Það er komið að því, grátt á fjallatoppum og það er farið að kólna.
Spáin hljóðar upp á norðaustan 5-13 m/s og þurrt að kalla, en fer að rigna í fyrramálið. Norðaustan 10-18 síðdegis á morgun og 13-20 annað kvöld. Hiti 3 til 8 stig.
Það er komið að því, grátt á fjallatoppum og það er farið að kólna.
Spáin hljóðar upp á norðaustan 5-13 m/s og þurrt að kalla, en fer að rigna í fyrramálið. Norðaustan 10-18 síðdegis á morgun og 13-20 annað kvöld. Hiti 3 til 8 stig.
Vinstri græn yrði stærsti flokkurinn á Alþingi ef kosið yrði í dag, með rétt tæplega 30 prósenta fylgi. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Flokkurinn var með tæplega 29 prósenta fylgi fyrir viku og er munurinn innan vikmarka. Sjálfstæðisflokkurinn yrði næst stærsti flokkurinn ef gengið yrði til kosninga nú, með rúmlega 22 prósenta fylgi. Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaussonar er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með rúmlega 9 prósenta fylgi. Skammt á eftir Miðflokknum koma Píratar með 8,5 prósenta fylgi og Samfylkingin næst með rúmlega 8 prósenta fylgi.
Framsóknarflokkurinn mælist með rúm 7 prósent og Flokkur fólksins með rétt yfir sex prósenta fylgi.
Björt framtíð og Viðreisn þurrkast út af þingi, með um 3,5 prósenta fylgi.
Hringt var í 1.322 manns þar til náðist í 804 samkvæmt lagskiptu úrtaki 10. október. Svarhlutfallið var því 60,8 prósent. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?
Alls tóku 66 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Um 10 prósent sögðust ekki kjósa eða ætla að skila auðu, 13 prósent sögðust vera óákveðin og tæplega 11 prósent svöruðu ekki.
smari@bb.is
Í dag kl. 16:00 mun Pierre-Olivier Fontaine, meistaranemi við haf- og strandsvæðastjórnun Háskólaseturs Vestfjarða verja lokaverkefni sitt sem ber titilinn: Co-culture of blue mussel (Mytilus edulis) and sugar kelp (Saccharina latissima) as a strategy to reduce the predation rate of diving ducks on mussel farms in the Cascapedia Bay (QC, Canada).
Bláskeljaræktun er rótgróinn atvinnustarfsemi í austurhluta Kanada og hefur á síðustu 45 árum orðið að efnahagslegri burðarstoð í sjávarbyggðum þar. Pierre rannsakaði áhrif samræktunar bláskeljar og beltisþörunga í skelfiskræktun í Cascapedia flóa í Kanada en þar herja andfuglar á ræktunina og draga þannig úr arðsemi hennar. Rannsóknin miðaði að því að rækta beltisþörunga samhliða bláskel til að fæla fuglinn frá.
bryndis@bb.is
„Já, nei, sko, sjáðu til, væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!“
Sá sem svo mælti fyrir nokkrum árum var enginn annar en þáverandi sóknarherra til Vatnsfjarðaþinga, síra Baldur sálugi Vilhelmsson í Vatnsfirði. Óvíst er hvort stórum vanda íslenska heilbrigðiskerfisins í dag hafi verið lýst betur í jafn fáum orðum.
Kemur þetta fram í ritgerð í nýrri bók frá Vestfirska forlaginu, 100 Vestfirskar gamansögur. Bókin sú er farin í dreifingu um land allt. Segja má að bæði gaman og alvara sé uppistaðan í hinum mikla sagnabanka Vestfirska forlagsins af Vestfirðingum. Og skal nú rétt einu sinni vitnað í skipherrann okkar, Eirík Kristófersson, frá Brekkuvelli á Barðaströnd:
„Gamanmál eru nauðsynleg, en að baki þeim býr alvara lífs og dauða. Það vitum við sjómennirnir ef til vill betur en aðrir.“
bryndis@bb.is
Á RÚV hafa undanfarið hljómað þættir Arnhildar Hálfdánardóttur um lífið á Tálknafirði. Arnhildur spyr í kynningartexta um þættina hvort það þekki allir alla á Tálknafirði, hvort allir geti þrifist á svona stað og hvort einhver þori að kaupa óléttupróf á Tálknafirði. Þættirnir eru þrír, sá fyrsti fjallar um lífið á Tálknafirði, íbúum og tengslum þeirra við fjörðinn og upplifun þeirra af því að búa þar. Annar þáttur fjallar um atvinnulífið og sá þriðji um upplifun innflytjenda af því að búa á Tálknafirði.
Hér má nálgast hljóðskrá af fyrsta þætti.
Og hér af þætti tvö en um hann stendur á vef RUV „Fjöllin, fólkið, kyrrðin, pollurinn og erótískar skáldsögur. Þetta og fleira til laðar fólk til Tálknafjarðar. Atvinna er grundvallaratriði, slúðrið getur verið hvimleitt en samheldnin vegur upp á móti. Íbúum fækkar þrátt fyrir uppgang og húsnæði er af skornum skammti en Tálknfirðingar gefast ekki upp. Fjörðurinn rígheldur.
Þriðji þáttur er á dagskrá laugardaginn 14. október kl. 10:15
bryndis@bb.is
Fiskeldi er eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnmálamanna í NV kjördæmi þessi misserin og þess vegna finnst mér mikilvægt að þau framboð sem bjóða fram í kjördæminu komi sinni afstöðu til fiskeldis skýrt á framfæri við kjósendur.
Vísindi og regluverk
Kröftugur borgarafundur fyrir tveimur vikum kjarnaði kröfu Vestfirðinga, við viljum byggja upp umhverfisvænt fiskeldi byggt á vísindum með ströngu regluverki. Áherslan á vísindin og regluverkið er mikilvæg, vöxtur og viðgangur eldisins má ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta laxastofnsins heldur skal ítrustu þekkingu og mótvægisaðgerðum beitt til þess að lágmarka áhrif af eldinu niður fyrir ásættanleg mörk. Þar gegna okkar fagstofnanir lykilhlutverki, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun en brýnt er að þessar stofnanir hafi þá fjármuni og afl sem þurfa til þess að sinna sínum verkefnum. Eðlilegt er að aukin umsvif þessara stofnana í tengslum við fiskeldi á Vestfjörðum.
Strangar kröfur á Íslandi
Ísland hefur lagt metnað í á undanförnum árum að lágmarka áhrif fiskeldis á umhverfið. Fyrsta skrefið var tekið árið 2004 með því að loka stórum hluta landsins fyrir laxeldi nema á Vestfjörðum og hluta Ausfjörða. Næsta skref var tekið árið 2015 með því að taka upp ströngustu búnaðarstaðla fyrir fiskeldi og þriðja stóra skrefið var tekið núna í ár með því að láta Hafrannsóknarstofnun meta áhættu á mögulegri erfðablöndun. Allt sjóeldi þarf enn fremur að fara í gegnum burðarþolsmat og umhverfismat.
Áhættumat
Hafrannsóknarstofnun Íslands gaf út áhættumat um erfðablöndun núna í júlí sl í fyrsta sinn. Stærstu tíðindin úr því fyrsta mati stofnunarinnar er að möguleg áhætta á erfðablöndun er staðbundin við eldissvæðin. Leyfilegt er að ala allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land en Ísafjarðardjúpi lokað. Í þessu fyrsta áhættumati Hafró var ekki miðað við mótvægisaðgerðir í forsendum. Laxeldisfyrirtækin hafa hins vegar ítrekað bent á að hægt sé að fara í mótvægisaðgerðir til að sporna við þessari hættu í lífríkinu og hafa bent á viðurkenndar aðferðir til þess. Enn fremur hefur Hafrannsóknarstofnun bent á mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ef slíkum aðgerðum er beitt þarf því eitt ekki að útiloka annað heldur vel hægt að starfrækja umhverfisvæna matvælaframleiðslu í sambýli við nýtingu veiðivatna við Ísafjarðardjúp.
Stefnumótun
Eitt af fyrstu verkefnum nýs þings verður að fara yfir stefnumótunarskýrslu Þorgerðar Katrínar í fiskeldi. Ljóst er að þar eru mörg álitaefni sem þarf að gaumgæfa, til dæmis er varða mótvægisaðgerðir sem eru flestar slegnar útaf borðinu, alþjóðleg uppboð á eldissvæðum sem gera heimaaðilum og minni aðilum erfitt uppdráttar og fleira. Tryggja þarf að eldissvæðin sé áfram ekki hægt að veðsetja eða framselja og hóflegt auðlindagjald þarf að renna til nærsamfélaganna.
Að lokum
Það er ljós að mikil hugur er í Vestfirðingum varðandi laxeldi í sjó enda hefur uppgangur á suðurvæði Vestfjarða sýnt okkur að þessi framleiðsla hefur gríðalega mikið að segja fyrir samfélagið og skilað okkur hundruðum milljóna inn bæði til sveitarfélagana og í þjóðarbúið.
Það er skoðun mín að við verðum að treysa okkar færustu vísindamönnum í þessum efnum og búa til þannig umgjörð að umhverfisvænt laxeldi undir ströngum kröfum byggist upp en sömuleiðis að verndarhendi verði haldið yfir villtu laxastofnunum . Að tryggja slíka umgjörð er fyrst og fremst á hendi stjórnmálanna og heiti ég að ganga fumlaust í það verk fái ég til þess umboð.
Halla Signý Kristjánsdóttir, 2 sæti Framsóknar í NV kjördæmi.
Nú hefur nemendum í Grunnskólanum á Ísafirði fjölgað og um leið hefur nemendum fjölgað í Tónlistarskóla Ísafjarðar og nú er svo komið að fjölga þarf kennurum við skólann.
Á fundi Bæjarráðs í gær var tekið fyrir bréf Ingunnar Ó. Sturludóttur skólastjóra Tónlistarskólans þar sem hún bendir á að miðað við nemendafjölda þurfi að úthluta 12,9 stöðugildum til skólans en ekki 11,3 eins og áætlun fyrir 2017 hafði gert ráð fyrir. Í minnisblaði Margrétar Halldórsdóttur til Bæjarráðs kemur fram að þessi staða hafi ekki komið upp síðustu ár, enda hafi nemendum í grunnskólanum hingað til fækkað.
Nemendum í Tónlistarskólanum hefur fjölgað um tuttugu milli ára.
bryndis@bb.is
„Við óskum eftir fólki til þess að útbúa margnota poka sem síðan verður dreift í verslanir á svæðinu og notaðir í stað plastpoka“ segir í tilkynningu á vef Vesturbyggðar og í kvöld á að hittast í Húsinu, Aðalstræti 72 á Patreksfirði og sauma poka.
Einnig er óskað eftir bolum til þess að nota í pokagerðina. Koma má með boli á viðburðinn en einnig er karfa fyrir utan húsið þar sem skilja má bolli eftir fyrir verkefnið.
Ætlunin er að útbúa 300 poka næstu 4 þriðjudaga og eftir það starta verkefninu í verslunum á svæðinu.
Lesa má nánar um verkefnið á vef Hússins.
bryndis@bb.is
Fjarskiptafyrirtækið Nova kynnti í morgun að fyrirtækið hafi sett í loftið fyrstu 4,5G sendana. Nova áætlar að fjárfesta fyrir um 1 milljarð á ári næstu tvö árin og að megnið af fjárfestingum félagsins mun fara í uppbyggingu 4,5G kerfisins.
Í fréttatilkynningu frá Nova segir að það sé meðal fyrstu farsímafyrirtækja í Evrópu til þess að hefja slíka þjónustu en áætlað er að nethraði í farsímum viðskiptavina Nova muni u.þ.b. þrefaldast. Nova hefur á síðustu vikum sett upp fyrstu 4,5G sendana og því geta þeir sem eru með nýjustu farsímana nú þegar tengst 4,5G kerfinu, en á afmörkuðum svæðum til að byrja með.
Þá hefur verið hrint af stað sérstöku tækniverkefni undir yfirskriftinni Nova X, sem felur í sér innleiðingu á fjölmörgum tækninýjungum. Til að mynda verður innleidd ný tækni sem nefnist VoLTE (Voice over LTE) og felur hún í sér að símtölum er streymt yfir netið, í stað þess að þau fari um símkerfi.
Segir í tilkynningunni að VoLTE muni stórbæta bæði hljóm í símtölum sem og gæðum myndsímtala en um sé að ræða bæði háskerpu hljóð og mynd. Þá muni tenging símtala verða margfalt hraðari. Stuðningur við VoLTE tæknina verði í flestum nýjum farsímum en sé nú eingöngu í Samsung S7 hjá Nova.
„Þetta var misskilningur milli mín og blaðamanns og ég hef beðið Fréttablaðið um leiðréttingu,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður samgöngunefndar Alþingis. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er haft eftir henni að mögulega verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum. „Það er af og frá að það verði gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður. Hún segir að frá því að fréttin birtist í dag hafi hún fengið símtöl frá fólki að vestan þar sem hún var spurð út í málið. „Og það er vel skiljanlegt. En ég get fullvissað Vestfirðinga um að það stendur ekki til að innheimta gjald í Dýrafjarðargöngum,“ segir Valgerður.
Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust í síðasta mánuði og samkvæmt áætlunum verða þau fullbúin haustið 2020.