Síða 2135

Rauði krossinn leitar að sjálfboðaliðum

Frá neyðarvarnaræfingu Rauða krossins

Rauði krossinn á Norðanverðum Vestfjörðum leitar að fólki sem vill vera á útkallslista vegna neyðarvarna. Námskeið í neyðarvörnum verður haldið fimmtudaginn 5. október í Grunnskólanum á Ísafirði frá kl. 18 til 21. Þeim sem áhuga hafa er einnig boðið að að taka þátt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Ísafjarðarflugvelli 7. október. Sjálfboðaliðum er síðan boðið á ókeypis námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi í nóvember

Rauði krossinn bregst á hverju ári við fjölda alvarlegra atburða svo sem náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum.

Rauði krossinn er með hundruði sjálfboðaliða sem eru til taks allan sólarhringinn ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Sjálfboðaliðar og starfsfólk eru með mismunandi sérþekkingu, m.a. í stjórnun aðgerða, uppsetningu fjöldahjálparstöðva og í að veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almannavörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðarstund. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýminga hverfa eða landssvæða og í kjölfar náttúruhamfara.​

bryndis@bb.is

Mótvægisaðgerðir gegn mögulegri erfðablöndun

Einar K. Guðfinnsson.

Hér á þessum vettvangi birtist athyglisverð frétt um að „eftirlitsmenn Fiskistofu kanni nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum.“ Ennfremur segir í fréttinni: „Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðast sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.“

Þessi frétt beinir athyglinni að því að unnt er að beita fjölþættum mótvægisaðgerðum til þess að fyrirbyggja að eldislax úr kvíum gangi upp í laxveiðiár til hrygningar. Þessar aðferðir eru þekktar og  er beitt til að mynda með virkum hætti í Noregi. Á nýlegum fundi á vegum Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins, sagði fulltrúi Hafrannsóknastofnunar þar í landi frá því að árangurinn væri mjög góður af slíkum mótvægisaðgerðum.

Fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um mótvægisaðgerðir

Nú vill svo til að íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um slíkar mótvægisaðgerðir. Koma þær til viðbótar hugmyndum sem nú er verið að ræða um eldisaðferðir sem hafa það að markmiði að draga úr hættu á að fiskur sleppi úr laxeldiskvíum og munu augljóslega skila þeim árangri eins og sýna má fram á.

Hættan á erfðablöndun er staðbundin

Þessar aðgerðir eru þeim mun áhrifameiri og einfaldari, þar sem nú hefur verið sýnt fram á að möguleg erfðablöndun vegna laxeldis er staðbundnari en margir töldu áður. Áhættumat Hafrannóknastofnunarinnar sýnir þetta svart á hvítu og að viðfangsefnið snýr að ánum í Ísafjarðrdjúpi ( Laugardalsá, Langadals og Hvannadals á) auk Breiðdalsár á Austfjörðum.

Margvíslegar mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðirnar geta verið af margvíslegum toga. Hér er stuðst við tillögur Háafells hf í Hnífsdal og má nefna eftirfarandi:

  1. Notkun norska staðalsins NS 9415 við kvíar. Þetta er nú þegar staðan varðandi allt laxeldi hér á landi. Þessi búnaður hefur ma skilað því að sleppingar í Noregi drógust saman um 85% á sama tíma og framleiðslan jókst um helming.
  2. Reynsla erlendis sýnir að 9% af strokulaxi endurheimtast við veiðar í sjó. Þessum aðferðum er beitt í Noregi, en umdeilt er um gildi þessarar aðgerðar.
  3. Megináhersla verði lögð á að hindra að eldislax gangi í veiðiár og fjarlægja slíkan lax sem þangað gengur. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Til er háþróaður myndavélabúnaður sem framleiddur er hér á landi og komið er fyrir við árósa eða fiskistiga og getur numið með öruggum hætti hvort um er að ræða eldisfisk eða villtan fisk. Eldisfiskinn sem þannig er numinn er auðvelt að fjarlægja úr ánum,
  4. Þekkt er sú aðferð að setja gildrur í fiskistiga eða að þvergirða ána og hindra þannig og flokka villtan fisk frá eldislaxi og hleypa villta fiskinum upp í ána. Þessi aðferð er alþekkt í Noregi og hefur skilað miklum og góðum árangri.
  5. Í Noregi er byrjað að fjarlægja eldislax úr ám ( veiðivötnum) í nágrenni við þann stað sem slsysasleppingar eiga sér stað. Þessari aðferð er mjög auðvelt að beita í ánum í Djúpinu og er samkynja því sem Fiskistofa er nú að framkvæma í ám hér á Vestfjörðum og fréttin í BB.is greinir frá.
  6. Tryggja þarf að í lok veiðitímabils á villtum laxi sé hæfilegur fjöldi fiska í hrygningarstofnunum í laxveiðiánum í Ísfjarðardjúpi. Því stærri sem laxastofninn er því betur ver stofninn sig gegn mögulegri ágengni strokulaxa.

Sameiginlegir hagsmunir

Þetta eru nokkur dæmi um beinar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að eiga gott samstarf við veiðiréttareigendur um slíkar aðgerðir og engin ástæða til að ætla nokkuð annað en að það muni takast. Allir aðilar hafa sömu hagmunina sem er að standa vörð um laxveiðarnar, jafnframt því að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á borð við laxeldi, sem mun í bráð og lengd gagnast öllum.

Einar K. Guðfinnsson,

formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

Bændur efast um gagnsemi tillagna ráðherra

83% sauðfjárbænda telja að tillögur landbúnaðarráðherra séu ekki til þessa fallnar að leysa þann bráðavanda sem steðjar að sauðfjárræktinni. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda gerði meðal félagsmanna sinna. Greint er frá könnuninni í Bændablaðinu sem kom út í dag. Einnig var spurt hvort sauðfjárbændur teldu líklegt að þeir myndu nýta sér þann möguleika í framkomnum tillögum ráðherra að hætta sauðfjárrækt haustið 2017 og halda 90% af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í 5 ár ef það byðist. Svarið var mjög afgerandi og ótvírætt. Kom þar fram greinilegur og ríkur vilji sauð- fjárbænda til að halda áfram búskap þótt á móti blási. Þannig sögðust 80,7% bænda ekki, eða líklega ekki, vilja nýta sér slíkan möguleika ef hann stæði til boða. Jafnframt kom þar fram að 8,2% bænda svöruðu þessari spurningu játandi og um 5% töldu það mjög líklegt. Talið er að í þeim hópi sé talsvert af yngstu bændunum sem eru oft einnig mjög skuldsettir.

Í könnuninni er einnig leitað álits félagsmanna á hugmyndum um að stofna eitt, sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir afurðir sínar hér á landi annars vegar, og möguleikanum á að stofna eitt, sameiginlegt útflutningsfyrirtæki fyrir íslenskt kindakjöt hins vegar. Meirihluti bænda er fylgjandi báðum þessum hugmyndum.

Nær 57 prósent telja það  mjög (30,2%) eða frekar (26,7%) skynsamlegt að stofna sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir innanlandsmarkað. Enn meiri samhugur er um stofnun sameiginlegs útflutningsfyrirtækis, sem hartnær 80 prósent bænda telja mjög (48,5%) eða frekar (30,3%) skynsamlegt skref.

smari@bb.is

Fækkaði í framhaldsskólum

Nem­end­ur á skóla­stig­um ofan grunn­skóla á Íslandi voru 42.589 haustið 2015 og fækkaði um 1.346 nem­end­ur frá fyrra ári, eða 3,1%, aðallega vegna fækk­un­ar nem­enda á fram­halds­skóla­stigi. Alls sóttu 19.086 karl­ar nám og 23.503 kon­ur. Körl­um við nám fækkaði um 874 frá fyrra ári (-4,4%) en kon­um um 472 (-2,0%). Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Á fram­halds­skóla­stigi stunduðu 23.085 nem­end­ur nám og fækkaði um 4,4% frá fyrra ári. Á viðbót­arstigi voru 866 nem­end­ur og var fjöldi nær óbreytt­ur. Á viðbót­arstigi er nám sem bæt­ist ofan á nám á fram­halds­skóla­stigi en er ekki á há­skóla­stigi. Á há­skóla­stigi í heild voru 18.638 nem­end­ur og fækkaði um 1,5% frá haust­inu 2014.

Rúmlega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2015 en 65,8% stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðastliðinn áratug en var 36-38% á árunum 2000-2005. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2015 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 41,4% á móti 26,8% hjá konum.

Vinsælustu brautirnar á framhaldsskólastigi voru stúdentsprófsbrautir en 4.865 stunduðu nám á náttúrufræðibraut og 4.320 á félagsfræðibraut. Af starfsnámsbrautum voru nemendur flestir á listnámsbraut, 536 talsins, 477 stunduðu sjúkraliðanám og 448 voru í grunndeild rafiðna.

smari@bb.is

„Skoska leiðin“ í flugsamgöngum gæti bætt búsetuskilyrði

Innanlandsflug sem almenningssamgöngur var yfirskrift málþings um innanlandsflug sem nokkur samtök sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélög, Byggðastofnun, Austurbrú, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fleiri aðilar stóðu að í dag.

Á málþinginu var fjallað um ýmsar hliðar innanlandsflugs út frá sjónarmiðum neytenda og kynnt var leið sem Skotar hafa farið til að greiða niður fargjöld eftir ákveðnum skilgreiningum og fjallað um hvort sú leið gæti komið að gagni hérlendis.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti málþingið og sagði í upphafi að sérstaða innanlandsflugs á Íslandi væri augljós, það væri okkar lestarkerfi. Hann sagði innanlandsflugið skipta verulegu máli í þjóðarbúskapnum, það væri hátækni atvinnugrein sem velti miklum fjárhæðum og skapaði störf um landið allt. Ráðherra fullvissaði fundarmenn að hann væri meðvitaður um þann félagslega og efnahagslega ávinning sem hagkvæmar flugsamgöngur hefðu í för með sér.

„Með því að tryggja greiðar og hagkvæmar flugsamgöngur fjárfesta stjórnvöld í mannauði og verðmætum um allt land. Góðar flugsamgöngur opna aðgang íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, sérhæfðri þjónustu og afþreyingu sem einungis er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Á sama hátt opna góðar flugsamgöngur leið fyrir ferðamanninn, hvort sem hann er innlendur eða erlendur, til að ferðast til áfangastaða innanlands,“ sagði ráðherra einnig.

Ráðherra hefur skipað starfshóp sem skila á tillögum um hvernig ná megi fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem skili sér til neytenda í lægri flugfargjöldum. Formaður hópsins er Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og með honum eru Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Jón Karl Ólafsson frá Isavia. Hann sagði starfshópnum falið að fara yfir núverandi fyrirkomulag innanlandsflugsins, fara yfir hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi, máta þær og meta hvaða leikreglur skili mestri hagkvæmni til neytenda.

Þá sagði ráðherra að hin svokallaða „skoska leið“ sem felur í sér að ríkissjóður taki þátt í farmiðaverði heimamanna með beinum hætti geti verið þess fallin að styrkja búsetu. Í lok ávarps síns minntist ráðherra á byggingu flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli sem hann sagði að væri nauðsyn burtséð frá því hver yrði framtíðarstaðsetning flugvallarins. Slíka byggingu mætti þá taka undir annað ef flugvöllur yrði lagður niður en á meðan yrði að bæta aðstöðu flugfarþega og starfsmanna sem væri óboðleg í dag.

Sanngjarnt verð myndi bæta lífskjör

Friðbjörg Matthíasdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, fjallaði um bættar flugsamgöngur og betri lífsgæði. Kallaði hún eftir breyttum skilyrðum, breyttu hugarfari og breyttri nálgun á innanlandsfluginu. Hún sagði flug á sanngjörnu verði fyrir íbúa myndu bæta lífskjör til muna svo og meiri tíðni ferða, að hægt væri að fljúga t.d. fram og til baka sama daginn í það minnsta einu sinni í viku. Hún sagði að flugsamgöngur væru lífæðin og algjörlega nauðsynlegur hlekkur í samgöngukerfinu.

Rachel Hunter, svæðisstjóri Hjaltlandseyja, ræddi um efnahagslegan og félagslegan ávinning skosku leiðarinnar. Í upphafi sagði hún Hjaltlandseyjar láglaunasvæði og lífskjör væru á ýmsan hátt erfið en efnahagur væri á uppleið og fólksfjölgun verið frá árinu 2001. Þá kom fram í máli hennar að í könnun meðal ungs fólks á svæðinu væri efst á óskalista þess að fá góð störf, aðgang að menntun og hagkvæmar samgöngur. Skoska leiðin á Hjaltlandseyjum gerði það kleift að veita 50% afslátt af ákveðnum flugleiðum, þ.e. milli eyjanna og borganna Glasgow, Edinborgar, Aberdeen, Inverness, Manchester og Bergen og væri þetta í samræmi við reglur Evrópusambandsins um styrki við jaðarbyggðir. Hún sagði farþegum hafa fjölgað eftir að styrkirnir komu til og að stór hluti ferþega hefði ferðast á annan hátt ef þeirra nyti ekki við en einnig hefðu flugfélög aukið sætaframboð.

smari@bb.is

 

Bæjarins besta 21. tbl. 34. árg.

21. tbl. 34. árg.
21. tbl. 34. árg.

Bæjarins besta kemur út í dag

21. tbl. 34. árg.

21. tölublað Bæjarins besta mun læðast inn um lúgurnar í dag og á morgun og löngu sumarfríi er lokið. Fuglinn er magur en stefnan tekin á að fitna þegar líður að jólum. Blaðið mun koma vikulega í október, tvisvar í nóvember og tvisvar í desember. Við minnum á að það er alltaf pláss fyrir skemmtilegt efni og auglýsingar.

Nálgast má vefútgáfu blaðsins hér eða með því að klikka á myndina.

bryndis@bb.is

Gunnar Bragi í framboð fyrir Miðflokkinn

Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins, er sagður ætla að bjóða sig fram fyrir Miðflokk fyrrum samstarfsmanns síns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Fyrir þessu segist Morgunblaðið hafa öruggar heimildir. Gunnar Bragi hefur verið þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi frá 2009 en sagði sig úr flokknum á dögunum. Ekki ligg­ur enn fyr­ir í hvaða kjör­dæmi Gunn­ar mun bjóða sig fram en Morgunblaðið segir all­ar lík­ur tald­ar á að hann muni leiða lista flokks­ins í einu af sex kjör­dæm­um lands­ins.

smari@bb.is

Gísli mætir á Gíslastaði

Gísli Einarsson

Sagnamaðurinn og Landastjórinn Gísli Einarsson er þekktur sögumaður. Nú mætir Gísli loksins á Gíslastaði í Haukadal í Dýrafirði og verður með einstaka sagnastund í kvöld. Í sagnaskemmtun sinni mun Gísli fjalla um nauðsyn þess að segja sögur og fer sagan um víðan völl allt frá Agli Skallagrímssyni til Hellismanna og Harðarhólma og allt þar á milli.

Miðasala verður á staðnum og léttar veitingar í boði á léttu verði og verzlunin að sjálfsögðu opin.

bryndis@bb.is

Vextir lækkar í 4,25%

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðla­banka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bank­ans um 0,25 pró­sentu­stig. Meg­in­vextir bank­ans, vextir á sjö daga bundnum inn­lánum sem oft eru nefndir stýri­vext­ir, verða því 4,25 pró­sent.

Í frétt á vef Seðla­bank­ans um ákvörðun nefnd­ar­innar seg­ir: „Horfur eru á minni hag­vexti í ár en í fyrra, m.a. vegna þess að hægt hefur á vexti ferða­þjón­ustu. Hag­vöxtur verður þó áfram tölu­vert mik­ill. Vís­bend­ingar eru um að farið sé að draga úr spennu í þjóð­ar­bú­skapn­um.

Verð­bólga hefur hjaðnað nokkuð síðustu tvo mán­uði og í sept­em­ber mæld­ist hún 1,4%. Mæli­kvarðar á und­ir­liggj­andi verð­bólgu eru enn lægri og hjaðn­andi. Gengi krón­unnar hefur lítið breyst frá síð­asta fundi nefnd­ar­inn­ar, eftir lækkun sl. sum­ar, og er 4,5% hærra en á sama tíma í fyrra. Mæli­kvarðar á verð­bólgu­vænt­ingar eru í nokkuð góðu sam­ræmi við verð­bólgu­mark­mið­ið. Geng­is­sveiflur und­an­far­inna mán­aða hafa haft til­tölu­lega lítil áhrif á verð­bólgu og skamm­vinn áhrif á verð­bólgu­vænt­ing­ar.

Verð­­bólga hefur verið undir 2,5 pró­­sent mark­miði Seðla­­banka Íslands í um 44 mán­uði sam­fleytt og bank­inn hefur því verið að lækka meg­in­vexti sína.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir