Síða 2134

Ég var aldrei barn – erindi í Vísindaporti

Karítas Skarphéðinsdóttir með elstu börnum sínum.

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um nýja grunnsýningu Byggðasafns Vestfjarða sem opnuð var í sumar. Þar er sögð saga stétta- og kynjaátaka í upphafi tuttugustu aldar frá sjónarhóli Karitasar Skarphéðinsdóttur, sem búsett var á Ísafirði 1922-1938 og barðist á þeim tíma ötullega fyrir bættum hag fiskverkafólks. Erindið flytur Helga Þórsdóttir, menningar- og listfræðingur og starfsmaður Byggðasafns Vestfjarða.

Helga segir að Karítas sé kynnt sem bæði táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma; hún er líkami konu sem ekki var ætlað að hafa yfirráð yfir sjálfri sér. Þannig var skipt á henni og húsi þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má um Karítas. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessara krafta og fer þannig, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins.

Helga Þórsdóttir hefur lokið MA prófi í menningarfræði og MA prófi í myndlist. Hún hefur kennt listasögu, skrifað um myndlist, sett upp myndlistasýningar og starfað að sjálfstæðum rannsóknum um sjónlistir. Helga er núna fastráðinn starfsmaður hjá Byggðasafni Vestfjarða.

Vísindaportið er að vanda öllum opið í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og stendur frá 12.10-13.00. Erindið er flutt á íslensku.

smari@bb.is

Áhyggjur af stöðu leikskólabarna

Samráðsnefnd Félags stjórnenda í leikskólum hefur áhyggjur af stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi er of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma. Mikið álag er fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými svo langan dag. Viðvera barna hefur aukist síðustu ár og dvelja þau í leikskóla að meðaltali yfir átta klukkustundir á dag.

„Áhyggjur okkar beinast að því að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. Viðvarandi starfsmannavelta eykur einnig á þennan vanda. Við viljum beina orðum okkar til foreldra, sveitastjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls. Stöndum saman að velferð barna og finnum leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

Fisherman færir út kvíarnar

Glæsileg verslun Fisherman í Reykjavík. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg

Ferðaþjónustufyrirtækið Fisherman á Suðureyri hefur fært út kvíarnar og á dögunum opnaði sælkerabúð með sjávarfang á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur. Með þessu er hægt að jafna árstíðarbundna sveiflur í vestfirskri ferðaþjónustu. Í Fisherman í Reykjavík er hægt að velja fisk, meðlæti og sósu, ým­ist til að taka með eða borða á staðnum. Þá er boðið upp á ýmsa sérrétti eins og plokk­fisk­sam­lokuna víðfrægu, smjör­steikt­ar gell­ur, og djúp­steikt­an fisk og fransk­ar.

Fis­herm­an er 16 ára gam­alt ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki sem var stofnað á Suður­eyri með það mark­mið að end­ur­byggja hús sem til stóð að rífa í lítið gisti­heim­ili. Þannig hófst rekst­ur­inn sem hef­ur síðan stækkað og stækkað í tímans rás.

„Við lít­um fyrst og fremst á þessa versl­un sem hverf­is­versl­un og skemmti­lega viðbót við Vest­ur­bæ­inn,“ seg­ir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

smari@bb.is

Allar líkur á að kalkþörungaverksmiðja rísi

Sveitarstjórinn í Súðavíkurhreppi telur allar líkur á að kalkþörungaverksmiðja verði reist í Súðavík innan ekki langs tíma.

Frummatsskýrsla Íslenska kalkþörungafélagsins var kynnt á íbúafundi í Súðavík í gær og einnig skýrsla KPMG um hagrænum áhrif verksmiðjunnar. „Þetta var góður fundur og það mættu Súðvíkingar, Ísfirðingar og Bolvíkingar. Það var ánægjulegt að sjá nágranna okkar á fundinum enda skiptir þetta okkur öll máli,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Nokkur ár eru síðan Íslenska kalkþörungafélagið kynnti fyrst áform um kalkþörungavinnslu í Ísafjarðardjúpi. Það sem hefur staðið verkefninu fyrir þrifum í Súðavík er afhending raforku. „Við teljum okkur vera búin að leysa það með því að keyra verksmiðjuna með gasi þangað til raforkukerfið verður komið í nútímahorf og við getum afhent 10 megavött,“ segir Pétur.

Samkvæmt mati KPMG getur verksmiðjan skapað 42 bein og óbein störf og strax á byggingartíma átján störf.

Aðspurður hvað hreppurinn þurfi að gera til að verkefnið verði að veruleika segir Pétur að ákvörðun hreppsins sé skipulagsákvörðun og einnig þurfi að nást eðlilegir samningar við fyrirtækið um hafnarþjónustu sem Pétur hefur fulla trú á að gangi vel fyrir sig.

Áformað er að verksmiðjan rísi á Langeyri og samhliða verksmiðjunni þarf að byggja upp hafnaraðstöðu. „Langeyrin hentar vel fyrir hafnarkant, þar er mikið dýpi. En Langeyrin er líka falleg og það var eitt af því sem var rætt á fundinum í gær,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Þurftu að hækka rafmagnslínur

Línan er komin í mun meiri hæð eins og sést glögglega á þessari mynd.

Á mánudaginn hóf vinnuflokkur frá Landsneti, með aðstoð verktaka við Dýrafjarðargöng, vinnu við hækkun á núverandi háspennulínu, svokallaðri Breiðdalslínu 1, nálægt Rauðsstöðum í Borgarfirði um 400 metra frá gangamunna Dýrafjarðarganga.

Tvær staurastæður voru teknar niður og í stað þeirra reistar tvær nýjar og hærri stæður sitt hvoru megin við fyrirhugaðan veg úr göngunum.  Auk þess var gerð sérstök fylling undir staurana til að lyfta þeim upp. Ástæða hækkunarinnar er að vegurinn á þeim kafla sem línan liggur yfir er mjög hár eða um 10 m, og því nauðsynlegt að hækka línuna þannig að  kröfur um lágmarkshæð háspennulínu og leiðara yfir jörðu séu uppfylltar. Vinnan við þessar breytingar gekk vel og lauk verkinu á miðvikudaginn í gær.

Fyrir 2010 þegar unnið var að hönnun ganganna var áætlað að þessi lína yrði fjarlægð þegar göngin væru komin og jarðstrengur í gegn um þau væri tilbúin. Nú er hins vegar komin upp einhver óvissa um hvort línan verði fjarlægð þó að ákvörðun liggi fyrir um leggja rafstreng um göngin.

smari@bb.is

372 milljarða þarf í viðhald innviða

Þjóðvegur á Vestfjörðum.

372 milljarða vantar í viðhald helstu innviða landsins, svo sem flugvalla, hafna, vega og fasteigna samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand innviða.

Þetta kem­ur fram í skýrslu um ástand og framtíðar­horf­ur innviða á Íslandi sem verður kynnt á opn­um fundi Sam­tak­a iðnaðarins í dag.

Verst er ástand vega og frá­veitna en ástand­s­ein­kunn þeirra er 2.  Hita­veit­ur, orku­vinnsla og Keflavíkurflugvöllur eru einu innviðirn­ir sem fá ástand­s­ein­kunn 4 sem merk­ir að staða mann­virk­is­ins sé góð og að eðli­legt viðhald þurfi til að halda stöðu þess óbreyttri. Eng­in teg­und innviða fær hæstu ein­kunn sem þýðir að ekki sé þörf fyr­ir um­tals­vert viðhald fyrr en að mörg­um árum liðnum.

smari@bb.is

Rauði krossinn leitar að sjálfboðaliðum

Frá neyðarvarnaræfingu Rauða krossins

Rauði krossinn á Norðanverðum Vestfjörðum leitar að fólki sem vill vera á útkallslista vegna neyðarvarna. Námskeið í neyðarvörnum verður haldið fimmtudaginn 5. október í Grunnskólanum á Ísafirði frá kl. 18 til 21. Þeim sem áhuga hafa er einnig boðið að að taka þátt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Ísafjarðarflugvelli 7. október. Sjálfboðaliðum er síðan boðið á ókeypis námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi í nóvember

Rauði krossinn bregst á hverju ári við fjölda alvarlegra atburða svo sem náttúruhamförum, samgönguslysum, húsbrunum og vinnuslysum.

Rauði krossinn er með hundruði sjálfboðaliða sem eru til taks allan sólarhringinn ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Sjálfboðaliðar og starfsfólk eru með mismunandi sérþekkingu, m.a. í stjórnun aðgerða, uppsetningu fjöldahjálparstöðva og í að veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara eða annarra stórslysa fer neyðarvarnarkerfi Rauða krossins í gang. Hlutverk Rauða krossins í almannavörnum ríkisins er fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf sem felst einkum í því að útvega fæði, klæði og húsaskjól og veita upplýsingar til fólks á neyðarstund. Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar koma þarf stórum hópum fólks í skjól, svo sem vegna rýminga hverfa eða landssvæða og í kjölfar náttúruhamfara.​

bryndis@bb.is

Mótvægisaðgerðir gegn mögulegri erfðablöndun

Einar K. Guðfinnsson.

Hér á þessum vettvangi birtist athyglisverð frétt um að „eftirlitsmenn Fiskistofu kanni nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum.“ Ennfremur segir í fréttinni: „Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðast sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.“

Þessi frétt beinir athyglinni að því að unnt er að beita fjölþættum mótvægisaðgerðum til þess að fyrirbyggja að eldislax úr kvíum gangi upp í laxveiðiár til hrygningar. Þessar aðferðir eru þekktar og  er beitt til að mynda með virkum hætti í Noregi. Á nýlegum fundi á vegum Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins, sagði fulltrúi Hafrannsóknastofnunar þar í landi frá því að árangurinn væri mjög góður af slíkum mótvægisaðgerðum.

Fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um mótvægisaðgerðir

Nú vill svo til að íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um slíkar mótvægisaðgerðir. Koma þær til viðbótar hugmyndum sem nú er verið að ræða um eldisaðferðir sem hafa það að markmiði að draga úr hættu á að fiskur sleppi úr laxeldiskvíum og munu augljóslega skila þeim árangri eins og sýna má fram á.

Hættan á erfðablöndun er staðbundin

Þessar aðgerðir eru þeim mun áhrifameiri og einfaldari, þar sem nú hefur verið sýnt fram á að möguleg erfðablöndun vegna laxeldis er staðbundnari en margir töldu áður. Áhættumat Hafrannóknastofnunarinnar sýnir þetta svart á hvítu og að viðfangsefnið snýr að ánum í Ísafjarðrdjúpi ( Laugardalsá, Langadals og Hvannadals á) auk Breiðdalsár á Austfjörðum.

Margvíslegar mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðirnar geta verið af margvíslegum toga. Hér er stuðst við tillögur Háafells hf í Hnífsdal og má nefna eftirfarandi:

  1. Notkun norska staðalsins NS 9415 við kvíar. Þetta er nú þegar staðan varðandi allt laxeldi hér á landi. Þessi búnaður hefur ma skilað því að sleppingar í Noregi drógust saman um 85% á sama tíma og framleiðslan jókst um helming.
  2. Reynsla erlendis sýnir að 9% af strokulaxi endurheimtast við veiðar í sjó. Þessum aðferðum er beitt í Noregi, en umdeilt er um gildi þessarar aðgerðar.
  3. Megináhersla verði lögð á að hindra að eldislax gangi í veiðiár og fjarlægja slíkan lax sem þangað gengur. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Til er háþróaður myndavélabúnaður sem framleiddur er hér á landi og komið er fyrir við árósa eða fiskistiga og getur numið með öruggum hætti hvort um er að ræða eldisfisk eða villtan fisk. Eldisfiskinn sem þannig er numinn er auðvelt að fjarlægja úr ánum,
  4. Þekkt er sú aðferð að setja gildrur í fiskistiga eða að þvergirða ána og hindra þannig og flokka villtan fisk frá eldislaxi og hleypa villta fiskinum upp í ána. Þessi aðferð er alþekkt í Noregi og hefur skilað miklum og góðum árangri.
  5. Í Noregi er byrjað að fjarlægja eldislax úr ám ( veiðivötnum) í nágrenni við þann stað sem slsysasleppingar eiga sér stað. Þessari aðferð er mjög auðvelt að beita í ánum í Djúpinu og er samkynja því sem Fiskistofa er nú að framkvæma í ám hér á Vestfjörðum og fréttin í BB.is greinir frá.
  6. Tryggja þarf að í lok veiðitímabils á villtum laxi sé hæfilegur fjöldi fiska í hrygningarstofnunum í laxveiðiánum í Ísfjarðardjúpi. Því stærri sem laxastofninn er því betur ver stofninn sig gegn mögulegri ágengni strokulaxa.

Sameiginlegir hagsmunir

Þetta eru nokkur dæmi um beinar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að eiga gott samstarf við veiðiréttareigendur um slíkar aðgerðir og engin ástæða til að ætla nokkuð annað en að það muni takast. Allir aðilar hafa sömu hagmunina sem er að standa vörð um laxveiðarnar, jafnframt því að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á borð við laxeldi, sem mun í bráð og lengd gagnast öllum.

Einar K. Guðfinnsson,

formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

Bændur efast um gagnsemi tillagna ráðherra

83% sauðfjárbænda telja að tillögur landbúnaðarráðherra séu ekki til þessa fallnar að leysa þann bráðavanda sem steðjar að sauðfjárræktinni. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda gerði meðal félagsmanna sinna. Greint er frá könnuninni í Bændablaðinu sem kom út í dag. Einnig var spurt hvort sauðfjárbændur teldu líklegt að þeir myndu nýta sér þann möguleika í framkomnum tillögum ráðherra að hætta sauðfjárrækt haustið 2017 og halda 90% af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í 5 ár ef það byðist. Svarið var mjög afgerandi og ótvírætt. Kom þar fram greinilegur og ríkur vilji sauð- fjárbænda til að halda áfram búskap þótt á móti blási. Þannig sögðust 80,7% bænda ekki, eða líklega ekki, vilja nýta sér slíkan möguleika ef hann stæði til boða. Jafnframt kom þar fram að 8,2% bænda svöruðu þessari spurningu játandi og um 5% töldu það mjög líklegt. Talið er að í þeim hópi sé talsvert af yngstu bændunum sem eru oft einnig mjög skuldsettir.

Í könnuninni er einnig leitað álits félagsmanna á hugmyndum um að stofna eitt, sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir afurðir sínar hér á landi annars vegar, og möguleikanum á að stofna eitt, sameiginlegt útflutningsfyrirtæki fyrir íslenskt kindakjöt hins vegar. Meirihluti bænda er fylgjandi báðum þessum hugmyndum.

Nær 57 prósent telja það  mjög (30,2%) eða frekar (26,7%) skynsamlegt að stofna sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir innanlandsmarkað. Enn meiri samhugur er um stofnun sameiginlegs útflutningsfyrirtækis, sem hartnær 80 prósent bænda telja mjög (48,5%) eða frekar (30,3%) skynsamlegt skref.

smari@bb.is

Fækkaði í framhaldsskólum

Nem­end­ur á skóla­stig­um ofan grunn­skóla á Íslandi voru 42.589 haustið 2015 og fækkaði um 1.346 nem­end­ur frá fyrra ári, eða 3,1%, aðallega vegna fækk­un­ar nem­enda á fram­halds­skóla­stigi. Alls sóttu 19.086 karl­ar nám og 23.503 kon­ur. Körl­um við nám fækkaði um 874 frá fyrra ári (-4,4%) en kon­um um 472 (-2,0%). Þetta kem­ur fram í frétt Hag­stofu Íslands.

Á fram­halds­skóla­stigi stunduðu 23.085 nem­end­ur nám og fækkaði um 4,4% frá fyrra ári. Á viðbót­arstigi voru 866 nem­end­ur og var fjöldi nær óbreytt­ur. Á viðbót­arstigi er nám sem bæt­ist ofan á nám á fram­halds­skóla­stigi en er ekki á há­skóla­stigi. Á há­skóla­stigi í heild voru 18.638 nem­end­ur og fækkaði um 1,5% frá haust­inu 2014.

Rúmlega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2015 en 65,8% stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðastliðinn áratug en var 36-38% á árunum 2000-2005. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2015 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 41,4% á móti 26,8% hjá konum.

Vinsælustu brautirnar á framhaldsskólastigi voru stúdentsprófsbrautir en 4.865 stunduðu nám á náttúrufræðibraut og 4.320 á félagsfræðibraut. Af starfsnámsbrautum voru nemendur flestir á listnámsbraut, 536 talsins, 477 stunduðu sjúkraliðanám og 448 voru í grunndeild rafiðna.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir