Síða 2132

Bæjarstjóri og sveitarstjóri hjá Viðreisn

Gylfi Ólafsson.

Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur og aðstoðarmaður fjármála-og efnahagsráðherra, leiðir lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í lok október. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er í 7. sæti og Indriði Indriðason sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps í 13. sæti.

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi er eftirfarandi:

  1. Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur
  2. Lee Ann Maginnis, lögfræðingur
  3. Haraldur Sæmundsson, matreiðslumeistari
  4. Sigrún Helga Lund, dósent í tölfræði
  5. Jón Ottesen Hauksson, framkvæmdastjóri
  6. Ása Katrín Bjarnadóttir, nemi
  7. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
  8. Ragnheiður Jónasdóttir, verkefnastjóri
  9. Sturla Rafn Guðmundsson, svæðisstjóri RARIK
  10. Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðinemi
  11. Ragnar Már Ragnarsson, byggingarfræðingur
  12. Unnur Björk Arnfjörð, skólastjóri
  13. Indriði Indriðason, sveitastjóri
  14. Berglind Long, matreiðslumaður
  15. Pálmi Pálmason, fv. framkvæmdastjóri
  16. Jóhanna Guðrún Jónasdóttir, leikskólakennari

bryndis@bb.is

Styrkir til meistaranema

Byggðastofnun auglýsir styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar. Kostur er ef verkefnin hafa skírskotun til byggðaáætlunar. Til úthlutunar er allt að 1.000.000 kr. og stefnt að því að veita fjóra styrki.

Umsækjendur þurfa að stunda meistaranám við viðurkenndan háskóla. Í umsókn skal meðal annars koma fram greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og hvernig það styður við byggðaþróun.  Við mat á umsóknum verður fyrst og fremst litið til tengsla við byggðaþróun, nýnæmi verkefnis og hvort til staðar séu möguleikar á hagnýtingu þess.

Þetta er í fjórða skipti sem Byggðastofnun veitir styrki til meistaranema og hafa tvö verkefni hér að vestan hlotið styrk.

Annars vegar verkefnið „Hagkvæmni nýtingar sjávarhita á norðurslóðum: raundæmi Önundarfjörður“. Styrkþegi var Majid Eskafi nemandi hjá Háskólasetri Vestfjarða. Og hins vegar verkefnið „Eldri íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum: Athafnir, þátttaka og viðhorf til þjónustu. Styrkþegi var Margrét Brynjólfsdóttir nemandi  Háskólans á Akureyri.

Hér má nálgast upplýsingar um styrkina.

bryndis@bb.is

Gnúpverjar mæta á Torfnes

Meistaraflokkur Vestra á síðustu leiktíð.

Á morgun kl. 18:00 tekur Vestri á móti Gnúpverjum í sínum þriðja leik í 1. deild karla í körfubolta.

Vestri hóf veturinn með glæstum sigri á Snæfelli en laut svo í gras fyrir Breiðablik, Gnúpverjar hafa leikið einn leik í deildinni það sem af er, það var tapleikur við Breiðablik.

Þann 20. október sækir lið FSu Vestra heim og þann 27. október er það Fjölnir sem leggur land undir fót og etur kappi við okkar menn.

Þess má geta að strax að leik loknum mætast B-lið Vestra og KR í 32 liða úrslitum Maltbikarsins, áætlað er að sá leikur hefjist um kl. 20:00

bryndis@bb.is

90% verðmunur á umfelgun

Miðvikudaginn 11. október kannaði FÍB verð á umfelgun hjá 40 dekkjaverkstæðum vítt og breitt um landið. Hjá flestum fyrirtækjunum eða 24 er verið að bjóða sama verð fyrir þjónustuna núna og í vorkönnun FÍB 2017, Átta fyrirtæki lækka verðið frá því vor og átta hækka.

Spurt var: Hvað kostar umfelgun og jafnvægisstilling á fjórum 16 tommu álfelgum. Miðið var við dekkjaskipti á Toyota Corolla með hjólastærð 205/55 R16, sem er ein algengasta hjóla- og dekkjastærð fólksbíla á íslenska markaðnum.

Lægst reyndist verðið hjá Títancar í Kópavogi eða 5.000 kr. en hæsta verðið hjá N1 eða 9.493 kr. Hjá Bifreiðaverkstæði SB á Ísafirði kostar umfelgun 6.524 kr og hjá Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar 6.690 kr.

bryndis@bb.is

Veikt barn, fjarri þjóðarsjúkrahúsinu

Birkir Snær er bráðum tveggja ára og hefur á sinni stuttu ævi þurft að ströggla með hættulegan sjúkdóm sem heitir LCH (Langerhans cell histiocytosis). LCH er afar sjaldgæfur frumusjúkdómur sem er oftast skilgreindur sem krabbamein. Birkir Snær er með sjúkdóminn í lungum og á húð og hefur þurft að fara ófáar ferðirnar suður í lyfjameðferðir, núna er hann í sinni þriðju lyfjameðferð. Þegar á þeim stendur þarf að fara á 3ja vikna fresti og stundum þarf fjölskyldan að dvelja í Reykjavík í fimm daga meðan á lyfjagjöf stendur.

Foreldrar Birkis Snæs, þau Þórir Guðmundsson og Guðrún Kristín Bjarnadóttir hafa eðlilega fylgt barninu í allar rannsóknir, aðgerðir og meðferðir en þau gera athugasemdir við að ekki séu niðurgreiddar flugferðir fyrir tvo fylgdarmenn með svona mikið veiku barni. Þórir skrifaði færslu á facebook síðu sína í gær sem hefur vakið mikla athygli og gaf bb.is leyfi til að birta hana í heild sinni.

 

Ég hef oft verið að velta fyrir mér kostum þess að búa á landsbyggðinni. Þeir eru miklir. Til dæmis er magnað hvað samfélagið passar upp á sitt fólk, líkt og við fengum að kynnast á eigin skinni í desember s.l. Við munum aldrei gleyma því, og held að enginn muni gera það. En þetta er aðeins einn kostur og ætla ég ekki að fara að telja þá alla hér upp. En hinsvegar er einn stór ókostur, sem þarf ekki að vera til staðar. Eins og flestir vita er Birkir Snær okkar búinn að vera veikur frá fæðingu. Hann greindist í apríl 2016 með LCH sem er skilgreint sem krabbamein. Vissulega ekki versta krabbamein til að fá, en engu að síðu helvíti leiðinlegur sjúkdómur fyrir lítið barn að þurfa að ganga í gegnum, og allt hans fólk. Það sem fylgir þessu er mikið af ferðum til Reykjavíkur til meðferðar á Barnaspítala Hringsins. En þar fær hann alla sína lyfjagjöf og rannsóknir. Frá apríl 2016 höfum við verið að minnsta kosti einu sinni í mánuði í Reykjavík. Held þó að það hafi einungis gerst fjórum sinnum að við höfum einungis þurft að fara einu sinni í mánuði til Reykjavíkur. Við leggjum út fyrir öllum ferðakostnaði og þarf ég svo að safna saman helling af gögnum til að fá HLUTA af kostnaðinum endurgreiddan. 

Það er nefnilega þannig að við búum á landsbyggðinni, með krabbameinsveikt barn sem er 100% í umönnunarflokki eitt í umönnunarkerfinu og þurfum að sækja alla þjónustu til Reykjavíkur. En samt er það metið þannig að hann þarf einungis einn fylgdarmann með sér til Reykjavíkur.

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að þurfa að standa í þessari baráttu með barnið sitt, hvað þá ef við, foreldrar hans, gætum ekki gert það saman. Það er erfitt að vera með hann gangandi um gólf á næturnar vegna vanlíðan, eða rúnta á nóttunni svo hann sofi og þurfa svo að vera klár í að taka daginn á fullu afli líka. Dag eftir dag. Það sjá flestir að þetta gengur ekki upp, og hvað þá til lengdar.  Mér finnst það því mjög undarlegt að í svona veikindum sé ekki hægt að sækja um endurgreiðslu á ferðakostnaði fyrir tvo fylgdarmenn. Reyndar hef ég hugmynd um hvernig væri hægt að útfæra þetta til að foreldrar mikið veikra barna af landsbyggðinni þurfi ekki að standa í þessari baráttu líka. Mjög einfalt. Einhver á vegum Landspítalans pantar flug fyrir barn og fylgdarmenn rétt áður en barnið skal mæta til meðferðar og svo er pantað flug fyrir barnið og fylgdarmenn heim þegar meðferð og/eða rannsóknum er lokið. Er þetta ekki einfalt? Er þetta ekki lágmarkskrafa í þessu velferðarsamfélagi sem við búum í, að við, foreldrarnir, þurfum ekki að standa í þessu líka? Þessi sérhæfða heilbrigðisþjónusta er ekki í boði í okkar heimabæ, en við borgum jafnmikla skatta til heilbrigðiskerfisins eins og þeir sem búa í Reykjavík og þurfa, sem betur fer, ekki að standa í þessu veseni aukalega. Það segir mér enginn að það séu mörg börn svona mikið veik á landsbyggðinni, því ætti þetta alls ekki að vera flókið í framkvæmd. Mér finnst a.m.k ekki. En okkur dettur ekki í hug að flytja héðan, við viljum bara að það sé sanngjarnt að búa hérna á alla vegu. 

Við kjósum að aka stundum á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar vegna þess að það er minni kostnaður í hvert sinn, en er það ömurlegt að þurfa að gera það. Sem dæmi erum við að fara suður í lok mánaðarins til lyfjagjafar og rannsókna. Flug fyrir okkur kostar um 52.000 kr. Þar af munum við fá um 26.000 kr. af því endurgreitt. Frá apríl 2016 höfum við greitt um 1.500.000 kr. í ferðakostnað. Við höfum fengið rúmlega 900.000 kr. endurgreitt af því.

Þórir Guðmundsson

It‘s the Iceland call

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur tryggst sér þátttöku í HM og verða þar fulltrúar langfámennustu þjóðarinnar sem komist hefur í þann fína selskap. Má leiða að því líkum að talsvert margir munu fylgjast með okkar mönnum í Rússlandi næsta sumar.

Frammistaða landsliðsins hefur að vonum vakið mikla athygli og í Þýskalandi hefur partíbandið Radspitz hent í slagara um okkar menn og húið góða.

bryndis@bb.is

Gatnagerð eftir hlé í áratug

Gámaþjónusta Vestfjarða ehf. hefur nú hafist handa við gatnagerð á Suðurtanga. Í verkinu felst að leggja nýja götu upp að efra burðarlagi, koma fyrir götubrunnum, leggja að- og fráveitu og reisa ljósastaura. Gatan sem nú er verið að gera heitir Æðartangi og er hluti af nýju skipulagi Suðurtangans. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir mjög gleðilegt að nú séu hafnar framkvæmdir við nýjar götur á Ísafirði, en um áratugur er frá síðustu gatnagerð á Ísafirði þegar Tunguhverfið reis.

„Það er búið að úthluta nær öllum lóðum við vestanverðan Æðartanga og það rak okkur áfram að bjóða verkið út í ár. Svo er búið að semja um lóðir sem verða nær hafnarkantinum. Lóðirnar eru ætlaðar fyrir iðnað og hafnsækna starfsemi,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Bæjarins besta 22. tbl. 34. árg.

22. tbl. 34. árg.
22. tbl. 34. árg.

22. tölublað Bæjarins besta

22. tbl. 34. árg.
22. tbl. 34. árg.

Í dag og á morgun ætti Bæjarins besta að skríða inn um lúgur á norðanverðum Vestfjörðum. Stjórnmálamenn tjá sig á síðum blaðsins enda eru enn einar kosningarnar framundan. Hafdís Gunnarsdóttir og Teitur Björn Einarsson gera að umtalsefni stöðu vegagerðar um Teigskóg, uppbyggingu fiskeldis og afhendingaröryggi raforku. Eva Pandóra Baldursdóttir og Björn Leví Gunnarsson leggja til breytingar á skattkerfinu sem gæti komið sveitarfélögum til góða og Rannveig Ernudóttir kynnir sig leiks á pólitíska sviðinu.

bryndis@bb.is

Ungbörn geta ekki beðið

Hópur fagfólks frá ýmsum stofnunum samfélagsins sem láta sig velferð ungbarna varða hafa stofnað með sér hóp sem þau kalla 1001 hópinn. Hópurinn vinnur að því að fá þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum til að skrifa undir stefnuyfirlýsingu um að efla geðheilbrigðisþjónustu við ungbörn og fjölskyldur þeirra á öllum þjónustustigum heilbrigðiskerfisins fyrsta 1001 daginn í lífi barns (frá getnaði að tveggja ára aldri).

Hópinn skipa fulltrúar frá Barnaverndarstofu, Barnaheillum, Embætti landlæknis, Geðsviði Landspítala, Geðverndarfélagi Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Miðstöð foreldra og barna, Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands og Þerapeiu, meðferðarstofnun og foreldrum ungbarna. Verndari verkefnisins er forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson.

Hópurinn hefur undirbúið vitundarvakningu um mikilvægi fyrsta 1001 dagsins í lífi ungbarns, sem hefst á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn. Vitundarvakningin stendur yfir næstu viku og lýkur með ráðstefnunni Börnin okkar á vegum Geðhjálpar þann 17. Október

Það er Anna María Jónsdóttir geðlæknir sem fylgir verkefninu úr hlaði með fyrstu greininni sem birt er á visi.is

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir