Samkomulag náðist ekki á milli Byggðastofnunar og Birnis ehf. í Bolungarvík um niðurfellingu skulda félagsins við stofnunina. Héraðsdómur Norðurlands vestra komst að þessari niðurstöðu í lok maí en dómurinn var birtur í gær. Deilan varðaði kaup Birnis á aflaheimildum í úthafsrækju árið 2010. Skömmu eftir kaupin voru veiðar á útafsrækju gerðar frjálsar og urðu aflaheimildirnar því verðlausar. Forsvarsmenn Birnis töldu að í kjölfarið hefði náðst samkomulag um að skuld félagsins við Byggðastofnun hefði verið færð niður um 81 milljón en stofnunin neitaði því. Framburður vitna var á mismunandi vegu. Taldi dómurinn að Birni hefði ekki tekist að sanna að munnlegt samkomulag hefði náðst. Var kröfu um greiðslu upp á 81 milljón því hafnað.
Stofnanaofbeldi
Aðalskipulag Reykhólahrepps, áður svæðisskipulag, hefur verið í fullu gildi frá árinu 1998. Vegagerðin lét gera umhverfismat á fimm leiðum. Niðurstaðan var að sú leið sem valin var væri best fyrir öryggi vegfarenda og ódýrust, hvort tveggja eru atriði sem lög um samgöngur leggja mikla áherslu. Varðandi snjómokstur og hálkuvarnir lofar Vegagerðin að áfram verði þjónusta á leiðinni Djúpidalur-Gufudalur, auk tengivega. Vegagerðin og margir ráðandi aðilar hafa margsinnis lýst því yfir að jarðgangaleið komi ekki til greina, engar rannsóknir hafa verið gerðar í þá átt.
Í desember sl. eftir að umhverfismatsferli var lokið taldi vegamálastjóri að stutt væri í að sótt væri um framkvæmdaleyfi og verkið boðið út. Skipulagsstofnun skila ekki neikvæðri umsögn sinni fyrr en á vordögum. Sú neitun hafði ekkert gildi og lýsti vegamálastjóri yfir að sótt yrði um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. En Adam var ekki lengi í paradís. Forstjóri Skipulagsstofnunar kom fram hvað eftir annað í útvarpi og á ruv.is með áróður gegn ákvörðun Vegagerðarinnar og fullyrti að gera þyrfti nýtt aðalskipulag og deiliskipulag án nokkurra raka.
Skipulagsstofnun neitaði að samþykkja aðalskipulag fyrir 10 árum, það var kært og ráðherra staðfesti skipulagið. Síðan hefur stofnunin staðið vörð gegn vegabótum á svæðinu og reynt allt mögulegt til að tefja og koma í veg fyrir að farið sé að lögum. Slík hegðun kallar á nýtt orð og það er stofnanaofbeldi.
Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal
Teigsskógur: Skýrist seinnipart 2018
Tafir á vegagerð í Gufudalssveit voru á dagskrá fundar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fyrir helgi. „Það var farið yfir stöðuna og hvenær mætti vænta þess að eitthvað færi að hreyfast þarna,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. Í viðtalinu segir hún að fram hefði komið á fundinum að Vegagerðin gerði ráð fyrir að það gæti legið fyrir seinnipart næsta árs hvort og þá hvenær yrði hægt að hefja framkvæmdir. „Það sem helst er athugavert, að mínu mati, er þessi gríðarmikla töf. Vestfirðingar eru ekki öfundsverðir af vegakerfi sínu. Við erum öll sammála um að eitthvað verði að fara að gerast í þessum málum,“ sagði Valgerður.
Gæsaveiðin hafin
Fuglaveiðimenn tóku gleði sína í gær þegar gæsaveiðitímabilið hófst. Heimilt er að veiða grágæsir og heiðargæsir og 1. september hefst veiðitímabil anda.
Umhverfisstofnun minnir veiðimenn á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.
Hrun í útflutningstekjum sjávarútvegs
Verðmæti útfluttra sjávarafurða hrundi á fyrri helmingi ársins 2017 miðað við sama tíma í fyrra. Nam verðmætið 21,9 prósent lægra en árið á undan en mestur var samdrátturinn í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum. Hagstofa Íslands birti fyrir helgi yfirlit yfir vöruskipti við útlönd á fyrri helmingi ársins. Sjávarafurðir voru rúmlega þriðjungur alls útflutnings, eða 38 prósent.
Fallbarátta framundan
Framundan er hörð fallbarátta hjá Vestra eftir niðurlægjandi tap fyrir Sindra á Torfnesvelli á laugardaginn. Sindri hefur setið í botnsæti 2. deildarinnar í nærri því allt sumar og ekki unnið leik, þangað til liðið kom vestur til Ísafjarðar. Akil De Freitas skoraði fyrsta mark Hornfirðinganna á 17. mínútu og bætti við öðru stutt eftir leikhlé (mín. 47). Mate Paponja bætti við þriðja marki gestanna á 71. mínútu og til að bíta höfuðið af skömminni misnotuðu Vestramenn víti undir lok leiks.
Vestri er í níunda sæti deildarinnar með 20 stig og einungis þrjú stig niður í fallsæti.
Ókeypis námsgögn í Strandabyggð
Strandabyggð hefur slegist í hóp sveitarfélaga þar sem námsgögn grunnskólanema eru ókeypis. Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku gerði sveitarstjórn eftirfarandi bókun fræðslunefndar að sinni: „Tvö síðustu ár hefur verið leitað eftir hagstæðum tilboðum í námsgögn og foreldrar borgað allt að 2500kr. á nemanda. Nú er svo komið að mörg sveitarfélög hafa boðið nemendum upp á námsgögn þeim að kostnaðarlausu. Fræðslunefnd leggur til að sveitarfélagið bjóði slíkt hið sama.“
smari@bb.is
Treysta á stjórnvöld að hjálpa sauðfjárbændum
Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir lýsir þungum áhyggjum vegna erfiðleika hjá sauðfjárbændum. Sauðfjárbúskapur er næst stærsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu. Í bókun sveitarstjórnar segir að ef fram fer sem horfir mun afkoma fjölda íbúa í Strandabyggð versna um 40-50% á tveimur árum. „Ekkert samfélag þolir það án þess að skaðast efnahags- og félagslega. Þau sveitarfélög þar sem sauðfjárbúskapur er aðal atvinnugreinin munu verða verst úti,“ segir í bókuninni.
Sveitarstjórn treystir því að stjórnvöld grípi til allra mögulegra aðgerða til hjálpar sauðfjárbændum, afurðastöðvum og sveitarfélögum til að komast yfir þá erfiðleika sem nú blasa við. „Að gera ekkert í þeirri stöðu sem nú er uppi væri ótrúlegt skeytingarleysi og fyrirlitning gagnvart byggðum landsins,“ segir að lokum.
smari@bb.is
Nikkurnar þandar á Norðurfirði
Á morgun verður haldið Bryggjuball í annað sinn á Norðurfirði á Ströndum og er það harmonikkan sem er í aðalhlutverki. Dagskráin hefst þó í kvöld með stemningskvöldi á Kaffi Norðurfirði en svo fer sjálft bryggjuballið fram á vörubílspalli á bryggjusvæðinu. Linda Guðmundsdóttir frá Finnbogastöðum, ætlar ásamt góðum félögum að spila á fyrir dansi í Norðurfirði. Þetta er í annað sinn sem hún heldur Bryggjuball á Norðurfirði en fyrra ballið var fyrir tveimur árum. Skemmtunin byrjar í kvöld með tónleikum á Kaffi Norðurfirði og á morgun kl. 22 verður dansinn stiginn og nikkurnar þandar á bryggjunni á Norðurfirði. Hljómsveit Lindu nefnist gleðikonurnar og spilar svokallaða klesmertónlist, sem á rætur sínar að rekja til júðskra farandtónlistarmanna í Austur-Evrópu.
Því má svo bæta við að á sunnudaginn verður Íslandsmeistaramót í hrútadómum í Sauðfjársetrinu á Ströndum.
smari@bb.is
Vinir og vandamenn Helenu heiðra minningu hennar á afmælisdeginum
Í kvöld munu í Tjöruhúsinu koma saman vinir og vandamenn Helenu Bjarkar Þrastardóttur heitinnar, bókavarðar við Bókasafnið á Ísafirði, sem féll nýverið frá, allt of ung að aldri. Ætlunin er að minnast Helenu, skála fyrir henni og gleðjast yfir þeim góðu stundum sem hún deildi með okkur, en í dag hefði Helena fagnað 36 ára afmæli sínu. „Afmælisveislan“ verður með glaðlyndu og hressilegu sniði og eru allir boðnir velkomnir, en þar mun tónlist verða flutt, meðal annars af Skúla „Mennska“ Þórðarsyni, bekkjarfélaga og vini Helenu til margra ára, auk þess sem skoska stúlknasveitin Midas Fall hefur ferðast sérstaklega til landsins til þess að spila henni minningarsöng. Þá verður frumsýnt málverk af Helenu í essinu sínu eftir listakonuna Jelenu Micic, sem jafnaldrar Helenu og bekkjarfélagar við Grunnskólann og Menntaskólann á Ísafirði hafa látið útbúa og verður fært Bókasafninu á Ísafirði, vinnustað hennar, að gjöf að helginni lokinni.
Coca Cola á Ísafirði hefur að auki lagt til forláta bjórkúta til styrktar ætluðum minningarsjóð um Helenu sem nú er í bígerð, en þannig mun allur ágóði af bjór sem selst í kvöld (og verður á sérstökum kostakjörum) renna beint í sjóðinn, sem nánar verður kynntur síðar.
Fyrirhugaðir minningartónleikar um Helenu, sem Ásgeir Helgi yngri bróðir hennar hefur haft í býgerð, eru enn á dagskrá og munu fara fram að ári liðnu.
Haukur S. Magnússon, vinur Helenu og einn skipuleggjenda afmælisveislunnar, segir að með henni sé fyrst og síðast hugmyndin að gefa þeim sem báru gæfu til að kynnast Helenu vettvang til gleðjast, eiga góða stund saman og heiðra minningu vinkonu sinnar. „Helena var dásamleg manneskja,“ segir Haukur, „sem því miður var tekin frá okkur allt of snemma. Við viljum halda minningu hennar á lofti og tryggja að þessi glaðværa, brosmilda stúlka sem lífgaði upp á líf svo margra í kring um sig muni ávallt eiga sér stað í hjörtum þeirra sem hún snerti.“
Viðburðurinn hefst um kl. 22.30, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.
Þess má og geta að annað kvöld mun Dr. Gunni koma fram í Tjöruhúsinu, ásamt Stífgrím kombóinu og hljómsveitinni Ást, en aðgangur er einnig ókeypis þar og allir velkomnir.
smari@bb.is