
Bæjarins besta kemur út í dag
21. tölublað Bæjarins besta mun læðast inn um lúgurnar í dag og á morgun og löngu sumarfríi er lokið. Fuglinn er magur en stefnan tekin á að fitna þegar líður að jólum. Blaðið mun koma vikulega í október, tvisvar í nóvember og tvisvar í desember. Við minnum á að það er alltaf pláss fyrir skemmtilegt efni og auglýsingar.
Nálgast má vefútgáfu blaðsins hér eða með því að klikka á myndina.
bryndis@bb.is
Gunnar Bragi í framboð fyrir Miðflokkinn
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, er sagður ætla að bjóða sig fram fyrir Miðflokk fyrrum samstarfsmanns síns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Fyrir þessu segist Morgunblaðið hafa öruggar heimildir. Gunnar Bragi hefur verið þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi frá 2009 en sagði sig úr flokknum á dögunum. Ekki liggur enn fyrir í hvaða kjördæmi Gunnar mun bjóða sig fram en Morgunblaðið segir allar líkur taldar á að hann muni leiða lista flokksins í einu af sex kjördæmum landsins.
smari@bb.is
Gísli mætir á Gíslastaði
Sagnamaðurinn og Landastjórinn Gísli Einarsson er þekktur sögumaður. Nú mætir Gísli loksins á Gíslastaði í Haukadal í Dýrafirði og verður með einstaka sagnastund í kvöld. Í sagnaskemmtun sinni mun Gísli fjalla um nauðsyn þess að segja sögur og fer sagan um víðan völl allt frá Agli Skallagrímssyni til Hellismanna og Harðarhólma og allt þar á milli.
Miðasala verður á staðnum og léttar veitingar í boði á léttu verði og verzlunin að sjálfsögðu opin.
bryndis@bb.is
Vextir lækkar í 4,25%
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum sem oft eru nefndir stýrivextir, verða því 4,25 prósent.
Í frétt á vef Seðlabankans um ákvörðun nefndarinnar segir: „Horfur eru á minni hagvexti í ár en í fyrra, m.a. vegna þess að hægt hefur á vexti ferðaþjónustu. Hagvöxtur verður þó áfram töluvert mikill. Vísbendingar eru um að farið sé að draga úr spennu í þjóðarbúskapnum.
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð síðustu tvo mánuði og í september mældist hún 1,4%. Mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu eru enn lægri og hjaðnandi. Gengi krónunnar hefur lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar, eftir lækkun sl. sumar, og er 4,5% hærra en á sama tíma í fyrra. Mælikvarðar á verðbólguvæntingar eru í nokkuð góðu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Gengissveiflur undanfarinna mánaða hafa haft tiltölulega lítil áhrif á verðbólgu og skammvinn áhrif á verðbólguvæntingar.
Verðbólga hefur verið undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í um 44 mánuði samfleytt og bankinn hefur því verið að lækka meginvexti sína.
smari@bb.is
Verðmæti sjávarafurðar hefur margfaldast
Árangur Íslendinga í aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi er sérstaklega mikill í tilviki okkar verðmætustu tegundar, þorsksins. Árið 2016 var útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga 3,15 bandaríkjadalir á hvert kg, eða 4,6 sinnum meira fyrir kílóið en árið 1981.
Þannig skilaði afli síðasta árs 2,6 sinnum meiri verðmætum en 1981, þó aflinn 2016 hafi einungis verið 57% af afla ársins 1981.
Framangreindar tölur komu fram í máli Önnu Kristínar Daníelsdóttur, sviðsstjóra rannsókna og nýsköpunar hjá Matís, í erindi sem hún hélt nýverið á ráðherrafundi um bestu nýtingu haftengdra tækifæra, sem efnt var til í tengslum við heimsþing um málefni sjávarfangs í Hörpu í september. Greint er frá erindinu á vef Matís.
Árið 2016 öfluðu Íslendingar 1 milljón 67 þúsund tonna, útfluttar sjávarafurðir námu 579 þúsund tonnum. Fyrir hvert útflutt kg af sjávarafurðum fengum við 2,5 sinnum meira árið 2016 en árið 2003, en það ár var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun. Þá var ákveðið að huga fremur að verðmætum afurða en magni hráefna.
smari@bb.is
Ræddu sorpflokkun við umhverfisfulltrúann
Guli hópur af 5 ára leikskóladeildinni Tanga kom færandi hendi til Ralf Trylla umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar í gærmorgun. Tilgangurinn með heimsókninni var að ræða við Ralf um sorpflokkun og þótti krökkunum tilvalið að nýta ferðina og týna upp það rusl sem þau myndu finna á leiðinni. Líklega hefur börnin ekki grunað að þau myndu fylla tvo poka á þessari 250 metra leið frá Austurvegi að Hafnarstræti, en sú var engu að síður raunin.
Við samborgarar gula hópsins á Tanga gætum lært ýmislegt af krökkunum og vanið okkur á að tína upp rusl sem við sjáum á förnum vegi.
smari@bb.is
Róðrakeppni í Ísafjarðarlogninu
Menntskælingar á Ísafirði og nemendur við Háskólasetur Vestfjarða nýttu Ísafjarðarlognið sem veðurguðirnir blessa okkur með í dag og efndu til kappróðurs á pollinum. Kappróðurinn er orðinn að árvissri hefð og gefur róðrakeppnum virtustu menntastofnana hins vestræna heims lítið eftir. Leikar fóru þannig að lið Háskólaseturs Vestfjarða sigraði, í öðru sæti urðu Rauðhetturnar og í því þriðja kvennalið starfsfólks MÍ. Góð þátttaka var í keppninni og stjórn Nemendafélags Menntaskólans bauð upp á pylsur á bryggjunni að róðri loknum.
smari@bb.is
Bleika slaufan 2017
Líkt og undanfarin 10 ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafarþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf um allt land til einstaklinga sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Slaufan er að þessu sinni hönnuð af Ásu Gunnlaugsdóttur gullsmið.
Krabbamein snertir líf flestra
Þriðji hver einstaklingur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og afar mikilvægt er að þeir og aðstandendur þeirra geti gengið að áreiðanlegri ráðgjöf og stuðningi í veikindunum og í kjölfar þeirra.
Í nýrri könnun Krabbameinsfélagsins meðal 1.500 einstaklinga á aldrinum 18-75 ára* kom fram að rúmlega helmingur átti náinn ættingja sem greinst hafði með krabbamein og enn fleiri þekktu einhvern persónulega. Þá höfðu fimm prósent sjálf greinst með sjúkdóminn.
Mun fleiri lifa en áður
Sífellt betur tekst að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum. Nú er svo komið að um 70% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 14.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer fjölgandi. Árið 1976 var talan hins vegar tæplega 2.300. Áætlað er að árið 2026 verði fjöldinn um 18.300. Þessi jákvæða þróun hefur í för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.
Í könnuninni kom meðal annars fram:
- 90% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein töldu stuðning vegna réttindamála ófullnægjandi en um 50% allra svarenda voru þeirrar skoðunar.
- 70% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein sögðu að stuðningi vegna sálrænna einkenna væri ekki nægjanlega sinnt og 80% svarenda var sama sinnis.
- 60% þeirra sem höfðu sjálfir greinst töldu stuðning við aðstandendur ófullnægjandi á meðan á meðferð stóð og 70% svarenda voru því sammála.
„Það er áfall að greinast með krabbamein, bæði fyrir þann sem greinist, en ekki síður fjölskyldu og aðstandendur. Veikindaferlið tekur oft mikið á, á margan og ólíkan hátt og verkefninu er ekki endilega lokið þó sjúkdómurinn hafi læknast. Við höfum ítrekað séð hversu mikilvægt það er að geta gengið að áreiðanlegum upplýsingum, stuðningi og faglegri aðstoð í slíkum aðstæðum. Þess vegna skiptir miklu máli að við eflum þennan hluta starfsemi okkar,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Ráðgjafarþjónusta í 10 ár fólki að kostnaðarlausu
Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á þjónustu fagaðila án endurgjalds. Hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjöf og sálfræðiþjónusta er í boði alla virka daga og boðið er upp á viðtöl og einstaklingsráðgjöf, símaráðgjöf, slökun, fyrirlestra auk starfsemi stuðningshópa félagsins. Einnig er fjöldi námskeiða og fyrirlestra í boði sem mæta þörfum þeirra sem til Ráðgjafarþjónustunnar leita.
bryndis@bb.is
Flokkarnir hafa níu daga
Framboðsfrestur vegna þingkosninganna 28. október rennur út á hádegi á föstudaginn 13. október. Flokkarnir eru í óða önn að raða á lista og í Norðvesturkjördæmi hafa Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Samfylking fullmannað sína lista. Flokkur fólksins hefur valið oddvita og prófkjöri Pírata um efstu fimm sætin lauk einnig um helgina. Framsóknarflokkurinn heldur kjördæmisþing um helgina þar sem framboðslisti verður samþykktur. Engar fregnir hafa borist af líklegum kandidötum á lista Miðflokksins en það ætti væntanlega að skýrast á allra næstu dögum.
smari@bb.is