Síða 2136

Verðmæti sjávarafurðar hefur margfaldast

Árang­ur Íslend­inga í auk­inni verðmæta­sköp­un í sjáv­ar­út­vegi er sér­stak­lega mik­ill í til­viki okk­ar verðmæt­ustu teg­und­ar, þorsks­ins. Árið 2016 var út­flutn­ings­verðmæti landaðs þorskafla Íslend­inga 3,15 banda­ríkja­dal­ir á hvert kg, eða 4,6 sinn­um meira fyr­ir kílóið en árið 1981.

Þannig skilaði afli síðasta árs 2,6 sinn­um meiri verðmæt­um en 1981, þó afl­inn 2016 hafi ein­ung­is verið 57% af afla árs­ins 1981.

Fram­an­greind­ar töl­ur komu fram í máli Önnu Krist­ín­ar Daní­els­dótt­ur, sviðsstjóra rann­sókna og ný­sköp­un­ar hjá Matís, í er­indi sem hún hélt ný­verið á ráðherra­fundi um bestu nýt­ingu haf­tengdra tæki­færa, sem efnt var til í tengsl­um við heimsþing um mál­efni sjáv­ar­fangs í Hörpu í sept­em­ber. Greint er frá er­ind­inu á vef Matís.

Árið 2016 öfluðu Íslendingar 1 milljón 67 þúsund tonna, útfluttar sjávarafurðir námu 579 þúsund tonnum. Fyrir hvert útflutt kg af sjávarafurðum fengum við 2,5 sinnum meira árið 2016 en árið 2003, en það ár var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun. Þá var ákveðið að huga fremur að verðmætum afurða en magni hráefna.

smari@bb.is

Ræddu sorpflokkun við umhverfisfulltrúann

Umhverfisfulltrúinn í vinalegu umhverfi.

Guli hópur af 5 ára leikskóladeildinni Tanga kom færandi hendi til Ralf Trylla umhverfisfulltrúa Ísafjarðarbæjar í gærmorgun. Tilgangurinn með heimsókninni var að ræða við Ralf um sorpflokkun og þótti krökkunum tilvalið að nýta ferðina og týna upp það rusl sem þau myndu finna á leiðinni. Líklega hefur börnin ekki grunað að þau myndu fylla tvo poka á þessari 250 metra leið frá Austurvegi að Hafnarstræti, en sú var engu að síður raunin.

Við samborgarar gula hópsins á Tanga gætum lært ýmislegt af krökkunum og vanið okkur á að tína upp rusl sem við sjáum á förnum vegi.

smari@bb.is

Róðrakeppni í Ísafjarðarlogninu

Dásemdarblíða á pollinum í dag.

Menntskælingar á Ísafirði og nemendur við Háskólasetur Vestfjarða nýttu Ísafjarðarlognið sem veðurguðirnir blessa okkur með í dag og efndu til kappróðurs á pollinum. Kappróðurinn er orðinn að árvissri hefð og gefur róðrakeppnum virtustu menntastofnana hins vestræna heims lítið eftir. Leikar fóru þannig að lið Háskólaseturs Vestfjarða sigraði, í öðru sæti urðu Rauðhetturnar og í því þriðja kvennalið starfsfólks MÍ. Góð þátttaka var í keppninni og stjórn Nemendafélags Menntaskólans bauð upp á pylsur á bryggjunni að róðri loknum.

smari@bb.is

Bleika slaufan 2017

Bleika slaufan 2017

Líkt og undanfarin 10 ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafarþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf um allt land til einstaklinga sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Slaufan er að þessu sinni hönnuð af Ásu Gunnlaugsdóttur gullsmið.

Krabbamein snertir líf flestra

Þriðji hver einstaklingur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og afar mikilvægt er að þeir og aðstandendur þeirra geti gengið að áreiðanlegri ráðgjöf og stuðningi í veikindunum og í kjölfar þeirra.

Í nýrri könnun Krabbameinsfélagsins meðal 1.500 einstaklinga á aldrinum 18-75 ára* kom fram að rúmlega helmingur átti náinn ættingja sem greinst hafði með krabbamein og enn fleiri þekktu einhvern persónulega. Þá höfðu fimm prósent sjálf greinst með sjúkdóminn.

Mun fleiri lifa en áður

Sífellt betur tekst að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum. Nú er svo komið að um 70% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 14.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer fjölgandi. Árið 1976 var talan hins vegar tæplega 2.300. Áætlað er að árið 2026 verði fjöldinn um 18.300. Þessi jákvæða þróun hefur í för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Í könnuninni kom meðal annars fram:

  • 90% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein töldu stuðning vegna réttindamála ófullnægjandi en um 50% allra svarenda voru þeirrar skoðunar.
  • 70% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein sögðu að stuðningi vegna sálrænna einkenna væri ekki nægjanlega sinnt og 80% svarenda var sama sinnis.
  • 60% þeirra sem höfðu sjálfir greinst töldu stuðning við aðstandendur ófullnægjandi á meðan á meðferð stóð og 70% svarenda voru því sammála.

„Það er áfall að greinast með krabbamein, bæði fyrir þann sem greinist, en ekki síður fjölskyldu og aðstandendur. Veikindaferlið tekur oft mikið á, á margan og ólíkan hátt og verkefninu er ekki endilega lokið þó sjúkdómurinn hafi læknast. Við höfum ítrekað séð hversu mikilvægt það er að geta gengið að áreiðanlegum upplýsingum, stuðningi og faglegri aðstoð í slíkum aðstæðum. Þess vegna skiptir miklu máli að við eflum þennan hluta starfsemi okkar,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Ráðgjafarþjónusta í 10 ár fólki að kostnaðarlausu

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á þjónustu fagaðila án endurgjalds. Hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjöf og sálfræðiþjónusta er í boði alla virka daga  og boðið er upp á viðtöl og einstaklingsráðgjöf, símaráðgjöf, slökun, fyrirlestra auk starfsemi stuðningshópa félagsins.  Einnig er fjöldi námskeiða og fyrirlestra í boði sem mæta þörfum þeirra sem til Ráðgjafarþjónustunnar leita.

bryndis@bb.is

 

Flokkarnir hafa níu daga

.

Framboðsfrestur vegna þingkosninganna 28. október rennur út á hádegi á föstudaginn 13. október. Flokkarnir eru í óða önn að raða á lista og í Norðvesturkjördæmi hafa Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Samfylking fullmannað sína lista. Flokkur fólksins hefur valið oddvita og prófkjöri Pírata um efstu fimm sætin lauk einnig um helgina. Framsóknarflokkurinn heldur kjördæmisþing um helgina þar sem framboðslisti verður samþykktur. Engar fregnir hafa borist af líklegum kandidötum á lista Miðflokksins en það ætti væntanlega að skýrast á allra næstu dögum.

smari@bb.is

VG í leiftursókn

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætir enn við sig fylgi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, en Björt framtíð og Viðreisn hverfa af þingi eftir kosningarnar, samkvæmt könnuninni. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist stærri en Framsóknarflokkurinn.

Nær 29 af hundraði styðja Vinstri græn, sem fengju samkvæmt því 20 þingmenn. Rúm 22 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn og ætti það að skila 15 mönnum á þing.

Píratar koma næstir með 11,4 prósenta fylgi og átta þingmenn, og Samfylkingin stígur upp á við með 10,5 prósenta stuðning, sem myndi skila 7 mönnum á þing.

Eins og áður segir mælist Miðflokkurinn með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, en fyrrnefndi flokkurinn fær tæplega 9 prósenta stuðning og sá síðarnefndi 5,5 prósent og þrjá þingmenn.

Viðreisn og Björt Framtíð mælast með um það bil þriggja prósenta fylgi og koma því ekki manni á þing.

Könnunin var gerð dagana 2. og 3. október. Hringt var í 1.354 uns náðst hafði í 800 manns. 62,1 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu, en um níu prósent hugðust annað hvort sitja heima eða skila auðu, ellefu prósent höfðu ekki gert upp hug sinn og nær átján prósent neituðu að svara.

smari@bb.is

Magnús Þór oddviti Flokks fólksins

Magnús Þór Hafsteinsson

Flokkur fólksins hefur opinberað oddvita á listum flokksins í öllum kjördæmum. Magnús Þór Hafsteinsson mun leiða lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi. Magnús Þór sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn kjörtímabilið 2003-07. Hann er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum. Fiskeldisfræðingur frá Héraðsháskóla Sogn og Firðafylkis í Noregi og með meistaragráðu í fiskifræði frá Háskólanum í Björgvin í Noregi.

Hann vefur víðtæka starfsreynslu, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Blaðamaður í sjónvarpi, útvarpi, á netinu og í blöðum bæði í Noregi og á Íslandi. Hann hefur ritað bækur um sögu Íslands í seinni heimsstyrjöld og verið ritstjóri landshlutafréttablaðsins Vesturlands frá 2016. Hann leiddi lista Flokks Fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu þingkosningum.

smari@bb.is

Leita að eldislöxum í vestfirskum ám

Eftirlitsmenn Fiskistofu kanna nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum. Í lok september barst Fiskistofu erindi frá Landssambandi veiðifélag þar sem óskað var eftir þessari könnun. Fiskistofa hefur haft samráð við Hafrannsóknastofnun um málið, en stofnunin telur að upplýsingar um það hvort eldisfiska er að finna í ám á Vestfjörðum geti gagnast til þess að renna styrkari stöðum undir áhættumat vegna hugsanlegrar erfðablöndunar vegna sjókvíaeldis á laxi á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í bréfi Fiskistofu til Ísafjarðarbæjar.

Í bréfinu er óskað eftir leyfi bæjarins til sýnatöku í Sandá í Dýrafirði, en Ísafjarðarbær á land að ánni. Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðist sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.

Ísafjarðarbær veitti Fiskistofu leyfi til veiða og rannsókna í ánni en setur það skilyrði að fá strax að leit lokinni upplýsingar um fjölda laxa sem finnast við þessa leit og hvernig skipting þeirra er í eldislaxa og náttúrulega laxa.

smari@bb.is

Jafnaði markametið og stefnir á atvinnumennsku

Andri Rúnar fagnar marki með stæl en hann jafnaði markamet í efstu deild í sumar. Mynd: Fótbolti.net.

Bolvíski markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason, sem leikur með Grindarvík, stóðst pressuna um helgina og jafnaði markametið í úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Andri Rúnar er þar með kominn í hóp með Tryggva Guðmundssyni, Þórði Guðjónssyni, Pétri Péturssyni og Guðmundi Torfasyni. Grindavík mætti Fjölni á Grindavíkurvelli og Andri Rúnar jafnaði markametið á glæsilegan hátt þegar hann skoraði sigurmarkið á 88. mínútu í 2:1 sigri Grindavíkur. Andri Rúnar skoraði 19 mörk í úrvaldsdeildinni í sumar. Haft er eftir honum í Morgunblaðinu að hann stefnir á atvinnumennsku erlendis þegar samningur hans við Grindavík rennur út í þessum mánuði.

smari@bb.is

Ég man þig hlýtur aðalverðlaun á Fantasy film

Ég man þig hlaut aðalverðlaun á þýsku kvikmyndahátíðinni Fantasy Film Fest. Tíu kvikmyndir tóku þátt í aðalkeppninni. Á meðal sigurvegara undanfarinna ára eru myndir á borð við Beasts of the Southern Wild, District 9 og Brick. Segja má að Ég man þig sé því í góðum félagsskap með þessum stóru kvikmyndum sem hafa áður hlotið verðlaunin. Fantasy Film Fest er haldin í 31. skipti í ár og fór fram í sjö stærstu borgum Þýskalands í september.

Í umsögn dómara segir að Ég man þig sé sálfræðiþriller og ein svakalegasta draugamynd seinni ára. Þá er sagt að handritið sé listilega vel skrifað, kvikmyndatakan öll hin glæsilegasta undir styrkri leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar. Umsögnin er botnuð með þeim orðum að svona eigi að gera alvöru kvikmynd.

Leikstjóri er, eins og áður hefur komið fram, Óskar Þór Axelsson og handrit er eftir Ottó Geir Borg og Óskar Þór. Ég man þig er byggð á samnefndri metsölubók eftir Yrsu Sigurðardóttur. Í aðalhlutverkum eru Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Framleiðendur eru Þórir Snær Sigurjónsson, Skúli Malmquist, Sigurjón Sighvatsson og Chris Briggs.

Ég man þig fjallar um ungt fólk sem fer til Hesteyrar að gera upp hús um miðjan vetur en fer fljótlega að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir