Síða 2133

Búðin opnar á ný

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Tekist hefur að finna nýjan rekstraraðila í verslun í Árneshreppi á Ströndum en útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði var lokað um mánaðamótin. Frá 1. nóvember þurfa íbúar því ekki lengur að aka 100 kílómetra í næstu verslun. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir í samtali við fréttastofu RÚV, að vinna sveitarfélagsins við að finna nýjan rekstaraðila hafi tekist og stefnt að því að verslun opni á ný þann 1. nóvember og innan tíðar verði veittar nánari upplýsingar um fyrirkomulag rekstarins.

Ætla í eldi á geldfiski

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Fisk­eldi Aust­fjarða áætl­ar að auka ár­lega slátrun úr fisk­eld­inu úr 11 þúsund tonn­um í 21 þúsund tonn í Beruf­irði og Fá­skrúðsfirði. Fyr­ir­tækið met­ur erfðablönd­un við villt­an lax ólík­lega. Þetta kem­ur fram í frummati á um­hverf­isáhrif­um, sem fyr­ir­tækið hef­ur lagt fram. Þetta er fyrsta tilkynnta framleiðsluaukningin í laxeldi sem kemur fram eftir að áhættumat Hafrannsóknastofnunar kom fram.

Áætlanir fyrirtækisins taka mið af áhættumatinu og í fyrsta skipti í sögu íslensks laxeldis er sótt um eldi á geldfiski.

Í Berufirði er áætlað að ala 6.000 tonn af frjóum laxi og 4.000 tonn af geldlaxi. Í Fáskrúðsfirði verða alin 6.000 tonn af frjóum laxi og 5.000 tonn af geldlaxi.

Eins og kunnugt er lagðist Hafrannsóknastofnun gegn laxeldi í Ísafjaðrardjúpi í samræmi við niðurstöðu áhættumatsins. Það á hins vegar ekki við um eldi á geldfiski.

smari@bb.is

Eftirlaun og atvinnuþátttaka

Ásmundur Einar Daðason

Talsverðar breytingar urðu á lífeyriskerfinu um síðustu áramót. Ýmislegt jákvætt hefur áunnist með þessum breytingum en það eru þættir sem þarf að lagfæra. Einn af þeim þáttum sem þarfnast breytinga er sú staðreynd að nýja kerfið er atvinnuletjandi fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun. Þetta er þáttur sem mikilvægt er að breyta.

Við endum öll á því að verða gömul en sem betur fer eldast mörg okkar mjög vel og halda starfsorku langt fram yfir lífeyrisaldur. Það er sorglegt þegar samfélagið lítur svo á að um leið og fólk komist á lífeyrisaldur þá sé þeirra hlutverk það eitt að bíða eftir endalokunum. Við þurfum að virkja þennan hóp, þeir sem vilja vinna eiga að geta það og allir hvatar þurfa að vera í þá átt.

Virkjum fólk til vinnu

Margir sem komnir eru á eftirlaun vilja áfram vera hluti af íslenskum vinnumarkaði en gera það ekki vegna þess hve lág mörk eru fyrir skerðingum á lífeyristekjum. Mér er ómögulegt að skilja hvernig það getur verið samfélagslega hagkvæmt að einstaklingar sem hafa fulla starfsorku séu fjötraðir heima í stað þess að taka þátt í samfélaginu. Það þjóðhagslega hagkvæmt að virkja fólk til vinnu.

 Hvati til atvinnuþátttöku

Atvinnuleysi á Íslandi er innan við 2% sem er með því lægsta sem þekkist í heiminum. Það hefur verið mikil spenna á vinnumarkaði undanfarin ár og því er mikið af erlendu starfsfólki sem starfar á Íslandi. Þrátt fyrir að þessir erlendu starfsmenn greiði skatta þá taka þeir oft á tíðum ekki jafn mikinn þátt í íslensku hagkerfi. Tekjur sem eldri borgarar vinna fyrir eflir íslenskt hagkerfi mun meira.  Það má því með sanni segja að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að hvetja til þess að fólk fari í vinnu ef aðstæður leyfa.

Aukin atvinnuþáttaka er heilbrigðismál

Í stefnumótun um heilbrigðismál er ævilega lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er fátt meira fyrirbyggjandi heldur en hvetja til þess að fólk haldi áfram að taka þátt í samfélaginu eftir að það hefur náð eftirlaunaaldri.

 Forgangsmál að breyta frítekjumörkum

Þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eru einstaklingarnir sem mótuðu þá nútíð sem við lifum og störfum í. Við eigum að bera virðingu fyrir þessu. Það á að nýta krafta þessa hóps og virkja til þátttöku á íslenskum vinnumarkaði. Framsókn leggur áherslu á að það verði eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar að breyta frítekjumörkum þannig að eldra fólk sjái hag í því að fara út á vinnumarkaðinn.

Ásmundur Einar Daðason

 

Rífandi gangur í blakinu

Meistaraflokkur kvenna í blaki fer vel af stað í 1. deild Íslandsmótsins og lagði ÍK sannfærandi í fyrstu tveimur leikjum mótsins 3 – 0. Fyrsti leikur á útivelli var leikin á laugardaginn,  leikar fóru þannig að fyrri tvær hrinurnar fóru báðar 25 – 20 en sú þriðja 25 – 10.

Næst mætir liðið HK B 20. október á útivelli.

Meistaraflokkur karla á sinn fyrsta leik í Íslandsmótinu sunnudaginn 22. október á heimavelli þegar BF frá Siglufirði mætir á Ísafjörð.

bryndis@bb.is

Braust úr höndum manna

Svo ferst Reyni Traustasyni orð er hann lýsir afreki Hörpu nokkurrar frá Neðri Breiðadal í Önundarfirði í frásögn af sundafreki hennar þann 8. október 1987. Harpa var mikil afbragðs skepna, mjólkaði vel og við góða heilsu en þannig háttaði til í landbúnaði þess tíma að fækka skyldi í fjósinu. Þegar leiða átti Hörpu til slátrunar á Flateyri sleit hún sig lausa og bókstaflega flaug að sögn sjónarvotta yfir fiskikör sem urðu á vegi hennar á leið til sjávar. Þar tók hún sundþekkingu sína til kostana og synti einbeitt og ákveðin, fyrst út fjörðinn en síðan beina leið yfir og mátti sjá halann upp úr sjónum eins og loftnet. Hinu megin fjarðar tóku gestrisnir bændur á Kirkjubóli í Valþjófsdal, þau Guðmundur Steinar og Sigríður á móti sunddrottningunni og buðu henni í hús, upp frá því var bar hún nafnið Sæunn. Þeir Halldór í Breiðadal og Guðmundur í Valþjófsdal handsöluðu eigendaskiptin í fjörunni og héldu svo hver til síns heima.

Sæunn skokkaði lét á fæti á sinn bás í Valþjófsdal, rétt eins og hún hefði bara brugðið sér á beit og eins og sannri sækú sæmdi ól hún spræka kvígu á sjómannadaginn vorið eftir, sú var nefnd Hafdís. Sæunn var aldrei aftur færð í sláturhús og þegar hennar tími nálgaðist fór Guðmundur Steinar bóndi með hana á sjávarkambinn þar sem hún hafði komið á land, felldi hana og heygði.

Sund Sæunnar vakti heimsathygli og á facebook síðu sem Benni í dal, sonur þeirra Sigríðar og Guðmundar Steinars má lesa um lífshlaup hennar og afrek en í minningu Sæunnar var unglingadeild björgunarsveitarinnar á Flateyri nefnd Sæunn.

Sæunnarsund 2018

Nú stendur til að halda merki Sæunnar enn frekar á lofti með opinberu sjósundi í kjölfar Sæunnar, frá höfninni á Flateyri og yfir í Valþjófsdal. Ekki hefur verið sett niður dagsetning en ágúst 2018 er líklegasti tíminn enda sjávarhiti þá með hæsta móti. Áhugasömum er bent á að læka síðu Sæunnarsunds 2018, þar munu koma inn upplýsingar þegar nær dregur.

bryndis@bb.is

Utanríkisráðherra skipar nýja héraðsdómara

Rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi sín­um í morgun til­lögu til for­seta Íslands að Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra verði sett­ur til að fara með mál er varðar skip­un í embætti héraðsdóm­ara.

Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra hafði óskað eft­ir því að Guðlaug­ur Þór tæki verk­efnið að sér, sem hann samþykkti, en þetta varðar setn­ingu for­manns í dóm­nefnd sem á að meta hæfi um­sækj­enda. Dóms­málaráðuneyt­inu barst í síðasta mánuði 41 um­sókn um 8 stöður héraðsdóm­ara sem aug­lýst­ar voru laus­ar til um­sókn­ar 1. sept­em­ber. Staða dómara við Héraðsdóm Vestfjarða var eitt af embættunum sem var auglýst.

Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­málaráðherra ákvað að víkja sæti í mál­inu vegna um­sókn­ar Ástráðs Har­alds­son­ar hæsta­rétt­ar­lög­manns um eitt af embættunum. Ástráður stefndi ríkinu vegna umsóknar hans um embætti dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra taldi að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur um héraðsdómaraembættin drægju óhlutdrægni hennar í efa.

Umsækjendur um stöðu dómara við Héraðsdóm Vestfjarða:

  1. Arnaldur Hjartarson – aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn
  2. Bergþóra Ingólfsdóttir – hæstaréttarlögmaður
  3. Brynjólfur Hjartarson – lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
  4. Guðfinnur Stefánsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  5. Guðmundur Örn Guðmundsson – héraðsdómslögmaður
  6. Hákon Þorsteinsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
  7. Hrannar Hafberg – ráðgjafi Fiskistofu
  8. Indriði Þorkelsson – hæstaréttarlögmaður
  9. Ólafur Freyr Frímannsson – héraðsdómslögmaður
  10. Ólafur Karl Eyjólfsson – héraðsdómslögmaður
  11. Sigurður Jónsson – hæstaréttarlögmaður
  12. Sólveig Ingadóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  13. Unnsteinn Örn Elvarsson – héraðsdómslögmaður
  14. Valborg Steingrímsdóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
  15. Þór Hauksson Reykdal – forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun
  16. Þórhildur Líndal – aðstoðarmaður héraðsdómara
  17. Þórir Örn Árnason – héraðsdómslögmaður

smari@bb.is

Súpuferð og ferðaáætlun

Staður í Grunnavík. Mynd. Ó. Smári Kristinsson

Eftir gott göngusumar hjá Ferðafélagi Ísfirðinga hóar félagið nú í síðustu ferðina sem að samkvæmt venju er súpuferð. Hópurinn hittist við Fossa í Engidal kl. 10:00 á sunnudag og tekur stutta og þægilega göngu sem endar í súpu „að hætta Steina kokks“ eins og segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Ekki þarf að greiða fyrir súpuna en óskað er eftir að þátttakendur skrái sig hjá Steina (steini@muurikka.is) svo örugglega verði nóg til að af súpu.

Á þriðjudag heldur félagið svo opinn fund þar sem lögð verða drög að göngum næsta árs og eru áhugasamir gönguhrólfar hvattir til að mæta. Fundurinn fer fram á sal Menntaskólans á Ísafirði og hefst kl. 20:00.

bryndis@bb.is

 

Vaskur hópur VG!

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Kosningar til alþingis á hverju ári er ekki óskastaða en bregðast verður við þegar ríkisstjórnin ræður ekki við hlutverk sitt eins og raun ber vitni.

Nú liggur fyrir öflugur listi VG í  norðvesturkjördæmi sem ætlar að berjast fyrir hag landsbyggðarinnar og réttlátu og heiðarlegu samfélagi sem gerir ungu fólk kleift að mennta sig og stofna heimili og öldruðum og öryrkjum fært að lifa mannsæmandi lífi. Fátækt er óásættanleg í ríku samfélagi.

Við viljum færa íslenskt samfélag af braut eiginhagsmunahyggju og græðgisvæðingar og byggja á samfélagslegri ábyrgð og félagshyggju þar sem afrakstur sameiginlegra auðlinda og skattfés nýtist almenningi í landinu í alhliða innviðauppbyggingu.

Við viljum að landsbyggðin byggi á styrkleikum sínum í sátt við umhverfið og fái að njóta auðlinda sinna í sínu nærumhverfi á sjálfbæran hátt.

Við viljum styðja við nýsköpun og framþróun sem nær til landsins alls og jafna búsetuskilyrðin.

Hvert og eitt einasta samfélag á Íslandi er dýrmætt atvinnulega, menningarlega, félagslega og sögulega. Hellissandur, Hofsós, Þingeyri, Akranes eða Árneshreppur; allt eru þetta staðir sem okkur sem samfélagi ber að standa vörð um þegar erfiðleikar steðja að. Það sama á við um aðra bæi, sveitir og þorp um allt land sem geta lent í áföllum.

Því oftar en ekki eru áföllin komin til af mannanna verkum, leikreglum sem settar hafa verið af stjórnmálamönnum og leiða til afleiðinga sem bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum.

Við verðum að taka á vitlausu kvótakerfi sem stuðlað hefur að samþjöppun í greininni og bitnað harkalega á mörgum byggðarlögum sem geta ekki rönd við reist þegar fjármagnið eitt stjórnar ferðinni og ekkert tillit er tekið til fólksins sem skapað hefur arðinn. Þessi þróun hefur leitt til auðs og valda fárra aðila sem eru ráðandi í greininni í dag og skapað óvissu og óöryggi íbúa sjávarbyggða sem vita ekki hvort eða hvenær kvótinn verður seldur úr byggðarlaginu.

Það er nauðsynlegt að byggðafesta aflaheimildir að hluta og að ríkið geti leigt og úthlutað aflaheimildum úr leigupotti og að strandveiðar verði efldar og kerfið opnað fyrir nýliðun. Þá þurfa veiðigjöldin að endurspegla hagnað í greininni eftir útgerðarflokkum.

Landbúnaðurinn er okkur mikilvægur og fólk er orðið meðvitað um hve mikilvægt er að neyta heilnæmra afurða sem framleiddar eru í nærumhverfinu. Það er umhverfisvænt að flytja ekki matvæli um hálfan hnöttinn sem við getum framleitt sjálf og tryggir okkur matvælaöryggi og grundvöll fyrir matvælaiðnaði í landinu með fjölda afleiddra starfa. Það þarf að vinna að varanlegri lausn á vanda sauðfjárbænda í samvinnu við greinina og neytendum til hagsbóta og koma í veg fyrir þá miklu kjaraskerðingu sem blasir við sauðfjárbændum og er óásættanleg.

Það þarf virkilega að spýta í lófana hvað varðar viðhald helstu innviði landsins svo sem vega, hafna, flugvalla og fasteigna ríkisins. Uppsöfnuð þörf þar er talin vera hátt í 400 milljarðar sem sýnir að það verður okkur dýrt ef við förum ekki að forgangsraða og taka til hendinni nú þegar vel árar. Það er óásættanlegt að fjöldi fólks búi enn við malarvegi og ótryggt rafmagn og hafi ekki möguleika á að tengjast þriggja fasa rafmagni eða góðum háhraðatengingum.

Fjárlagafrumvarpið sem fráfarandi ríkisstjórn mælti fyrir sýndi að áfram ættu t.a.m heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, löggæslan og nátttúrustofurnar að vera fjársveltar og samgöngur vanfjármagnaðar. Það er ólíðandi þegar svokallað góðæri ríkir.

Hvenær ætlum við að endurreisa innviðina eftir hörmungar hrunsins ef ekki þegar betur árar og skilað þjóðinni til baka hagnaði af betra árferði?

Við Vinstri græn höfum haldið uppi öflugum málflutningi á Alþingi m.a. fyrir alþýðu þessa lands, fyrir nátttúruna, fyrir landsbyggðina, fyrir öflugt heilbrigðis- og menntakerfi, fyrir femínisma og réttindum minnihlutahópa og talað fyrir samfélagslegri ábyrgð.

Við getum gert svo miklu betur í okkar góða samfélagi og byggt á réttlæti og jöfnuði.

Gerum betur með Vinstri grænum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður norðvesturkjördæmis.

Fyrsta bókaspjallið

Laugardaginn 7. október verður fyrsta bókaspjall vetrarins. Að venju verða tvö erindi í boði. Una Þóra Magnúsdóttir fjallar um bækur sem eru í uppáhaldi hjá henni og Jóna Benediktsdóttir fjallar um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Bókaspjallið hefst kl. 14 og allir velkomnir.

bryndis@bb.is

Flugslysaæfing á Ísafirði á morgun

Frá flugslysaæfingunni fyrir fjórum árum.

Á morgun kl.11 munu viðbragðsaðilar á norðanverðum Vestfjörðum hefja æfingu við viðbrögðum við hópslysi. Æfingin fer fram á og við Ísafjarðarflugvöll. Það má því búast við töluverðri umferð til og frá flugvellinum vegna æfingarinnar. Lögreglan á Vestfjörðum biður vegfarendur afsökunar á hugsanlegum töfum sem gætu orðið og hvetur jafnframt til þess að viðbragðsaðilum verði sýnd tilhlýðileg tillitssemi.

Á öllum áætlunarflugvöllum landsins eru reglulega haldnar umfangsmiklar æfingar sem reyna á viðbrögð vegna flugslysa. Isavia hefur yfirumsjón með þessum flugslysaæfingum en auk félagsins kemur að undirbúningi og framkvæmd æfinganna fjöldi annarra. Síðasta æfing á Ísafjarðarflugvelli var árið 2013.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir