Miðvikudagur 2. apríl 2025
Síða 2136

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

23. tölublað 34. árgangur

23. tölublað Bæjarins besta mun smeygja sér inn um lúgur í dag og á morgun og að þessu sinni er það helgað Birki Snæ, fjölskyldu hans og öllum öðrum veikum einstaklingum landsbyggðarinnar. Birkir Snær er tæplega tveggja ára og berst við alvarlegan sjúkdóm sem er honum og fjölskyldu hans þungbært.

Daglega berast fréttir af gríðarlegum kostnaði sem mætir einstaklingum sem greinast með alvarlega sjúkdóma en það sem mætir veikum einstaklingum af landsbyggðinni er margföld byrði. Foreldrar Birkis Snæs fylgja sínu barni í meðferðir til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er, ferðunum fylgir bæði vinnutap og ferða- og uppihaldskostnaður sem aðeins að litlu leyti er bætt. Þetta hlýtur að vera alvarlega brot á jafnræði og með ólíkindum að ástand sem þetta hafi verið liðið svo lengi. Það myndi væntanlega heyrast hljóð úr horni ef til dæmis öllum hjartasjúklingum væri gert að ferðast nánast á eigin kostnað á Kópasker eða Flateyri til að leita sér læknismeðferðar en við þetta mega veikir einstaklingar landsbyggðarinnar búa.

Öll framboð í Norðvesturkjördæmi voru beðin um að gera grein fyrir stefnu sinna flokka í þessum málaflokki og þá var ekki verið að spyrja um skoðun þeirra persónulega, það liggur ljóst fyrir að frambjóðendur í þessu kjördæmi gera sér grein fyrir alvarleika málsins, vandinn liggur í að koma málinu í farveg innan sinna flokka, þingmenn eins kjördæmis gera lítið einir.

Í blaðinu má lesa svör Gylfa Ólafssonar í Viðreisn, Evu Pandóru Baldursdóttir Pírata, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í Framsóknarflokknum og Haraldar Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum. Hér er hlekkur á rafræna útgáfu blaðsins. Til viðbótar ritaði Arna Lára Jónsdóttir grein sem birt var á bb.is þann 16. október.

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður að hafa í för með sér að sjúklingar af landsbyggðinni geti sótt sér læknisþjónustu á Þjóðarsjúkrahúsið, án kostnaðar, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands.

Bryndís Sigurðardóttir

Spennandi viðureign í uppsiglingu

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Á morgun taka Vestramenn á móti FSu í 1.deild karla í körfubolta. Leikurinn hefur alla burði til að vera spennandi viðureign enda hafa þessi lið verið fremur jöfn undanfarin ár og leikir þeirra ávallt spennandi. Þótt FSu menn séu enn án sigurs í deildinni, en Vestri enn ósigraður á heimavelli. Vestramenn eru staðráðnir í að halda áfram sigurgöngu sinni á Jakanum á meðan FSu menn eru hungraðir í sinn fyrsta sigur.

Þess má geta að innan raða FSu eru fjórir fyrrum liðsmenn KFÍ, þeir Florijan Jovanov, Haukur og Hlynur Hreinssynir sem og frændi þeirra Ari Gylfason. Svo má einnig nefna að Adam Smári Ólafsson leikmaður Vestra lék um skeið með FSu.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verða steiktir hamborgarar og fínerí fyrir leik og því tilvalið að mæta í fyrra fallinu.

smari@bb.is

Bæjarins besta 23. tbl. 34. árgangur

23. tölublað 34. árgangur

BB_23

Árlegt fyrirtækjamót Ívars

Mikið er lagt upp úr búningum á fyrirtækjamóti Ívars.

Á sunnudaginn verður árlegt fyrirtækjamót Ívars í Boccia. Mótið er opið öllum og einu skilyrðin fyrir þátttöku er að vera með lið skipað tveimur einstaklingum. Það geta verið vinnufélag, fjölskyldumeðlimir og ef á þarf að halda geta liðsmenn Ívars fyllt upp í lið. Veittur er farandbikar fyrir fyrsta sæti og að auki verða ýmis aukaverðlaun svo sem fyrir bestu liðsheild, besta búnin og fleira.

Sú nýbreytni verður í ár er að fyrirækjum verður gefinn kostur á að skora á önnur fyriræki og verður séð til þess að þau verði í sama riðli. Mótið verður á sunnudaginn í íþróttahúsinu á Torfnesi og hefst kl. 13.30. Tekið er við skráningum í síma 863 1618 og 893 4393 eða á ivarithrottafelag@gmail.com fram til kl 13 á föstudaginn.

smari@bb.is

Hafró þarf að leigja skip í rækjurannsóknir

Bjarni Sæmundsson RE.

Rækjurannsóknir í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði hafa frestast vegna bilunar í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni RE. Leggja átti af stað í leiðangurinn fyrir rúmri viku þegar bilunin kom upp og er verður skipið úr leik í nokkrar vikur. Bjarni Sæmundsson er kominn vel til ára sinna, var smíðaður í Þýskalandi árið 1970 og afhentur Hafrannsóknastofnun sama ár. Stofnunin hefur bent á það lengi að þörf er á nýju skipi til að leysa Bjarna af til frambúðar. Eins og áður segir getur Hafró bjargað mælingum í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi með leiguskipi en Sigurður Guðjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við RÚV að staðið hafi til að mæla rækjur víðar en því verði sleppt núna. „En við höfum meiri áhyggjur af framhaldinu ef bilanir halda áfram að tefja og trufla leiðangra. Skipið er úti í um 200 daga á ári þannig að það verður erfitt að brúa það bil ef það verður mikið úr leik,“ segir Sigurður.

smari@bb.is

Sex laxar úr Mjólká með eldiseinkenni

Sjókvíar í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar.

Hafrannsóknastofnun hefur síðustu vikur fengið tólf laxa úr Mjólká í Arnarfirði og Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi til rannsóknar. Við fyrstu greiningu er talið að sjö laxanna hafi eldiseinkenni, en allir verða þeir sendir í DNA-greiningu. Rætt er við Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatnslífríkis á Hafrannsóknastofnun, í Morgunblaðinu í dag.  „Við höfum skoðað ugga og önnur útlitseinkenni fiskanna, einnig hreistursmynstur og í þriðja lagi fá eldisfiskar sem hafa verið bólusettir samgróninga eða örvefi í innyfli. Sjö af löxunum sem við höfum skoðað eru með einkenni eldislaxa. Þá niðurstöðu er eftir að staðfesta með erfðagreiningu,“ segir Guðni. Sex þeirra fiska semhöfðu eldiseinkenni voru úr Mjólká og eins og áður hefur verið greint frá var einn lax úr Laugardalsá.

smari@bb.is

Áhrif sýrustillandi lyfja á krabbamein í kastljósi Vísindaportsins

Óskar Örn Hálfdánarson

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun kynnir ísfirski líffræðingurinn Óskar Örn Hálfdánarson doktorsverkefni sitt þar sem hann er að rannsaka möguleg áhrif sýrustillandi lyfja á krabbameinsfrumur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir krabbameinsæxli er lágt sýrustig sem umlykur krabbameinsfrumur. Ýmislegt bendir til þess að súrt æxlisumhverfi sé mikilvægur þáttur í framþróun krabbameina og í viðnámi frumna gegn krabbameinslyfjameðferðum. Prótónupumpuhemlar (PPI lyf) eru sýrustillandi lyf sem eru mikið notuð á Íslandi. Fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um að hægt sé að nýta sýrustillandi virkni þeirra til að hafa áhrif á sýrustigið umhverfis krabbameinsfrumur og hemja æxlisvöxt. Markmiðið með þessu verkefni er að gera faraldsfræðilega rannsókn til þess að kanna möguleg tengsl á milli PPI lyfjanotkunar og krabbameinsáhættu. Doktorsverkefnið er unnið við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Lífvísindasetur Háskóla Íslands.

Óskar Örn er fæddur og uppalinn að mestu leyti á Ísafirði. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Ísafirði, B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.S. prófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla. Óskar Örn vann meistaraverkefni sitt á frumulíffræðideild rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði sem fól í sér rannsókn á ættlægu brjóstakrabbameini og leit að stökkbreytingum í genum sem gætu útskýrt hækkaða áhættu sumra kvenna á því að greinast með meinið. Undanfarin ár hefur hann starfað fyrir mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík. Vinnan við doktorsverkefnið hófst haustið 2015.

smari@bb.is

Sjálfstæðisflokkur og VG lækka í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, eða 19,9 prósent, samkvæmt nýrri könnnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina. Vinstri græn mælast með 19,1 prósent og þá mælist stuðningur við Samfylkinguna 15,8 prósent. . Könnunin var birt í gær.  Píratar mælast með 11,9 prósent fylgi og Miðflokkurinn með slétt 11 prósent. Þá mælist Framsóknarflokkurinn með 8 prósent og Viðreisn með 6,7 prósent og myndi ná inn á þing fari kosningarnar eftir rúma viku á þessa leið.

Flokkur fólksins sem mælist með 5,3 prósenta fylgi og fylgi Bjartrar framtíðar mælist 1,6 prósent.

Það sem helst vekur athygli við könnunina er að fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna heldur áfram að minnka. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,1% fylgi og Vinstri græn með 21,8% fylgi í síðustu mælingu MMR þann 11. október.

Á sama tíma jókst fylgi Samfylkingarinnar og mælist nú 15,8 prósent, en flokkurinn mældist með 13,0 prósent í síðustu mælingu og 10,4 prósent undir lok september. Stuðningur við Samfylkinguna hefur því aukist um 5,4 prósentustig á innan við mánuði.

Viðreisn má vel við una, en flokkurinn mældist með 3,6 prósent fylgi í könnun MMR fyrir rúmri viku.

smari@bb.is

Húsnæðisvandinn mismunandi eftir landssvæðum

Skortur er á íbúðarhúsnæði um allt land en vandinn er mismunandi eftir landsvæðum. Á meðan ör fólksfjölgun og hæg uppbygging hefur valdið skorti á höfuðborgarsvæðinu, er vandinn á landsbyggðinni víða sá að markaðsverð húsnæðis er undir byggingarkostnaði. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru tæki til að koma í veg fyrir að ástand á borð við það sem nú er á húsnæðismarkaði skapist aftur. Þetta er á meðal þess sem fram kom í erindi Sigrúnar Ástu Magnúsdóttur, verkefnastjóra húsnæðisáætlana hjá Íbúðalánasjóði, á Húsnæðisþingi sem haldið var á mánudag.

Þúsundir ungs fólks fastar í foreldrahúsum

Ísland hefur gengið í gegnum sveiflur á húsnæðismarkaði. Tiltölulega stórir árgangar ungs fólks hafa komið inn á fasteignamarkað á undanförnum árum á sama tíma og nýbyggingar hafa ekki verið færri síðan á 6. áratugnum. Um þessar mundir eru búa um 20.000 manns á aldrinum 20-29 ára í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi farið vaxandi. Fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað undanfarin ár á meðan hann hefur almennt farið lækkandi á hinum Norðurlöndunum. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru um 2 íbúar í hverri íbúð.

Flest sveitarfélög á landinu vinna nú að gerð húsnæðisáætlana í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Markmiðið með húsnæðisáætlunum er að tryggja að fjölgun íbúða í einstökum sveitarfélögum og á landinu öllu sé í takt við mannfjöldaspár og breyttar fjölskyldugerðir. Með þeim hætti er gengið úr skugga um að allir hafi aðgang að öruggu húsnæði við hæfi. 48 sveitarfélög hafa nú hafið vinnu við húsnæðisáætlun og eru 15 þeirra ýmist langt komin eða hafa birt áætlun.

smari@bb.is

 

 

Varð fyrir áreitni sem skattstjóri og sýslumaður

Sigríður Björk Guðjónsdóttir. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segist hafa orðið fyrir öllu því „helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna.“ Þá hafi hún verið ungur skattstjóri og síðar sýslumaður á Ísafirði. Sigríður skrifar pistil á Facebook sem innlegg í #metoo herferðinni sem hófst í kjölfar uppljóstrana um kynferðislega áreitni voldugs framleiðanda kvikmynda og sjónvarpsefnis í Hollywood. Konur um allan heim hafa lýst ógnandi framkomu karla í sinn garð með myllumerkinu metoo.

Á Facebook skrifar Sigríður að konur séu hvergi alveg öruggar um að verða ekki fyrir óumbeðnum og óviðeigandi athugasemdum eða jafnvel snertingum. Lögreglan sem vinnustaður sé ekki þar undanskilin.

Sigríður skrifar: „Þó að sýslumenn teljist nokkuð valdamiklir þá hafði undirrituð þó ekki meiri völd en svo að henni mætti sem ungum skattstjóra, og síðar sýslumanni á Vestfjörðum, allt það helsta sem konur geta átt á hættu að verða fyrir þegar þær feta sig inn í heim karlanna. Kannski átti það þátt í að skapa mér skráp og nokkurn vott af harðfylgni en ég hefði þó gjarnan viljað vera laus við þessa reynslu.

Ég hef átt gott samstarf við flesta karlmenn í gegnum tíðina en staðreyndin er samt sú að það er ekki auðvelt fyrir þá að setja sig í spor okkar kvenna. Sú umræða sem kviknað hefur að undanförnu hefur þó vonandi opnað augu margra þeirra fyrir því alvarlega vandamáli sem áreitni gegn konum er.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir