Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2136

Aðsóknarmet slegið á Act alone

Á Act alone er eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa. Mynd: Ágúst Atlason.

Einleikjahátíðinni Act alone lauk á Suðureyri á laugardag. Elfar Logi Hannesson, stjórnandi Act alone, segir að hátíðin hafi tekist með eindæmum vel í ár. „Það sóttu yfir þrjú þúsund manns viðburðina 18 sem voru í boði. Það var fullt hús á fyrsta degi og svo hélt það bara áfram til síðasta dag,“ segir Elfar Logi.

Hann segir aðsóknina vera nýtt „lúxusvandamál“. „Ekki verður félagsheimilið stækkað og við færum okkur ekki í íþróttahúsið, hjarta og sál Act alone er í Félagsheimili Súgandafjarðar og við verðum þar áfram. Svo er ákveðinn sjarmi við það að húsið fyllist og fólk standi eða sitji á gólfinu.“

Hann telur upp þrjár ástæður fyrir því að aðsóknin í ár var svona góð. „Þetta var gott einleikjaár og við vorum með sterkar og þekktar sýningar eins og Maður sem heitir Ove og Hún pabbi. Sú gula var ekki að skemma fyrir okkur og þó að þetta sé innihátíð þá skapast meiri stemmning þegar veðrið er svona gott. Í sumar var heimildarmyndin um hátíðina sýnd á RÚV og hún hefur eflaust ýtt við mörgum. Heimamenn á Suðureyri og í nágrannabyggðarlögunum hafa alltaf verið duglegir að mæta á Act alone en núna tók ég eftir mörgum frá sunnanverðum Vestfjörðum svo við getum rétt ímyndað okkur hverju Dýrafjarðargöngin eiga eftir að breyta fyrir menningarlíf á Vestfjörðum.“

Þrátt fyrir að hafa verið potturinn og pannan í einleikjahátíðinni frá upphafi er Elfar Log hvergi nærri hættur eða farinn að lýjast. „Nú kemur nokkra daga pása og á föstudaginn hefst undirbúningur fyrir næsta ár. Fyrsta umsóknin barst á laugardaginn, en ætli ég bíði ekki fram á föstudag með að svara henni.“

Sigurði Sigurjónssonar, eða Ove, fagnað innilega í sýningarlok.
Elfar Logi gengur í öll störf á Act alone. Mynd: Ágúst Atlason.

 

smari@bb.is

Vanda með fyrirlestra á Ísafirði

Framundan  eru fjórir fræðslufyrirlestrar fyrir iðkendur, þjálfara, foreldra og stjórnarmenn aðildarfélaga HSV. Það er Vanda Sigurgeirsdóttir sem heimsækir Ísafjörð og ræðir um ýmsa þætti sem styrkir börn og unglinga í þeirra íþróttastarfi og miðlar til aðila sem að því starfi koma.

Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Hún starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og er fyrrum landsliðskona í knattspyrnu. Hún hefur áratuga reynslu af að vinna með börnum og foreldrum. Forvarnir eineltis eru henni hjartans mál og hefur hún haldið fræðsluerindi fyrir börn og foreldra víða um land. Sérsvið hennar við Háskólann er einelti og tómstunda- og leiðtogafræði. Þá hefur hún einnig starfað sem knattspyrnuþjálfari í um 30 ár.

Fyrirlestrarnir eru sérsniðnir fyrir hvern hóp, miðvikudaginn 16. ágúst kl. 17:00 hefst fyrirlestur fyrir þjálfara og stjórnarmenn og fyrir foreldra kl. 20:00 en fimmtudaginn eru nemendum fæddum 2005 og fyrr velkomnir kl. 16:00 og kl. 18:00 eru það knattspyrnuþjálfarar stúlkna.

bryndis@bb.is

Yngsti landvætturinn

Jakob Daníelsson, yngsti landvættur Íslands

Í gær hljóp Jakob Daníelsson Jökulsárhlaupið og varð þar með svokallaður landvættur. Til að fá að bera þann merkistitil þarf að ganga 50 km í Fossavatnsgöngunni, hjóla 58 km í Bláa lóns þrautinni, synda 1 km í Urriðavatnssundinu og hlaupa alla 38 km Jökulsárhlaupsins – og þarf að ljúka keppnunum á innan við 12 mánuðum. Jakob, sem er rétt orðinn 16 ára gamall er yngsti landvættur Íslands. Gönguskíði er sú íþróttagrein sem á hug Jakobs allan og í vor var hann yngsti keppandinn í 50 km göngu Fossavatnsgöngunnar.

smari@bb.is

Síðdegisskúrir

Það er bjartur og fallegur dagur hér á norðanverðum Vestfjörðum og líkur á því að það haldi út vikuna, það er þó reiknað með síðdegisskúrum svo það gengur ekki að mála þakið eða gluggana.

Á landinu öllu verður hæg breytileg átt næsta sólarhringinn. Skýjað með köflum og víða síðdegisskúrir, en fer að rigna SA-til seinni partinn. Austan 3-10 m/s og víða skúrir á morgun, en sums staðar rigning syðst og austast. Hiti 9 til 16 stig að deginum, hlýjast inn til landsins.

smari@bb.is

Eldur í seiðaeldisstöð í Tálknafirði

Seiðaeldissstöðin í Tálknafirði. Ef færa ætti eldið uppá land þyrfti 100 sinnum stærra hús og rafmagn á við 3 Mjólkárvirkjanir.

Eld­ur kom upp í seiðaeld­is­stöð Arctic Fish í botni Tálkna­fjarðar um klukk­an 15 í gær. Eld­ur­inn kviknaði í raf­magnsút­búnaði. Slökkviliðin á Tálknafirði, Pat­reks­firði og Bíldu­dal fóru á vett­vang og þegar að var komið hafði eld­ur læst sig í vegg og loft inni í hús­inu, sem er sam­byggt. Var það fyr­ir snar­ræði slökkviliðsmanna að það náðist að slökkva eld­inn áður en hann komst í mörg plast­ker sem þar eru.

Að sögn Sig­urðar Pét­urs­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Arctic Fish, kviknaði eld­ur­inn út frá háþrýsti­dælu. Á vef mbl.is er haft eftir honum að skammhlaup hafi orðið í háþrýstidælunni og að tjónið hafi verið lítilsháttar og einungis dælan sjálf hafi eyðilagst. „Þetta var al­veg af­markað, ekki ná­lægt okk­ar fisk­um eða neitt,“ seg­ir Sig­urður.

smari@bb.is

Uppsetningu steypustöðvar að ljúka

Ný finnsk steypustöð er nú að rísa við gangamunna Dýrafjarðarganga, Arnarfjarðarmegin. Í síðustu viku voru starfsmenn að læra á stöðina og stilla en hún er tölvustýrð að miklu leyti þegar allt er komið í gang. Undir eðlilegum kringumstæðum væri nóg að hafa tvö síló en vegna erfiðra samganga og flutninga á staðinn yfir vetratímann var ákveðið að hafa sílóin fimm. Reiknað er með að sementið dugi fyrir að minnsta kosti sex vikna vinnu.

bryndis@bb.is

Ágúst G. Atlason ljósmyndari er bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2017.

Ágúst G. Atlason. Mynd: Magnús Andersen

Við hátíðlega athöfn á Suðureyri í kvöld var Ágúst G. Atlason ljósmyndari tilnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017.

Í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ er tilnefning rökstudd með þessum hætti:

 „Ágúst G. Atlason er ljósmyndari frá Mediaskolerne i Viborg og hefur um nokkurra ára skeið lagt ljósmyndalistinni til hæfileika sína og skrásett á mynd jafnt mannlíf, landslag, veðurfar og mannvirki í bæjarfélaginu og víðar með mikilli natni, svo að víða er tekið eftir.

 Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar telur að þótt ljósmyndalistinni hafi verið vel sinnt í bæjarfélaginu í gegnum tíðina og að nokkrir þekktustu ljósmyndarar landsins hafi verið og séu úr bæjarfélaginu og hafi skilið eftir sig mikla sögu sem mun varðveitast til framtíðar, hafi Ágúst síst látið sitt eftir liggja þegar kemur að einstökum ljósmyndum úr náttúru og mannlífi Vestfjarða.

 Ágúst hefur næmt auga fyrir fegurðinni sem er í kringum okkur og hefur jafnframt verið afkastamikill við að vekja athygli á henni og á fyrir það skilið sérstaka viðurkenningu sem nefndin veitir hér með með þakklæti auk þess sem Ágúst er hvattur til að halda áfram góðu starfi.“

bb.is sendir Ágústi innilegar hamingjuóskir með verðskuldaðan heiður.

bryndis@bb.is

Tungumálaskrúðganga árlega á Ísafirði

Það var ómæld hamingja og spenningur hjá tungumálatöfrandi börnum í hádeginu í dag.

Yfir 90 manns mættu í fyrstu Tungumálaskrúðgönguna sem haldin á Ísafirði í dag. Skrúðgangan var haldin í tilefni af námskeiðslokum Tungumálatöfra sem er tilraunaverkefni til að búa til málörvandi fyrir fjöltyngd börn á Ísafirði.

Haldið var frá Edinborgarhúsinu og gengið að Byggðarsafni Vestfjarðar þar sem 14 börn sem tala sjö tungumál fleyttu bátum sem þau bjuggu til á námskeiðinu. Tjöruhúsið bauð upp á plokkfisk fyrir alla sem mættu.

Elíza Reid stýrði fundi sem haldinn var í kjölfarið um framhald verkefnisins. Ákveðið var að endurtaka námskeiðið á sama tíma að ári og gera Tungumálasrkúðgönguna að árlegum viðburði á Ísafirði.

Verkstjórn var valin á fundinum til að halda áfram þróun verkefnisins. Í henni eru Herdís Hübner grunnskólakennari, Svava Rán Valgeirsdóttir leikskólastjóri, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir rekstrar- og viðburðarstjóri og Isabel Alejandra Díaz háskólanemi, Anna Hildur Hildibrandsdóttir kvikmyndaframleiðandi.

Hér má sjá nokkrar myndir af börnunum og hér er tengill á sönginn um litina.

bryndis@bb.is

Lindy hopp og Hrafnaspark

Í tengslum við hina árlegu Lindy Hop swingdanshátíð Arctic Lindy Exchange 2017 munu vera haldnir tveir dansleikir með jazz hljómsveitinni Hrafnaspark í Edinborgarhúsinu 15. og 16. ágúst.

Um 80 erlendir dansarar koma til að skemmta sér við að dansa hinn upprunalega para swingdans millistríðsáranna, dansinn Lindy Hop. Einnig þekktur sem Jitterbug. Í tengslum við dansleikina verður Vestfirðingum boðið uppá möguleikann að læra nokkur grunnskref á stuttu kvöldnámskeiði bæði kvöldin. Eina sem þarf er að skrá sig, kaupa miða á dansleik (einn eða báða) og þá fær maður 1 klst kennslu í dansinum.

Þriðjudagskvöld

Kennsla frá 20:00-21:00.

Efnistök: Einföld grunnskref fyrir byrjendur.

Ballið byrjar 21:00 með plötusnúðum og hljómsveitin byrjar 21:30.

Verð: 2.500 kr. (dansleikur og kennsla)

 

Miðvikudagskvöld

Kennsla frá 20:00-21:00.

Efnistök: Klassísk rhythma grunnskref fyrir byrjendur.

Ballið byrjar 21:00 með plötusnúðum og hljómsveitin byrjar 21:30.

Verð: 2.500 kr. (dansleikur og kennsla)

Athugið til að skrá sig verður maður að senda email á info@arcticlindyexchange.com

Til að tryggja jöfn hlutföll Herra og Dama verður maður að skrá sig með félaga. S.s. einn sem dansar Herrann (Leader) og einn sem dansar Dömuna (Follow). Það er vert að nefna að þessi hlutverk eru ekki kynbundin, þ.e.a.s. konur geta dansað Herrann og karlar Dömuna.

Lágmarksfjöldi þátttakenda fyrir hvert námskeið eru 8 manns og það er engin krafa um fyrri dansreynslu.

Þau Kristrún Rúnarsdóttir og Andri Yngvason munu kenna tímana. Þau hafa áralanga reynslu af dansinum og hafa kennt dansinn fyrir félögin Háskóladansinn og Lindy Ravers í Reykjavík. Hljómsveitin Hrafnaspark mun leika fyrir dansi og spila þekkt lög Django Reinhardt sem og aðra swing jazz standarda millistríðsáranna.

Um Lindyhopp er fjallað í þessu myndbandi.

bryndis@bb.is

Straumur í spennistöðina í dag

Undirbúningur fyrir sprengingu

Í dag verður straumur settur á nýja spennistöð við framkvæmdasvæði Dýrafjarðarganga, Arnarfjarðarmegin en Orkubúið lauk við frágang á köplum í gær. Jarðgangaborvagninn og vagninn sem sprautar steypu á veggi ganga fyrir rafmagni sem og verkstæði, steypustöð og skrifstofa. Snerpa lagði í vikunni ljósleiðara að vinnusvæðinu og er endi hans í brunni við spennustöðina og verður hann sömuleiðis tengdur í dag.

Forskering gengur vel að sögn Gísla Eiríkssonar en gryfjan sem er grafin áður en gangagröftur getur hafist er kallað forskering. Gangagröftur getur hafist þegar komið er lóðrétt bergstál innst í gryfjunni. Í gær voru losaðir um 2000 m3 af efni, bæði laust efni og klöpp en fyrsta sprenging í forskeringunni var síðastliðinn þriðjudag.

Þegar rafmagn er komið á spennistöðina munu hefjast forprófanir á sprautusteypu en fyrsta hlassið af fylliefnum í hana komu í gær.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir