Síða 2130

Sjónarmunur á fylgi VG og Sjálfstæðisflokks

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Sjónarmunur er á fylgi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í nýrri skoðanakönnun MMR. VG mælist með 21,8 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 21,1 prósent. Skoðanakönnunin stóð yfir dagana 6. til 11. október. Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa tapað fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 28. september, en þá mældust Vinstri græn með 24,8 prósenta fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósenta fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 13,0 prósent en það er aukning upp á 3 prósentustig frá síðustu mælingu. Miðflokkurinn mælist með stuðning 10,7 prósent kjósenda og mælist þar með stærri en Píratar, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn.

Björt framtíð mælist með 4,2 prósent en mældist með 2,5 prósenta fylgi í lok september og Viðreisn mælist nú með 3,6 prósenta fylgi og lækkar um 1,3 prósentustig frá síðustu könnun.

Í morgun birti Fréttablaðið skoðanakönnun sem mældi fylgi VG mun meira en könnun MMR. Í könnun Fréttablaðsins var fylgi VG tæp 30 prósent. Þá er fylgi Samfylkingarinnar er einnig umtalsvert meira í skoðanakönnun MMR en í könnun Fréttablaðsins en þar fengi flokkurinn rúm 8 prósent.  Að öðru leyti virðist fylgi annarra flokka vera svipað.

smari@bb.is

Bolungarvík opnar bókhaldið

Bolungarvíkurkaupstaður opnar bókhald bæjarins og íbúar og aðrir vefnotendur geta nú farið inn á svæði sem birtir fjárhagsupplýsingar sveitafélagsins.

Þar gefst kostur á að fylgjast með hreyfingum fjármagns sem um sveitarfélagið fara. Veflausnin býður upp á myndræna framsetningu í súluritum, kökum og hlutfallsmyndum.

Þegar komið er inn á síðuna er hægt að velja fjóra yfirflokka.

  • Hvert fara peningarnir – allir flokkar.
  • Hvaðan koma peningarnir og þar er hægt að sjá skiptinguna á skatttekjum.
  • Hvert fara peningarnir – greining en þar er hægt að fara inn á hverja deild til að skoða bæði tekjur, vörukaup og þjónustukaup og hverjir eru helstu lánadrottnar.
  • Hvert fara peningarnir – lánadrottnar en þar má sjá alla lánadrottna eftir stærð.

Hægt er að takmarka val við nokkra þætti í stað allra með því að nota  „ctrl“-takka lyklaborðsins til að velja viðkomandi þætti. Til að hreinsa er ýtt á strokleðrið fyrir ofan valgluggana.

bryndis@bb.is

100 milljónir í ljósleiðara

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið að verja samtals 100 milljónum króna af fjárveitingu byggðaáætlunar árið 2018 til að gera strjálbýlum sveitarfélögum hægara um vik við lagningu ljósleiðarakerfa. Sambærilegur styrkur var veittur vegna slíkra framkvæmda árið 2017.

Að þessu sinni verður 14 sveitarfélögum boðinn styrkur, samtals að upphæð 90 milljónir króna. Styrkupphæð hvers sveitarfélags ræðst af fjárhagsstöðu og meðaltekjum íbúa, byggðaþróun síðastliðin 10 ár, þéttleika og hlutfalli ótengdra staða sem og fjarlægð byggðar frá þjónustukjarna og ástandi vega.

Á Vestfjörðum eru það Strandabyggð, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur sem munu eiga þess kost að sækja um styrki í þennan sjóð árið 2018.

Að auki verður samtals 10 miljónum úthlutað beint til tiltekinna byggðalaga sem falla undir verkefnið Brothættar byggðir.

Styrkupphæð til hvers sveitarfélags er á bilinu 1,0 – 15,1 m.kr.

Markmið byggðastyrksins er að bæta samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum þeirra í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Umsóknarferli fjarskiptasjóðs vegna 2018 verður kynnt á næstunni.

smari@bb.is

Dýralæknir tekur við versluninni í Norðurfirði

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Ólafur Valsson dýralæknir tekur við versluninni í Norðurfirði í Árneshreppi en búðin mun opna á nú þann 1. nóvember. Kaupfélag KSH á Hólmavík ákvað að leggja niður útibúið í Norðurfirði og auglýsti hreppsnefnd nú í september eftir nýjum rekstraraðila.

Ólafur svaraði kallinu en hann starfaði við dýralækningar um árabil á sínum yngri árum, m.a. í Strandasýslu með aðsetur á Hólmavík. Hann þekkir því nokkuð til svæðisins. Hann hefur enn fremur verið héraðsdýralæknir í Eyjafjarðarsýslu og víðar í um hálfan annan áratug. Hann starfaði í áratug við framfylgni reglna um matvælaöryggi og fleira á erlendri grund og síðustu fimm ár við ráðgjafarstörf á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðarmála víða um lönd. Sem ungur maður starfaði hann með námi við ostagerð. Frá þessu er greint á fréttavefnum Litlahjalla.

Ólafur hefur áhuga á að brydda upp á nýjungum í byggðarlaginu og stuðla jafnvel að framleiðslu matvæla í heimabyggð sem er áhugasvið hans.

Það er þungu fargi létt af íbúum Árneshrepps við þessi tíðindi og fögnuður yfir því að fá nýtt fólk í sveitina.

smari@bb.is

Að fæðast í röngum líkama

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á föstudag verður fjallað um málefni sem mörgum kann að þykja viðkvæmt en er engu að síður mikilvægt umfjöllunarefni. Ísfirðingurinn Veiga Grétarsdóttir fæddist í líkama drengs en fann snemma að þar átti hún ekki heima. Hún mun deila reynslu sinni í Vísindaporti og fjalla m.a. um kynleiðréttingarferlið hér á landi, sem hún hóf fyrir u.þ.b. þremur árum.

Í erindi sínu mun Veiga, sem áður hét Grétar Veigar Grétarsson, einnig fjalla um þunglyndið, fordómana og vanlíðanina sem fylgir því að geta ekki verið maður sjálfur og þá ánægju sem fylgdi því þegar hún gat loks verið hún sjálf. Einnig mun hún segja frá muninum á því að vera kona í stað karls í samfélagi.

Veiga Grétarsdóttir er fædd á Ísfirði og ólst þar upp sem strákur. Hún flutti búferlum frá Ísafirði rétt eftir tvítugt en er nú flutt aftur heim eftir tuttugu ára fjarveru og starfar við Grunnskólann á Ísafirði. Í millitíðinni hefur hún búið á Akureyri, í Reykjavík, Noregi og nú síðast á Reyðafirði. Veiga er menntaður rennismiður og hefur unnið sem slíkur megnið af starfsævinni eða í um tvo áratugi. Einnig hefur hún starfað við smíðar og bílaviðgerðir ásamt því að vera menntuð sem förðunarfræðingur.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða  á föstudaginn frá kl 12.10-13.00 og er opið öllum áhugasömum.

smari@bb.is

Vetur konungur bankar

Það er komið að því, grátt á fjallatoppum og það er farið að kólna.

Spáin hljóðar upp á norðaustan 5-13 m/s og þurrt að kalla, en fer að rigna í fyrramálið. Norðaustan 10-18 síðdegis á morgun og 13-20 annað kvöld. Hiti 3 til 8 stig.

 

VG langstærsti flokkurinn

Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Mynd: mbl.is / Árni Sæberg.

Vinstri græn yrði stærsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag, með rétt tæplega 30 prósenta fylgi. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Flokkurinn var með tæplega 29 prósenta fylgi fyrir viku og er munurinn innan vikmarka. Sjálfstæðisflokkurinn yrði næst stærsti flokkurinn ef gengið yrði til kosninga nú, með rúmlega 22 prósenta fylgi. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með rúmlega 9 prósenta fylgi. Skammt á eftir Miðflokknum koma Píratar með 8,5 prósenta fylgi og Samfylkingin næst með rúmlega 8 prósenta fylgi.

Framsóknarflokkurinn mælist með rúm 7 prósent og Flokkur fólksins með rétt yfir sex prósenta fylgi.

Björt framtíð og Viðreisn þurrkast út af þingi, með um 3,5 prósenta fylgi.

Hringt var í 1.322 manns þar til náðist í 804 samkvæmt lagskiptu úrtaki 10. október. Svarhlutfallið var því 60,8 prósent. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?

Alls tóku 66 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Um 10 prósent sögðust ekki kjósa eða ætla að skila auðu, 13 prósent sögðust vera óákveðin og tæplega 11 prósent svöruðu ekki.

smari@bb.is

Bláskeljar og beltisþari

Í dag kl. 16:00  mun Pierre-Olivier Fontaine, meistaranemi við haf- og strandsvæðastjórnun Háskólaseturs Vestfjarða verja lokaverkefni sitt sem ber titilinn: Co-culture of blue mussel (Mytilus edulis) and sugar kelp (Saccharina latissima) as a strategy to reduce the predation rate of diving ducks on mussel farms in the Cascapedia Bay (QC, Canada).

Bláskeljaræktun er rótgróinn atvinnustarfsemi í austurhluta Kanada og hefur á síðustu 45 árum orðið að efnahagslegri burðarstoð í sjávarbyggðum þar. Pierre rannsakaði áhrif samræktunar bláskeljar og beltisþörunga í skelfiskræktun í Cascapedia flóa í Kanada en þar herja andfuglar á ræktunina og draga þannig úr arðsemi hennar. Rannsóknin miðaði að því að rækta beltisþörunga samhliða bláskel til að fæla fuglinn frá.

bryndis@bb.is

100 Vestfirskar gamansögur

„Já, nei, sko, sjáðu til, væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!“

Sá sem svo mælti fyrir nokkrum árum var enginn annar en þáverandi sóknarherra til Vatnsfjarðaþinga, síra Baldur sálugi Vilhelmsson í Vatnsfirði. Óvíst er hvort stórum vanda íslenska heilbrigðiskerfisins í dag hafi verið lýst betur í jafn fáum orðum.

Kemur þetta fram í ritgerð  í nýrri bók frá Vestfirska forlaginu, 100 Vestfirskar gamansögur. Bókin sú er farin í dreifingu um land allt. Segja má að bæði gaman og alvara sé uppistaðan í hinum mikla sagnabanka Vestfirska forlagsins af Vestfirðingum. Og skal nú rétt einu sinni vitnað í skipherrann okkar, Eirík Kristófersson, frá Brekkuvelli á Barðaströnd:

„Gamanmál eru nauðsynleg, en að baki þeim býr alvara lífs og dauða. Það vitum við sjómennirnir ef til vill betur en aðrir.“

bryndis@bb.is

Óléttupróf á Tálknafirði

Tálknafjörður.

Á RÚV hafa undanfarið hljómað þættir Arnhildar Hálfdánardóttur um lífið á Tálknafirði. Arnhildur spyr í kynningartexta um þættina hvort það þekki allir alla á Tálknafirði, hvort allir geti þrifist á svona stað og hvort einhver þori að kaupa óléttupróf á Tálknafirði. Þættirnir eru þrír, sá fyrsti fjallar um lífið á Tálknafirði, íbúum og tengslum þeirra við fjörðinn og upplifun þeirra af því að búa þar. Annar þáttur fjallar um atvinnulífið og sá þriðji um upplifun innflytjenda af því að búa á Tálknafirði.

Hér má nálgast hljóðskrá af fyrsta þætti.

Og hér af þætti tvö en um hann stendur á vef RUV „Fjöllin, fólkið, kyrrðin, pollurinn og erótískar skáldsögur. Þetta og fleira til laðar fólk til Tálknafjarðar. Atvinna er grundvallaratriði, slúðrið getur verið hvimleitt en samheldnin vegur upp á móti. Íbúum fækkar þrátt fyrir uppgang og húsnæði er af skornum skammti en Tálknfirðingar gefast ekki upp. Fjörðurinn rígheldur.

Þriðji þáttur er á dagskrá laugardaginn 14. október kl. 10:15

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir