Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2132

Botnliðið kemur á Torfnes

Mynd úr safni.

Knattspyrnutímabilið er að styttast í annan endann, tímabil sem flestir aðdáendur Vestra fóru inn í fullir vonar um baráttu um eitt af toppsætum deildarinnar og þeir bjartsýnustu sáu fyrir sér gjöfular lendur í 1. deildinni á næsta ári. Sú verður ekki raunin og Vestri siglir sinn sjó um miðja deild. Á morgun leika Vestramenn við Sindra frá Höfn í Hornafirði sem er í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með fimm stig.  Vestri er í áttunda sæti með 20 stig. Hornfirðingarnir eru svo gott sem fallnir í þriðju deild en vilja án vafa sýna hvað í þeim býr svo þeir verða sýnd veiði en ekki gefin á Torfnesvellinum á morgun.

Leikurinn hefst kl. 14.30.

smari@bb.is

Ræddu aukna samvinnu heilbrigðisstofnana

Kristín Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sótti fundinn og sést hér við hlið Óttars Proppé heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðherra og forstöðumenn heilbrigðistofnana áttu fund í velferðarráðuneytinu í gær til að ræða um tækifæri og leiðir til að auka samvinnu milli stofnana og til að styrkja teymisvinnu innan þeirra.

Í tilkynningu kemur fram að fundarmenn ræddu um sjónarmið sín og reynslu af margskonar samvinnu milli stofnana og innan þeirra og voru þeir á einu máli um að samvinna og teymisvinna hafi verið efld. Til dæmis hafi forstöðumenn hist reglulega undanfarin misseri þar sem rædd eru sameiginleg mál og verkefni til að samhæfa ýmsa verkferla og til að bæta þjónustu.

Á fundinum kom fram að mikilvægt sé að formgera betur samstarf stofnana og setja niður skýrari viðmið og verklag um ýmis sameiginleg mál sem snúa bæði að þjónustu við sjúklinga og rekstrarlegum þáttum. Með því móti megi bæta þjónustu og aðgengi sjúklinga að henni. Sömuleiðis kom fram að meiri samvinna stofnana skapi tækifæri til að nýta betur sérþekkingu starfsfólks til dæmis með starfsmannaskiptum og fræðslu.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir kærkomið að eiga slíkt samtal við stjórnendur heilbrigðisþjónustunnar og mjög ánægjulegt að heyra samhljóminn í orðum forstöðumannanna: „Það er greinilegt að samvinna milli stofnana skiptir forstöðumennina miklu máli og þeir hafa mikinn áhuga á að efla það enn frekar. Nú verður hrundið af stað verkefnum hér í ráðuneytinu í takt við þær góðu tillögur sem fram komu á fundinum“ sagði ráðherra meðal annars í lok fundarins.

smari@bb.is

Sjávarútvegurinn hvergi mikilvægari

Í skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna 2008-2015 kemur fram að vöxtur hefur verið í öllum landshlutum að Vestfjörðum undanskildum. Þar dróst framleiðslan saman um 6% á tímabilinu en að meðaltali var hagvöxtur landshlutanna 4%. Skýrsluhöfundar telja markvert að fólki fjölgar sums staðar á Vestfjörðum, á stöðum sem lengi hafa átt erfitt uppdráttar, til dæmis á Patreksfirði, á Bíldudal og í Bolungarvík. Sjávarútvegur er hvergi eins mikilvæg atvinnugrein og á Vestfjörðum. Um 24% ársverka á Vestfjörðum voru í sjávarútvegi árið 2015 og rúmlega 2% ársverka voru í fiskeldi. Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar og meðallaun á ársverk í öllum atvinnugreinum eru aðeins undir landsmeðaltali árið 2015. Umsvif í sjávarútvegi jukust á tímabilinu og í skýrslunni er bent á að talsverð uppbygging hefur verið í fiskeldi og meiri uppbygging fyrirhuguð á næstu árum.

Á hinn bóginn skruppu fjármálaþjónusta og tryggingar saman, aðallega á seinni hluta tímabilsins. Í þessum greinum voru umsvif árið 2015 aðeins fjórðungur af því sem var 2008. Nokkuð dró úr húsbyggingum og opinber stjórnsýsla dróst einnig saman.

smari@bb.is

Þrjú kíló á mann

Ef allir landsmenn kaupa 3 kíló af umfram það sem þeir eru vanir, á tímabilinu 15. ágúst til 15. september, þá gengur hratt á þær lambakjötsbirgðir sem er í landinu. Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, hefur skorað á landsmenn að taka höndum saman og eyða lambakjötsfjallinu. Útlit er fyrir að um 1.300 tonn af lambakjöti verði til 1. september. Þetta er um 700 meira en æskilegt væri. Þetta jafngildir því nánast að mánaðarsala sé til á lager þegar nýtt kjöt kemur á markað.

smari@bb.is

Menntaskólinn settur í dag

48 nýnemar hefja nám við Menntaskólann á Ísafirði í dag en alls eru nemendur þessa haustönn 254. Fjarnámsnemar eru orðnir 114 og enn er verið að afgreiða umsóknir um fjarnám, en skólinn er eins og undanfarin ár í samstarfi við 12 aðra framhaldsskóla á landsbyggðinni undir merkjum Fjarmenntaskólans. Hlutfall starfs- og verknáms er hátt eins og oftast áður í MÍ eða um 36%. Auk bóknámsbrauta verða nemendur á 7 starfs- og verknámsbrautum í haust.

Að sögn skólameistara, Hildar Halldórsdóttur munu 16 nemendur hefja nám í húsasmíði en hún verður að þessu sinni kennt í lotubundnu fjarnámi með dagskólakennslu. Frá árinu 2014 hefur skólinn boðið upp á skipstjórnarnám í lotubundu fjarnámi í samstarfi við Tækniskólann sem hefur gefist vel og aðsókn í það nám hefur verið góð.

Hildur segir heimavistina vel nýtta og aðeins örfá herbergi laus.

Vel hefur gengið að ráða kennara til skólans enda lítil starfsmannavelta milli anna og eru allar stöður mannaðar.

Skólinn hefur nú tekið við rekstri Mötuneytis MÍ af Hugljúfu Ólafsdóttur sem rekið hefur mötuneytið mörg undanfarin ár. Halldór Karl Valsson matreiðslumaður hefur verið ráðinn til að veita mötuneytinu forstöðu.

Hildur segir að áfram lögð áhersla á leiðsagnarnám í kennslu (e. formative assessment), en í því felst m.a. að virkja nemendur til þess að vera eigendur og ábyrgðarmenn á eigin námi.

bryndis@bb.is

BMW klúbburinn ferðast um Vestfirði

Þýski BMW klúbburinn við vélfáka sína.

Stór hópur manna úr mótorhjólaklúbbum BMW tók á rás snemma í gærmorgun og lagði af stað frá bensínstöð N1 vestur á firði. Þarna voru saman á ferð 25 félagar úr BMW klúbbnum og jafn margir úr þýskum systurklúbbi. Þeirra fyrsti náttstaður fyrir vestan var á Tálknafirði þar sem þeir gistu í nótt. Halda svo áfram til Ísafjarðar í dag og til Norðurfjarðar á Ströndum á morgun þar sem leiðir skiljast, því Þjóðverjarnir fara hringinn umhverfis landið en Íslendingarnir suður.

„Trússbíll fylgir okkur og ferjar samkomutjald og fleira og verður það sett upp á gististöðum. Þetta er sennilega stærsta ferð mótorhjólamanna um Vestfirði sem farin hefur verið,“ sagði Guðmundur Björnsson læknir, einn leiðangursmanna, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

bryndis@bb.is

Birtir til á morgun

Hann skvettir aðeins úr sér í dag með norðaustan 8-15 og hitinn er 5 – 12 stig hér á Vestfjörðum en varað er við norðvestan strekkingi eða allhvössum vindi á Suðausturlandi. Vindur gæti þar náð meira en 25m/2 í hviðum við fjöll. Það er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Það styttir upp seinnipartinn og um helgina eru líkur á brakandi blíðu.

 

 

bryndis@bb.is

Rannsóknar- og þróunarsjóður Skipulagsstofnunar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Rannsóknar- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar árið 2017.

Rannsóknar- og þróunarsjóður Skipulagsstofnunar var settur á laggirnar árið 2011, á grundvelli heimildar sem sett var í skipulagslög árið 2010 um að verja megi fé úr Skipulagssjóði til að styrkja rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði skipulagsmála. Í ár hefur sjóðurinn 7 milljónir króna til ráðstöfunar.

Við mat á umsóknum er horft til þess að verkefnin séu líkleg til að skila hagnýtum niðurstöðum fyrir skipulagsyfirvöld og fagaðila við gerð skipulags og umhverfismats. Við úthlutun úr sjóðnum í ár verður sérstaklega horft til verkefna sem eru til þess fallin að styðja við framfylgd landsskipulagsstefnu.

Þess má geta að árið 2011 fékk Fjórðungssamband Vestfjarða styrk úr sjóðnum til að vinna nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða, um hana er fjallað á vef Fjórðungssambandsins.

bryndis@bb.is

Atvinnuleysi var 3,4% á öðrum ársfjórðungi 2017

Á öðrum ársfjórðungi 2017 voru að jafnaði 202.500 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 195.600 starfandi og 7.000 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 84,4%, hlutfall starfandi mældist 81,5% og atvinnuleysi var 3,4%.

Frá öðrum ársfjórðungi 2016 fjölgaði starfandi fólki um 3.500 en hlutfall af mannfjölda lækkaði um 0,4 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 200 manns og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli lækkaði um 0,2 prósentustig. Atvinnulausar konur voru 3.300 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 3,5%. Atvinnulausir karlar voru 3.700 eða 3,4%. Atvinnuleysi var 3,9% á höfuðborgarsvæðinu og 2,6% utan þess.

bryndis@bb.is

Hagvöxtur á Vestfjörðum dregst saman

Þróunarsvið Byggðastofnunar, í samvinnu við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, hefur gefið úr skýrsluna Hagvöxtur landshluta 2008-2015 og er þetta í áttunda skipti sem slík skýrsla er unnin. Nokkrar af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru að hagvöxtur á tímabilinu mældist 3% á höfuðborgarsvæðinu en 6% utan hans. Framleiðsla jókst mest á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Lítill vöxtur var á Austurlandi og Norðurlandi vestra og að á Vestfjörðum dróst framleiðsla saman.

Í skýrslunni kemur fram að fjárhagur flestra fyrirtækja hafi batnað en þó greinilegur munur milli landshluta. Árið 2015 skulduðu útgerðir og iðnaðarfyrirtæki að jafnaði meira á Vestfjörðum en annars staðar. Þar hafði þó orðið mikil breyting til batnaðar frá 2008, þegar fjárhagsstaða greinanna var mjög slæm í þessum landshluta og raunar víðar.

Umsvif í sjávarútvegi jukust þó nokkuð á þessum árum og dreifist jafnt um landið og hlutur flestra landshluta um 15%, nema á Norðurlandi vestra þar sem hluturinn er 3% og á Vestfjörðum þar sem hluturinn er 7%. Skýrsluhöfundar telja erfiðar samgöngur meginorsök þess að hlutur Vestfjarða í sjávarútvegi hafi minnkað.

Hagvöxtur á Vestfjörðum er á þessu tímabili var flest árin minni en í öðrum landshlutum og allt tímabilið dróst framleiðsla saman um 6% og fólki fækkaði um 4%.

Sjávarútvegur er hvergi eins mikilvæg atvinnugrein og á Vestfjörðum. Um 24% ársverka á Vestfjörðum voru í sjávarútvegi árið 2015 og rúmlega 2% ársverka voru í fiskeldi. Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar og meðallaun á ársverk í öllum atvinnugreinum eru aðeins undir landsmeðaltali árið 2015.

Fasteignaverð er hvergi lægra en þar. Staðgreiðsluverð á fermetra í sérbýli var 88-89 þúsund krónur að jafnaði árið 2015, rúm 40% af landsmeðaltali.

bryndis@bb.is

 

Nýjustu fréttir