Graftarhraðinn í Dýrafjarðargöngum eykst í hverri viku. Í síðustu viku náðist að grafa 66 metra og göngin orðin 177 metrar að lengd. Vikuna þar á undan voru grafnir 52,4 metrar Þegar gangamenn eru komnir þetta langt inn í fjallið er þörf á loftræstingu og er búið að setja upp blásara við gangamunnann. Byrjað er að safna efni góðu efni úr göngunum á haugsvæði þar sem ekki er þörf fyrir meira efni í plön á vinnusvæði lengur. Lakara efnið fer í aðalatriðum beint í vegfyllingu.
Jazz undir norrænum áhrifum
Það er ekkert lát á athyglisverðum menningarviðburðum á Ísafirði, hvort sem það er tónlist, leiklist eða myndlist. Á fimmtudaginn ætlar Tríó Inga Bjarna að leika á tónleikum í Edinborgarhúsinu. Tríóið er samstarfsverkefni þriggja tónlistarmanna frá Íslandi og Færeyjum. Markmið samstarfsins er að efla samstarf og samgang á milli íslenskra og færeyskra tónlistarmanna með tónleikahaldi í báðum löndunum. Tríóið spilar nýja spennandi tónlist eftir píanistann Inga Bjarna Skúlason og bassaleikarann Bárð Reinert Poulsen.
Þeir hittust fyrst í Þrándheimi fyrir nokkrum árum á Young Nordic Jazz Comets. Upp kom sú hugmynd um að gera eitthvað saman. Þeir hafa fengið til liðs við sig trommarann góðkunna Magnús Trygvason Eliassen. Tónlistin er undir áhrifum frá norrænum þjóðlögum og jazzi með miklu spunaívafi.
Bjarni þjálfar Vestra
Á laugardaginn var skrifað undir samning við nýjan þjálfara meistaraflokks Vestra í knattspyrnu og sá er heldur betur þekktur í íslenskum knattspyrnuheimi. Bjarni Jóhannsson mun þjálfa Vestra næstu þrjú árin og það má með sanni segja að koma Bjarna sé fengur fyrir vestfirska knattspyrnu. Hann hefur starfað við knattspyrnuþjálfun í aldarfjórðung og meðal annars þjálfað Stjörnuna, Breiðablik, KA og ÍBV.
Bjarni er ekki ókunnur knattspyrnumálum á Ísafirði þó það sé langt um liðið síðan hann lék með ÍBÍ, forvera Vestra, en hann lék með liðinu keppnistímabilin 1982 og 1983.
Tombólubörn
Fjórir sprækir krakkar skelltu í basar í Neistahúsinu á Ísafirði í síðustu viku og söfnuðu 13.947 krónum. Þegar þau höfðu lokið við að selja allt sem var á basarnum bættu þau peningum við úr eigin sjóðum. Þau vilja að peningarnar fari til barna í Sómalíu en Rauði krossinn styður við munaðarlaus börn þar í landi. Þetta voru þau Sæmundur Petr Pálsson, Una Margrét Halldórsdóttir, Embla Katrín Kristjánsdóttir og Sölvey Marie Tómasdóttir.
bryndis@bb.is
Ungar konur ráða byggð
Ungar konur eru lykillinn að blómlegri byggð, það er náttúrulögmál. Þar sem ungar konur velja sér að búa og eiga börnin sín, þar dafnar lífið, svo einfalt er það. Því ætti að vera kappsmál að hvetja ungar konur til þess að gefa sig að stefnumótun vítt og breitt í samfélaginu. Enda vita ungar konur manna best hvað þarf til að skapa frjósaman jarðveg fyrir ungt fólk og skapandi framtíð á landinu okkar góða.
Grunnþarfirnar
Frumskilyrði á borð við mæðravernd, fæðingarhjálp og umönnun barna er augljós byrjun. Í því felst grundvallaröryggi og þó svo foreldrar í dag hjálpist að heima fyrir og vinni báðir úti, þá munu konur alltaf leita þangað sem þær finna til öryggis með eigið líf og barna sinna.
Fjölbreytt framboð starfa til að afla sér lífsviðurværis og um leið njóta starfsævinnar á eigin forsendum og í takt við eigin löngun og áhuga, er annað meginverkefni. Hér þarf að gera meira en bara „skaffa kvennastörf“, enda afleitt að framtíðaruppbygging atvinnulífs sé gerð á forsendum kynjaskipts vinnumarkaðar. Konur eru duglegar við að afla sér menntunar og verðmætasköpun framtíðarinnar mun í síauknum mæli byggja á sterkum innviðum til að styðja við eigið frumkvæði. Framtíðin mun síður þurfa að reiða sig á staðbundin náttúrugæði, en þeim mun frekar á góðar tengingar við umheiminn. Hugvit er nefnilega hreyfanleg auðlind sem nýta má hvar og hvenær sem er og ólíkt öðrum náttúruauðlindum þá vex það þegar af er tekið. Aðstæður til að nýta eigin þekkingu og hugvit eru þannig leiðin að skapandi framtíð.
Búsetukostir
Húsnæði er frumþörf sem þarf að vera til staðar til að ungt fólk sjái sér framtíð í að stofna heimili. Við ættum að horfa til nágrannalandanna, t.d. Noregs, varðandi húsnæðisuppbyggingu í vaxandi byggðum. Það er vissulega gott að ríki og sveitarfélög skuli nú leggja til stofnframlög til nýbygginga og uppbyggingar á leiguhúsnæði, en því miður skilar það sér ekki með nógu öflugum hætti út fyrir höfuðborgarsvæðið. Nægir þar að nefna að Bjarg íbúðafélag ASÍ kemur ekki að verkefnum á landsbyggðinni. Bein ívilnun þolinmóðra fjárfesta til svæða sem þurfa mjög á húsnæði að halda til að styðja við atvinnuuppbyggingu ætti að vera algjört forgangsmál. Það húsnæði má ekki kalla á þunga fjárfestingu af hálfu unga fólksins, eða langtímabindingu á formi húsnæðiseignar, enda getur söluvænleiki húseigna sett stórt strik í reikninginn þegar ungt fólk veltir því fyrir sér að freista gæfunnar úti á landi. Hér þarf sértæka nálgun sem byggir undir vöxt bæjarfélaga og uppbyggingu sem helst í hendur við breytingar í atvinnulífinu.
Ungar konur eiga og þurfa að koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þjóðlífsins. Þær eru lykillinn að framtíð lands og bæja. Hlustum á þær og kjósum þær á þing, við munum ekki sjá eftir því.
Höfundar skipa 3 efstu sæti Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2017
Guðlaug Kristjánsdóttir, Kristín Sigurgeirsdóttir, Elín Matthildur Kristinsdóttir
Vel heppnuð æfing
Hátt í annað hundrað sjálfboðaliðar tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli á laugardaginn og að sögn skipuleggjenda gekk flest að óskum en svona æfingar eru ætíð rýndar vel að lokum og þær eru til þess gerðar að læra af þeim. Væntanlega hefur eitthvað komið úr pokahorninu sem mátti fara betur, í það minnsta kvartaði einn sjúklingur yfir því að hafa aldrei fengið að tala við lækni og aldrei tekinn blóðþrýstingur.
„Slysið“ átti sér stað fyrir enda flugbrautarinnar og þar hafði verið komið fyrir ýmsum hlutum sem léku flugvélaparta, til að mynda þrír bílar, grunsamlegir kútar og rör. Mikið slösuðu fólki hafði verið komið fyrir ýmist í „flugvélapörtunum“ eða á flötunum í kring og létu margir sjúklingar ófriðlega enda á þeim mörgum mikil svöðusár. Klippa þurfti fjölmarga úr bílunum og flytja af mikilli varfærni úr flökunum og yfir í sjúkrabíl. Einn flugfarþegi var svo óheppinn að fljóta út í sjó á bút úr flugvélinni og mátti bíða talsverða stund eftir að vera bjargað í land og undir læknishendur, glöggt mátti heyra af hljóðunum að viðkomandi var mikið slasaður.
Mikill eldur braust út á fjórum stöðum en vaskir liðsmenn slökkviliðsins réðu niðurlögum hans.
Í flugstöðinni var bækistöð heilbrigðisstarfsfólks sem greindi og læknaði af miklum móð, eitthvað var þó um að ekki tækist að bjarga þeim sem náðu undir læknishendur.
Skipuleggjendur æfingarinnar voru afar ánægðir með viðbrögð björgunarfólks á svæðinu og kunnu vel að meta alla þá aðstoð sem hinn almenni borgari veitti sömuleiðis.
bryndis@bb.is
Ásmundur Einar og Halla Signý efst hjá Framsókn
Framsóknarflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hélt í gær tvöfalt kjördæmisþing á Bifröst í Borgarfirði. Þar var kosið um hverjir skipa fimm efstu sæti á framboðslista fyrir kosningarnar 28. október nk. Raðað var í önnur sæti listans. Ásmundur Einar Daðason fv. alþingismaður í Borgarnesi bauð sig einn fram í forystusætið og var kjörinn. Í öðru sæti er Halla Signý Kristjánsdóttir fjármálastjóri í Bolungarvík, í þriðja sæti Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, í fjórða sæti Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir háskólanemi í Bakkakoti og fimmta sæti Guðveig Anna Eyglóardóttir hótelstjóri í Borgarbyggð.
Mikil breyting er á lista Framsóknarflokksins frá því í kosningunum í fyrra þegar flokkurinn fékk tvo menn kjörna í Norðvesturkjördæmi. Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi oddviti flokksins, sagði sig úr flokknum í síðustu viku og er genginn til liðs við Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Elsa Lára Arnardóttir var í öðru sæti en hún hefur dregið sig í hlé frá stjórnmálaþátttöku.
Framboðslisti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi:
- Ásmundur Einar Daðason, Borgarnesi
- Halla Signý Kristjánsdóttir, Bolungarvík
- Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkróki
- Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð
- Guðveig Anna Eyglóardóttir, Borgarnesi
- Lilja Sigurðardóttir, Patreksfirði
- Þorgils Magnússon, Blönduósi
- Eydís Bára Jóhannsdóttir, Hvammstanga
- Einar Guðmann Örnólfsson, Borgarbyggð
- Jón Árnason, Patreksfirði
- Heiðrún Sandra Grettisdóttir, Dalabyggð
- Gauti Geirsson, Ísafirði
- Kristín Erla Guðmundsdóttir, Borgarnesi
- Jóhanna María Sigmnundsdóttir, Borgarbyggð
- Elsa Lára Arnardóttir, Akranesi
- Elín Sigurðardóttir, Stykkishólmi
20% barna 5-8 ára eiga snjallsíma
Meira en helmingur barna undir eins árs aldrei hafa aðgang að spjaldtölvu og yfir 20% barna 5-8 ára eiga eigin snjallsíma. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn um miðlanotkun ungra barna á Íslandi. Rannsóknin er gerð að sænskri fyrirmynd og skoðað var hvaða tæki og miðla börnin nota, hvaða tæki þau eiga eða hafa aðgang að og hversu oft mismunandi miðlar eru notaðir ásamt viðhorfi foreldra til notkunarinnar.
Net,- síma- og tölvunotkun var meðal þess sem könnuð var meðal barnanna. Þá var tækjaeign einnig skoðuð þar sem kemur m.a. í ljós að yfir 20% barna 5-8 ára eiga eigin snjallsíma. Niðurstöður könnunarinnar eru í samræmi við þróun í nágrannalöndunum.
smari@bb.is
Búðin opnar á ný

Tekist hefur að finna nýjan rekstraraðila í verslun í Árneshreppi á Ströndum en útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði var lokað um mánaðamótin. Frá 1. nóvember þurfa íbúar því ekki lengur að aka 100 kílómetra í næstu verslun. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir í samtali við fréttastofu RÚV, að vinna sveitarfélagsins við að finna nýjan rekstaraðila hafi tekist og stefnt að því að verslun opni á ný þann 1. nóvember og innan tíðar verði veittar nánari upplýsingar um fyrirkomulag rekstarins.
Ætla í eldi á geldfiski
Fiskeldi Austfjarða áætlar að auka árlega slátrun úr fiskeldinu úr 11 þúsund tonnum í 21 þúsund tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Fyrirtækið metur erfðablöndun við villtan lax ólíklega. Þetta kemur fram í frummati á umhverfisáhrifum, sem fyrirtækið hefur lagt fram. Þetta er fyrsta tilkynnta framleiðsluaukningin í laxeldi sem kemur fram eftir að áhættumat Hafrannsóknastofnunar kom fram.
Áætlanir fyrirtækisins taka mið af áhættumatinu og í fyrsta skipti í sögu íslensks laxeldis er sótt um eldi á geldfiski.
Í Berufirði er áætlað að ala 6.000 tonn af frjóum laxi og 4.000 tonn af geldlaxi. Í Fáskrúðsfirði verða alin 6.000 tonn af frjóum laxi og 5.000 tonn af geldlaxi.
Eins og kunnugt er lagðist Hafrannsóknastofnun gegn laxeldi í Ísafjaðrardjúpi í samræmi við niðurstöðu áhættumatsins. Það á hins vegar ekki við um eldi á geldfiski.
smari@bb.is