Síða 2138

Kaldalind hætt við vatnskaup

Fyrirtækið Kaldalind ehf. hefur hætt við markaðsstentingu og útflutningi á vatni frá Ísafirði. Um áratugur er síðan fyrirtækið og Ísafjarðarbær skrifuðu undir fyrsta samninginn um útflutning á vatni úr Vestfjarðagöngum. Í bréfi Birgis Viðars Halldórssonar, framkvæmdastjóra Köldulinda, til Ísafjarðarbæjar segir að í gegnum markaðssetningu í tíu ár, sem hafi kostað tugi milljóna króna, hafi fyrirtækið kynnt Ísafjarðarbæ vel. Það sem er efsti í huga Birgis Viðars við þessi tímamót er frábært samstarf og þolinmæði frá mörgum aðilum á Ísafirði og nefnir hann Gísla Halldór Halldórsson bæjarstjóra og forvera hans í starfi, þá Daníel Jakobsson og Halldór Halldórsson.

smari@bb.is

Takk fyrir traustið.

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Auka kjördæmisþing Framsóknar í Norðvesturkjördæmi fór fram fyrir stuttu síðan. Þar gaf ég ekki kost á mér til áframhaldandi starfa á þingi, að minnsta kosti ekki á næsta kjörtímabili. Þegar ákvörðun sem þessi er tekin, þá er vel við hæfi að skrifa nokkur orð niður á blað og þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í störfum mínum sem þingmaður.

Þingmannsstarfið hefur verið afar lærdómsríkur tími og ég er þakklát fyrir svo margt. Fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt, fyrir vináttusambönd milli mín og þingmanna í hinum ýmsu flokkum og fyrir þann skóla sem starfið hefur verið.

Ég er ekki sammála þeim sem segja að þingmenn séu eingöngu stimpilpúði fyrir ráðuneytin. Þingmenn geta haft áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku um strauma og stefnur ríkisstjórna. Þetta snýst um að undirbúa sig vel, mæta vel og hafa þannig áhrif.

Í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins fékk ég sæti í Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem grunnur var lagður að nýju húsnæðiskerfi. Ég náði í gegn mikilvægum breytingartillögum í almannatryggingakerfinu, í barnaverndarmálum, húsnæðismálunum og barðist gegn matarskatti Sjálfstæðismanna, svo að eitthvað sé nefnt. Á síðasta ári samþykktu allir þingmenn tillögu mína um stefnumótun í heilbrigðiskerfinu og sú vinna var komin á fullt innan heilbrigðisráðuneytisins og mikilvægt er að sú vinna verði kláruð á nýju kjörtímabili. Á þessu þingi voru forgangsmálin mín, húsnæðismál og afnám verðtryggingar. Þau mál voru bæði tilbúin þegar það slitnaði upp úr þinginu. Auk þessa vann stór hluti þingmannahóps Norðvesturkjördæmis að lagasetningu um Teigsskóg. Ekkert þessara mála komst á dagskrá þingsins fyrir þinglok og er það miður.

Ákvörðunin um að gefa ekki kost á mér að þessu sinni, var ekki auðveld, sérstaklega ekki þar sem ég fékk fjölda áskorana um að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa. Ég finn þó að ákvörðunin er rétt við þessar aðstæður. Ánægjulegt er að fjöldi frambærilegra einstaklinga hefur gefið kost á sér á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og kosið verður um listann á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer næsta sunnudag. Ég óska þeim öllum góðs gengis.

Næstu vikur verða notaðar í tíma með fjölskyldu og vinum. Þeim sem hafa verið á hliðarlínunni undanfarin ár og stutt mig til allra verka.

Ég er sannur Framsóknarmaður og trúi á gildi Framsóknarflokksins. Þess vegna ætla ég að halda áfram að vinna fyrir flokkinn, þó á öðrum vettvangi, að minnsta kosti um sinn fái ég brautargengi til þess.

Ég þakka ykkur enn og aftur það mikla traust sem þið hafið sýnt mér. Það er ómetanlegt.

Elsa Lára Arnardóttir

– fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins

Alþýðufylkingin býður ekki fram í Norðvestur

Þorvaldur Þorvaldsson er leiðtogi Alþýðufylkingarinnar.

Alþýðufylk­ing­in hygg­ur á fram­boð í fjór­um kjör­dæm­um í alþing­is­kosn­ing­un­um sem fram fara 28. októ­ber. Fyrir kjósendur í Norðvesturkjördæmi sem eru lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi verður það að teljast vonbrigði að flokkurinn býður ekki fram í kjördæminu. Í fréttatilkynningu kemur fram Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Það eru því Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi sem verða útundan hjá Alþýðufylkingunni í kosningunum í lok október.

„Eins og gef­ur að skilja er erfitt fyr­ir flokk, sem hef­ur ekki launaða starfs­menn, að koma sam­an fram­boðslist­um þegar fyr­ir­var­inn er jafn stutt­ur og nú,“ seg­ir enn­frem­ur og bætt við að fram­boðslist­ar flokks­ins verði birt­ir á næstu dög­um.

smari@bb.is

Frönsk og rússnesk tónlist á minningartónleikum um Sigríði og Ragnar H.

Hinir árlegu minningartónleikar um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar verða haldnir í Hömrum laugardaginn 7.október kl. 16.

Flytjendur á tónleikunum er Tríó Sírajón, en það er skipað þeim Önnu Áslaugu píanóleikara, dóttur Sigríðar og Ragnars, Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara og Einari Jóhannessyni klarinettleikara en þau eru bæði náskyld Sigríði Jónsdóttur. Öll eru þau í framvarðasveit íslenskra tónlistarmanna. Efnisskrá tónleikanna er sérlega áhugaverð, frönsk og rússnesk tónlist sem einkennist af ástríðum og fágun en ekki síst kátínu.

Sigríður Jónsdóttir (1922-1993) og Ragnar H. Ragnar (1898-1987) voru sannkallaðir brautryðjendur á sviði ísfirsks tónlistarlífs og þjóðþekkt fyrir störf sín í þágu vestfirskra mennta og menningar. Ragnar H. stýrði Tónlistarskóla Ísafjarðar í 36 ár meðfram því að stjórna kórum bæjarins, gegna organistastarfi, annast tónleikahald auk fjölda annarra verkefna á sviði menningarlífs bæjarins. Sigríður kona hans var geysivinsæll kennari við bæði Grunnskólann og Tónlistarskólann um margra áratuga skeið og var hún ekki síður en maður hennar virkur þátttakandi í menningar- og félagslífi bæjarbúa.

Minningartónleikar um Sigríði og Ragnar hafa verið nánast árviss viðburður í tónlistarlífi bæjarins frá árinu 1988 og er jafnan sérstaklega vandað til þeirra. Það eru Tónlistarfélag Ísafjarðar og Tónlistarskóli Ísafjarðar sem standa að tónleikunum, en auk þess styrkja ýmsir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir tónleikana.

Miðasala er við innganginn, en aðgangseyrir er kr. 2.500, og 1.500 fyrir lífeyrisþega.

smari@bb.is

Sigur í fyrsta heimaleik

Meistaraflokkur kvenna með Tihomir Paunovski þjálfara.

Meistaraflokkur kvenna hjá Vestra sigraði ÍK í sínum fyrsta heimaleik keppnistímabilsins í 1. deildinni í blaki. Leikurinn fór fram í gær og endaði með 3-0 sigri Vestra. Fyrsta hrinan fór 25-20, sú næsta 25-19 og þriðja hrinan fór 25-22. Hrinurnar voru jafnar og skiptust liðin á að vera með forystu.

Á laugardaginn spilaði annar flokkur stúlkna við Þrótt frá Reykjavík og fór leikurinn fram á Þingeyri. Þróttur bar 3-1 sigur úr býtum í miklum baráttuleik. Vestrastelpur unnu fyrstu hrinuna nokkuð sannfærandi, en Þróttur vann aðra hrinu með talsverðum mun. Í þriðju hrinu mörðu Þróttarastúlkur sigur 28-26 í langri hrinu sem gat farið á hvorn veginn sem var. Fjórðu og síðustu hrinu unnu þær lílka með minnsta mögulega mun 26-24.

Það verður áhugavert að fylgjast með kvennaliðum Vestra í vetur, en blak er vaxandi íþróttagrein vestra.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá leik 2. flokks á Þingeyri.

smari@bb.is

Jafnaði markametið og stefnir á atvinnumennsku

Andri Rúnar fagnar marki með stæl en hann jafnaði markamet í efstu deild í sumar. Mynd: Fótbolti.net.

Bolvíski markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason, sem leikur með Grindarvík, stóðst pressuna um helgina og jafnaði markametið í úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Andri Rúnar er þar með kominn í hóp með Tryggva Guðmundssyni, Þórði Guðjónssyni, Pétri Péturssyni og Guðmundi Torfasyni. Grindavík mætti Fjölni á Grindavíkurvelli og Andri Rúnar jafnaði markametið á glæsilegan hátt þegar hann skoraði sigurmarkið á 88. mínútu í 2:1 sigri Grindavíkur. Andri Rúnar skoraði 19 mörk í úrvaldsdeildinni í sumar. Haft er eftir honum í Morgunblaðinu að hann stefnir á atvinnumennsku erlendis þegar samningur hans við Grindavík rennur út í þessum mánuði.

smari@bb.is

Komnir 111 metra inn í fjallið

Munni Dýrafjarðarganga en göngin opna haustið 2020.

Starfsmenn Suðurverks og tékkneska verktakafyrirtækisins Metrostav sem eru að grafa Dýfjarðargöng eru komnir 111 m inn í fjallgarðinn milli Arnarfjarðar og Dýrfjarðar. Þrjár vikur eru síðan gangagröftur hófst og með hverri vikunni eykst gangurinn. Í fyrstu vikunni, sem ekki var heil vinnuvika, voru grafnir 15 m, í viku tvö komust þeir 43 m og síðustu viku 52 m. Mestmegnis af efni úr göngum er keyrt í vegfyllingar. Á athafnsvæðinu í Arnarfirði er unnið að uppsetningu skrifstofuaðstöðu.

smari@bb.is

Eva Pandora efst hjá Pírötum

Eva Pandora Baldursdóttir

Prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi lauk á laugardaginn. Eva Pandora Baldursdóttir alþingismaður mun leiða lista Pírata í kosningunum síðar í mánuðinum, líkt og hún gerði fyrir ári. Gunnar I. Guðmundsson varð í öðru sæti í prófkjörinu rétt eins og í kosningunum 2016. Prófkjör Pírata fer fram á internetinu og gátu aðeins þeir tekið þátt sem voru skráðir í flokkinn 30 dögum áður en prófkjörið hófst.

Efstu menn í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi:

  1. Eva Pandora Baldursdóttir
  2. Gunnar Ingiberg Guðmundsson
  3. Rannveig Ernudóttir
  4. Ragnheiður Steina Ólafsdóttir
  5. Sunna Einarsdóttir

smari@bb.is

Heiðrúnu veitt heiðursslaufa

Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður Sigurvonar, afhenti Heiðrúnu barmnæluna fyrir hönd félagsins á föstudag.

Heiðrúnu Björnsdóttur var á föstudag afhent með viðhöfn fyrsta bleika slaufan á Vestfjörðum í þakkarskyni fyrir störf sín í þágu Krabbameinsfélagsins Sigurvonar. Bleika slaufan, árvekniátak Krabbameinsfélagsins er nú hafið en slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Heiðrún hefur starfað fyrir Sigurvon frá endurstofnun félagsins árið 2001 en starfsvæði þess eru norðanverðir Vestfirðir og Strandir. Fyrir þónokkrum árum kom hún ásamt Guðbjörgu Ólafsdóttur á fót stuðningshópnum Vinum í von fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hópurinn starfar enn í dag og hittist tvisvar í mánuði yfir vetrarmánuðina.

„Við eigum alltaf saman notalega stundir er við hittumst,“ segir Heiðrún um Vini í von. „Við fáum okkur morgunkaffi og léttar veitingar og röbbum saman um allt mögulegt. Ákveðinn kjarni mætir alltaf en við tökum alltaf vel á móti nýju fólki og hvetjum alla sem vilja til að kíkja við hjá okkur.“

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafaþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga um allt land sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Þess má geta Ráðgjafaþjónustan er faglegur bakhjarl starfsmanns þjónustumiðstöðvar Sigurvonar og gott samstarf verið þar á milli um árabil.

bryndis@bb.is

Óbreyttur listi

Efstu fimm á lista Sjálfstæðisflokkurinn.

Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins þingaði í Borgarnesi í gær. Tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að leggja fram óbreyttan lista frá því í þingkosningunum fyrir ári var samþykkt. Í efstu þremur sætunum eru Haraldur Benediktsson alþingismaður, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Teitur Björn Einarsson alþingismaður.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins:

  1. Haraldur Benediktsson frá Vestra-Reyni, bóndi og alþingismaður.
  2. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir frá Akranesi, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og lögfræðingur.
  3. Teitur Björn Einarsson frá Flateyri, alþingismaður og lögfræðingur.
  4. Hafdís Gunnarsdóttir frá Ísafirði, forstöðumaður
  5. Jónína Erna Arnardóttir í Borgarnesi, tónlistarkennari og sveitarstj.ftr.
  6. Aðalsteinn Orri Arason frá Varmahlíð, verktaki og búfræðingur.
  7. June Scholtz frá Hellissandi, fiskvinnslukona.
  8. Unnur Valborg Hilmarsdóttir frá Hvammstanga, oddviti Húnaþings vestra.
  9. Ásgeir Sveinsson frá Patreksfirði, form. bæjarráðs Vesturbyggðar og bóndi.
  10. Steinunn Guðný Einarsdóttir frá Flateyri, ferðamálafræðingur.
  11. Sigríður Ólafsdóttir frá Víðidalstungu, ráðunautur og sauðfjárbóndi.
  12. Böðvar Sturluson úr Stykkishólmi, framkvæmdastjóri og vörubifr.stjóri.
  13. Pálmi Jóhannsson úr Búðardal, framkvæmdastjóri og pípulagningamaður.
  14. Guðmundur Brynjar Júlíusson frá Akranesi, nemi.
  15. Þrúður Kristjánsdóttir úr Búðardal, fyrrverandi skólastjóri.
  16. Einar Kristinn Guðfinnsson frá Bolungarvík, fv. forseti Alþingis

smari@bb.is

Nýjustu fréttir