Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2130

Dópaður og án ökuréttinda í hraðakstri

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá hafði verið stöðvaður við umferðareftirlit á Vestfjarðarvegi, í Arnkötludal. Lögreglan hafði auk þess mælt hraða bifreiðarinnar yfir hámarkshraða. Þá kom í ljós að ökumaðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Við leit í bifreið mannsins fundust kannabisefni sem voru haldlögð.

Alls voru 26 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum,

Lögreglunni bárust alls þrjár tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu nýliðna viku. Atvikin urðu við Arnarnes, í Hestfirði og Álftafirði.

Skráningarplötur voru teknar af þremur ökutækjum í Bolungarvík. En viðkomandi ökutæki höfðu ekki verið færð til lögbundinnar skoðunar. Bifreiðaeigendur eru hvattir til að sinna þessum þætti í tíma svo ekki komi til gjalds og eða þess óhagræðis að ökutæki séu tekin úr umferð með þessum hætti.

Tilkynnt var um 6 umferðaróhöpp í liðinni viku. Í tveimur tilvikum var um bílveltu að ræða. Slys á ökumönnum og farþegum urðu ekki alvarleg í þessum tilvikum en tjón á ökutækjum töluvert.

Í vikunni lagði lögreglan hald á eitt skotvopn og skotfæri. Umráðamaður þessa hafði farið óvarlega með vopnið og varsla þessara hluta ekki lögum samkvæmt.

30 metrar í gangagröft

Í lok síðustu viku voru 30 metrar í að hinn eiginlega gangagröftur Dýrafjarðarganga hæfist. Nýja steypustöðin er komin í gang og flutningur á sementi og fylliefnum hafinn. Vinna við geymslur og verkstæði gengur vel, þar er búið að steypa gólf og verið að leggja dúk yfir stálgrindur. Uppmokstur úr forskeringunni er notaður til að stækka palla.

bryndis@bb.is

Smábátaeigendur kalla eftir meiri línuívilnun

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Landsamband smábátaeigenda ályktaði á fundi sínum í síðasta mánuði um auknar línuívilnanir til handa smábátum undir 30 brúttótonn. Á vef samtakanna kemur fram að línuveiðar séu umhverfisvænar og að ívilnun ætti að vera bundin við stærð báta en ekki hvort línunni sé beitt eða meðhöndluð í landi.

Eftirfarandi samþykkt var birt á vef samtakanna í gær:

 Stjórn LS ítrekar fyrri ályktanir um línuívilnun fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn.

 Línuveiðar dagróðrabáta eru afar umhverfisvænar og skila fiski í hæsta gæðaflokki til áframhaldandi meðhöndlunar í landi.  

 Auknar línuveiðar auka þannig gott orðspor íslensks sjávarútvegsí umgengni um náttúruna og ferskleika aflans.

bryndis@bb.is

Gamanmyndahátíðin um mánaðarmótin

Gamanmyndahátíð Flateyrar verður nú haldin öðru sinni á Flateyri, fyrstu helgina í september. Það eru þeir Eyþór Jóvinsson og Ársæll Nielsson sem standa fyrir hátíðinni en með dyggum stuðningi Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, Ísafjarðarbæ og eigendum Tankans á Flateyri en þar fer hátíðin að mestu leyti fram.

Dagskráin er fjölbreytt og er skemmtileg viðbót í annars ríkulega menningarflóru svæðisins.

Fimmtudagurinn 31. ágúst

Vagninn:
21:00 – Óbeisluð Fegurð (60 mín ) – Hrafnhildur Gunnarsdóttir 10 ára afmælissýning
22:00 – Óbeislað Pub Quiz

Föstudagurinn 1. september

Tankurinn:
17:00 – Verðlaunamyndir síðasta árs
Afi Mannsi (15 mín) – Jón Bjarki Hjálmarsson
Aukaleikarar (12 mín) – Emil Alfreð Emilsson
Landsliðið (70 mín) – Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

Tankurinn:
20:00 – Opnunarmyndir Gamanmyndahátíðar Flateyrar 2017

Frægð á Flateyri (30 mín) – Jón Hjörtur Emilsson
Marglita marglyttan (5 mín) – Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir
Litla stund hjá Hansa (15 mín) – Eyþór Jóvinsson
101 vs 621 (14 mín) – Jón Bjarki Hjálmarsson

Tankurinn:
22:00 – Snitsel í Tankinum
Janus Bragi Jakobsson sýnir vel valin og sjaldséð myndbönd undir ljúfum tónum.

Vagninn:
24:00 – Gítarstemming á Vagninum
Denni Dæmalausi mætir með gítarinn til að skemmta sjálfum sér og öðrum.

Laugardagurinn 2. september

Tankurinn:
12:00 – Íslenskar gamanmyndir – I
Síðustu orð Hreggviðs (21 mín) – Grímur Hakonarson
Áttu Vatn (17 mín) – Haraldur Sigjurjónsson
Naglinn (15 mín) – Benidikt Erlingsson
Jói (7 mín) – Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

Tankurinn:
14:00 – Íslenskar gamanmyndir – II
Með mann á bakinu (20 mín) – Jón Gnarr
C vítamín (11 mín) Guðný Rós Þórhallsdóttir
Gæs (23 mín) Unnur Jónsdóttir
Draumgenglar (14 mín) – Vilhjálmur Ólafsson
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

Tankurinn:
16:00 – Íslenskar gamanmyndir – III
Hláturinn lengir lífið (13 mín) – Eyþór Örn Magnússon og Vigfús Þormar Gunnarsson
Makkarónumaðurinn (19 mín) – Smári Gunn
Áhugaverð einhvern veginn (12 mín) – Hólmar Freyr Sigfússon
Stórkostlegasta áhættuatriði sögunnar (1 mín) – Gunnar Björn Guðmundsson
Slavek the shit (15 mín) – Grímur Hakonarson
Leikstjórar svara spurningum úr sal.

Tankurinn:
21:00 – Nýtt Líf
Heiðurssýning á gamanmyndinni Nýtt Líf.
Leikstjórinn Þráinn Bertelsson verður viðstaddur og segir áður ósagðar sögur frá myndinni.

Tankurinn:
23:00 – Lokahóf Gamanmyndahátíðar Flateyrar 2017
Verðlaun veitt fyrir fyndnustu gamanmyndir ársins.
Veitingar í boði Bríó.

Vagninn:
24:00 – Sveitaball
Löðrandi sveitt sveitaball með hljómsveitinni SKE.

Hér eru nokkrar myndir frá hátíðinni 2016

bryndis@bb.is

Vill heimila vegagerð um Teigskóg með lögum

Teitur Björn Einarsson alþingismaður telur að rétt og eðlilegt sé að Alþingi heimili framkvæmdir við vegagerð um Teigskóg með sérstökum lögum þegar í haust. Í grein sem hann ritar á bb.is í dag kemur fram að hann telji að öll efnisleg atriði liggi fyrir hvað varðar umhverfisáhrif vegna vegagerðarinnar, búið sé að taka tillit til margvíslegra athugasemda og draga verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið. Þær tafir sem nú eru uppi snúi að stjórnsýslulegum formreglum.

Teitur segir að í ljósi gríðarlegra almannahagsmuna muni það nokkuð vandalaust að rökstyðja nauðsyn fyrir sérstakri heimild til framkvæmda með lögum.

Bryndis@bb.is

Lagasetning hlýtur að koma til greina

Teitur Björn Einarsson

Fréttir af enn frekari töfum á uppbyggingu á Vestfjarðavegi nr. 60 um Gufudalssveit gaf umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis tilefni til að funda um málið nú á dögunum og spyrja fulltrúa Vegagerðarinnar nánar um stöðuna. Þar kom fram að óbreyttu munu framkvæmdir ekki hefjast fyrr en mögulega um mitt ár 2018.

Það er aðallega tvennt sem ég tel núna skipta máli og kom fram á fundinum. Annars vegar það að öll efnisleg atriði málsins liggja nú fyrir í nýju mati á umhverfisáhrifum og í áliti Skipulagsstofnunar. Búið er að taka tillit til margvíslegra athugasemda, draga verulega úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og eldri ágreiningsefni um stjórnsýslumeðferðina heyra enn fremur sögunni til. Hins vegar það að þær tafir sem eru nú á því að hægt verði að gefa út leyfi fyrir framkvæmdinni snúa að stjórnsýslulegum formreglum. Þá fyrst og fremst vegna málsmeðferðartíma við uppfærslu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna nýrrar og bættrar veglínu á hluta leiðarinnar.

Fyrst svo sérstaklega háttar til og með hliðsjón af þeim gríðarlegu almannahagsmunum sem eru undir í þessu máli tel ég að það hljóti að koma til skoðunar að heimila framkvæmdina með sérstökum lögum frá Alþingi núna strax í haust.

Ég geri mér grein fyrir því að veiting framkvæmdaleyfis með lögum er frávik frá hinum almennum reglum gildandi réttar. En þá er ágætt að hafa í huga að tafir á uppbyggingu Vestfjarðavegar nr. 60 eiga sér engin fordæmi. Á næsta ári verða liðin 20 ár frá því að Alþingi samþykkti vegaáætlun um uppbyggingu heilsársvegar milli Reykjavíkur og Patreksfjarðar og 18 ár frá því framkvæmdir áttu að hefjast á vegakaflanum á milli Bjarkalundar og Flókalundar. Þó svo að margt hafi verið gert frá þeim tíma er uppbygging á veginum um Gufudalssveit ekki enn hafin.

Enginn ágreiningur er um mikilvægi þess að byggja nýjan veg um Gufudalssveit. Núverandi vegslóði er ótækur og stórhættulegur. Almannahagsmunirnir eru verulegir og óumdeilanlegir og því blasir við að frekari tafir eru með öllu óásættanlegar. Sérstaklega í ljósi þess að leyst hefur verið úr hinum ýmsu efnislegu álitaefnum í tengslum við framkvæmdina í samræmi við gildandi skipulags- og náttúruverndarlög og stjórnsýslulegri málsmeðferð í þeim þætti lokið í öllum veigameiri atriðum.

Að öllu þessu virtu er nokkuð vandalaust að rökstyðja nauðsyn fyrir sérstakri heimild til framkvæmda með lögum og það er eitthvað sem hlýtur að koma til álita og vera hægt að ræða um á Alþingi.

Teitur Björn Einarsson

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og situr í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis

Skoðar niðurgreiðslur á innanlandsflugi

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Samgönguráðherra hefur skipað starfshóp til að kanna mögulegar leiðir til að niðurgreiða innanlandsflug fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er formaður starfshópsins, segir að hópurinn eigi bæði að skoða hvað gert sé í Noregi og einnig svokallaða skosku leið. „270-280 þúsund manns ef ég man rétt sem búa í dreifbýlinu fjarri helstu borgum Skotlands eru í hóp sem hefur rétt á ákveðnum afsláttarkjörum í flugi. Það eru 5-6 reglur á bak við það sem við ætlum að skoða hvernig myndu henta íslenskum aðstæðum. Þetta var 40% afsláttur en er nú komið í 50% af fullu fargjaldi. Norska leiðin er síðan kannski aðeins flóknari og snýr meira að fjármögnun flugleiða og flugvallarkerfisins,“ segir Njáll Trausti í samtali við fréttastofu RÚV.

Að mati Njáls Trausta er innanlandsflugið í raun almenningssamgöngur og geti komið í staðinn fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni. Hann bendir á að eins og stjórnkerfi Íslands hefur verið byggt upp undanfarin ár, hvort sem það er í heilbrigðisþjónust, mennta- eða menningarmálum þá hefur uppbyggingin verið á höfuðborgarvæðinu. „Ef þessar samgöngur eru ekki í lagi; aðgengi að borginni þá erum við ekki í góðum málum.“

Guðbrandur á Bassastöðum sigraði hrútaþuklið

Sigurvegarar í flokki vanra þuklara.

Hið árlega Íslandsmót í hrútadómum fór fram á Sævangi í Steingrímsfirði um helgina. Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum var hlutskarpastur hrútaþuklara. Í öðru sæti í flokki vanra þuklara varð Árný Huld Haraldsdóttir á Bakka í Geiradal og í þriðja sæti varð Ragnar Bragason á Heydalsá.
Í óvana flokknum sigraði borgarbarnið Jón Kristófer Fasth. Í öðru sæti varð Sigríður Övarsdóttir og í þriðja sæti varð Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík.

Vinninga í hrútaþuklinu gáfu Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, Hótel Djúpavík, Hólmadrangur, Bleksmiðjan (sem gaf sigurvegara í flokki vanra inneign í húðflúr) Norðursalt, Skógrækt ríkisins (sem gaf trjáplöntur), Matthías Lýðsson, Klúkubúið, Sauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn.

Sauðfé verði fækkað um fimmtung

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Stefnt er að því að fækka sauðfé um allt að 20% hér á landi til lengri tíma í því skyni að draga úr framleiðslu á lambakjöti. Þetta kemur fram í hugmyndum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að leysa vanda sauðfjárbænda, en þær voru kynntar atvinnuveganefnd Alþingis í dag. Ráðherra sagði samtali við fréttastofu RÚV að leysa þurfi vanda sauðfjárbænda með langtímaaðgerðum til að koma í veg fyrir að þetta verði endurtekið efni. Það verði meðal annars gert með uppkaupum ríkisins á ærgildum til þess að fækka fé og draga úr framleiðslu.

Sauðfjárbændur sjá fram á verulegan tekjumissi í haust eftir að afurðastöðvar boðuðu þriðjungs lækkun á afurðaverði sem kemur ofan í 10 prósenta lækkun í fyrra.

Landssamtök sauðfjárbænda meta samanlagðan tekjumissi bænda í ár og í fyrra upp á 2,4 milljarða kr.

Ferðamenn eru helsta ógnin

Refaljósmyndarar í Hornvík.

Óheft ferðamennska er helsta ógn Hornstrandafriðlandsins. Þetta segir Jón Smári Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar í friðlandinu á Hornströndum. Ítarlegt viðtal er við hann á vef Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á friðlandinu leggur hann áherslu á að stofnunin geri ein og sér ekki allt og mikilvægt sé að ná sátt og samstöðu við aðra aðila.

„Hornstrandir eru stórt svæði, landverðir „týnast“ auðveldlega inni á þessum 600 ferkílómetrum og þótt við leggjum mikla áherslu á að eiga gott samtal við landeigendur og Ísafjarðarbæ sem fer með skipulagsvald svæðisins þá þarf að nást sátt með þeim sem nýta svæðin, til dæmis ferðaþjónustunni, en nýting getur aldrei verið ofar í forgangsröðunni en þau verndargildi sem lagt er upp með. Ef maður horfir til þeirra gesta sem sækja svæðið þá eru ferðamenn í raun helsta ógnin,“ segir Jón Smári og tiltekur bæði sjónrænan ágang stórra hópa sem og álag á lífríkið.

„Þarna er mjög viðkvæmt lífríki, refurinn er friðaður og okkur Íslendingum ber skylda að vernda dýrastofna sem hér eru stórt hlutfall af heimsstofni. Skandínavíski refurinn er í útrýmingarhættu fyrir utan Svalbarða og Ísland hýsir um 90% heildarstofnsins. Þegar eitt land býr yfir svo háu hlutfalli stofns ber því að sjá refnum fyrir griðlandi og Hornstandir eru mikilvægur hluti þess. Óheft ferðamennska getur í þessu tilliti verið mikil ógn, ekki síst ef gestir eru að koma á fengi- eða grenjatíma refsins.“

Hann dendir á að aukningu ljósmyndaferða til Hornstranda til að mynda refinn. „Jafnvel til að mynda yrðlinga. Það hugnast okkur ekki, enda stangast svoleiðis ferðir við á við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem segir að óþarfa umgangur sé óheimill við greni.  Það er á gráu svæði að selja svona ferðir,“ segir Jón Smári sem leggur þó áherslu á að langflestir ferðamenn hegði sér yfirleitt vel og almenn umgengni sé að hans mati á mikilli uppleið.

Nýjustu fréttir