Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2137

Vanþakklátur hvalur í nauðum

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust síðdegis í gær upplýsingar frá formanni björgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Þingeyri að sést hefði til hnúfubaks á Dýrafirði sem virtist vera með veiðafæri flækt utan um sporðinn. Svo virtist sem þetta kæmi í veg fyrir að hann gæti kafað eða synt um.  Varðskipið Þór sem statt var undan Vestfjörðum var sent áleiðis inn á Dýrafjörð til þess að finna hvalinn og freista þess að skera veiðarfærin frá sporði dýrsins.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi komu varðskipsmenn auga á hvalinn utarlega í Dýrafirði og var bátur skipsins sjósettur með nokkrum skipverjum um borð ásamt viðeigandi verkfærum til að skera veiðarfærin.  Aðgerðin heppnaðist vel því að um 20 mínútum síðar var hvalurinn laus við netadræsuna, netakúlurnar og annað það sem flækst hafði utan um sporðinn.

Að sögn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar láðist Hnúfubaknum að þakka fyrir sig en lét sig hverfa ofaní undirdjúpin um leið, sjálfsagt frelsinu feginn.

bryndis@bb.is

Ítrekað rafmagnsleysi

Unnið við rafmagnslínu.

Í gær urðu rafmagnsnotendur á Vestfjörðum fyrir ítrekuðu rafmagnsleysi sem varði talsverðan tíma og varaaflið virtist ekki virka. Að sögn Elíasar Jónatanssonar orkubússtjóra var bilunin vegna fyrirbyggjandi viðhalds hjá Landsneti á Geiradalslínu sem liggur á milli Glerárskóga og Geiradals. Línan er hluti línu sem liggur úr Hrútatungu í Mjólká og tengir Vestfirði við meginflutningskerfi raforku. Samkvæmt tilkynningum frá Landsneti var kerfið óstöðugt með sveiflur á tíðni og spennu.

Af óútskýrðum orsökum fór snjallnetið út um leið og það þýðir að ræsa þarf kerfið upp handvirkt. Snjallnetið er tölvuforrit sem stýrir rofum og það er hlutverk þess að stýra uppkeyrslu á varaafli þegar þess gerist þörf. Ekki lágu fyrir upplýsingar hjá Orkubúinu um hve oft eða hvers vegna snjallnetið hefur dottið út á árinu.

Lengst var rafmagnslaust í Súðavík en þangað náðist alls ekkert samband frá stjórnstöð og þá þarf að senda mann á staðinn.

bryndis@bb.is

Atvinnutækifæri listamanna utan höfuðborgarinnar.

Í dag kl. 16:00 hefst á Suðureyri opin ráðstefna um atvinnutækifæri listamanna á landsbyggðinni, ráðstefnan er hluti dagskrár einleikjahátíðarinnar Act alone.

Í umfjöllun um ráðstefnuna á vef Act alone segir.

Þegar fjallað er um atvinnulífið í opinberum skýrslum eða rannsóknum félagsvísindanna koma oftar en ekki í ljós veikleikar sem flestir virðast sammála um að þurfi að lagfæra. Þar er áberandi einhæfni atvinnulífsins, sérstaklega á dreifbýlli svæðum, og lögð áhersla á mikilvægi þess að aukið verði við fjölbreytnina, enda almennt talið að kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf sé grundvöllur þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni.

En viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á kraftinn og fjölbreytnina í atvinnulífinu hefur ekki skilað ásættanlegum árangri fram til þessa. Ýmsar leiðir til úrbóta hafa verið kannaðar og undanfarið hefur mátt greina sameiginlegar áherslur stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, þar sem horft hefur verið til möguleika nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Í því sambandi er oftar en ekki vísað til þess geira atvinnulífsins sem kallaður hefur verið SKAPANDI GREINAR. Listamenn hafa staldrað við framsetningu stjórnvalda á hugmyndum um eflingu SKAPANDI GREINA og telja óljóst hvort LISTIRNAR tilheyri því mengi sem þar er vísað er til. En í öllu falli blasir það við að kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf er sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og atvinnulífsins og í ljósi þess að listamenn bera uppi hluta þess geira sem telst til SKAPANDI GREINA hafa Bandalag íslenskra listamanna og leiklistarhátíðin ACT ALONE ákveðið að efna til málþings þar sem horft verður til listgreinanna sem burðarstoða í fjölbreyttu atvinnulífi og skoðaðir möguleikar listamanna til að starfa á atvinnugrundvelli utan höfuðborgarsvæðisins.

Frummælendur á málþinginu verða Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, Karna Sigurðardóttir forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar og Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri. Auk þeirra verða þátttakendur í pallborðsumræðum Halldór  Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi í Reykjavík og Elfar Logi Hannesson leikari og stjórnandi hátíðarinnar Act Alone. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar Gísli H. Halldórsson setur þingið og fundarstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna.

Act alone hófst í gær og var gríðargóð mæting og veðrið skartaði sínu fegursta í Súgandafirði.

 

bryndis@bb.is

Brautryðjendur í vegagerð á Vestfjörðum voru snillingar

Upp úr síðari heimsstyrjöld hófst uppbygging nútíma vegakerfis á Vestfjörðum. Þá komu til sögunnar þeirra tíma nýtísku vélar, jarðýtur, vörubílar, gröfur og nefndu það bara. Flestar ættaðar frá Bandaríkjunum. En það var ekki nóg að eignast vélar og tæki. Það þurfti menn til að stjórna þessum græjum. Og menn sem lögðu á ráðin og kunnu að leiðbeina svo vel færi. Þessir menn voru brautryðjendur. Á ótrúlega skömmum tíma ruddu þeir brautir svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð, mold, grjót og sandur í bland. Mörg afrek voru þar unnin í þjóðarþágu. Þeir fóru yfir mela og móa, ár og læki, fjallahlíðar og grundir, eftir fjörum og yfir firði, yfir fjöll, yfir skriður og fyrir nes. Og jafnvel í gegnum vestfirska skóga og kjörr. Þetta voru snillingar sem lögðu hönd á þennan plóg. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið?

Án vega hefðu Vestfirðir verið óbyggilegir

Engu er líkara en fjöldi vestfirskra vega hafi verið greyptir í landið þegar landnámsmenn komu. Svo inngrónir eru þeir landslaginu i dag. Hvarvetna. Hefur einhver heyrt að þessir lífsnauðsynlegu vegir hafi eyðilagt vistkerfi Vestfjarða? Hafa þeir eyðilagt einhverja skóga? Og fjöll eða dali?

Auðvitað hafa verið lagðir hér vegir sem menn hafa ekki verið ánægðir með staðsetningu þeirra. Og komið hefur fyrir að gróið land hefur goldið þess. Þá hafa menn bara bölvað Vegagerðinni og lífið haldið áfram. En þetta eru undantekningarnar sem sanna regluna: Vestfirskir vegir voru almennt snilldarlega lagðir og bera höfundum sínum fagurt vitni. Og hafa komið Vestfirðingum að ótrúlega góðum notum. Hvernig hefðu Vestfirðir verið án vega? Óbyggilegir. Þarf ekki annað en líta til Hornstranda í þeim efnum. Það voru snillingar sem lögðu hönd á hinn vestfirska vegagerðarplóg.

Brautryðjandinn Elís Kjaran sagði eitt sinn að margir teldu að hann væri að eyðileggja landið og náttúruna með því að ryðja þessa vegi sína og troðninga. Hann svaraði því til, að náttúran sjálf væri alltaf að breyta landslaginu. Daglega sagði Elli og þarf ekki vitnanna við.

Hundrað sinnum Teigsskógur!

Það sem hér er sagt um vestfirska vegi, blasir við öllum sem um þá fara. Því óskiljanlegra verður að telja ruglið með Teigsskóg í Gufudalshreppi. Akfær vegur var lagður þar í sveit um og upp úr 1950. Hvers vegna ekki má leggja nýjan veg þar um slóðir í stað gamla moldarvegarins er óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Þar er Vestfjörðum haldið í spennitreyju af einhverjum spekingum, í stofnunum sem sumar lifa fyrir sjálfar sig. Þó spakir séu hafa þeir ekki gáfur til að sjá að búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á að minnsta kosti 100 sambærilegum stöðum eins og Teigskjarrið er. Engir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir því sem séð verður. Eru Vestfirðingar dauðir úr öllum æðum að láta þetta Teigsskógsrugl endalaust yfir sig ganga? Með öðrum orðum: Eiga einhverjir strákar, sem sumir hafa aldrei komið austur fyrir Elliðaár, að stjórna því leynt og ljóst hvernig Vestfirðingar haga sínum málum?

Að umgangast landið á réttan hátt

Vitanlega verðum við að fara varlega í umgengni við landið okkar. Sýna því fulla tillitssemi og nærgætni. Ekki síst okkar sjálfra vegna. Um það eru flestir sammála í dag sem betur fer. Sá breytti hugsunarháttur er mörgum að þakka, til dæmis öðlingum eins og Ómari Þ. Ragnarssyni. En það er ekki þar með sagt að við eigum bara að horfa á Ísland farsælda Frón. Við þurfum að nýta það á réttan hátt. Svo sagði Vestfirðingur að nafni Jón Sigurðsson.

Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson, Bjarni G. Einarsson:

 

Íslandsmeistaramót í hrútaþukli á Ströndum

Það verður sannkölluð stórhátíð í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum sunnudaginn 20. ágúst. Þá verður í fimmtánda skipti haldið Íslandsmeistaramót í hrútadómum og hefst skemmtunin kl. 14. Þessi íþróttagrein sem í daglegu tali er kölluð hrútaþukl er uppfinning Strandamanna og hefur verið haldin árlega á Sauðfjársetrinu frá árinu 2003. Á síðasta ári mættu um 500 manns til að horfa á keppnina og yfir 70 tóku þátt.

Kaffihlaðborð og kjötsúpa verður í boði á Sauðfjársetrinu, en ókeypis verður inn á safnið og sýningar þess. Þar er m.a. hægt að skoða fastasýninguna Sauðfé í sögu þjóðar og tvær sérsýningar sem heita Álagablettir og Sumardvöl í sveit, en sú síðastnefnda var opnuð haustið 2016 eftir síðustu hrútadóma. Samhliða hrútadómunum er haldið stórhappdrætti í tilefni dagsins og í vinning eru úrvals líflömb af Ströndum og úr Reykhólasveit. Miðar í lambahappdrættinu eru seldir á staðnum, en fyrir þá sem komst ekki er líka hægt að kaupa miða með því að hringja í Ester framkvæmdastjóra í síma 693-3474.

Hrútadómarnir fara þannig fram að helstu sauðfjárspekúlantar landsins sem jafnframt eru í dómnefnd velja og meta fjóra íturvaxna Strandahrúta með öllum nútíma tækjum og tólum. Dómnefndin gefur þeim stig fyrir ýmsa eiginleika eftir stigakerfi sem bændur og vanir hrútaþuklarar kunna og raðar þeim í gæðaröð. Oftast eru valdir dálítið ólíkir hrútar, alls ekki þeir fjórir bestu. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Keppt er í tveimur flokkum og allir geta verið með. Þeir sem kunna ekki á stigakerfið keppa í flokki sem kenndur er við óvana og þeir eiga að raða hrútunum í röð eftir því hversu miklir gæðagripir þeir eru og útskýra hvernig þeir fundu röðina út. Þeir sem keppa um Íslandsmeistaratitilinn þurfa hins vegar að dæma hrútana eftir stigakerfinu sem bændur gjörþekkja. Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Fyrir utan heiðurinn af því að standa uppi sem Íslandsmeistari í hrútadómum fær sigurvegarinn einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árnesi í Trékyllisvík hannaði og gefin var af búnaðarsambandi Strandamanna árið 2005 til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna í 40 ár.

Á síðasta ári sigraði kona í fyrsta skipti í hrútadómunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þá eru Strandamenn jafnan sérlega áhugasamir um að halda titlinum innan sýslumarkanna, en það hefur reyndar ekki alltaf gengið eftir. Ötulastir við það hafa verið bændurnir á Melum í Árneshreppi, en Kristján Albertsson hefur unnið keppnina fjórum sinnum og Björn Torfason tvisvar. Sumum aðkomumönnum finnst Strandamenn reyndar hafa dálítið forskot í keppninni, vegna þekkingar þeirra á ættum og uppruna hrútanna og líka vegna þess að handföngin (eða hornin) vanti sé miðað við slíka gripi í þeirra heimasveitum.

Þeir sem hafa unnið mótið og þar með Íslandsmeistaratitilinn til þessa eru:

2016: Hadda Borg Björnsdóttir, Þorpum í Strandabyggð
2015: Guðmundur Gunnarsson, Kjarlaksvöllum í Saurbæ
2014: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2013: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2012: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2011: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2010: Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2009: Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Strandabyggð
2008: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2007: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2006: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2005: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2004: Eiríkur Helgason, Stykkishólmi, og Björn Sigurvaldason, Litlu-Ásgeirsá í Húnaþingi vestra
2003: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi

bryndis@bb.is

Litlar líkur á fipronil í íslenskum eggjum

Í síðustu viku bárust upplýsingar frá Evrópu um að sníklalyfið fiponil hafi greinst í eggjum í Hollandi. Dreifing eggja frá ákveðnum eggjaframleiðendum var stöðvuð í kjölfarið. Heil egg á markaði hérlendis eru af íslenskum uppruna. Unnar eggjaafurðir, t.d. gerilsneyddar eggjarauður, eggjahvítur og eggjaduft eru fluttar til landsins og samkvæmt athugun Matvælastofnunar eru þær upprunnar í Bretlandi, Danmörk, Hollandi og Þýskalandi. Ekki hafa borist tilkynningar frá Evrópska viðvörunarkerfinu (RASFF) um að menguðum eggjaafurðum hafi verið dreift til landsins.

Ein sending af eggjarauðudufti frá Hollandi var að berast til landsins og hefur framleiðandi vörunnar upplýst að hráefni í hana komi ekki frá þeim eggjaframleiðendum sem hafa notað sníklalyfið fipronil. Áður en til dreifingar kemur mun Matvælastofnun afla frekari upplýsinga um uppruna og gæði hráefna í þeim tilgangi að tryggja öryggi afurða.

Aðskotaefnaáætlun landbúnaðarafurða hjá Matvælastofnun tekur m.a. mið af sýnatökum og prófunum á afurðum með hliðsjón af magni innfluttra lyfja og því hefur greining á efninu fipronil ekki verið hluti af henni.

Einkenni eitrunar vegna fipronil  geta verið ógleði, magaverkir, svimi, uppköst og flogaköst. Til langs tíma getur efni valdið lifrar- og nýrnaskaða.

bryndís@bb.is

Óhapp við gangavinnuna

Vörubíll sem var að flytja steypusand frá Þingeyri valt á vinnusvæðinu við Dýrafjarðargöng. Sandurinn er sendur vestur með flutningaskipi og landað á Þingeyri, þaðan þarf að aka honum á framkvæmdastað. Að sögn Gísla Eiríkssonar hjá Vegagerðinni er eðli málsins samkvæmt undirlagið frekar ójafnt á svona vinnusvæðum og þetta gerist annað slagið að menn velta bílunum þegar verið er að sturta.

Sumarhús í Dagverðardal

Í sólinni í gær var unnið við að tyrfa þak á nýju sumarhúsi sem er í byggingu í Dagverðardal en telja má til tíðinda ef hús eru byggð hér á norðanverðum Vestfjörðum. Sumarhúsið er tæpir 90 fm og er í eigu ungra hjóna sem búsett eru í Reykjavík en eiga ættir sínar að rekja til Ísafjarðar. Í Dagverðardal eru skipulagðar lóðir fyrir sumarhús og þar er ekki snjóflóðahætta svo búast má við þar rísi skemmtileg byggð.

bryndis@bb.is

Litaskrúð á túnum

Það er fátt fallegra græni liturinn á nýslegnum túnum en nú hafa bændur bætt um betur og fyrir utan þessar hefðbundnu svörtu og hvítu heyrúllur má sjá bleikar og bláar. Það er reyndar talsvert síðan þessar bleiku fóru að birtast í náttúrunni og flestir vita að þeir bændur sem kaupa bleikt rúlluplast minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma.

Þessar fagurbláu eru hins vegar nýnæmi og þeim er ætlað að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Þrjár evrur af sölu bleikra og blárra rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, annars vegar til rannsókna á brjóstakrabbameini og hinsvegar til rannsókna á blöðruhálskrabbameini.

Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini framleiðanda heyrúlluplastsins, Trioplast, á Nýja Sjálandi sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi og fjölda annarra landa og vakið mikla athygli.

Myndasamkeppni 

Í tilefni af þessu skemmtilega frumkvæði bænda og dreifingaraðila verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt og vekja athygli á mikilvægu málefni.

Merktu þína mynd #bleikrulla eða #blarulla

bryndis@bb.is

Byggingaframkvæmdir á Holtssandi

Hin árlega Sandkastalakeppni á Holtssandi var á sínum stað um Verslunarmannahelgina og var vel mætt. Allskonar fígúrur risu upp úr sandinum og börn á öllum aldri skemmtu sér hið besta. Metnaðurinn er gríðarlegur en eins gott að festa afrekin á filmu því náttúran kemur öllum listaverkunum fyrir kattarnef.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir