Síða 2134

Fyrsta bókaspjallið

Laugardaginn 7. október verður fyrsta bókaspjall vetrarins. Að venju verða tvö erindi í boði. Una Þóra Magnúsdóttir fjallar um bækur sem eru í uppáhaldi hjá henni og Jóna Benediktsdóttir fjallar um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Bókaspjallið hefst kl. 14 og allir velkomnir.

bryndis@bb.is

Flugslysaæfing á Ísafirði á morgun

Frá flugslysaæfingunni fyrir fjórum árum.

Á morgun kl.11 munu viðbragðsaðilar á norðanverðum Vestfjörðum hefja æfingu við viðbrögðum við hópslysi. Æfingin fer fram á og við Ísafjarðarflugvöll. Það má því búast við töluverðri umferð til og frá flugvellinum vegna æfingarinnar. Lögreglan á Vestfjörðum biður vegfarendur afsökunar á hugsanlegum töfum sem gætu orðið og hvetur jafnframt til þess að viðbragðsaðilum verði sýnd tilhlýðileg tillitssemi.

Á öllum áætlunarflugvöllum landsins eru reglulega haldnar umfangsmiklar æfingar sem reyna á viðbrögð vegna flugslysa. Isavia hefur yfirumsjón með þessum flugslysaæfingum en auk félagsins kemur að undirbúningi og framkvæmd æfinganna fjöldi annarra. Síðasta æfing á Ísafjarðarflugvelli var árið 2013.

smari@bb.is

Það er níu ára í dag…

Hrunið fagnar níu ára afmæli í dag. Þann 6. október 2008 öðluðust neyðarlögin gildi. Í lögunum fólust víðtækar lagaheimildir íslenska ríkisins til aðgerða á fjármálamörkuðum. Lögin áttu að „gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í hvívetna, koma í veg fyrir að þjóðin verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður miðað við núverandi aðstæður“ eins og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sagði. Daginn áður hafði Geir beðið Guð að blessa Ísland í frægu ávarpi til íslensku þjóðarinnar.

Það má með sanni segja að hrunið lifi góðu lífi og er enn sífelld uppspretta fréttaskrifa. Stundin fagnar t.d. afmælinu með afhjúpun á gjörðum Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins.

smari@bb.is

Kjöt á beinin

Guðjón Brjánsson.

Bændum er nóg boðið.  Þeir eru uggandi um framtíð greinarinnar.  Bændur gera sér grein fyrir að lengra verður ekki haldið á sömu braut, átak og breytingar séu nauðsynlegar. Þetta kom m.a. berlega fram á gríðarlega fjölmennum fundi á Blönduósi fyrir nokkrum vikum.  Þangað flykktust bændur, nánast af öllu landinu.

Ábyrgð á byggðaþróun

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins nefndi þar í ræðu sinni að það væri bara hreinlega hluti af byggðastefnu að koma nú til liðs við bændur, rétta þeim hjálparhönd þannig að þeir gætu enn hjarað við störf sín undir eða við fátækramörk eins og fyrir liggur. Framangreindu sjónarmiði er ég algjörlega ósammála. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að nefna bændur og byggðaþróun í þessu samhengi. Staðreyndin er auðvitað sú að engin raunveruleg byggðastefna er til í landinu hvað sem yfirlýsingum líður, stjórnvöld láta reka á reiðanum.

Það er nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að bændur geti með sóma stundað sín mikilvægu störf sem helstu matvælaframleiðendur landsins um leið og þeir eru varðmenn náttúrunnar, oft útverðir á sínum svæðum.

Tengsl við framleiðendur

Bændur eru furðu lostnir yfir litlum árangri afurðafyrirtækja í markaðsmálum og telja að þar ríki algjör stöðnun gagnvart þörfum neytenda, bæði nýrrar íslenskrar kynslóðar og ríflega milljón ferðamönnum sem skolað hefur hér á land undanfarin ár.  Undir þetta tek ég og tel að markaðsfólk landbúnaðarins ætti að líta til annarra útflutningsaðila á Íslandi og draga af því lærdóm, t.d. sjávarútvegsins. Það vekur jafnframt furðu hversu langt bil er á milli framleiðenda, þ.e. bænda og þeirra sem sjá um sölu- og markaðsmál þeirra. Þessir aðilar virðast hreinlega ekki tala sama mál.

Eflum frumkvæði og þekkingu

Ungir bændur hugsa með upplýstum hætti enda eru þeir almennt vel menntaðir og víðsýnir. Í ljósi þess að Samfylkingin talar mjög fyrir meira frelsi til handa bændum í markaðs- og sölumálum, þá er það heillandi tilhugsun að menntastofnanir taki saman höndum og liðsinni bændum í þessu efni.  Ein hugmyndin væri sú að Háskólarnir á Bifröst með styrkleika á viðskiptasviði, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri með gæðamál sem áhersluþátt og Háskólinn á Hólum með sjónarhorn ferðaþjónustu tækju sameiginlega á þessu og stórefldu sérnám fyrir bændur í sölu-, gæða- og markaðsmálum.

Framsóknarflokkarnir þrír

Viðreisn hefur boðað áherslubreytingar í landbúnaði og lýst því yfir að nú standi til átak til framtíðar og að hagur bænda muni vænkast til muna.  Það er holur hljómur í þeirri orðræðu og ekki traustvekjandi gagnvart stéttinni. Flokkurinn var enda í vondum félagsskap í ríkisstjórn með höfuðflokki sem ber höfuðábyrgð á núverandi ástandi og það eru öfl í landinu sem hagnast á óbreyttu prangi í ónýtu gjaldmiðilsumhverfi. Kerfisflokkarnir þrír munu því miður litlu breyta og á meðan horfum við upp á merka atvinnustétt bænda búa áfram við ósæmandi kjör. Flokkur fólksins ætlar síðan að gera allt fyrir alla, eins trúðverðugt og það er. Sama á líklega við um Miðflokkinn sem sjálfsagt leitar fanga meðal bænda. Ætlar bændastéttin virkilega aftur og enn að veðja á rangan hest og viðhalda með því ómögulegu hlutskipti sínu?

Sýn jafnaðarmanna

Jafnaðarmenn hafa áratugum saman talað fyrir breytingum í íslenskum landbúnaði með það að markmiði að efla hag bændastéttarinnar. Þær umræður má rekja allt aftur til daga þess merka stjórnmálamanns, Gylfa Þ. Gíslasonar. Ef við hefðum stigið gæfuspor á þeim tíma, þá væri staðan önnur en í dag.

Samfylkingin með bændum

Samfylkingin styður vitaskuld íslenska bændur og talar fyrir auknu frelsi þeirra til framleiðsla á vandaðri matvöru. Ljóst er að til framtíðar er nauðsynlegt að líta yfir þetta framleiðslusvið með þarfir hins íslenska markaðar fyrst og fremst í huga. Möguleikar til útflutnings eru fyrir hendi en sjálfbærni er markmið sem nauðsynlegt er að vinna að og það er ekki óraunhæft.  Þetta vita bændur og eru í hjarta sínu sammála. Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands skilur viðfangsefnið og er reiðubúin til samstarfs við bændur um traustari og betri hag í þágu stéttarinnar í heild og fyrir almenning í landinu.

Guðjón Brjánsson

Alþingismaður

Vestri hefur leik í kvöld

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Körfuboltatímabilið fer af stað af fullum krafti í kvöld þegar meistaraflokkur Vestra hefur leik á Íslandsmóti karla með heimaleik á Jakanum gegn Snæfelli. Samkvæmt spá formanna, þjálfara og fyrirliða félaganna sem taka þátt í Íslandsmótinu verður róður Vestra þungur í haust, en liðinu er spáð 7-8 sæti í vetur, en níu lið eru í 1. deildinni. Snæfelli er spáð 6. sæti og Skallagrími er spáð sigri í deildinni.

Leikurinn í kvöld hefst kl. 19.15 og verður frítt inn og því engin ástæða til að sitja heima. Á leiknum verður hægt að kaupa ársmiða á alla heimaleiki liðsins á Íslandsmótinu auk þess sem grillaðir hamborgarar verða í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr.

smari@bb.is

„Hér njótum við hlunninda!“

Fyrirsögnin hér að ofan er staðhæfing í tillögu að svæðisskipulagi Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar sem kynnt verður í sveitarfélögunum þremur á næstunni.

Með gerð svæðisskipulags fyrir Dalabyggð, Reykhólahrepp og Strandabyggð vilja sveitarfélögin festa í sessi sameiginlega framtíðarsýn á þróun svæðisins. Með því að greina tækifæri sem búa í auðlindum og sérkennum svæðisins og móta á þeim grunni markmið í atvinnumálum, samfélagsmálum og umhverfismálum og síðan skipulagsstefnu sem styður við þau, eru væntingar um að ná meiri árangri en ella þegar tekist er á við sameiginlegar áskoranir sem við blasa í byggðamálum.

Kynning á svæðisskipulaginu verður sem hér segir

Í Dalabúð, 10. október, kl. 20:00-21:30

Í Reykhólaskóla, 11. október, kl. 17:00-18:30

Í Félagsheimili Hólmavíkur, 12. október, kl. 17:00-18:30

Íbúar sveitarfélaganna og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og kynna sér tillöguna.

smari@bb.is

Bergþór efstur hjá Miðflokknum

Bergþór Ólafsson

Bergþór Ólason, framkvæmdastjóri á Akranesi, verður efsti maður á framboðslista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Bergþór hefur lengi starfað í Sjálfstæðisflokknum og meðal annars verið í framboði til Alþingis.

Bergþór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lagt stund á MBA-nám við Manchester Business School. Hann var aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á árunum 2003 til 2006 og var í framboði fyrir flokkinn í tvennum alþingiskosningum. Þá var hann formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akranesi um tíma. Hann var framkvæmdastjóri Loftorku, sem meðal annars starfrækir húseiningaverksmiðju í Borgarnesi, þar til fjölskyldan seldi fyrirtækið fyrir um ári.

smari@bb.is

Ég var aldrei barn – erindi í Vísindaporti

Karítas Skarphéðinsdóttir með elstu börnum sínum.

Í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um nýja grunnsýningu Byggðasafns Vestfjarða sem opnuð var í sumar. Þar er sögð saga stétta- og kynjaátaka í upphafi tuttugustu aldar frá sjónarhóli Karitasar Skarphéðinsdóttur, sem búsett var á Ísafirði 1922-1938 og barðist á þeim tíma ötullega fyrir bættum hag fiskverkafólks. Erindið flytur Helga Þórsdóttir, menningar- og listfræðingur og starfsmaður Byggðasafns Vestfjarða.

Helga segir að Karítas sé kynnt sem bæði táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma; hún er líkami konu sem ekki var ætlað að hafa yfirráð yfir sjálfri sér. Þannig var skipt á henni og húsi þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Femínistinn og heimspekingurinn Rosi Braidotti fjallaði í bók sinni Metamorphoses um afleiðingar þess að tilheyra óskilgreindum minnihlutahópi, eins og fullyrða má um Karítas. Þar segir hún líkamann vera miðju hins pólitíska valds, bæði í hinu stóra þjóðhagslega samhengi og í hinu smáa persónulega samhengi. Þetta er sá kraftur sem hagnýtir sér líkama borgaranna til að keyra heimshagkerfið. Fjöldinn er háður valdi þessara krafta og fer þannig, með hlutverk innskotsins í hinu stóra samhengi valdsins.

Helga Þórsdóttir hefur lokið MA prófi í menningarfræði og MA prófi í myndlist. Hún hefur kennt listasögu, skrifað um myndlist, sett upp myndlistasýningar og starfað að sjálfstæðum rannsóknum um sjónlistir. Helga er núna fastráðinn starfsmaður hjá Byggðasafni Vestfjarða.

Vísindaportið er að vanda öllum opið í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og stendur frá 12.10-13.00. Erindið er flutt á íslensku.

smari@bb.is

Áhyggjur af stöðu leikskólabarna

Samráðsnefnd Félags stjórnenda í leikskólum hefur áhyggjur af stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi er of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma. Mikið álag er fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými svo langan dag. Viðvera barna hefur aukist síðustu ár og dvelja þau í leikskóla að meðaltali yfir átta klukkustundir á dag.

„Áhyggjur okkar beinast að því að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. Viðvarandi starfsmannavelta eykur einnig á þennan vanda. Við viljum beina orðum okkar til foreldra, sveitastjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls. Stöndum saman að velferð barna og finnum leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

Fisherman færir út kvíarnar

Glæsileg verslun Fisherman í Reykjavík. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg

Ferðaþjónustufyrirtækið Fisherman á Suðureyri hefur fært út kvíarnar og á dögunum opnaði sælkerabúð með sjávarfang á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur. Með þessu er hægt að jafna árstíðarbundna sveiflur í vestfirskri ferðaþjónustu. Í Fisherman í Reykjavík er hægt að velja fisk, meðlæti og sósu, ým­ist til að taka með eða borða á staðnum. Þá er boðið upp á ýmsa sérrétti eins og plokk­fisk­sam­lokuna víðfrægu, smjör­steikt­ar gell­ur, og djúp­steikt­an fisk og fransk­ar.

Fis­herm­an er 16 ára gam­alt ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki sem var stofnað á Suður­eyri með það mark­mið að end­ur­byggja hús sem til stóð að rífa í lítið gisti­heim­ili. Þannig hófst rekst­ur­inn sem hef­ur síðan stækkað og stækkað í tímans rás.

„Við lít­um fyrst og fremst á þessa versl­un sem hverf­is­versl­un og skemmti­lega viðbót við Vest­ur­bæ­inn,“ seg­ir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir