmið Norðmanna er því í þessu tilfelli 150% víðara en það sem skýrsluhöfundar leggja til.  Viðmiðið 4% fyrir fjarlægar ár er hinsvegar hið sama og hjá Norðmönnum.

Jafnvel þótt skýrsluhöfundar hefðu þrengt viðmiðið um 25% frá norska viðmiðinu hefði það  þýtt tillögu skv. áhættumati um að leyfa ætti 30 þús. tonna eldi í Djúpinu eins og burðarþolsmatið gerði ráð fyrir.

Vegna landfræðilegra aðstæðna er hér hægt að taka algjöra lágmarks áhættu til að ná ótrúlegum ávinningi.  Hér er því um einstakt tækifæri að ræða.

En hvað ef forvarnir og viðbragðsáætlanir mistakast ?
Það er vissulega áleitin spurning hvað gerist ef öll plön um forvarnir og viðbrögð fara úr skorðum og menn missa tímabundið tökin á innblöndun í þeim tveimur ám sem um ræðir í Ísafjarðardjúpi.  Er þá tekin áhætta með allan villta laxastofninn á Íslandi.

Svarið tel ég vera einfalt – NEI.

Á  bls. 20 í skýrslunni segir að náttúrulegt flakk á laxi úr einni á í aðra sé metið á bilinu 4% til 20% skv.  rannsóknum.  Gera verður ráð fyrir að lægra gildið gildi um ár í mikilli fjarlægð, en efra gildið um ár í grennd við upphafsána.

Út frá líkindafræði þýðir þetta einfaldlega það að ef erfðablöndun ætti að geta borist úr einni á í aðra með náttúrulegu flakki þá þyrfti erfðablandaða áin að vera orðin verulega erfðablönduð.  Dæmi um 20% erfðablandaða á í Ísafjarðardjúpi mundi þýða, að náttúrulegt flakk á erfðablönduðum laxi í aðrar ár utan Ísafjarðardjúps væri 0,8%, en gæti hugsanlega náð 4% ef flakkið væri 20% í ár sem væru næst upphafsánni í Djúpinu.  Niðurstaðan er að hættan á að ár utan Ísafjarðardjúps verði fyrir erfðablöndun er algjörlega hverfandi (undir 1%)  Í ljósi þess að erfðablöndun sem næmi tugum prósenta í einni á gæti einungis orðið ef innblöndun á eldislaxi væri viðvarandi mikil (jafnvel í áratugi) og síendurtekin verður að teljast útilokað að slík staða kæmi upp.

Enn kann einhver að spyrja.  Hvað ef sérfræðingarnir hafa nú metið, mælt eða reiknað vitlaust. Getur samt ekki orðið óæskileg erfðablöndun úr einni á í aðra?

Þeirri spurningu hefur náttúran væntanlega þegar svarað sjálf.  Ef náttúrulegt flakk úr einni á í aðra væri nægilegt til „erfðablöndunar“ væri þá náttúran ekki löngu búin að jafna út erfðamengið í öllum íslenskum ám og gera þær einsleitar en ekki einstakar?

Niðurstaðan verður því enn og aftur sú að áhættan sem tekin er með því að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi er algjörlega staðbundin og engin hætta á að hún berist út í lax um landið allt.

Tugir milljarða til almennings og árlega 600 hundruð milljónir til sveitarfélaga
Auðveldlega má gera því skóna með samanburði við sunnanverða Vestfirði að eignir almennings á Norðanverðum Vestfjörðum geti hækkað um 10 til 20 milljarða króna á nokkrum árum vegna hækkunar fasteignaverðs á svæðinu. Þarna er þó um að ræða matskennda stærð.  Einnig má reikna með að tekjur sveitarfélaganna við Ísafjarðardjúp aukist um a.m.k. 500-600 milljónir króna á ári vegna tekna af útsvari og hafnargjöldum þegar eldið í Djúpinu verður komið í 30 þús. tonn á ári.

Ekkert eldi setur okkur hinsvegar í þá gamalkunnu stöðu að „finna eitthvað annað“ og hætt er við að fasteignaverð standi í stað og fólksfjölgun verði ekki.

Það tækifæri sem menn standa frammi fyrir við Ísafjarðardjúp núna er af stærðargráðu sem allir hafa áður talið óhugsandi, enda er áætlað framleiðsluverðmæti af 30 þúsund tonna eldi svipað og verðmæti helmings þorskaflans á Íslandi upp úr sjó.  Íslenski villti laxastofninn yrði áfram verndaður 99%.

Stjórnmálamenn taki af skarið í samræmi við burðarþolsmat
Enginn á jafn mikið undir í því að fiskeldið í Ísafjarðardjúpi fái að dafna og almenningur við Djúp.  Áhættan sem tekin er með því að leyfa fiskeldi í Ísafjarðardjúpi í samræmi við burðarþolsmat Hafró er algjörlega staðbundin og snýst um hlutfall sem er af stærðargráðunni 1% af íslenskum laxastofnum.

Stjórnmálamenn þurfa að meta hvort ásættanlegt sé að taka áhættu á að 1% íslenska laxastofnsins gæti þurft að þola tímabundna erfðabreytingu sem vel væri hægt að vinna til baka, kæmi hún upp.  Þegar höfð eru í huga þau gríðarlegu jákvæðu áhrif sem fylgja laxeldi í Ísafjarðardjúpi, bæði fyrir vestfirsk samfélög og þjóðarbúið í heild, þá ætti ákvörðunin að vera auðveld.  Mér er til efs að ákvarðanir almennt um veiðiheimildir úr fiskistofnum við Ísland sé hægt að taka með svo lítilli áhættu um áhrif á stofnstærð.

Það hlýtur að vera skylda stjórnmálamanna sem um málið fjalla að tryggja þá miklu hagsmuni almennings sem eru í húfi og ljúka leyfisveitingum vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi sem fyrst.

1 prósent fyrir íbúana
Búið er að velta við hverjum steini vegna ákvörðunar um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.  Engin haldbær rök eru til þess að fresta eldisáformum frekar og tefja þá miklu uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum við Ísafjarðardjúp.  Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra og áhættan sem fylgir uppbyggingunni er ásættanleg.

Með því að taka ákvörðun núna um 30 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi fær villti laxastofninn og náttúran að njóta 99% en íbúarnir 1% vafans.

Slík ákvörðun myndi leggja grunnin að mesta ævintýri sögunnar í uppbyggingu atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum.

Bolungarvík, 8. ágúst 2017,
Elías Jónatansson, íbúi við Ísafjarðardjúp

Nýr þjálfari til Harðar

Óskar Jón Guðmundsson hefur gert þriggja ára samning við Handknattleiksdeild Harðar um að verða þjálfari og framkvæmdastjóri deildarinnar. Hann tekur við góðu búi af Grétari Eiríkssyni sem hefur haldið til náms í Danmörku. Óskar er Þróttari að uppruna og þjálfaði þar í tólf ár við góðan orðstír og mikla ánægju Þróttara. Tvö síðustu árin þar þjálfaði hann meistaraflokk karla en undanfarin tvö tímabil hefur hann þjálfað meistaraflokk og 2. fl. karla í Svíþjóð hjá Spanga Handboll. Óskar var eins og áður segir þjálfari hjá Þrótti 2002 til 2009, var þá eitt tímabil hjá Gróttu og því næst aftur hjá Þrótti í 5 ár áður en hann fór til Svíþjóðar. Óskar hefur lokið HSÍ 3A námskeiði ásamt fjölda annarra íþróttanámskeiða og er hokinn af reynslu.

Handknattleiksdeild Harðar ber miklar væntingar til Óskars og vonast til þess að hann muni aðstoða félagið við að taka næstu skref. Áætlað er að félagið sendi sjö flokka til keppni í Íslandsmóti vetrarins og mun að vanda halda sitt árlega stóra Íslandsmót í 5. fl. karla yngri í apríl 2018. Óskar hefur störf þann 1. október en þangað til munu afleysingamenn hlaupa í skarðið.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir