Síða 2130

Óléttupróf á Tálknafirði

Tálknafjörður.

Á RÚV hafa undanfarið hljómað þættir Arnhildar Hálfdánardóttur um lífið á Tálknafirði. Arnhildur spyr í kynningartexta um þættina hvort það þekki allir alla á Tálknafirði, hvort allir geti þrifist á svona stað og hvort einhver þori að kaupa óléttupróf á Tálknafirði. Þættirnir eru þrír, sá fyrsti fjallar um lífið á Tálknafirði, íbúum og tengslum þeirra við fjörðinn og upplifun þeirra af því að búa þar. Annar þáttur fjallar um atvinnulífið og sá þriðji um upplifun innflytjenda af því að búa á Tálknafirði.

Hér má nálgast hljóðskrá af fyrsta þætti.

Og hér af þætti tvö en um hann stendur á vef RUV „Fjöllin, fólkið, kyrrðin, pollurinn og erótískar skáldsögur. Þetta og fleira til laðar fólk til Tálknafjarðar. Atvinna er grundvallaratriði, slúðrið getur verið hvimleitt en samheldnin vegur upp á móti. Íbúum fækkar þrátt fyrir uppgang og húsnæði er af skornum skammti en Tálknfirðingar gefast ekki upp. Fjörðurinn rígheldur.

Þriðji þáttur er á dagskrá laugardaginn 14. október kl. 10:15

bryndis@bb.is

Umhverfisvænt fiskeldi á Vestfjörðum

Halla Signý Kristjánsdóttir alþm.

Fiskeldi er eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnmálamanna í NV kjördæmi þessi misserin og þess vegna finnst mér mikilvægt að þau framboð sem bjóða fram í kjördæminu komi sinni afstöðu til fiskeldis skýrt á framfæri við kjósendur.

Vísindi og regluverk

Kröftugur borgarafundur fyrir tveimur vikum kjarnaði kröfu Vestfirðinga, við viljum byggja upp umhverfisvænt fiskeldi byggt á vísindum með ströngu regluverki. Áherslan á vísindin og regluverkið er mikilvæg, vöxtur og viðgangur eldisins má ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta laxastofnsins heldur skal ítrustu þekkingu og mótvægisaðgerðum beitt til þess að lágmarka áhrif af eldinu niður fyrir ásættanleg mörk. Þar gegna okkar fagstofnanir lykilhlutverki, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun en brýnt er að þessar stofnanir hafi þá fjármuni og afl sem þurfa til þess að sinna sínum verkefnum. Eðlilegt er að aukin umsvif þessara stofnana í tengslum við fiskeldi á Vestfjörðum.

Strangar kröfur á Íslandi

Ísland hefur lagt metnað í á undanförnum árum að lágmarka áhrif fiskeldis á umhverfið. Fyrsta skrefið var tekið árið 2004 með því að loka stórum hluta landsins fyrir laxeldi nema á Vestfjörðum og hluta Ausfjörða. Næsta skref var tekið árið 2015 með því að taka upp ströngustu búnaðarstaðla fyrir fiskeldi og þriðja stóra skrefið var tekið núna í ár með því að láta Hafrannsóknarstofnun meta áhættu á mögulegri erfðablöndun. Allt sjóeldi þarf enn fremur að fara í gegnum burðarþolsmat og umhverfismat.

Áhættumat

Hafrannsóknarstofnun Íslands gaf út áhættumat um erfðablöndun núna í júlí sl í fyrsta sinn. Stærstu tíðindin úr því fyrsta mati stofnunarinnar er að möguleg áhætta á erfðablöndun er staðbundin við eldissvæðin. Leyfilegt er að ala allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land en Ísafjarðardjúpi lokað. Í þessu fyrsta áhættumati Hafró var ekki miðað við mótvægisaðgerðir í forsendum. Laxeldisfyrirtækin hafa hins vegar ítrekað bent á að hægt sé að fara í mótvægisaðgerðir til að sporna við þessari hættu í lífríkinu og hafa bent á viðurkenndar aðferðir til þess. Enn fremur hefur Hafrannsóknarstofnun bent á mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ef slíkum aðgerðum er beitt þarf því eitt ekki að útiloka annað heldur vel hægt að starfrækja umhverfisvæna matvælaframleiðslu í sambýli við nýtingu veiðivatna við Ísafjarðardjúp.

Stefnumótun

Eitt af fyrstu verkefnum nýs þings verður að fara yfir stefnumótunarskýrslu Þorgerðar Katrínar í fiskeldi. Ljóst er að þar eru mörg álitaefni sem þarf að gaumgæfa, til dæmis er varða mótvægisaðgerðir sem eru flestar slegnar útaf borðinu, alþjóðleg uppboð á eldissvæðum sem gera heimaaðilum og minni aðilum erfitt uppdráttar og fleira. Tryggja þarf að eldissvæðin sé áfram ekki hægt að veðsetja eða framselja og hóflegt auðlindagjald þarf að renna til nærsamfélaganna.

Að lokum

Það er ljós að mikil hugur er í Vestfirðingum varðandi laxeldi í sjó enda hefur uppgangur á suðurvæði Vestfjarða sýnt okkur að þessi framleiðsla hefur gríðalega mikið að segja fyrir samfélagið og skilað okkur hundruðum milljóna inn bæði til sveitarfélagana og í þjóðarbúið.

Það er skoðun mín að við verðum að treysa okkar færustu vísindamönnum í þessum efnum og búa til þannig umgjörð að umhverfisvænt laxeldi undir ströngum kröfum byggist upp en sömuleiðis að verndarhendi verði haldið yfir villtu laxastofnunum . Að tryggja slíka umgjörð er fyrst og fremst á hendi stjórnmálanna og heiti ég að ganga fumlaust í það verk fái ég til þess umboð.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 2 sæti Framsóknar í NV kjördæmi.

Nemendum fjölgar í Tónlistarskólanum

Nú hefur nemendum í Grunnskólanum á Ísafirði fjölgað og um leið hefur nemendum fjölgað í Tónlistarskóla Ísafjarðar og nú er svo komið að fjölga þarf kennurum við skólann.

Á fundi Bæjarráðs í gær var tekið fyrir bréf Ingunnar Ó. Sturludóttur skólastjóra Tónlistarskólans þar sem hún bendir á að miðað við nemendafjölda þurfi að úthluta 12,9 stöðugildum til skólans en ekki 11,3 eins og áætlun fyrir 2017 hafði gert ráð fyrir. Í minnisblaði Margrétar Halldórsdóttur til Bæjarráðs kemur fram að þessi staða hafi ekki komið upp síðustu ár, enda hafi nemendum í grunnskólanum hingað til fækkað.

Nemendum í Tónlistarskólanum hefur fjölgað um tuttugu milli ára.

bryndis@bb.is

Taupokagerð í Húsinu á Patreksfirði

„Við óskum eftir fólki til þess að útbúa margnota poka sem síðan verður dreift í verslanir á svæðinu og notaðir í stað plastpoka“ segir í tilkynningu á vef Vesturbyggðar og í kvöld á að hittast í Húsinu, Aðalstræti 72 á Patreksfirði og sauma poka.

Einnig er óskað eftir bolum til þess að nota í pokagerðina. Koma má með boli á viðburðinn en einnig er karfa fyrir utan húsið þar sem skilja má bolli eftir fyrir verkefnið.

Ætlunin er að útbúa 300 poka næstu 4 þriðjudaga og eftir það starta verkefninu í verslunum á svæðinu.

Lesa má nánar um verkefnið á vef Hússins.

bryndis@bb.is

Milljarður í 4,5G senda




Fjar­skipta­fyr­ir­tækið Nova kynnti í morg­un að fyr­ir­tækið hafi sett í loftið fyrstu 4,5G send­ana. Nova áætl­ar að fjár­festa fyr­ir um 1 millj­arð á ári næstu tvö árin og að megnið af fjár­fest­ing­um fé­lags­ins mun fara í upp­bygg­ingu 4,5G kerf­is­ins.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Nova seg­ir að það sé meðal fyrstu farsíma­fyr­ir­tækja í Evr­ópu til þess að hefja slíka þjón­ustu en áætlað er að net­hraði í farsím­um viðskipta­vina Nova muni u.þ.b. þre­fald­ast. Nova hef­ur á síðustu vik­um sett upp fyrstu 4,5G send­ana og því geta þeir sem eru með nýj­ustu farsím­ana nú þegar tengst 4,5G kerf­inu, en á af­mörkuðum svæðum til að byrja með.

Þá hef­ur verið hrint af stað sér­stöku tækni­verk­efni und­ir yf­ir­skrift­inni Nova X, sem fel­ur í sér inn­leiðingu á fjöl­mörg­um tækninýj­ung­um. Til að mynda verður inn­leidd ný tækni sem nefn­ist VoLTE (Voice over LTE) og fel­ur hún í sér að sím­töl­um er streymt yfir netið, í stað þess að þau fari um sím­kerfi.
Seg­ir í til­kynn­ing­unni að VoLTE muni stór­bæta bæði hljóm í sím­töl­um sem og gæðum myndsím­tala en um sé að ræða bæði háskerpu hljóð og mynd. Þá muni teng­ing sím­tala verða marg­falt hraðari. Stuðning­ur við VoLTE tækn­ina verði í flest­um nýj­um farsím­um en sé nú ein­göngu í Sam­sung S7 hjá Nova.

Af og frá að innheimta veggjöld

Valgerður Gunnarsdóttir.

„Þetta var misskilningur milli mín og blaðamanns og ég hef beðið Fréttablaðið um leiðréttingu,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður samgöngunefndar Alþingis. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er haft eftir henni að mögulega verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum. „Það er af og frá að það verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður. Hún segir að frá því að fréttin birtist í dag hafi hún fengið símtöl frá fólki að vestan þar sem hún var spurð út í málið. „Og það er vel skiljanlegt. En ég get fullvissað Vestfirðinga um að það stendur ekki til að innheimta gjald í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður.

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust í síðasta mánuði og samkvæmt áætlunum verða þau fullbúin haustið 2020.

Engin veggjöld í Dýrafjarðargöngum

Teitur Björn Einarsson

„Það verða ekki veggjöld í Dýrafjarðargöngum og Sjálfstæðisflokkurinn er alls ekki að leggja það til,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Valgerði Gunnarsdóttur að mögulega verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum. Valgerður er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður samgöngunefndar Alþingis. Í Fréttablaðinu er rætt við Valgerði um gjaldtöku í vegakerfinu og þá sérstaklega nýja skoðanakönnun þar sem almenningur var spurður um afstöðu til vegtolla á stofnbrautum til og frá Reykjavík. Valgerður segir orðrétt: „Við erum ekkert eina þjóðin sem hefur velt þessum hlutum upp. Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku.“

Laxveiðin yfir meðallagi

Laxveiðin í sumar var 10% yfir langtímameðaltali (1974-2016) og 14% lakari en í fyrra. Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar.

Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sumarið 2017 sýna að alls veiddust um 46.500 laxar. Í heild var fjöldi stangveiddra laxa um 10% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2016 sem er 41.880 laxar. Veiðin 2017 var um 6.800 löxum minni en hún var 2016, þegar 53.329 laxar veiddust á stöng. Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði, oftast kallast veitt og sleppt.

Veiði á suðvest­ur­landi var meiri en í fyrra en veiði á Vest­ur­landi svipuð og 2016. Í öðrum lands­hlut­um hafi veiðin dreg­ist sam­an á milli ára. Veiðin í ár hafi verið best í mörg­um ám seinni hluta veiðitíma­bils­ins. Veiði á stór­laxi hafi þó verið með minna máti. Sama hafi gilt um smá­laxa, nema á Vest­ur­landi.

Í frétt­inni seg­ir að breyti­leiki á milli ára sé meiri síðustu ár en áður séu dæmi um. Ástæðurn­ar megi rekja til breyt­inga á af­föll­um laxa í sjó. Fæðuskil­yrði ráði þar miklu um.

Vonar að ríkið hafi ekki greitt mikið fyrir skýrsluna

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

„Þetta eru í besta falli hugmyndir á blaði og ég sé ekki hvernig þessi nálgun á mikilvægt mál á að gagnast okkur í framtíðinni,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, um skýrslu verkefnastjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslunni er lagt til að hækka lág­marks­fjölda íbúa í skref­um þannig að ekki verði færri en 1.000 íbú­ar í hverju sveit­ar­fé­lagi í árs­byrj­un 2026 og að sam­ein­ing­ar vegna þess verði ekki born­ar und­ir íbúa í at­kvæðagreiðslu.

Verk­efn­is­stjórn­in set­ur fram tólf til­lög­ur í skýrsl­unni. Ein þetta er að hækka lág­marks­fjölda íbúa í þrep­um. Í árs­byrj­un 2020 skuli lág­marks­í­búa­fjöldi vera 250 íbú­ar, 500 í árs­byrj­un 2022 og 1.000 árið 2026.

Í Súðavíkurhreppi búa um 200 manns og verði tillögurnar að veruleika mun sveitarfélagið verða þvingað til sameiningar á næstu tveimur árum.

Pétur G. Markan.

Pétur segir að hann skilji ekki þá nálgun að setja öll lítil sveitarfélög undir sama hatt, óháð því hvernig þau standa. „Súðavíkurhreppur er frábært dæmi um lítið sveitarfélag sem stendur á traustum fótum rekstrarlega og veitir góða þjónustu. Við rekum góðan grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og veitum félagslega þjónustu í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað. Ég vona hreinlega að ríkið hafi ekki greitt of mikið fyrir þessa nefndarvinnu því skýrslan er gagnslaust plagg, því miður,“ segir Pétur.

Þrátt fyrir að vera andsnúinn tillögum sem koma fram í skýrslunni er Pétur ekki mótfallinn sameiningum sveitarfélaga. „Það hefur komið fram hjá mér áður að ég sé fyrir að einhvern tímann í framtíðinni verði eitt sveitarfélag við Djúp. En sú ákvarðanataka þarf að byggja á betri vinnu en þessari skýrslu. Það er til að mynda frumskilyrði að innviðir í sameinuðu sveitarfélagi séu í lagi. Ég nefni göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, það sé hver maður að það gengur ekki í sameinuðu sveitarfélagi að íbúar þurfi að keyra um hættulegasta veg landsins til að sækja grunnþjónustu.“

Verslun opnar á ný

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði í Árneshreppi var lokað um mánaðamótin og hreppurinn því án verslunar. Um 100 km leið er í næstu verslun á Hólmavík, um veg sem teppist í fyrstu snjóum og er ekki ruddur yfir háveturinn. Sveitarstjórn Árneshrepps hefur leitað að nýjum aðila til að reka verslunina og í samtali við fréttastofu RÚV staðfestir Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti að sú vinna hafi borið árangur.Stefnt er að því að nýr rekstur hefjist frá 1. nóvember og innan tíðar verða veittar nánari upplýsingar um fyrirkomulag rekstarins.

Nýjustu fréttir