Síða 2137

Samningur um starfsendurhæfingu

Þorsteinn Víglundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir

Formlegur samningur um þjónustu VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar var undirritaður í velferðarráðuneytinu fyrir skömmu. Samningurinn byggist á ýtarlegri kröfulýsingu fyrir starfsendurhæfingarsjóði.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnar VIRK undirrituðu samninginn sem gerður er í samræmi við lög um rétt þeirra til starfsendurhæfingar sem standa utan vinnumarkaðar. Er þar meðal annars átt við þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með samningnum er kveðið skýrt á um að þeir sem standa utan vinnumarkaðar og uppfylla skilyrði laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu eigi rétt til þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á sama hátt og þeir sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Markmiðið er að tryggja þeim sem eru með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa og standa utan vinnumarkaðar, atvinnutengda starfsendurhæfingu þannig að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

smari@bb.is

Snjallsíminn er forheimskandi

Fyrir utan að vera forheimskandi er það beinlínis hættulegt og ólöglegt að tala í síma undir stýri.

Snjallsíminn hefur vond áhrif að vitræna getu manna og ætti alls ekki að vera í sama herbergi og vinnandi fólk. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Vinnueftirlitsins í grein fjallar um rannsókn vísindamanna við háskólann í Austin í Texas. Rannsóknin fólst í því að láta þátttakendur leysa ýmsar gátur, ýmist með símann í sama herbergi eða ekki. Niðurstaðan var sú að vitræn geta var greinilega meiri ef síminn var fjarlægður úr herberginu, engu skipti hvort kveikt var á honum eða hvort hann snéri með skjáinn upp eða niður.

Bryndis@bb.is

Lilja Rafney áfram oddviti

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Kjör­dæm­is­ráðs Vinstri grænna í Norð­vest­ur­kjör­dæmi fundaði í gær á Hótel Bjarkalundi. Tillaga kjörnefndar um framboðslista í komandi þingkosningum var samþykkt Lilja Raf­ney Magn­ús­dótt­ir, alþing­is­maður leiðir list­ann áfram, Bjarni Jóns­son, sveit­ar­stjórn­ar­maður og for­stöðu­mað­ur í Skaga­firði er áfram í öðru sæti, en nýr í 3. sæti er Rúnar Gísla­son, háskóla­nemi frá Borg­ar­nesi. Hér má sjá list­ann í heild:

  1. Lilja Raf­ney Magn­ús­dótt­ir, alþing­is­mað­ur, Suð­ur­eyri.
  2. Bjarni Jóns­son, sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi,Skaga­firði
  3. Rúnar Gísla­son, háskóla­nemi, Borg­ar­nesi.
  4. Dag­rún Ósk Jóns­dótt­ir, þjóð­fræð­ingur,Hólma­ví
  5. Dagný Rósa Úlf­ars­dótt­ir, bóndi á Ytra-hóli og kenn­ari, Skaga­byggð.
  6. Hjör­dís Páls­dótt­ir, safn­stjóri, Stykk­is­hólmi
  7. Reynir Eyvinds­son, verk­fræð­ing­ur, Akra­nesi.
  8. Þröstur Þór Ólafs­son, fram­halds­skóla­kenn­ari, Akra­nesi.
  9. Sig­ríður Gísla­dótt­ir, dýra­lækn­ir, Ísa­firði
  10. Þóra Geir­laug Bjart­mars­dótt­ir, kenn­ari, Reyk­holts­dal, Borg­ar­byggð.
  11. Bjarki Hjör­leifs­son, athafna­mað­ur, Stykk­is­hólmi
  12. Eyrún Bald­urs­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræði­nemi, Borg­ar­nesi.
  13. Matth­ías Sævar Lýðs­son, bóndi á Húsa­vík, Stranda­byggð.
  14. Lárus Ást­mar Hann­es­son, kenn­ari og sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi, Stykk­is­hólmi
  15. Guðný Hildur Magn­ús­dótt­ir, félags­mála­stjóri, Bol­ung­ar­vík
  16. Guð­brandur Brynj­úlfs­son, bóndi á Brú­ar­landi, Mýrum í Borg­ar­byggð.

smari@bb.is

Körfuboltinn fer að rúlla um helgina

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Körfuboltatímabilið fer af stað af fullum krafti á næstu helgi. Meistaraflokkur karla hefur leik á Íslandsmótinu á föstudaginn með heimaleik  gegn Snæfelli. Frítt er inn á leikinn og eru Ísfirðingar og nærsveitarmenn hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja við strákana. Á leiknum verður hægt að kaupa ársmiða á alla heimaleiki liðsins á Íslandsmótinu auk þess sem grillaðir hamborgarar verða í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr.

Á laugardag og sunnudag hefja svo stúlkurnar í 9. flokki leik í B-riðli Íslandsmótsins. Fjölliðamót B-riðils fer fram á Ísafirði og hefst kl. 15 á laugardag með leik Vestra og Snæfells. Á sunnudagsmorgun kl. 10:15 mæta stelpurnar svo Haukum og kl. 12:45 KR. Sjoppa Barna- og unglingaráðs verður að sjálfsögðu opin og heitt á könnunni.

Strákarnir í 10. flokki taka einnig þátt í fjölliðamóti um helgina og hefja leik í A-riðli. Vestri hefur tekið upp samstarf við Skallagrím og tefla félögin fram sameiginlegu liði á Íslandsmótinu í vetur. Mótið fer fram í Ásgarði í Garðabæ og verða mótherjar okkar manna, auk heimamanna í Stjörnunni, Fjölnir, KR og Valur.

Á sama tíma leggur Vestri-B svo úr höfn með tveimur útileikjum í 3. deild karla. Fyrri leikur liðsins fer fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði kl. 16:30 en þar mætir Vestri C-liði Hauka. Á sunnudag bregða piltarnir sér á Álftanesið og mæta þar heimamönnum kl. 12:00.

Að lokum spila stelpurnar í minnibolta 11 ára á fyrsta móti sínu í vetur um helgina en mótið fer fram í Smáranum og er haldið af Breiðabliki.

smari@bb.is

Svona hefjum við fiskeldi í Djúpinu

Gylfi Ólafsson

Á fjölsóttum borgarafundi í síðasta mánuði kom fram skýr krafa heimafólks við Djúp að hefja þurfi laxeldi sem fyrst. Þó tónninn hafi verið ansi afdráttarlaus í máli margra fundarmanna var nokkuð lausnamiðaðri tónn í þeirri ályktun sem borin var undir fundinn til samþykktar. Þar var þess krafist að „laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“

Til þess að þetta nái fram að ganga þurfa allir að vinna saman.

Þetta þarf Hafrannsóknastofnun að gera

Hafrannsóknastofnun hefur setið undir ámæli fyrir að áhættumat vegna laxasleppinga sé ekki nógu ítarlegt, taki ekki nógu mikið tillit til mögulegra mótvægisaðgerða og tiltaki ekki neitt framleiðslumagn – hversu lítið sem það kann að vera – sem leyfilegt mætti vera í Djúpinu. Síðan borgarafundurinn var haldinn hefur stofnunin kynnt áhættumatið á opnum fundi, og rýni á áhættumatinu á að fara fram í október. Mikilvægt er að áfram verði unnið af krafti, þannig að hægt sé að verða við ósk borgarafundarins um svör fyrir árslok. Ítarleg rýni og áframhaldandi rannsóknir eru forsenda þess að veiðiréttarhafar sætti sig við eldi, og að fiskeldisfyrirtæki sætti sig við takmarkanir og hömlur. Nánar tiltekið þarf stofnunin að sýna hvernig mótvægisaðgerðir með þeim aðferðum sem til eru í dag hafa áhrif á niðurstöður áhættumatsins. Þannig mun sjást hvernig sjókvíaeldi getur fari fram í Djúpinu.

Þetta þurfa fiskeldisfyrirtækin að gera

Fiskeldisfyrirtækin þurfa að vera auðmjúk gagnvart því mikla álagi á náttúruna sem fiskeldi getur haft í för með sér. Þau þurfa að setja fram raunhæfar hugmyndir að mótvægisaðgerðum og hafa frumkvæði að umhverfisvænum lausnum í starfsemi sinni. Sérlega mikilvægt er að hindra útbreiðslu laxalúsar og einnig að tryggja að ekki verði notuð kemísk laxalúsarmeðul á rækjuslóðum s.s.  Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði.  Til varnar laxveiðiám geta mótvægisaðgerðir verið útsetning stærri seiða, breyttar tímasetningar innan ársins og bættur búnaður – og sennilega sambland af þessu.

Auk þess þarf að leggja til hliðar að sinni öll áform um fiskeldi í Jökulfjörðum og draga þá umsókn til baka. Við vitum öll að þau áform eru mjög umdeild og þau þvæla bara umræðuna. Full ástæða er til að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi fái að þróast áður en Jökulfirðir komi einu sinni til umræðu.

Þetta þurfa yfirvöld að gera

Stjórnvöld eiga mikið verk fyrir höndum. Þau þurfa að vinna áfram með niðurstöður stefnumótunarnefndarinnar sem lauk störfum fyrr í haust. Tryggja þarf að Hafrannsóknastofnun hafi fjármagn til vandaðra rannsókna. Til viðbótar verður að endurskipuleggja hvernig vinnan við stefnumótun og áhættumat fer fram, einkum þannig að hagrænir og samfélagslegir þættir verði metnir samhliða lífrænum þáttum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sett fram hugmyndir um eldisreglu, hliðstæða aflareglunni sem hefur verið undirstaða stækkandi þorskstofns og var metnaðarfullt skref til að sameina líffræði og hagfræði. Skoða þarf sérstaklega hvort breytingar á regluverki kalli á frestun í veitingu leyfa til eldis eða undirbúnings.

Þetta þurfa veiðiréttarhafar að gera

Eitt af því sem nefnt hefur verið sem mótvægisaðgerð er að setja laxaflokkara neðst í laxveiðiár þar sem villtir laxastofnar gætu blandast eldisfiski. Sú hugmynd er í skýrslu stefnumótunarnefndarinnar slegin út af borðinu þar sem með slíkum inngripum væri ráðist að einkaeign veiðiréttarhafa. Það er gott og vel, en bara ef veiðiréttarhafar eru ekki reiðubúnir til að vinna með fiskeldisfyrirtækjunum að því að tryggja að eldi og laxveiðar fari saman. Fiskeldisfyritækin hafa boðist til að borga allan kostnað – svo lagakröfur eru óþarfar – en þá þurfa veiðiréttarhafar að vilja samtal og finna lausn sem hentar öllum.

Þetta þurfa íbúar að gera

Allt er þetta á endanum gert fyrir íbúana. Að byggðafestan sem fiskeldið ber með sér gagnist byggðunum við Djúp. Að íbúðaverð hækki, fólk máli húsin sín, unga fólkið setjist að með börnin. Að KPMG-skýrslan frá því í síðustu viku rætist.  Íbúarnir hafa hér tvíþætt hlutverk. Þeir eiga að hafa eftirlit með öllum sem ég hef nefnt hér að ofan. Og þeir eiga að kjósa til valda þann flokk sem þeir telja líklegastan til að sætta ólík sjónarmið og koma á blómlegu fiskeldi í Djúpinu í sátt við náttúru og menn.

Þar er Viðreisn besti kosturinn því að Viðreisn vill að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Viðreisn veit að náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar, þær ber að nýta skynsamlega og greiða markaðsverð fyrir. Þannig fer saman blómleg byggð og umhverfisvernd.

Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Býður fram í öllum kjördæmum

Von er á fram­boðslist­um og mál­efna­skrá Miðflokksins fyr­ir viku­lok. Þetta kemur fram í viðtali mbl.is við Svan Guðmundsson, kosningarstjóra flokksins. Flokkurinn ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum. Ekki hefur spurst út hver verður oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi en við brotthvarf Gunnars Braga Sveinssonar úr Framsóknarflokknum beindust sjónir að honum, enda var Gunnar Bragi einarður stuðningsmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á þeirra tíð í Framsóknarflokknum. Í svari til bb segir Gunnar Bragi að hann ætli ekki í framboð fyrir flokkinn í kjördæminu.

Það er óhætt að segja að Miðflokkurinn hafi fengið fljúgandi start í fyrstu skoðanakönnun sem birtist eftir að Sigmundur Davíð yfirgaf Framsóknarflokkinn og tilkynnti nýtt framboð. Flokkurinn mældist með 7,3% fylgi. Svanur segir í viðtali mbl.is að hann stefni á að þrefalda fylgið og er markið sett á 21%.

smari@bb.is

Vestra spáð 7. til 8. sæti

Mynd af vef Vestra

Vestra er spáð 7.-8. sæti í 1. deild karla í Íslandsmótinu í körfuknattleik. Skallagrími er spáð sigri í deildinni. Körfuknattleikssamband Íslands vinnur spánn og það eru forsvarsmenn félaga sem taka þátt í Íslandsmótunum sem gefa liðunum stig. Vestri hefur leik í deildinni á föstudag þegar Snæfell kemur í heimsókn til Ísafjarðar.

Spáin fyrir fyrstu deild:

1. DEILD KARLA

  1. Skallagrímur    252 stig
  2. Breiðablik        234 stig
  3. FSu                 152 stig
  4. Hamar             134 stig
  5. Fjölnir             125 stig

7.-8. ÍA               111 stigg

7.-8. Vestri          111 stig

  1. Gnúpverjar        48 stig

 

smari@bb.is

Gef kost á mér í 2.- 3. sæti

Lilja Sigurðardóttir

Ég heiti Lilja Sigurðardóttir, er sjávarútvegsfræðingur frá Patreksfirði og gef kost á mér í 2.-3.sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar þann 28.október 2017. Ég er núna 2.varaþingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Ég er fædd og uppalin á Patreksfirði og býr þar núna ásamt unnusta mínum og tveimur börnum. Ég hef lokið BS gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og MS gráðu í Forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Einnig lauk ég grunnnámi í flugumferðarstjórn frá Keili. Ég starfa núna sem verslunarstjóri í matvöruversluninni Fjölval á Patreksfirði en hef m.a. verið gæðastjóri hjá fiskeldisfyrirtækinu Arnarlax, og verk- og gæðastjóri í fiskvinnslunni Odda hf á Patreksfirði. Ég var formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka frá 2011-2017, sat í stjórn Byggðastofnunar 2016-2017, var varaformaður Slysavarnadeildarinnar Unnar á Patreksfirði frá 2015-2017 og er núna formaður deildarinnar.

Í jómfrúarræðu minni á Alþingi vakti ég athygli á því hversu mikill kostnaður og aukaálag leggst á fólk sem þarf að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimilum sínum, en skerðing á fæðingarþjónustu um allt land hefur valdið því að fjölskyldur þurfa að standa undir gríðarlegum aukakostnaði á meðan beðið er eftir fæðingu barns, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði. Oftar en ekki þurfa fjölskyldur að halda tvö heimili, missa úr vinnu áður en mögulegt er að hefja fæðingarorlof og vera fjarri fjölskyldu og vinum í lengri tíma. Þegar fæðingarþjónusta var skert þá gleymdist algjörlega að huga að þessum þáttum og í dag er engin aðstoð veitt, eini styrkurinn er í formi endurgreiðslu á ferðakostnaði frá heimili að fæðingarstað og tilbaka. (sjá meira hér http://www.ruv.is/frett/ekkert-i-stadinn-fyrir-skerta-faedingarthjonustu ) Þessu þarf að breyta og auka þarf stuðning við fólk í þessum aðstæðum sem fyrst.

Helstu baráttumál:

Styðja þarf betur við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og sérstaklega þarf að huga að fiskeldi, landbúnaði og ferðaþjónustu á þessu landsvæði.

Mikilvægt er að halda áfram með hugmyndir um heilstæða stefnu í heilbrigðismálum um allt land. Geðheilbrigðismál þarf sérstaklega að skoða og móta stefnu til að auka þjónustu, andleg heilsa er gríðarlega mikilvæg og þarf að huga mun betur að en hefur verið gert. Einnig þarf að endurskoða styrki til þeirra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu langt frá heimili sínu, í dag er nánast enginn styrkur á meðan útgjöld fólks tvöfaldast á þeim tíma sem beðið er, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði.

Samgöngur þarf að bæta, uppbyggingin þarf að ganga hraðar fyrir sig og klára þarf málin hratt og örugglega, ekki láta þau hanga í kerfinu til lengri tíma.

Auðlindagjöld þarf að innheimta frá öllum nýttum auðlindum, ekki bara sjávarútvegi.

Lilja Sigurðardóttir

Eignir landsmanna aukast umfram skuldir

Eigið fé landsmanna hækkaði um 13% á síðasta ári og fór í liðlega 3.300 milljarða króna. Það er þó minni hækkun en árið 2015 þegar eigið fé jókst um 17% milli ára. Þau 10% sem eiga mest eigið fé eiga alls um 62% heildarupphæðar eigin fjár eða 2.100 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði líkt og undanfarin ár. Árið 2016 voru 5.856 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða um 20% færri en árið 2015. Að meðaltali var eiginfjárstaða þessara fjölskyldna neikvæð um 5 milljónir króna sem er svipuð upphæð og árið á undan

Heildareignir fóru úr 4.800 milljörðum króna í árslok 2015 í 5.200 milljarða króna í lok árs 2016 sem er aukning um 9% milli ára. Eignir samanstanda af fasteignum, ökutækjum, innistæðum í bönkum og verðbréfum. Hlutur fasteigna var 73%, ökutækja 5%, bankainnistæða 12% og verðbréfa 9%.

Samanlagðar eignir fjölskyldna sem eru í hæstu tíund eigna nema 2.300 milljörðum króna eða alls 45% af heildareignum. Þessi sami hópur á samtals 400 milljarða króna í verðbréfum eða 86% af heildarverðbréfaeign.

Heildarskuldir námu 1.900 milljörðum króna í árslok 2016 og jukust um 3% frá fyrra ári. Árið 2016 voru 23% fjölskyldna skuldlausar sem er aukning um tvö prósentustig frá fyrra ári. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur rúmlega 5 milljónir króna eða minna og 90% minna en 32 milljónir króna. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 700 milljörðum króna eða 39% heildarskulda.

smari@bb.is

Spánarsnigill fannst á Patreksfirði

Spánarsnigillinn sem fannst á Patreksfirði.

Spánarsnigill fannst á Patreksfirði fyrir skemmstu og var komið með hann til greiningar á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Náttúrustofan hvetur fólk á Patreksfirði til að svipast um eftir stórum sniglum líkum þeim sem sést á meðfylgjandi mynd. Ef grunur vaknar um spánarsnigil er fólki bent á að hafa samband við Náttúrustofuna. Spánarsnigill hefur áður fundist á Vestfjörðum, en sá var í Hnífsdal.

Spánarsnigill er ágeng tegund og dreifist nær eingöngu af mannavöldum, einkum sem egg eða ungviði með plöntum og jarðvegi. Hann er orðinn geysialgengur í nágrannalöndunum og er þar orðinn til mikils skaða í görðum og garðrækt. Snigillinn hefur því átt greiða leið til Íslands með innfluttum plöntum og jarðvegi í blómapottum.

Spánarsnigill er að öllu jöfnu auðþekktur frá öðrum sniglum hérlendum, þar sem hann er einlitur rauður þó rauði liturinn geti verið breytilegur. Fullvaxinn er hann tröllvaxinn, miklu stærri en aðrir sniglar af Arion ættkvíslinni. Reyndar hefur þróunin orðið sú að spánarsniglar sem fundist hafa á seinni árum eru mun smávaxnari en þeir sem fundust fyrstu árin og er það aðlögun að stuttu sumri hér á norðurslóðum.

Spánarsnigill á að líkindum eftir að reynast eitt mesta meindýr sem hefur borist til landsins. Mikilvægt er að sporna gegn landnámi spánarsnigils eins og frekast er unnt og skal því tortíma þeim sniglum sem ekki gefst kostur á að skila til Náttúrustofunnar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir