Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2135

Krakkarnir í Vesturbyggð hafa áhrif um allan heim

Í febrúar sögðum við frá verkefninu „Seyoum is my brother“ en það eru samtökin „One Day Seyoum“ sem standa fyrir þessu verkefni. Seyoum er blaðamaður frá Eritreu sem, ásamt 10 öðrum blaðamönnum, var hnepptur í varðhald árið 2001 og ekki hefur heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað. Rut Einarsdóttir vakti athygli nemandi á ástandi mannréttindamála í Eritreu og frá Seyoum og í kjölfarið tóku krakkarnir sig til að gerðu bæði myndbönd og teikningar með skilaboðum til Seyoums.

Stofnandi samtakanna, Vanessa Berhe, var svo snortin af samtakamætti krakkanna að hún fann sig knúna til þess að koma alla leið á Patreksfjörð að hitta þau.

„Vanessa kom á Patreksfjörð til þess að segja nemendum Patreksskóla frá því hvernig það sem þau gerðu snerti fólk um allan heim. Hún segir að margir fjölskyldumeðlimir hennar, hún sjálf meðtalin, hafi tárast þegar þau sáu myndirnar og myndböndin frá nemendunum. Hún minntist á að það að ungir nemendur í þorpi í landi langt frá Eritreu skyldu láta sig þetta varða og standa með þeim væri ekki bara ómetanlegt fyrir fjölskylduna, heldur sýndi það líka yfirvöldum þar í landi að þau geta ekki komist upp með það hvernig þau hafi hagað sér mikið lengur, þar sem heimurinn væri loksins farinn að taka eftir þeim, og mótmæla gjörðum þeirra.“ Segir Rut sem tók á móti Vanessu ásamt nemendum sem voru áhugasamir um samtökin og Vanessu.

Vanessa kom á vegum samtakanna Ung Vest sem stofnuð voru núna í sumar, með aðstoð frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Samtökin voru stofnuð með það að leiðarljósi að veita stuðning við ungt fólk á Sunnanverðum Vestfjörðum, og stuðla að valdeflingu ungs fólks í gegnum námskeið, vinnusmiðjur og í gegnum ýmis verkefni. Hægt er að sjá Facebook síðu samtakanna hér.

Hér má svo horfa á myndaband með kveðjum frá krökkunum.

 

bryndis@bb.is

 

80 erlendir dansarar í Edinborgarhúsinu

Það verður aldeilis hægt að sletta úr klaufunum í Edinborgarhúsinu í kvöld og annað kvöld þegar 80 erlendir dansarar mæta með nýpússaða dansskóna. Dansleikirnir eru öllum opnir og í boði eru stutt námskeið bæði kvöldin fyrir þá sem vilja læra grunnsporin í tjúttinu.

Heimsókn dansarana er í tengslum við hina árlegu Lindy Hop swingdanshátíð Arctic Lindy Exchange.

bryndis@bb.is

Fjórfalda söluna í Bandaríkjunum

Ísfirska fyrirtækið Kerecis hefur verið að gera það gott upp á síðkastið. Fyrirtækið var valið Frumkvöðull ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2015 og nýverið hlaut fyrirtækið Vaxtasprotann árið 2017 og er á nýbirtum lista tímaritsins Podiatry Today yfir 10 helstu uppgötvanir í sárageiranum. „Við erum að leggja megin áherslu á Bandaríkjamarkað og þetta er mest lesna blaðið í sárageiranum þar hjá læknum sem eru að fást við sykursýkissár. Þannig að það staðfestir að við erum komin á kortið sem ein af leiðandi og mest vaxandi lausnum í þeim geira,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Kerecis, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins.

„Við erum með fjóra sölumenn sem eru að selja vöruna okkar til sjúkrahúsa í Bandaríkjunum og 20 umboðssölumenn. Við erum að gefa út skuldabréf með breytirétti, sem fer í að fjármagna fjölgun okkar eigin sölumanna upp í 10 og ætlum svo í hlutafjárútboð í lok næsta árs,“ segir hann. „Við gerum ráð fyrir að skuldabréfið verði 300 – 500 mkr. að stærð og erum að byrja kynningu á því,“ bætir hann við.

Sala á vörum fyrirtækisins í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári var meiri en allt árið í fyrra og Guðmundur segir að fyrirtækið muni fjórfalda söluna vestan hafs í ár.

smari@bb.is

Beðið eftir skipulagsbreytingum í Teigsskógi

Séð út með Þorskafirði.

Vegagerðin mun ekki sækja um framkvæmdaleyfi vegna lagningu vegar um Teigsskóg fyrr en Reykhólahreppur hefur lokið breytingu á aðalskipulagi. Frá þessu er greint á vef RÚV. Í áliti Skipulagsstofnar á umhverfismati Vegagerðarinnar á nýjum Vestfjarðavegi í Gufudalssveit var lagst gegn vegi um Teigsskóg og mælt með annarri veglínu sem fer í jarðgöngum undir Hjallaháls, en Vegagerðin metur þá leið um 4 milljörðum kr. dýrari. Fjórtán ár eru síðan Vegagerðin kynnti fyrst áform um vegbætur í Gufudalssveit og hefur málið velkst um í kerfinu síðan og veglagningin umdeilda komið til kasta dómstóla í tvígang. Breytingar á aðalskipulagi taka að lágmarki hálft ár og í ljósi sögunnar má hæglega gera ráð fyrir að skipulagsbreytingar í Teigsskógi taki mun lengri tíma.

Reykhólahreppur hefur hafið vinnu við breytingar á aðalskipulaginu og verður lýsing á breytingunum send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar innan skamms. Jafnframt verður hún kynnt almenningi. Þá þarf einnig að fara í frekari rannsóknir á vistfræði framkvæmdasvæðisins og hefur Hafrannsóknastofnun þegar hafi þá vinnu.

smari@bb.is

Ekki hægt að láta álit Hafró sem vind um eyru þjóta

Guðjón Brjánsson

„Minn flokkur styður vitaskuld við atvinnu- og frumkvæðisstarf í hvívetna og við leggjum áherslu á að það sé gert í sátt við menn og náttúru. Það þarf ekki að fara á svig við þau markmið með uppbyggingu eldis í Djúpinu,“ segir Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, aðspurður um niðurstöðu áhættumats Hafrannsóknastofnunar þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

„Því er ekki að neita að manni brá í brún við mat Hafrannsóknarstofnunar enda ljóst og leynt verið unnið að vönduðum undirbúningi starfsemi í Djúpinu,“ segir Guðjón og bætir við ekki sé hægt að láta álit Hafrannsóknastofnunar sem vind um eyru þjóta.

„Það verður ekki unnið að lausn málsins án þess að það sé gert á faglegan og vel ígrundaðan hátt. Málið er hins vegar í miðjum klíðum, ég fæ til dæmis ekki betur greint en að hægt sé að draga ýmsar ályktanir við lestur skýrslu Hafró sem ég hef þó ekki kynnt mér nægilega vel enn.“

Guðjón ætlar að fylgja málinu eftir ásamt þingmönnum kjördæmisins og segir að hann viti ekki betur en að þeir standi einhuga að baki áformum fyrir nýja atvinnugrein við Djúp.

„Það vantar hins vegar talsvert upp á að umgjörð fyrir þessa starfsemi sé traust og eftir því kalla raunar forvígismenn fyrirtækja í greininni. Umsóknir, mat, eftirlit og viðurlög, umfjöllun um þessi atriði meðal annars þurfa að vera skýr, skilvirk og raunveruleg en ekki í skötulíki eins og nú virðist vera.  Sömuleiðis þarf að ramma inn strax einfalda og gegnsæja gjaldtöku fyrir aðstöðu og aðgang að auðlindinni, það er þessu takmarkaða aðgengi að hafsvæði og tryggja ríkulega hlutdeild sveitarfélaga í þeim efnum og semja hugsanlega um hæfilegan aðlögunartíma. Um leið og ég vil árétta eindreginn vilja um að unnið verði áfram faglega að málinu með það að markmiði að uppbygging geti hafist í greininni i Djúpinu varlega og markvisst, þá tel ég rétt að doka eftir niðurstöðu stefnumótunarnefndarinnar en hennar er að vænta á næstu dögum,“ segir Guðjón.

smari@bb.is

Fimm af sex nota snjallsíma undir stýri

Fyrir utan að vera forheimskandi er það beinlínis hættulegt og ólöglegt að tala í síma undir stýri.

Fimm af hverjum sex framhaldsskólanemum hér á landi notar snjallsíma undir stýri. Notkun eykst með hækkandi aldri. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Sjóvá lét gera. Könnunin var lögð fyrir framhaldsskólanema og tóku rúmlega sjötíu prósent þátt. Alls sögðust 83 prósent nota símann undir stýri. Rúmlega sjö af hverjum tíu 17 ára nemum játuðu því að nota símann stundum eða oftar við akstur en í hópi 20 ára og eldri var hlutfallið 92 prósent. Flestir tala í símann undir stýri eða 71 prósent. Tæplega sex af hverjum tíu senda SMS eða nota símann til að leita upplýsinga samhliða akstri og helmingur segist skoða og senda Snapchat skilaboð undir stýri.

smari@bb.is

Örnefnaskráning vestfirskra fjarða

Fundur um skráningu örnefna

Í lok síðasta árs luku Súgfirðingar við skráningu örnefna í Súgandafirði en verkið hafði tekið um tvö ár. Það var Birkir Friðbertsson bóndi í Birkihlíð í Súgandafirði sem bar hitann og þungann af starfinu en hann lést 5. júní í ár. Eyþór Eðvarðsson formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar er mikill áhugamaður um skráningu örnefna og á sunnudagskvöld stóð hann, ásamt fleirum, fyrir fundi í Önundarfirði um skráningu örnefna í Önundarfirði, Dýrafirði og Arnarfirði.

Framundan er því að skrá örnefni næstu fjarða og var áhugi fundarmanna á verkefninu mikill, taka þarf myndir frá fjalli til fjöru og síðan að merkja inn á öll þekkt örnefni. Þau munu svo fara í sameiginlega örnefnaskrá.

bryndis@bb.is

Strandveiðum lýkur í dag

Í dag er síðasti dagur strandveiði á svæði A sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps. Fyrir tíu dögum var aukið við strandveiðiheimildir samkvæmt ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra. Aukningin nam 560 tonnum og kom mest í hlut svæðis A, eða 250 tonn.

bryndis@bb.is

Dásamlegur dagur

Það þarf ekki hafa mörg orð um veðrið, það er dásamlegt sumarveður en veðurspámenn spá þó stöku skúrum síðar í dag.

bryndis@bb.is

Forgangsatriði að grípa til verndunaraðgerða á Látrabjargi

Ferðamenn á Látrabjargi.

Það þarf að stórefla gæslu, viðveru og upplýsingafjölf á Látrabjargi að sögn Eddu Kristínar Eiríksdóttur, starfsmanna Umhverfisstofnunar á suðurfjörðum Vestfjarða. Ítarlegt viðtal við hana er á vef Umhverfistofnunar. Hún segir umhverfi bjargsins sé farið að láta á sjá og því sé það algjört forgangatriði að grípa til aðgerða. „Það er sameiginlegt mat allra sem hafa komið að málum hér, mat ferðamanna, landeigenda, sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar,“ segir Edda Kristín.

Hún segir að ræða þurfi upphátt og opinskátt að Látrabjarg sé einn þeirra staða sem hafi drabbast niður og brýnt sé að grípa til ráðstafana. Sár hafi myndast á bjarginu þar sem göngustígur sé á köflum orðinn fjór- eða fimmfaldur. Lundanum hafi fækkað mikið, hann færi sig til undan ágangi. „Hér verpa nokkrar ábyrgðartegundir Íslendinga svokallaðar, tegundir þar sem stór hluti stofnsins á heimsvísu byggir afkomu sína á tilteknum svæðum innan einstakra þjóðríkja. Hér er líka stærsta álkuvarp í Evrópu og ritan er einnig mjög áberandi. Besta mögulega niðurstaðan væri að mínu mati sú að fá friðlýsingu og að Umhverfisstofnun fengi fulla umsjá yfir bjarginu. Við gætum þá lokað Látrabjargi á viðkvæmum tímabilum þegar fuglinn þarf að fá frið. Lundinn fer ekki í holur ef það er fólk í kringum hann. Nú orðið má segja að yfir sumarið sé fólk allan sólahringinn á Látrabjargi, þótt bannað sé að tjalda hér. En svona ferlar geta verið flóknir. Inn í þessi friðlýsingarmál blandast ósætti um deiliskipulag, kærðar framkvæmdir sveitarfélagsins og fleira.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir