Síða 2131

Hálkublettir

Það var svalt í morgunsárið en spáð er hægri breytilegri átt næsta sólarhringinn, en norðaustan 5-13 síðdegis á morgun. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 4 til 9 stig, en svalara í nótt.

Það eru hálkublettir á Mikladal og Hálfdán og hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Hálkublettir eru einnig á Drangsnesvegi og vegum í kringum Hólmavík.

bryndis@bb.is

Gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum?

Munni Dýrafjarðarganga en göngin opna haustið 2020.

Mögulega verður innheimt gjald fyrir að aka í gegnum Dýrafjarðargöng. Þetta kemur fram í viðtali við Valgerði Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við hana um gjaldtöku í vegakerfinu og þá sérstaklega nýja skoðanakönnun þar sem almenningur var spurður um afstöðu til vegtolla á stofnbrautum til og frá Reykjavík. Valgerður segir orðrétt: „Við erum ekkert eina þjóðin sem hefur velt þessum hlutum upp. Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku.“

Þjóðin tvískipt í afstöðu til vegtolla

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis segjast 56 prósent þeirra sem afstöðu taka ekki vera reiðubúnir til að greiða veggjöld ef stofnbrautir frá Reykjavík verða tvöfaldaðar. Um 44 prósent segjast vera reiðubúin til að greiða veggjöld. Séu svörin skoðuð í heild segjast 38 prósent vera reiðubúin til að greiða veggjöld, 48 prósent segjast ekki reiðubúin til þess, 13 prósent segjast óákveðin en eitt prósent svarar ekki spurningunni.

 

Grunnskólanemar í vinabæjarheimsókn

Hópurinn í skoðunarferð. Mynd: Grunnskóli Ísafjarðar.

Dagana 30.september til 6.október dvöldust 8 grunnskólanemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar. Nemendur héldu til á einkaheimilum og tóku þátt í daglegu lífi heimilisfólksins. Farið var í Montesureskóla þar sem skólastarfið er nokkuð frábrugðið því sem krakkarnir eiga að venjast. Til að mynda er enginn nemandi með síma á meðan skóli stendur yfir frá kl. 8 -15. Frá þessu segir á vef Grunnskóla Ísafjarðar.

Það var farið í margar skoðunarferðir t.d í Neuschwanstein sem er ævintýrakastali frá 19. öld, októberfest í Munchen og til Dachau sem voru fangabúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni.

 

Stefnt á úboð í byrjun árs

Gísli Halldór Halldórsson.

Vonir standa til að útboð á íbúðablokk á Ísafirði verði í byrjun árs. Blokkinn verður við Wardstún. „Jarðvegsvinna gæti hafist um áramótin og ég myndi vilja sjá útboð fljótlega upp úr því,“ segir Gísli Halldór Halldórsson. Í blokkinn verða 13 íbúðir og verða tvær seldar á frjálsum markaði en 11 verða í útleigu sem byggir á stofnframlögum Íbúðalánasjóðs og samstarfi við Þroskahjálp.

Nýbyggingar hafa verið mjög sjaldséðar á Ísafirði um langt skeið, sér í lagi nýbyggt íbúðahúsnæði. Gísli Halldór segir að verkið sé fullfjármagnað og að hans mati ekkert sem kemur í veg fyrir að hafist verði handa fljótlega á næsta ári. „Við hefðum viljað byrja í haust en þetta hefur verið flókið og vandasamt verkefni en aðalmálið er að þetta er svo gott sem í höfn. Svo vonumst við til að tilvonandi verktaki sjá sér hag í að byggja að byggja aðra blokk við hliðina

Íbúðalánasjóður veitir stofnframlög ríkisins til kaupa eða bygginga á almennum íbúðum. Markmið með veitingu þeirra er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.

Góð byrjun hjá Vestra

Nemanja Knezevic (nr. 15) átti stórleik.

Vestri lagði Snæfell í fyrsta leik tímabilsins í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta, lokatölur voru 76-72. Nemanja Knezevic átti frábæran leik fyrir Vestra, skoraði 20 stig og tók 20 fráköst og var eins og klettur í vörninni. Nebojsa Knezevic skilaði sínu þrátt fyrir að hafa verið kominn með fjórar villur í fyrri hálfleik, hann skoraði 16 stig, sendi 10 stoðsendingar og náði 6 fráköstum. Fyrirliðinn Nökkvi Harðarson átti einnig góðan leik og fyrir utan að hafa skorða 12 stig, náð 4 fráköst og sent 3 stoðsendingar smitaði baráttuandi fyrirliðans út frá sér.

Í hálfleik var undirritaður endurnýjaður samstarfssamningur Körfuknattleiksdeildar Vestra og tölvu- og netþjónustufyrirtækisins Snerpu á Ísafirði. Snerpa hefur um árabil staðið þétt við bakið á körfuboltanum á Ísafirði en samstarf þessara aðila má rekja u.þ.b. tvo áratugi aftur í tímann.

Ingólfur Þorleifsson formaður körfuknattleiksdeildar Vestra og Jakob Einar Úlfarsson frá Snerpu skrifuðu undir endurnýjaðan samstarfssamning.

Verkalýðsfélagið og Fræðslumiðstöðin í samstarf á Hólmavík

Frá vinstri: Elfa Svanhildur Hermannsdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar, Ingibjörg Benediktsdóttir og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verk Vest.

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur samþykkt að fara í samstarf við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um ráðningu verkefnastjóra á Hólmavík. Til verkefnisins hefur verið ráðin Ingibjörg Benediktsdóttir á Hómavík, en Ingibjörg er Strandamaður í húð og hár og því vel tengd og kynnt á svæðinu. Ingibjörg mun sjá um fræðsluverkefni félagsins ásamt samskiptum við starfsfræðslusjóði sem félagið er aðili að. Einnig mun Ingibjörg sjá um afgreiðslu fræðslustyrkja og utanumhald með fræðslumálum til trúnaðarmanna ásamt því að þjónusta félagsmenn Verk Vest á Ströndum og Reykhólahreppi. Forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar og Ingibjörg mættu á starfsmannafund hjá Verk Vest fyrr í dag þar sem verkefnið var kynnt fyrir starsfólki Verk Vest.

Samgöngubætur og staða verslunar ofarlega í huga

Í verkefnisstjórninni sitja: Sigríður K. Þorgrímsdóttir og Kristján Þ. Halldórsson frá Byggðastofnun, Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps, Aðalsteinn Óskarsson og Skúli Gautason frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Kristmundur Kristmundsson og Arninbjörn Bernharðsson sem fulltrúar íbúa Árneshrepps.

Á fyrsta fundi nýskipaðrar verkefnisstjórnar Brothættra byggða í Árneshreppi sem haldinn var þriðjudaginn 3. október í félagsheimilinu í Árnesi bar mörg mál á góma. Farið var yfir niðurstöður íbúaþings frá því í júní, stöðuna í Árneshreppi  og rætt um næstu skref í verkefninu.

Í júní stóðu Árneshreppur, Byggðastofnun og Fjórðungssamband Vestfirðinga fyrir íbúaþingi í Árneshreppi sem var ágætlega sótt og umræður voru fjörugar. Í framhaldi af því endurnýjaði hreppurinn umsókn sína til Byggðastofnunar, um þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir og var sú umsókn samþykkt á fundi stjórnar stofnunarinnar í ágúst. Í framhaldi af því var skipuð verkefnisstjórn sem nú hefur tekið til starfa og á næstu dögum verður gerður formlegur samstarfssamningur um verkefnið, svipað og gert hefur verið á öðrum svæðum Brothættra byggða.

Á vef Byggðastofnunar er greint frá að úrbætur í samgöngum voru talsvert ræddar á fundinum, ekki síður en á íbúaþinginu. Brýnast þykir að staðið verði við þau áform Vegagerðarinnar að hefja vinnu við endurnýjun vegarins yfir Veiðileysuháls árið 2018, jafnframt því að bæta vetrarþjónustuna. Þessi mál verða sett á oddinn á næstu vikum og verða án efa áberandi í markmiðum og verkefnisáætlun fyrir verkefnið í samræmi við vilja íbúaþings.

Auk annarra mála var nokkuð rætt um stöðu verslunar í sveitinni og hvað er til ráða, nú þegar kaupfélagið hefur lokað útibúinu. Heimamenn eru að vinna að lausn málsins. Þá var rætt um íbúafund sem verði haldinn svo fljótt sem verða má þegar drög að markmiðum og verkefnisáætlun fyrir verkefnið liggur fyrir. Þá þarf og að skilgreina hlutverk og skipulag fyrir verkefnisstjóra í verkefninu.

Á fundinum var hafist handa við greiningu helstu styrkleika, veikleika, ógnana og tækifæra (SVÓT) og þeirri vinnu verður síðan haldið áfram.

Hraðinn eykst í Dýrafjarðargöngum

Blásari kominn upp við munna ganganna.

Graftarhraðinn í Dýrafjarðargöngum eykst í hverri viku. Í síðustu viku náðist að grafa 66 metra og göngin orðin 177 metrar að lengd. Vikuna þar á undan voru grafnir 52,4 metrar Þegar gangamenn eru komnir þetta langt inn í fjallið er þörf á loftræstingu og er búið að setja upp blásara við gangamunnann. Byrjað er að safna efni góðu efni úr göngunum á haugsvæði þar sem ekki er þörf fyrir meira efni  í plön á vinnusvæði lengur. Lakara efnið fer í aðalatriðum beint í vegfyllingu.

Jazz undir norrænum áhrifum

Það er ekkert lát á athyglisverðum menningarviðburðum á Ísafirði, hvort sem það er tónlist, leiklist eða myndlist. Á fimmtudaginn ætlar Tríó Inga Bjarna að leika á tónleikum í Edinborgarhúsinu. Tríóið er samstarfsverkefni þriggja tónlistarmanna frá Íslandi og Færeyjum. Markmið samstarfsins er að efla samstarf og samgang á milli íslenskra og færeyskra tónlistarmanna með tónleikahaldi í báðum löndunum. Tríóið spilar nýja spennandi tónlist eftir píanistann Inga Bjarna Skúlason og bassaleikarann Bárð Reinert Poulsen.

Þeir hittust fyrst í Þrándheimi fyrir nokkrum árum á Young Nordic Jazz Comets. Upp kom sú hugmynd um að gera eitthvað saman. Þeir hafa fengið til liðs við sig trommarann góðkunna Magnús Trygvason Eliassen. Tónlistin er undir áhrifum frá norrænum þjóðlögum og jazzi með miklu spunaívafi.

Bjarni þjálfar Vestra

Samúel Samúelsson formaður meistaraflokks Vestra og Bjarni Jóhannsson nýr þjálfari liðsins.

Á laugardaginn var skrifað undir samning við nýjan þjálfara meistaraflokks Vestra í knattspyrnu og sá er heldur betur þekktur í íslenskum knattspyrnuheimi. Bjarni Jóhannsson mun þjálfa Vestra næstu þrjú árin og það má með sanni segja að koma Bjarna sé fengur fyrir vestfirska knattspyrnu. Hann hefur starfað við knattspyrnuþjálfun í aldarfjórðung og meðal annars þjálfað Stjörnuna, Breiðablik, KA og ÍBV.

Bjarni er ekki ókunnur knattspyrnumálum á Ísafirði þó það sé langt um liðið síðan hann lék með ÍBÍ, forvera Vestra, en hann lék með liðinu keppnistímabilin 1982 og 1983.

 

Nýjustu fréttir