„Við óskum eftir fólki til þess að útbúa margnota poka sem síðan verður dreift í verslanir á svæðinu og notaðir í stað plastpoka“ segir í tilkynningu á vef Vesturbyggðar og í kvöld á að hittast í Húsinu, Aðalstræti 72 á Patreksfirði og sauma poka.
Einnig er óskað eftir bolum til þess að nota í pokagerðina. Koma má með boli á viðburðinn en einnig er karfa fyrir utan húsið þar sem skilja má bolli eftir fyrir verkefnið.
Ætlunin er að útbúa 300 poka næstu 4 þriðjudaga og eftir það starta verkefninu í verslunum á svæðinu.
Fjarskiptafyrirtækið Nova kynnti í morgun að fyrirtækið hafi sett í loftið fyrstu 4,5G sendana. Nova áætlar að fjárfesta fyrir um 1 milljarð á ári næstu tvö árin og að megnið af fjárfestingum félagsins mun fara í uppbyggingu 4,5G kerfisins.
Í fréttatilkynningu frá Nova segir að það sé meðal fyrstu farsímafyrirtækja í Evrópu til þess að hefja slíka þjónustu en áætlað er að nethraði í farsímum viðskiptavina Nova muni u.þ.b. þrefaldast. Nova hefur á síðustu vikum sett upp fyrstu 4,5G sendana og því geta þeir sem eru með nýjustu farsímana nú þegar tengst 4,5G kerfinu, en á afmörkuðum svæðum til að byrja með.
Þá hefur verið hrint af stað sérstöku tækniverkefni undir yfirskriftinni Nova X, sem felur í sér innleiðingu á fjölmörgum tækninýjungum. Til að mynda verður innleidd ný tækni sem nefnist VoLTE (Voice over LTE) og felur hún í sér að símtölum er streymt yfir netið, í stað þess að þau fari um símkerfi.
Segir í tilkynningunni að VoLTE muni stórbæta bæði hljóm í símtölum sem og gæðum myndsímtala en um sé að ræða bæði háskerpu hljóð og mynd. Þá muni tenging símtala verða margfalt hraðari. Stuðningur við VoLTE tæknina verði í flestum nýjum farsímum en sé nú eingöngu í Samsung S7 hjá Nova.
„Þetta var misskilningur milli mín og blaðamanns og ég hef beðið Fréttablaðið um leiðréttingu,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður samgöngunefndar Alþingis. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er haft eftir henni að mögulega verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum. „Það er af og frá að það verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður. Hún segir að frá því að fréttin birtist í dag hafi hún fengið símtöl frá fólki að vestan þar sem hún var spurð út í málið. „Og það er vel skiljanlegt. En ég get fullvissað Vestfirðinga um að það stendur ekki til að innheimta gjald í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður.
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust í síðasta mánuði og samkvæmt áætlunum verða þau fullbúin haustið 2020.
„Það verða ekki veggjöld í Dýrafjarðargöngum og Sjálfstæðisflokkurinn er alls ekki að leggja það til,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Valgerði Gunnarsdóttur að mögulega verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum. Valgerður er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður samgöngunefndar Alþingis. Í Fréttablaðinu er rætt við Valgerði um gjaldtöku í vegakerfinu og þá sérstaklega nýja skoðanakönnun þar sem almenningur var spurður um afstöðu til vegtolla á stofnbrautum til og frá Reykjavík. Valgerður segir orðrétt: „Við erum ekkert eina þjóðin sem hefur velt þessum hlutum upp. Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku.“
Laxveiðin í sumar var 10% yfir langtímameðaltali (1974-2016) og 14% lakari en í fyrra. Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.
Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2017 sýna að alls veiddust um 46.500 laxar. Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 10% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2016 sem er 41.880 laxar. Veiðin 2017 var um 6.800 löxum minni en hún var 2016, þegar 53.329 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði, oftast kallast veitt og sleppt.
Veiði á suðvesturlandi var meiri en í fyrra en veiði á Vesturlandi svipuð og 2016. Í öðrum landshlutum hafi veiðin dregist saman á milli ára. Veiðin í ár hafi verið best í mörgum ám seinni hluta veiðitímabilsins. Veiði á stórlaxi hafi þó verið með minna máti. Sama hafi gilt um smálaxa, nema á Vesturlandi.
Í fréttinni segir að breytileiki á milli ára sé meiri síðustu ár en áður séu dæmi um. Ástæðurnar megi rekja til breytinga á afföllum laxa í sjó. Fæðuskilyrði ráði þar miklu um.
Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.
„Þetta eru í besta falli hugmyndir á blaði og ég sé ekki hvernig þessi nálgun á mikilvægt mál á að gagnast okkur í framtíðinni,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, um skýrslu verkefnastjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslunni er lagt til að hækka lágmarksfjölda íbúa í skrefum þannig að ekki verði færri en 1.000 íbúar í hverju sveitarfélagi í ársbyrjun 2026 og að sameiningar vegna þess verði ekki bornar undir íbúa í atkvæðagreiðslu.
Verkefnisstjórnin setur fram tólf tillögur í skýrslunni. Ein þetta er að hækka lágmarksfjölda íbúa í þrepum. Í ársbyrjun 2020 skuli lágmarksíbúafjöldi vera 250 íbúar, 500 í ársbyrjun 2022 og 1.000 árið 2026.
Í Súðavíkurhreppi búa um 200 manns og verði tillögurnar að veruleika mun sveitarfélagið verða þvingað til sameiningar á næstu tveimur árum.
Pétur G. Markan.
Pétur segir að hann skilji ekki þá nálgun að setja öll lítil sveitarfélög undir sama hatt, óháð því hvernig þau standa. „Súðavíkurhreppur er frábært dæmi um lítið sveitarfélag sem stendur á traustum fótum rekstrarlega og veitir góða þjónustu. Við rekum góðan grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og veitum félagslega þjónustu í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað. Ég vona hreinlega að ríkið hafi ekki greitt of mikið fyrir þessa nefndarvinnu því skýrslan er gagnslaust plagg, því miður,“ segir Pétur.
Þrátt fyrir að vera andsnúinn tillögum sem koma fram í skýrslunni er Pétur ekki mótfallinn sameiningum sveitarfélaga. „Það hefur komið fram hjá mér áður að ég sé fyrir að einhvern tímann í framtíðinni verði eitt sveitarfélag við Djúp. En sú ákvarðanataka þarf að byggja á betri vinnu en þessari skýrslu. Það er til að mynda frumskilyrði að innviðir í sameinuðu sveitarfélagi séu í lagi. Ég nefni göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, það sé hver maður að það gengur ekki í sameinuðu sveitarfélagi að íbúar þurfi að keyra um hættulegasta veg landsins til að sækja grunnþjónustu.“
Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.
Útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði í Árneshreppi var lokað um mánaðamótin og hreppurinn því án verslunar. Um 100 km leið er í næstu verslun á Hólmavík, um veg sem teppist í fyrstu snjóum og er ekki ruddur yfir háveturinn. Sveitarstjórn Árneshrepps hefur leitað að nýjum aðila til að reka verslunina og í samtali við fréttastofu RÚV staðfestir Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti að sú vinna hafi borið árangur.Stefnt er að því að nýr rekstur hefjist frá 1. nóvember og innan tíðar verða veittar nánari upplýsingar um fyrirkomulag rekstarins.
Það var svalt í morgunsárið en spáð er hægri breytilegri átt næsta sólarhringinn, en norðaustan 5-13 síðdegis á morgun. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 4 til 9 stig, en svalara í nótt.
Það eru hálkublettir á Mikladal og Hálfdán og hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Hálkublettir eru einnig á Drangsnesvegi og vegum í kringum Hólmavík.
Munni Dýrafjarðarganga en göngin opna haustið 2020.
Mögulega verður innheimt gjald fyrir að aka í gegnum Dýrafjarðargöng. Þetta kemur fram í viðtali við Valgerði Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við hana um gjaldtöku í vegakerfinu og þá sérstaklega nýja skoðanakönnun þar sem almenningur var spurður um afstöðu til vegtolla á stofnbrautum til og frá Reykjavík. Valgerður segir orðrétt: „Við erum ekkert eina þjóðin sem hefur velt þessum hlutum upp. Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku.“
Þjóðin tvískipt í afstöðu til vegtolla
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis segjast 56 prósent þeirra sem afstöðu taka ekki vera reiðubúnir til að greiða veggjöld ef stofnbrautir frá Reykjavík verða tvöfaldaðar. Um 44 prósent segjast vera reiðubúin til að greiða veggjöld. Séu svörin skoðuð í heild segjast 38 prósent vera reiðubúin til að greiða veggjöld, 48 prósent segjast ekki reiðubúin til þess, 13 prósent segjast óákveðin en eitt prósent svarar ekki spurningunni.
Hópurinn í skoðunarferð. Mynd: Grunnskóli Ísafjarðar.
Dagana 30.september til 6.október dvöldust 8 grunnskólanemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar. Nemendur héldu til á einkaheimilum og tóku þátt í daglegu lífi heimilisfólksins. Farið var í Montesureskóla þar sem skólastarfið er nokkuð frábrugðið því sem krakkarnir eiga að venjast. Til að mynda er enginn nemandi með síma á meðan skóli stendur yfir frá kl. 8 -15. Frá þessu segir á vef Grunnskóla Ísafjarðar.
Það var farið í margar skoðunarferðir t.d í Neuschwanstein sem er ævintýrakastali frá 19. öld, októberfest í Munchen og til Dachau sem voru fangabúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni.