Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2134

Breyta skipulaginu áður en ákvörðun liggur fyrir

Teigsskógur í Þorskafirði.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur ekki myndað sér ákveðna skoðun á því hvort best sé að nýr vegur í Gufudalssveit liggi um Teigsskóg líkt og Vegagerðin sækist eftir. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir nýjan Vestfjarðaveg í Gufudalssveit er mælt með að vegurinn liggi í jarðgöngum undir Hjallaháls í stað þess að leggja nýjan veg um Teigsskóg. Áður en Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni hjá Reykhólahreppi  þarf að breyta aðalskipulagi. Vilberg Þráinsson, oddviti Reykhólahrepps, segir í samtali við blaðamann mbl.is að sveitarstjórnin hafi ekki myndað sér skoðun á hvaða veglína verði fyrir valinu, það gerist ekki fyrr en aðalskipulaginu verði breytt.

„Við erum búin að vera að safna að okk­ur upp­lýs­ing­um síðustu mánuði og erum að tala við alla aðila sem koma að þessu máli. Við höf­um ráðið mann sem held­ur utan um þess­ar upp­lýs­ing­ar. Við reyn­um að vinna þetta eins vel og við get­um svo við get­um rök­stutt þá ákvörðun sem við tök­um,“ segir Vilberg.

smari@bb.is

Mikill gönguáhugi

Á Kofra. Mynd: Einar Skúlason

Góð þátttaka hefur verið í skipulagðar göngur Ferðafélags Ísfirðinga í sumar. Um síðustu helgi gengu tæplega 30 manns frá Flæðareyri yfir í Grunnavík undir leiðsögn hins glögga og fróða Smára Haraldssonar.

Mynd: Ó. Smári Kristinsson
Staður í Grunnavík. Mynd. Ó. Smári Kristinsson

Næsta laugardag á svo að ganga úr Hjarðardal í Dýrafirði um Mjódal inn af Bjarnadal og að Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði. Fararstjóri í þeirri göngu er Emil Ingi Emilsson.

Um Verslunarmannahelgina var árleg gönguhátíð í Súðavík og að sögn göngustjóra hátíðarinnar var gríðargóð þátttaka eða um 400 manns sem mættu í viðburðina en um 130 sem tóku þátt í göngum. Það voru fjölbreyttar göngur í boði þá helgina, frá Skötufirði og í Heydal í Mjóafirði, Sauratindar-Skák-Sauradalur, Seljalandsdalur-Þjófaskörð-Syðridalur og að venju var gengið á Kofra.

Feðginin Gyða og Barði. Mynd: Einar Skúlason
Guðbjartur með Álftafjarðarbotn í baksýn. Mynd: Einar Skúlason

Nálgast má allar upplýsingar um ferðir Ferðafélags Ísfirðinga á Facebook síðu þess.

bryndis@bb.is

Laun sauðfjárbænda lækki um helming

Ef fram fer sem horfir lækka laun sauðfjárbænda um 56 prósent milli ára og nánst öll sauðfjárbú á landinu verða rekin með tapi. Þetta kemur fram í bréfi Oddnýjar Steinunnar Valsdóttur, formanns Landssamtaka sauðfjárbæna, til alþingismanna. Í bréfinu vísar hún til útreikninga sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarains vann fyrir samtökin.

Samkvæmt úttektinni þýðir boðuð lækkun afurðaverðs um 35% að framlegð af meðalkind lækki um 4.130 kr. frá því sem var í fyrra. Afkoma greinarinnar í heild fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta verði neikvæð um 1.463 milljónir kr. á þessu ári, en var jákvæð um 531 milljón í fyrra. Það þýðir að afkoman versnar um tæpa tvo milljarða.

Í lok bréfsins segir: „Ástæður þessarar miklu yfirvofandi lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda tengjast þannig ekki með beinum hætti nýgerðum búvörusamningum og helgast að mestu af einstaklega óhagstæðum ytri aðstæðum sem bændur ráða ekki við. Þessi forsendubrestur mun koma harðast niður á þeim sveitum þar sem sauðfjárrækt er hryggjastykkið í atvinnulífi og byggðafestu. Afleiðingarnar gætu orðið fjöldagjaldþrot til sveita með tilheyrandi byggðaröskun. Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar.“

smari@bb.is

Fjölbreyttur nemendahópur tíunda árið í röð

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða fyrir útlendinga standa nú yfir og eru þátttakendur í ár hátt í 70 talsins. Þetta er tíunda árið í röð sem Háskólasetrið býður upp á slík námskeið og eru þau fyrir löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi setursins.

Boðið er upp á þrjú byrjendanámskeið, tvö á Núpi í Dýrafirði og eitt á Ísafirði auk nokkurra námskeiða fyrir lengra komna, en þau námskeið fara einungis fram á Ísafirði. Nemendahópurinn er fjölbreyttur, skiptinemar og nemendur sem eru að hefja fullt nám við háskóla á Íslandi eru áberandi en einnig eru einstaklingar sem hafa brennandi áhuga á íslensku og Íslandi og koma gagngert á námskeið til að viðhalda kunnáttu og þekkingu sinni á landi, þjóð og íslenskri tungu.

Námskeiðin eru byggð upp með hefðbundinni bekkjarkennslu á morgnana en eftir hádegið er kennslan brotin upp með valnámskeiðum þar sem boðið er upp á margt skrýtið og skemmtilegt s.s. kórsöng, búðarrall, rímnahefð og íslensk blótsyrði. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist íslensku samfélagi og læri að bjarga sér á tungumálinu.

Síðasti kennsludagur námskeiðanna er á föstudaginn og þá halda erlendu nemendurnir hver í sína áttina, ýmist heim á leið eða í frekar nám á Íslandi.

smari@bb.is

Styttist í skýrslu um stefnumótun í fiskeldi

Sjókvíar í Fossfirði, einum innfjarða Arnarfjarðar.

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi átti að skila af skýrslu um miðjan mánuðinn og hafði 15. ágúst verið nefndur í því sambandi. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins, segir skýrslunnar sé að vænta á allra næsta dögum. Að sögn Þóris verður skýrslunni skilað til sjávarútvegsráðherra sem væntanlega kynnir hana fyrir ríkisstjórn áður en hún verður gerð opinber.

Starfshópurinn var skipaður í desember á síðasta ári, í tíð Gunnars Braga Sveinssonar í sjávarútvegsráðuneytinu.

Í tilkynningu ráðuneytisins á þeim tíma kom fram að fisk­eldi sé ört vax­andi at­vinnu­grein og mik­il­vægt sé að skil­yrði og um­gjörð um grein­ina séu eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við um­hverfið.

Bent er á að stefnu­mót­un sé nú sér­stak­lega brýn vegna hins hraða vaxt­ar grein­ar­inn­ar. Í henni þurfi m.a. að horfa til stjórn­sýslu og rann­sókna, al­mennra starfs­skil­yrða grein­ar­inn­ar, um­hverf­is­mála, hættu á erfðablönd­un við villta stofna, sjúk­dóma og sníkju­dýra,  mennt­un­ar­mála, gjald­töku, markaðsmá­la og efna­hags­legr­ar þýðing­ar fyr­ir þjóðarbúið. Verður þetta skoðað bæði út frá eldi í sjó og á landi.

Starfs­hóp­ur um stefnu­mót­un í fisk­eldi

  • Bald­ur P. Erl­ings­son formaður, skipaður af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti
  • Sig­ur­björg Sæ­munds­dótt­ir, til­nefnd af um­hverf­is- og auðlindaráðuneyti
  • Guðmund­ur Gísla­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi fisk­eld­is­stöðva
  • Kjart­an Ólafs­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi fisk­eld­is­stöðva
  • Óðinn Sigþórs­son, til­nefnd­ur af Lands­sam­bandi veiðifé­laga
  • Bryn­dís Björns­dótt­ir, til­nefnd af at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti

smari@bb.is

Fyrsta sprenging í september

Athafnasvæði Dýrafjarðarganga. Myndin tengist fréttinni ekki.

Von­ast er til að spreng­ing­ar hefj­ist í Dýra­fjarðargöng­um í byrj­un sept­em­ber. For­sker­ing, þar sem sprengd­ur er skurður inn í fjallið, hófst  17. júlí. Eysteinn Jóhann Dofrason, tæknifræðingur hjá Suðurverki, segir í samtali við mbl.is að vinnubúðir á svæðinu séu komnar upp og í vik­unni verður klárað að setja upp verk­stæði, steypu­stöð og geymsl­ur á svæðinu. Um fjörtíu manns eru að störf­um á staðnum.

Byrjað verður að sprengja Arn­ar­fjarðarmeg­in og grafn­ir þaðan um 4 kíló­metr­ar. Það sem upp á vant­ar á 5.300 metra löng göng­in verður grafið úr Dýraf­irði. Við bæt­ast 300 metra veg­skál­ar þannig að heild­ar­lengd gang­anna verður 5,6 kíló­metr­ar.

smari@bb.is

Meiri og verðmætari afli

Fiskafli íslenskra skipa í júlí var 73.473 tonn sem er 3% meira en í júlí 2016. Botnfiskaflinn nam tæpum 30 þúsund tonnum og jókst um 6%, þar af veiddust tæp  17 þúsund tonn af þorski sem er 22% aukning samanborið við júlí 2016. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 39 þúsund tonnum í júlí og dróst saman um 2% samanborið við sama mánuð í fyrra.  Af uppsjávartegundum veiddist mest að makríl eða rúm 28 þúsund tonn. Flatfiskaflinn var tæp 3.200 tonn og jókst um 35% á milli ára. Af flatfisktegundum veiddist mest af grálúðu í júlí eða rúm 2.300 tonn. Skel- og krabbadýraafli var 1.632 tonn samanborið við 1.238 tonn í júlí 2016.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá ágúst 2016 til júlí 2017 var 1.120 þúsund tonn sem er 8% meira en yfir sama tímabil ári fyrr.

Verðmæti afla í júlí metið á föstu verðlagi var 6,3% meira en í júlí 2016.

smari@bb.is

Sjálfsmyndin og tungumálin

Isabel Alejandra Díaz

2016 var viðburðarríkt. Kastljósviðtalið sem Helgi Seljan tók við mig vakti mikla athygli bæði hér á landi og í El Salvador. Ég sagði frá uppvexti mínum sem einkenndist af óvissu í yfir 10 ár, vegna þess að ég óttaðist að verða send úr landi þar sem að ég fékk ekkert varanlegt dvalarleyfi. Ég hef alltaf verið full þakklætis fyrir hvernig var tekið á móti okkur fjölskyldunni á Íslandi en það jókst vegna þeirra viðbragða sem að ég fékk í kjölfar viðtalsins. Ég upplifði svo mikinn kærleik frá Ísfirðingum en líka landsmönnum öllum. Á sama tíma var ég að útskrifast úr menntaskóla og við það fann ég líka fyrir dapurleika, því tilhugsunin um að yfirgefa Skutulsfjörð var mér nánast óbærileg. Sú tilfinning varð fljótt hluti af stórum tilfinningarússíbana þegar að afrekin mín vöktu athygli út fyrir landsteinana. Tvær þjóðir fylgdust með með mér og ég var komin í sviðsljósið. Það reyndist alltof mikið fyrir mig enda átti þetta sér stað á mjög stuttum tíma. Ég var á athyglisverðum stað þar sem að ég var að reyna af öllu hjarta að sameina þessa tvo ólíku heima sem að minn raunveruleiki samanstendur af. Foreldrar mínir hafa alltaf lagt mikla áherslu á að við börnin séum meðvituð og stolt af rómanska-ameríska bakgrunni okkar, sem að við erum. Ég veit að ræturnar mínar eru í El Salvador en hins vegar  hef ég blómstrað á Íslandi. Það er málið.

Að tengja við ræturnar

Það var á þessum tímamótum að ég fékk skilaboð alla leið frá Englandi en mér til mikillar undrunar hafði Anna Hildur Hildibransdóttir séð viðtalið við mig í Kastljósinu. Hún deildi með mér hugmynd sinni um að setja upp námskeið fyrir tví- og fjöltyngd börn til að efla málvitund þeirra. Það var hugsað fyrir bæði íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem að hafa sest að hér á landi. Þetta var hugmynd sem var byggð á hennar reynslu sem móðir og amma tvítyngdra barna. Boðað var til fundar á Ísafirði síðastliðið sumar þar sem yfir 20 manns komu saman til að ræða framkvæmd verkefnisins og ákveðið að fara af stað með vikunámskeið sumarið 2017 undir heitinu Tungumálatöfrar. Þegar ég sat þarna, á meðal fólks með skýrar og áhugaverðar hugmyndir, athugasemdir og ráðleggingar, varð ég óörugg með mig sjálfa. Ég var ekki viss um hvað ég gæti lagt af mörkum sem manneskja af erlendu bergi brotin því ég átti erfitt með að tilheyra báðum heimunum mínum. Ég vissi samt að á þessum fundi var eitthvað stórt að fæðast sem að ég vildi vera partur af. Ég treysti fundarmönnum fyrir vangaveltum mínum sem voru fullar efassemdar um sjálfa mig í tengslum við verkefnið en kvaddi samt full vonar um að ég fengi að vera með að ári.

Síðastliðið ár hefur haldið áfram að gefa. Ég hef fengið að taka þátt í ýmsu sem að hefur verið mjög þroskandi. Heimsóknin á Bessastaði var mér mjög mikilvæg en þarna var það í fyrsta skipti sem að ég upplifði mikla viðurkenningu frá báðum löndunum mínum. Mér á vinstri hlið var sjálfur forseti lýðveldisins og á þeirri hægri var skipaður sendiherra El Salvador, sem að hafði treyst mér til að vera annar fulltrúi Mið-Ameríska ríkisins á Bessastöðum. Núna í vor var mér líka boðið á leiðtoganámskeið í Svíþjóð á vegum Soroptimistasambands Íslands. Leiðbeinendurnir voru konur í hátt settum stöðum sem að kenndu okkur að efla leiðtogahæfileika okkar og hafa betri sýn á það sem að við stefndum að í framtíðinni. Einn fyrirlesturinn var um fjölmenningu og fjöltyngi, þar sem farið var vítt og breitt út í alla þættina svo ég hlustaði af miklum áhuga. Við lærðum svo mikið á svo stuttum tíma að það var ekki fyrr en að ég var komin heim sem að allt fór að smella saman fyrir mér. Ég var allt í einu komin með skýra hugmynd að því sem að ég vildi gera á komandi árum og var full tilhlökkunar fyrir Tungumálatöfra. Ég skildi betur hversu mikilvægt verkefnið Tungumálatöfrar er og hvernig þátttaka mín í því var að hjálpa mér að tengja við mínar eigin rætur.

Tungumálaskrúðganga verður árleg

Námskeiðið sem að fram fór aðra vikuna í ágúst uppfyllti allt og meira en það sem að ég hafði ímyndað mér. Mér fannst algjörlega magnað að sjá 15 börn á aldrinum 5 – 8 ára ná svo vel saman. Þau fengu rými til sköpunar og tjáningar en náðu líka að koma saman í hóp. Þau komu vel fram við hvort annað, hjálpuðust að, hugguðu hvort annað og skiptust á hugmyndum. Ég var stundum alveg agndofa. Ég tók eftir því að ég og íslensku börnin sem búsett eru erlendis áttum það sameiginlegt að eiga erfitt með þýðingar í kollinum. Ég sá að þau vildu tjá sig en náðu ekki að finna réttu orðin á íslensku. Þetta var í fyrsta sinn sem ég varð vitni að manneskju lenda í því sem að gerist hjá mér á hverjum einasta degi. Mér þótti það svo merkilegt. Í mínu tilfelli er það náttúrulega spænskan sem að flækist fyrir mér. En þetta er einmitt gott dæmi um þörfina fyrir þetta námskeið. Ég áttaði mig á því þarna að það hefði komið sér vel fyrir mig að hafa haft aðgang að námskeiði sem þessu þegar ég var barn.

Það sem að heillaði mig hvað mest var að heyra þau tala um heimalandið sitt og sjá hve stolt þau voru af því. Að sjá sakleysið og einlægnina í augum þeirra. Ég tók eftir því að kennararnir voru meðal annars mjög hvetjandi þegar kom að því að ræða heimaland og tungumál hvers og eins. Þarna erum við að skapa öruggan vettvang fyrir börnin þar sem að þau geta verið frjáls og talað um sig og sinn bakgrunn án þess að mæta mótlæti. Með þessu móti eru þau viljug til þess að deila með okkur sínum siðum, hefðum og menningu. Það er mikilvægt fyrir þau að varðveita bakgrunninn sinn og rækta tungumálin sem þeim eru gefin. Tungumálin eru hluti af sjálfsmynd okkar og það styrkir sjálfsmyndina að geta verið stoltur af því hvaðan maður er og að maður geti talað fleiri en eitt mál. Það er gott að geta fagnað fjölbreytileikanum en viðurkenna líka á sama tíma að í grunninn erum við öll eins.

Það er greinilega eftirspurn eftir verkefni sem þessu. Áhuginn sem að það vakti var hreint út sagt stórkostlegur. Á fundi sem haldinn var um framtíð verkefnisins var skipuð verkstjórn sem í sitja; Anna Hildur Hildibrandsdóttir, Herdís Hübner, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Svava Rán Valgeirsdóttir og ég. Ég er spennt yfir að fá að vinna með þessum fyrirmyndarkonum og vonast til þess að geta lært heilmikið af þeim. Markmiðið er nú að þróa verkefnið áfram og þar sem að málefnið er vítt er einn af mínum draumum að geta snert ýmsa nauðsynlega þætti varðandi fjölmenningu. Ég er meyr en um leið glöð að saga mín skuli hafa verið hvatning fyrir þessa góðu hugmynd. Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að reynsla mín sem tvítyngdur innflytjandi geti nýst. Ég veit núna að það hjálpar mér í mínu ferli og að um leið geti það hjálpað öðrum. við að styrkja sjálfsmynd sína.

Ég hlakka til að vinna að þróun hugmyndarinnar og búa til spennandi námskeið þar sem við bjóðum börnum að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi. Einnig hlakka ég til að vinna að því að Tungumálaskrúðgangan verði árlegur viðburður á Ísafirði þar sem við fögnum fjölbreytileikanum og framlagi íslenskra útlendinga og útlenskra Íslendinga.

Isabel Alejandra Díaz, háskólanemi og verkefnastjóri Tungumálatöfra.

Íbúarnir njóti sanngirni

Bolungarvíkurhöfn.

Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar skorar á sjávarútvegsráðherra að horfa til íbúa á norðanverðum Vestfjörðum þegar ákvarðanir eru teknar um framtíð fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Í bókun bæjarráðs segir að hagsmunir íbúa á svæðinu eiga að njóta sanngirni í ákvörðunum þar sem hagræn áhrif hljóta að skipta máli þegar framtíð fiskeldis á svæðinu er ákveðin.

„Það er fyrirsjáanlegt að hagræn áhrif fiskeldis mun hafa mikil og jákvæð áhrif á byggðina við Ísafjarðardjúp auk þess að þjóðarbúið allt mun njóta góðs af fiskeldinu til lengri tíma litið.

Það er ófrávíkjanleg krafa okkar að hagsmunir samfélagsins séu hafðir til hliðsjónar í þeirri stóru ákvörðun um leyfisveitingar fiskeldis í Ísafjarðardjúpi sem nú er framundan,“ segir í bókuninni.

smari@bb.is

Bjart með köflum

Það er dáindisgott veður í dag á Vestfjörðum en þokan lá þó yfir snemma í morgun, að minnsta kosti í Önundarfirði. Hér má sjá nokkrar myndir úr vefmyndavélum Snerpu hér á norðanverðum kjálkanum.

Arnarfjörður
Súgandafjörður skartar sínu fegursta
Dýrafjörður bjartur og fagur
Þokan á undanhaldi í Önundarfirði

Landið allt samkvæmt veðurfræðingum

Norðlæg átt 5-10, en heldur hvassari norðvestlæg átt við norðausturströndina fram eftir degi. Rigning eða súld norðaustantil, en hægari vindur sunnan heiða og síðdegisskúrir. Norðlæg átt 5-13 á morgun, en 10-18 suðaustanlands seinnipartinn. Rigning með köflum austantil, en bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast á Suðurlandi.

Norðan og norðvestan strekkingur eða allhvass vindur á suðausturlandi síðdegis á fimmtudag og fram undir hádegi á föstudaginn. Vindur getur náð meiru en 25 m/s í hviðum við fjöll. Slíkt er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir