Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2133

Síðasta Rjómaballið ?

Veislustjórar Rjómaballsins hafa oft verið skrautlegir

Laugardaginn 26. ágúst halda bændur á norðanverðum Vestfjörðum hið árlega Rjómaball en það ku vera uppskeruhátíð og töðugjöld bænda og búaliðs. Að sögn Helgu Guðnýjar Kristjánsdóttir bónda í Botni er dagskráin með hefðbundnu sniði, hlaðborð að hætti hússins, veislustjóri sem sér um skemmtiatriði og happadrætti með veglegum vinningum. Það er Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar sem ætlar að sjá um fjörið á dansgólfinu.

Upphaf Rjómaballsins má rekja til sumarsins 1989 þegar Mjólkursamlag Ísfirðinga hélt upp á 25 ára afmæli sitt og bauð öllum bændum. Þetta þótti takast svo vel að ballið hefur verið árvisst síðan. Þegar mjólkurbændum á svæðinu fækkaði tók Sláturfélagið Barðinn við umsjón og umsýslu en nú er það Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum sem ber kyndilinn.

En nú eru breytingar framundan, Núpsbræður hyggjast bregða búi á Núpi og hjónin í Botni hyggjast láta af störfum sem Rjómaballsstjórar en þau hafa staðið þar í stafni í 10 ár.

Pantanir á miðum eru hjá Helgu í síma 894 4512 eða bjornb@snerpa.is og er öllum frjálst að mæta og skemmta sér með kátum bændum.

bryndis@bb.is

 

Greiða til foreldra

Bæjarstjórn Bolungarvíkur ákvað í vikunni að greiða foreldrum sem eru heima með börn sín fasta upphæð á mánuði. “Ekki hefur hefur starfandi dagforeldri í Bolungarvík í tvö ár og er þessi ákvörðun viðbrögð við því„ segir Halla Signý Kristjánsdóttir skrifstofu- og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar.

Greiðslan er miðuð við þær niðurgreiðslur sem eiga að vera við dagmæður og eru á þessi ári 53.560 til foreldra í sambúð og 64.280 til einstæðra foreldra.

Réttur til heimgreiðslna fellur niður um leið og barn fær daggæsluúrræði eða boð um leikskólavist.

bryndis@bb.is

Námsbækur hækka í verði

Penninn-Eymundsson, Mál og Menning og A4 hafa hækkað verð á milli ára á flestum nýjum námsbókum sem fáanlegar voru í könnunum verðlagseftirlits ASÍ í ár og í fyrra. Bókabúðin Iðnú lækkar hins vegar verð á öllum titlum sem skoðaðir voru frá fyrra ári. Tekið skal fram að í fyrra voru Penninn-Eymundsson og A4 með 25% afslátt af nýjum námsbókum, og í nýju könnuninni var Iðnú með 15% afslátt af þeim.

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að  Penninn-Eymundsson hækkar námsbækur fyrir framhaldsskóla í flestum tilfellum um og yfir 65% milli ára og hjá A4 hækkar verðið í flestum tilfellum um 30-50%. Mest var verðhækkunin á „Almenn jarðfræði“ hjá A4 eða úr 4.199 kr. í fyrra í 8.289 kr. sem gerir hækkun um 4.090 kr. eða 97%. Næst mesta hækkunin var á „Bókfærsla 1“ hjá Pennanum-Eymundsson en sú bók hækkaði úr 2.909 kr. í 5.599 kr. eða um 2.690 kr. eða 92%.

Verðið lækkaði hins vegar hjá Bókabúðinni Iðnú um 15–25% á milli ára. Mesta verðlækkunin í samanburðinum var á „Lífeðlisfræði“ hjá Forlaginu Fiskislóð um 32%, sú bók lækkaði úr 8.590 kr. í 5.884 kr.

Í báðum könnunum var kannað verð í eftirtöldum verslunum: Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Mál og Menningu Laugavegi og á Heimkaup.is.

ASÍ tekur fram að hér sé aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

smari@bb.is

Halldór Halldórsson sækist ekki eftir oddvitasæti

Halldór Halldórsson

Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Halldór var í viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi og aðspurður sagði hann að enginn hefði beðið hann að stíga til hliðar en engu að síður væri umræðan óvægin. „Og Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera meira og minna utan meirihluta síðan 1994, þannig að það er skiljanlegt að sjálfstæðismenn geri miklar kröfur“ segir Halldór og þó hann vilji ekki fortaka fyrir að hann komi aftur í stjórnmálin segir hann það alveg ljóst „að hann væri ekki á leiðinni í framboð í vor fyrir neinn flokk í neinu sveitarfélagi“.

bryndis@bb.is

Fiskeldismálin verða erfið

Páll er formaður atvinnuveganefndar.

Fiskeldismál verða með viðkvæmari og erfiðari málum sem Alþingi fær til úrlausnar á haustþingi að sögn Páls Magnússonar, formanns atvinnuveganefndar. Páll, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, segir í Morgunblaðinu í dag að málið sé erfitt og segir margskonar sjónarmið uppi innan stjórnmálaflokkanna um málið og þau fari ekki endilega eftir flokkslínum. Á næstu dögum skilar starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skýrslu sem verður kynnt í ríkisstjórn og eins í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun mæta á fund atvinnuveganefndar á mánudaginn kemur til að ræða stöðu sauðfjárbænda. Stefnumótun í fiskeldi er ekki á dagskrá fundarins. Páll kveðst ekki vita hvort ráðherrann muni nota tækifærið til að kynna fiskeldisskýrsluna á fundinum, enda sé ekki ljóst hvort skýrslan verði tilbúin þá.

smari@bb.is

Umsögn um tvöföldun Arctic Sea Farm

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 14. ágúst var tekin fyrir beiðni Matvælastofnunar um umsögn sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði. Fyrirtækið hefur sótt um tvöföldun rekstrarleyfis, úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn af laxi eða regnbogasilungi.

Í bréfi Matvælastofnunar kemur fram að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í júlí 2015 úrskurðaði Skipulagsstofnun að aukið eldi í Dýrafirði hjá Arctic Sea Farm væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, Landsamband veiðifélaga kærði þá ákvörðun en Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar.

bryndis@bb.is

Býður sjómanninn velkominn til Bolungarvíkur

Um fátt hefur verið meira rætt síðasta sólarhringinn en umdeilt veggmálverk sem prýddi Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í Reykjavík. Málverkið, sem fæstir vissu að væri umdeilt fyrr en á allra síðustu dögum, var málað á vegginn árið 2015 fyrir atbeina Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. „Sjómaðurinn á heima í Bolungarvík,“ skrifar Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, á Facebook. Jón Páll skrifar að fáir staðir á landinu eigi sjómönnum eins mikið að þakka og Bolungarvík og „það er það síðasta sem við myndum gera er að mála yfir listaverk þeim til heiðurs.“

Hann bendir á að á Ráðhúsinu sé fínasti veggur sem listamennirnir gætu spreytt sig, en til skamms tíma var hann nýttur til að lista upp allar þær opinberu stofnanir sem þar voru til hús. „En þess þarf ekki lengur. Þær eru allar farnar úr bænum. Ég veit að sjómenn í Bolungarvík og samfélagið allt mundi taka vel á móti þessu verkefni,“ skrifar Jón Páll.

smari@bb.is

 

Nýjungar á nýju starfsári

Innritun nýrra nemenda við Tónlistarskóla Ísafjarðar hófst í gær. Starfið í skólanum er fjölbreytt sem  fyrr. Boðið er upp á kennslu á fjölda hljóðfæra, söngnám og tónfræðagreinar, auk forskóla , kóra, lúðrasveita, strengjasveita og hljómsveitarsamspils í rytmískri deild. Á skólaárinu sem nú fer í hönd verður einnig boðið upp á ýmsar nýjungar í skólastarfinu og má þar nefna unglingasöngdeild og nám í raftónlist fyrir unglinga. Þetta eykur enn frekar við fjölbreytt námsframboð skólans og er spennandi valkostur fyrir unglinga. Vakin er athygli á því að hægt er að sækja sérstaklega um nám í hljómsveitarsamspili og raftónlist þó nemandinn sé ekki skráður í annað hljóðfæranám við skólann en hljóðfæranemendum skólans býðst að taka þátt í námskeiðunum endurgjaldslaust.

Tónlistarskólinn hefur átt því láni að fagna í gegnum tíðina að við hann hafa starfað vel menntaðir og metnaðarfullir kennarar sem bera hag nemenda og skólans fyrir brjósti. Andri Pétur Þrastarson bætist nú í hóp þeirra en hann mun leiða kennslu í raftónlist við skólann.

Skrifstofa skólans að Austurvegi 11 er opin frá kl. 10.30 til 14.30 en þar eru veittar allar upplýsingar um námið.

smari@bb.is

Skaginn 3X opnar útibú í Noregi

Ísfirðingarnir Ragnar Guðmundsson (t.v) og Arnar Albertsson á Agua Nor sýningunni sem fer fram í Noregi þessa dagana.

Tæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur tilkynnt um opnun skrifstofu í Noregi. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Noregi síðustu misserin með ofurkælingartækni sína og gert stóra sölusamninga við norsk laxasláturhús. Fyrstu starfsmenn útibúsins verða ráðnir til starfa á þessu ári. Í fréttatilkynningu kemur fram að mikill áhugi sé á vörulínum Skagans 3X í Noregi, bæði hjá hefðbundnum sjávarútvegsfyrirtækum sem og hjá laxeldisfyrirtækjum.

smari@bb.is

Menntamálaráðherra á Ísafirði

Elfa S. Hermannsdóttir, forstöðukona Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Kristján Þór Júlíusson í veðurblíðunni á Ísafirði.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti Ísafjörð í vikunni og kynnti sér starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða auk þess að taka þátt í námskeiði kennara um Biophiliu menntaverkefnið sem fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði. Ísafjörður skartaði sínu fegursta á þessum degi, og á vef ráðuneytisins er haft eftir ráðherranum að það sé regla fremur en undantekning.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir