Síða 2137

VG í leiftursókn

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætir enn við sig fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, en Björt framtíð og Viðreisn hverfa af þingi eftir kosningarnar, samkvæmt könnuninni. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist stærri en Framsóknarflokkurinn.

Nær 29 af hundraði styðja Vinstri græn, sem fengju samkvæmt því 20 þingmenn. Rúm 22 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn og ætti það að skila 15 mönnum á þing.

Píratar koma næstir með 11,4 prósenta fylgi og átta þingmenn, og Samfylkingin stígur upp á við með 10,5 prósenta stuðning, sem myndi skila 7 mönnum á þing.

Eins og áður segir mælist Miðflokkurinn með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, en fyrrnefndi flokkurinn fær tæplega 9 prósenta stuðning og sá síðarnefndi 5,5 prósent og þrjá þingmenn.

Viðreisn og Björt Framtíð mælast með um það bil þriggja prósenta fylgi og koma því ekki manni á þing.

Könnunin var gerð dagana 2. og 3. október. Hringt var í 1.354 uns náðst hafði í 800 manns. 62,1 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu, en um níu prósent hugðust annað hvort sitja heima eða skila auðu, ellefu prósent höfðu ekki gert upp hug sinn og nær átján prósent neituðu að svara.

smari@bb.is

Magnús Þór oddviti Flokks fólksins

Magnús Þór Hafsteinsson

Flokkur fólksins hefur opinberað oddvita á listum flokksins í öllum kjördæmum. Magnús Þór Hafsteinsson mun leiða lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Þór sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn kjörtímabilið 2003-07. Hann er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum. Fiskeldisfræðingur frá Héraðsháskóla Sogn og Firðafylkis í Noregi og með meistaragráðu í fiskifræði frá Háskólanum í Björgvin í Noregi.

Hann vefur víðtæka starfsreynslu, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Blaðamaður í sjónvarpi, útvarpi, á netinu og í blöðum bæði í Noregi og á Íslandi. Hann hefur ritað bækur um sögu Íslands í seinni heimsstyrjöld og verið ritstjóri landshlutafréttablaðsins Vesturlands frá 2016. Hann leiddi lista Flokks Fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu þingkosningum.

smari@bb.is

Leita að eldislöxum í vestfirskum ám

Eftirlitsmenn Fiskistofu kanna nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum. Í lok september barst Fiskistofu erindi frá Landssambandi veiðifélag þar sem óskað var eftir þessari könnun. Fiskistofa hefur haft samráð við Hafrannsóknastofnun um málið, en stofnunin telur að upplýsingar um það hvort eldisfiska er að finna í ám á Vestfjörðum geti gagnast til þess að renna styrkari stöðum undir áhættumat vegna hugsanlegrar erfðablöndunar vegna sjókvíaeldis á laxi á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í bréfi Fiskistofu til Ísafjarðarbæjar.

Í bréfinu er óskað eftir leyfi bæjarins til sýnatöku í Sandá í Dýrafirði, en Ísafjarðarbær á land að ánni. Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðist sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.

Ísafjarðarbær veitti Fiskistofu leyfi til veiða og rannsókna í ánni en setur það skilyrði að fá strax að leit lokinni upplýsingar um fjölda laxa sem finnast við þessa leit og hvernig skipting þeirra er í eldislaxa og náttúrulega laxa.

smari@bb.is

Jafnaði markametið og stefnir á atvinnumennsku

Andri Rúnar fagnar marki með stæl en hann jafnaði markamet í efstu deild í sumar. Mynd: Fótbolti.net.

Bolvíski markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason, sem leikur með Grindarvík, stóðst pressuna um helgina og jafnaði markametið í úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Andri Rúnar er þar með kominn í hóp með Tryggva Guðmundssyni, Þórði Guðjónssyni, Pétri Péturssyni og Guðmundi Torfasyni. Grindavík mætti Fjölni á Grindavíkurvelli og Andri Rúnar jafnaði markametið á glæsilegan hátt þegar hann skoraði sigurmarkið á 88. mínútu í 2:1 sigri Grindavíkur. Andri Rúnar skoraði 19 mörk í úrvaldsdeildinni í sumar. Haft er eftir honum í Morgunblaðinu að hann stefnir á atvinnumennsku erlendis þegar samningur hans við Grindavík rennur út í þessum mánuði.

smari@bb.is

Ég man þig hlýtur aðalverðlaun á Fantasy film

Ég man þig hlaut aðalverðlaun á þýsku kvikmyndahátíðinni Fantasy Film Fest. Tíu kvikmyndir tóku þátt í aðalkeppninni. Á meðal sigurvegara undanfarinna ára eru myndir á borð við Beasts of the Southern Wild, District 9 og Brick. Segja má að Ég man þig sé því í góðum félagsskap með þessum stóru kvikmyndum sem hafa áður hlotið verðlaunin. Fantasy Film Fest er haldin í 31. skipti í ár og fór fram í sjö stærstu borgum Þýskalands í september.

Í umsögn dómara segir að Ég man þig sé sálfræðiþriller og ein svakalegasta draugamynd seinni ára. Þá er sagt að handritið sé listilega vel skrifað, kvikmyndatakan öll hin glæsilegasta undir styrkri leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Umsögnin er botnuð með þeim orðum að svona eigi að gera alvöru kvikmynd.

Leikstjóri er, eins og áður hefur komið fram, Óskar Þór Axelsson og handrit er eftir Ottó Geir Borg og Óskar Þór. Ég man þig er byggð á samnefndri metsölubók eftir Yrsu Sigurðardóttur. Í aðalhlutverkum eru Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Framleiðendur eru Þórir Snær Sigurjónsson, Skúli Malmquist, Sigurjón Sighvatsson og Chris Briggs.

Ég man þig fjallar um ungt fólk sem fer til Hesteyrar að gera upp hús um miðjan vetur en fer fljótlega að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu.

bryndis@bb.is

Samningur um starfsendurhæfingu

Þorsteinn Víglundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir

Formlegur samningur um þjónustu VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar var undirritaður í velferðarráðuneytinu fyrir skömmu. Samningurinn byggist á ýtarlegri kröfulýsingu fyrir starfsendurhæfingarsjóði.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnar VIRK undirrituðu samninginn sem gerður er í samræmi við lög um rétt þeirra til starfsendurhæfingar sem standa utan vinnumarkaðar. Er þar meðal annars átt við þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með samningnum er kveðið skýrt á um að þeir sem standa utan vinnumarkaðar og uppfylla skilyrði laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu eigi rétt til þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á sama hátt og þeir sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Markmiðið er að tryggja þeim sem eru með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa og standa utan vinnumarkaðar, atvinnutengda starfsendurhæfingu þannig að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

smari@bb.is

Snjallsíminn er forheimskandi

Fyrir utan að vera forheimskandi er það beinlínis hættulegt og ólöglegt að tala í síma undir stýri.

Snjallsíminn hefur vond áhrif að vitræna getu manna og ætti alls ekki að vera í sama herbergi og vinnandi fólk. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Vinnueftirlitsins í grein fjallar um rannsókn vísindamanna við háskólann í Austin í Texas. Rannsóknin fólst í því að láta þátttakendur leysa ýmsar gátur, ýmist með símann í sama herbergi eða ekki. Niðurstaðan var sú að vitræn geta var greinilega meiri ef síminn var fjarlægður úr herberginu, engu skipti hvort kveikt var á honum eða hvort hann snéri með skjáinn upp eða niður.

Bryndis@bb.is

Lilja Rafney áfram oddviti

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Kjör­dæm­is­ráðs Vinstri grænna í Norð­vest­ur­kjör­dæmi fundaði í gær á Hótel Bjarkalundi. Tillaga kjörnefndar um framboðslista í komandi þingkosningum var samþykkt Lilja Raf­ney Magn­ús­dótt­ir, alþing­is­maður leiðir list­ann áfram, Bjarni Jóns­son, sveit­ar­stjórn­ar­maður og for­stöðu­mað­ur í Skaga­firði er áfram í öðru sæti, en nýr í 3. sæti er Rúnar Gísla­son, háskóla­nemi frá Borg­ar­nesi. Hér má sjá list­ann í heild:

  1. Lilja Raf­ney Magn­ús­dótt­ir, alþing­is­mað­ur, Suð­ur­eyri.
  2. Bjarni Jóns­son, sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi,Skaga­firði
  3. Rúnar Gísla­son, háskóla­nemi, Borg­ar­nesi.
  4. Dag­rún Ósk Jóns­dótt­ir, þjóð­fræð­ingur,Hólma­ví
  5. Dagný Rósa Úlf­ars­dótt­ir, bóndi á Ytra-hóli og kenn­ari, Skaga­byggð.
  6. Hjör­dís Páls­dótt­ir, safn­stjóri, Stykk­is­hólmi
  7. Reynir Eyvinds­son, verk­fræð­ing­ur, Akra­nesi.
  8. Þröstur Þór Ólafs­son, fram­halds­skóla­kenn­ari, Akra­nesi.
  9. Sig­ríður Gísla­dótt­ir, dýra­lækn­ir, Ísa­firði
  10. Þóra Geir­laug Bjart­mars­dótt­ir, kenn­ari, Reyk­holts­dal, Borg­ar­byggð.
  11. Bjarki Hjör­leifs­son, athafna­mað­ur, Stykk­is­hólmi
  12. Eyrún Bald­urs­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræði­nemi, Borg­ar­nesi.
  13. Matth­ías Sævar Lýðs­son, bóndi á Húsa­vík, Stranda­byggð.
  14. Lárus Ást­mar Hann­es­son, kenn­ari og sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi, Stykk­is­hólmi
  15. Guðný Hildur Magn­ús­dótt­ir, félags­mála­stjóri, Bol­ung­ar­vík
  16. Guð­brandur Brynj­úlfs­son, bóndi á Brú­ar­landi, Mýrum í Borg­ar­byggð.

smari@bb.is

Körfuboltinn fer að rúlla um helgina

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Körfuboltatímabilið fer af stað af fullum krafti á næstu helgi. Meistaraflokkur karla hefur leik á Íslandsmótinu á föstudaginn með heimaleik  gegn Snæfelli. Frítt er inn á leikinn og eru Ísfirðingar og nærsveitarmenn hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja við strákana. Á leiknum verður hægt að kaupa ársmiða á alla heimaleiki liðsins á Íslandsmótinu auk þess sem grillaðir hamborgarar verða í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr.

Á laugardag og sunnudag hefja svo stúlkurnar í 9. flokki leik í B-riðli Íslandsmótsins. Fjölliðamót B-riðils fer fram á Ísafirði og hefst kl. 15 á laugardag með leik Vestra og Snæfells. Á sunnudagsmorgun kl. 10:15 mæta stelpurnar svo Haukum og kl. 12:45 KR. Sjoppa Barna- og unglingaráðs verður að sjálfsögðu opin og heitt á könnunni.

Strákarnir í 10. flokki taka einnig þátt í fjölliðamóti um helgina og hefja leik í A-riðli. Vestri hefur tekið upp samstarf við Skallagrím og tefla félögin fram sameiginlegu liði á Íslandsmótinu í vetur. Mótið fer fram í Ásgarði í Garðabæ og verða mótherjar okkar manna, auk heimamanna í Stjörnunni, Fjölnir, KR og Valur.

Á sama tíma leggur Vestri-B svo úr höfn með tveimur útileikjum í 3. deild karla. Fyrri leikur liðsins fer fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði kl. 16:30 en þar mætir Vestri C-liði Hauka. Á sunnudag bregða piltarnir sér á Álftanesið og mæta þar heimamönnum kl. 12:00.

Að lokum spila stelpurnar í minnibolta 11 ára á fyrsta móti sínu í vetur um helgina en mótið fer fram í Smáranum og er haldið af Breiðabliki.

smari@bb.is

Svona hefjum við fiskeldi í Djúpinu

Gylfi Ólafsson

Á fjölsóttum borgarafundi í síðasta mánuði kom fram skýr krafa heimafólks við Djúp að hefja þurfi laxeldi sem fyrst. Þó tónninn hafi verið ansi afdráttarlaus í máli margra fundarmanna var nokkuð lausnamiðaðri tónn í þeirri ályktun sem borin var undir fundinn til samþykktar. Þar var þess krafist að „laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

Til þess að þetta nái fram að ganga þurfa allir að vinna saman.

Þetta þarf Hafrannsóknastofnun að gera

Hafrannsóknastofnun hefur setið undir ámæli fyrir að áhættumat vegna laxasleppinga sé ekki nógu ítarlegt, taki ekki nógu mikið tillit til mögulegra mótvægisaðgerða og tiltaki ekki neitt framleiðslumagn – hversu lítið sem það kann að vera – sem leyfilegt mætti vera í Djúpinu. Síðan borgarafundurinn var haldinn hefur stofnunin kynnt áhættumatið á opnum fundi, og rýni á áhættumatinu á að fara fram í október. Mikilvægt er að áfram verði unnið af krafti, þannig að hægt sé að verða við ósk borgarafundarins um svör fyrir árslok. Ítarleg rýni og áframhaldandi rannsóknir eru forsenda þess að veiðiréttarhafar sætti sig við eldi, og að fiskeldisfyrirtæki sætti sig við takmarkanir og hömlur. Nánar tiltekið þarf stofnunin að sýna hvernig mótvægisaðgerðir með þeim aðferðum sem til eru í dag hafa áhrif á niðurstöður áhættumatsins. Þannig mun sjást hvernig sjókvíaeldi getur fari fram í Djúpinu.

Þetta þurfa fiskeldisfyrirtækin að gera

Fiskeldisfyrirtækin þurfa að vera auðmjúk gagnvart því mikla álagi á náttúruna sem fiskeldi getur haft í för með sér. Þau þurfa að setja fram raunhæfar hugmyndir að mótvægisaðgerðum og hafa frumkvæði að umhverfisvænum lausnum í starfsemi sinni. Sérlega mikilvægt er að hindra útbreiðslu laxalúsar og einnig að tryggja að ekki verði notuð kemísk laxalúsarmeðul á rækjuslóðum s.s.  Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði.  Til varnar laxveiðiám geta mótvægisaðgerðir verið útsetning stærri seiða, breyttar tímasetningar innan ársins og bættur búnaður – og sennilega sambland af þessu.

Auk þess þarf að leggja til hliðar að sinni öll áform um fiskeldi í Jökulfjörðum og draga þá umsókn til baka. Við vitum öll að þau áform eru mjög umdeild og þau þvæla bara umræðuna. Full ástæða er til að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi fái að þróast áður en Jökulfirðir komi einu sinni til umræðu.

Þetta þurfa yfirvöld að gera

Stjórnvöld eiga mikið verk fyrir höndum. Þau þurfa að vinna áfram með niðurstöður stefnumótunarnefndarinnar sem lauk störfum fyrr í haust. Tryggja þarf að Hafrannsóknastofnun hafi fjármagn til vandaðra rannsókna. Til viðbótar verður að endurskipuleggja hvernig vinnan við stefnumótun og áhættumat fer fram, einkum þannig að hagrænir og samfélagslegir þættir verði metnir samhliða lífrænum þáttum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sett fram hugmyndir um eldisreglu, hliðstæða aflareglunni sem hefur verið undirstaða stækkandi þorskstofns og var metnaðarfullt skref til að sameina líffræði og hagfræði. Skoða þarf sérstaklega hvort breytingar á regluverki kalli á frestun í veitingu leyfa til eldis eða undirbúnings.

Þetta þurfa veiðiréttarhafar að gera

Eitt af því sem nefnt hefur verið sem mótvægisaðgerð er að setja laxaflokkara neðst í laxveiðiár þar sem villtir laxastofnar gætu blandast eldisfiski. Sú hugmynd er í skýrslu stefnumótunarnefndarinnar slegin út af borðinu þar sem með slíkum inngripum væri ráðist að einkaeign veiðiréttarhafa. Það er gott og vel, en bara ef veiðiréttarhafar eru ekki reiðubúnir til að vinna með fiskeldisfyrirtækjunum að því að tryggja að eldi og laxveiðar fari saman. Fiskeldisfyritækin hafa boðist til að borga allan kostnað – svo lagakröfur eru óþarfar – en þá þurfa veiðiréttarhafar að vilja samtal og finna lausn sem hentar öllum.

Þetta þurfa íbúar að gera

Allt er þetta á endanum gert fyrir íbúana. Að byggðafestan sem fiskeldið ber með sér gagnist byggðunum við Djúp. Að íbúðaverð hækki, fólk máli húsin sín, unga fólkið setjist að með börnin. Að KPMG-skýrslan frá því í síðustu viku rætist.  Íbúarnir hafa hér tvíþætt hlutverk. Þeir eiga að hafa eftirlit með öllum sem ég hef nefnt hér að ofan. Og þeir eiga að kjósa til valda þann flokk sem þeir telja líklegastan til að sætta ólík sjónarmið og koma á blómlegu fiskeldi í Djúpinu í sátt við náttúru og menn.

Þar er Viðreisn besti kosturinn því að Viðreisn vill að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Viðreisn veit að náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar, þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir. Þannig fer saman blómleg byggð og umhverfisvernd.

Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Nýjustu fréttir