Föstudagur 27. september 2024
Síða 213

Byggðastofnun: 40 m.kr. til atvinnuráðgjafar á Vestfjörðum

Byggðastofnun.

Vestfjarðastofa mun fá um 40 m.kr. til atvinnuráðgjafar á næsta ári. Stjórn Byggðastofnunar skipti í nóvember sl. 205 m.kr. milli landssvæða og komu 34,7 m.kr. í hlut Vestfjarða.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að fjárhæðin, sem til skipta var, hafi hækkað í meðförum fjárlaganefndar Alþingis og að til Vestfjarða muni koma um 40 m.kr.

Hún segir að starfsemin verði svipuð á næsta ári einkum vegna tveggja evrópuverkefna sem Vestfjarðastofa er þátttakandi í. „Framlag til atvinnu-og byggðaþróunar hefur verið í svipaðri krónutölu í mörg ár þannig að hún nær ekki að halda í við launaþróun augljóslega. Landshlutasamtökin hafa ítrekað bent á þetta en fengið aðeins takmarkaðan hljómgrunn og þurft að sækja aukaframlag árlega.“

skipting Byggðastofnunar á framlaginu:

 Fjárlaganefnd bætti 35 m.kr. við fjárhæðina þannig að samtals eru 240 m.kr. til atvinnuráðgajfar.

Byggðastofnun styrkir meistaranema við Háskólasetur Vestfjarða

Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum þann 15. desember síðastliðinn að styrkja þrjá meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðamála. Auglýsing um styrkina var birt 1. september og rann umsóknarfrestur út 1. nóvember. Verkefnin sem sótt er um styrk til skulu hafa skírskotun til markmiða eða aðgerða byggðaáætlunar. Alls bárust níu umsóknir.

Heildarupphæð styrkjanna er tæplega ein milljón króna. Hver styrkur er að upphæð 330.000 kr. Styrkirnir eru fjármagnaðir af byggðaáætlun. Einn styrkþeginn er nemandi við Háskólasetur Vestfjarða.

Evaluating place attachment in times of climate change, disaster-risk and uncertainty

Styrkþegi er Emma Katherine Alvera Dexter, Háskólasetri Vestfjarða.

Verkefnið felur í sér könnun meðal íbúa á landsvísu um staðartengsl, vitund um loftslagsbreytingar og mat á hættu. Athugað verður hvort merkja megi svæðisbundinn mun í svörum íbúa mismunandi byggðarlaga sem samræmist ólíkri hamfarahættu svæðis. Einnig hver öryggiskennd svarenda er og traust til öryggisráðstafana og viðbragðsáætlana. Rannsóknin mun efla vitund um hvað vantar uppá þekkingu um hamfarahættu og gefa vísbendingar um hverskonar aðlögunar er þörf á neyðaráætlunum þegar fyrir liggur mat á staðbundinni þekkingu íbúa.

Valdið til þorpanna: Frá hverfisráðum til heimastjórna?

Styrkþegi er Steinunn Ása Sigurðardóttir, Háskóla Íslands.

Einn styrkjanna þriggja er áhugavert verkefni þar sem athugað verður hver upplifun íbúa smærri byggðakjarna í fjölkjarna sveitarfélögum er af stjórnsýslu og ákvarðanatöku sveitarfélags. Skoðuð verða áhrif hinna nýtilkomnu heimastjórna í Múlaþingi í samanburði við upplifun íbúa annars fjölkjarna sveitarfélags. Rannsóknin mun varpa ljósi á mögulega gagnsemi heimildar 38. greinar sveitarstjórnarlaga um nefnd fyrir hluta sveitarfélags, sem var í fyrsta sinn virkjuð með tilkomu svokallaðra heimastjórna í ný sameinuðu sveitarfélagi Múlaþings.

Ákveðið hefur verið að koma á fót fjórum heimastjórnum í nýju sveitarfélagi á sunnanverðum Vestfjörðum, sem verður til á næsta ári með sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

COP28: hvatt til 75% aukningar á fiskeldi

Kort af Eyjafirði.

Í ályktun nýafstaðinnar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 er hvatt til þess að fiskeldi verði aukið um 75% á árunum fram til 2040 frá 2020 í því skyni að auka matvælaframleiðslu heimsins. Fiskeldið er talið gefa heilbrigða matvöru með mun minna kolefnisspori en t.d. kjötframleiðsla og aukið fiskeldi stuðli því að draga úr loftslagsáhrifum iðnaðarframleiðslu heimsins. Alls undirrituðu 158 þjóðir yfirlýsinguna.

Í frumvarpi Matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að banna fiskeldi með laxfiskum á stórum svæðum við strandlengju landsins. Bætt er við núverandi svæði sem eru lokuð sjókvíaeldi bæði Eyjafirði og Öxarfirði.

Þessar áherslur sæta gagnrýni fyrirtækisins Laxóss ehf á Árskógssandi í Eyjafirði í umsögn þess um frumvarpið. Vísar fyrirtækið til ályktunar COP28 og segir frumvarpið skjóta skökku við. Ekki eigi að útiloka aðferðir sem hægt væri að rökstyðja að muni hafa hverfandi lítil áhrif á lífríkið í fjörðunum og vatnakerfi þeirra.

Í umsögninni segir að bæði í nútíð og í framtíð munu ýmsar aðferðir verða ákjósanlegar sem ekki ætti að útiloka fyrir fram með lögum. Aðferðir sem byggja á að minnka eða koma í veg fyrir vandamál vegna laxalúsa, minnka eldistíma í kvíum, lokuð eldiskerfi gætu komið til greina og því væri rétt að hafa þannig opið fyrir ýmsar lausnir sem gætu hentað.

Lýst er fyrirhuguðu fiskeldi Laxóss ehf., sem á að rísa á Árskógssandi við Eyjafjörð á næstunni og getur gefið íslensku landeldi rekstrarlegt forskot til að styrkja afkomu sína með því að hafa eldisfiskinn í sjókvíum einungis síðasta sumarið og haustið fyrir slátrun. Þegar fiskurinn er orðin á bilinu 1 til 2.5 kg að þyngd, í landeldi er hann settur út í kvíar að vori og kominn í sláturstærð fyrir veturinn. Aðferðin er bæði vistvæn, örugg og kostnaðarsparandi segir í umsögninni.

lágt kolefnisspor og hollur

„Hafa ber í huga að Íslenskur eldifiskur er hollur til neyslu, sýklalyfjanotkun nánast engin, inniheldur allar tegundirnar af lífsmikilvægum amínósýrum og inniheldur hollar fitusýrur eins og Omega 3 og Omega 6. Hann hefur eitt lægsta kolefnisspor af allri sambærilegri fæðu sem finnst á markaði. Íslenskt fiskeldi getur haft gríðarlega þýðingu fyrir íslenskt hagkerfi og atvinnulíf ef vandað verður til verka varðandi setningu laga og regluverks.“

Lítið sem ekkert sjókvíaeldi hafi verið í Eyjafirði og hnignandi ástand bleikjustofna í firðinum eigi sér aðrar skýringar en eldið.

Umsögnina ritar Guðmundur Valur Stefánsson, cand scient í fiska, vatna- og sjávarlíffræði, framkvæmdastjóri Laxóss ehf. og bóndasonur úr Hörgárdal.

Reykhólahreppur telur sameiningu við önnur sveitarfélög ekki tímabæra

Frá Reykhólum.

Alþingi samþykkti 2021 að stefnt skyldi að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags væri 1000 manns.

Sveitarfélög með færri en 250 íbúa voru einnig skylduð til að hefja sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

Reykhólahreppur skilaði í vor greinargerð um stöðu sameiningarviðræðna við nágrannasveitarfélögin.

Í haust barst svo umsögn innviðaráðuneytisins og niðurstaða þess er að sveitarfélagið er hvatt til að huga að þeim tækifærum sem kunna að felast í sameiningu við önnur sveitarfélög.

Sveitarstjórn hefur tekið á dagskrá til tveggja umræðna málefni sameiningar og bókaði um málið eftir síðari umræðu þann 13. desember:

„Sveitarstjórn Reykhólahrepps telur forsendur til þess að ganga til formlegra sameiningaviðræðna við önnur sveitarfélög ekki sterkar, vegna verkefnastöðu sveitarfélagsins og vinnu við hringrásarsamfélagið. Samþykkt samhljóða.“

Þar sem er talað um verkefnastöðu er átt við vinnu við Græna iðngarða, hringrásarsamfélagið á Reykhólum og uppbyggingu húsnæðis í tengslum við það.

30 milljónir til verkefna gegn fíknisjúkdómum

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 30 milljónum króna í styrki til frjálsra félagasamtaka vegna verkefna sem miða að því að vinna gegn fíknisjúkdómum og þá einkum ópíóíðafíkn. Sex verkefni hlutu styrk. Hæsti styrkurinn, átta milljónir króna, rennur til verkefnis Matthildar, samtaka um skaðaminnkun. Í því felst að koma á fót færanlegu úrræði til að veita fólki sem reykir ópíóíða eða örvandi vímuefni nærþjónustu á forsendum þess með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Þetta er í annað sinn sem ráðherra auglýsir styrki til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Í auglýsingunni var áhersla lögð á að verkefni sem kæmu til greina skyldu byggja á faglegum grunni, hafa raunhæft markmið tengt því að vinna gegn fíknisjúkdómum og hafa skýrt upphaf og endi. Jafnframt að við lok verkefnis verði árangur af því metinn. Alls bárust umsóknir um sjö verkefni. Sex þeirra hlutu styrk en ein umsókn uppfyllti ekki skilyrði.

Foreldrahús hlaut 4,0 m.kr. til að veita fjölskyldum ráðgjöf sem snemmtækt inngrip vegna vímuefnanotkunar unglinga sem hluta af fyrirhuguðu forvarnarverkefni félagasamtakanna.

Matthildur, samtök um skaðaminnkun hlutu 3,6 m.kr. til að auka aðgengi að upplýsingum á vefnum um öruggari notkun löglegra og ólöglegra vímuefna og forvarnir gegn ofskömmtun.

Matthildur samtök um skaðaminnkun hlutu 8,0 m.kr. í færanlegt skaðaminnkunarverkefni fyrir fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni.

Rótin hlaut 3,8 m.kr. til verkefnis sem miðar að því að þróa áfram og koma á fót lágþröskulda-heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem glíma við heimilisleysi og alvarlegan vímuefnavanda.

Samhjálp hlaut 5,4 m.kr. til áframhaldandi innleiðingar áfallamiðaðrar nálgunar í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings.

SÁÁ hlutu 5,2 m.kr. til að útbúa aðgengilegt fræðsluefni með upplýsingum um aðgengi að meðferð og bjargráð sem nýtast til að draga úr neikvæðum afleiðingum ópíóíða.

Aparóla á Eyrartúni

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur með ákvörðun þann 22. desember vísað frá kæru íbúa við Túngötu á Ísafirði vegna fyrirhugaðrar uppsetningar sveitarfélagsins á aparólu á Eyrartúni.

Þar er fyrir ærslabelgur sem einnig var ágreiningur um á sínum tíma.

Í úrskurði nefndarinnar segir: “ Svo sem að framan greinir lagði kærandi fram erindi til Ísafjarðarbæjar hinn 20. september 2023 þar sem gerðar voru athugasemdir við fyrirhuguð framkvæmdaáform um leikvöll á Eyrartúni. Taldi kærandi framkvæmdina ekki vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins auk þess sem sveitarfélaginu var tilkynnt um að til stæði að kæra framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar.

Var erindið afgreitt af skipulags- og mannvirkjanefnd með þeim hætti að fela starfsmanni að svara kæranda í samræmi við framlagt minnisblað og færa til bókar að nefndin teldi framkvæmdina ekki leyfisskylda.

Ekki er hægt að líta svo á að nefnd afgreiðsla feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli skipulagslaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Þá hafa önnur lög ekki að geyma heimild til málskots til nefndarinnar vegna afgreiðslunnar. Verður samkvæmt því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.“

Samkaup: samstarfssamningur við Ísafjarðarbæ og Vesturafl

Mynd frá undirskrift samnings, nöfn frá vinstri til hægri: Harpa Stefánsdóttir (ráðgjafi félagsþjónustu á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar), Margrét Geirsdóttir (sviðsstjóri velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar), Harpa Guðmundsdóttir (forstöðumaður Vesturafls og fjölsmiðjunnar) og Bergrún Ósk Ólafsdóttir (verkefnastjóri umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum).

Samkaup hafa veitt mataraðstoð að verðmæti 75 milljón króna á síðustu árum og fyrirtækið undirritaði nýverið samning við Ísafjarðarbæ og geðræktarmiðstöðina Vesturafl með það að markmiði að sporna við matarsóun og förgun matvæla á svæðinu. Verkefnið er hluti af markvissu átaki Samkaupa um allt land um mataraðstoð gegn matarsóun.  

Hættum að henda, frystum og gefum! er yfirskrift verkefnisins sem varðar útdeilingu matvæla úr verslun Nettó á Ísafirði og Kjörbúðinni í Bolungarvík til stuðnings við velferðarverkefni Ísafjarðarbæjar og Vesturafls. 

Skjót viðbrögð starfsmanna þegar frystar gáfu sig

Tildrög verkefnisins voru skjót viðbrögð starfsmanna Ísafjarðarbæjar, Samkaupa og geðræktarfélagsins Vesturafls sem tryggðu að betur fór en á horfðist þegar kælar og frystar gáfu sig í Kjörbúðinni í Bolungarvík fyrr á árinu. Í stað þess að farga matvælum sem þar voru geymd, söfnuðu starfsmennirnir matnum saman og gáfu gáfu einstaklingum, öldruðum og barnafjölskyldum á yfir 30 heimilum. 

Verkefnið hefur hefur verið til reynslu í nokkra mánuði með góðum árangri en með undirritun samningsins er samstarfið orðið formlegt. Fjöldi skjólstæðinga Velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar hafa tekið á móti matvælum sem eru í óaðfinnanlegu ástandi en eru t.d. að nálgast síðasta söludag.

„Þessi samstaða skiptir sköpum í bæjarfélaginu og okkur þykir ótrúlega gott að þessar vörur hafi komist í hendur þeirra sem mest þurfa á þeim að halda, frekar en að enda í ruslinu engum til gagns. Það er hagur okkar allra sem samfélag að draga sem mest úr matarsóun og það er nokkuð sem við höfum gert um árabil Samkaupum,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum. 

Samkaup veitt mataraðstoð fyrir 75 milljónir

Verkefnið er liður í umfangsmikilli samfélagsstefnu Samkaupa, eiganda og rekstraraðila verslana Nettó og Kjörbúða, sem hefur skýr markmið er snúa að mataraðstoð gegn matarsóun. Mikil áhersla er lögð á að samfélagsábyrgð sé samþætt allri starfsemi fyrirtækisins og hafa Samkaup til að mynda gefið mat og aðrar nauðsynjavörur fyrir 75 milljónir króna á síðusta ári. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðs vegar um landið og rík áhersla er lögð á að styðja við nærsamfélagið á hverjum stað með fjölbreyttum hætti.

Ásamt nýjum samningi á Vestfjörðum hafa Samkaup starfað um árabil með Hjálpræðishernum í Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri og séð til þess að um 300 einstaklingar fái að borða og geti sótt mat- og nauðsynjavöru til að taka með sér heim alla virka daga.

SFS: vegið að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi

Eldiskvíar.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fara með fyrirsvar fyrirtækja í sjókvíaeldi. Samtökin segja í yfirlýsingu sem birt var fyrir jólin um frumvarp Matvælaráðherra um lagareldi, sem er til kynningar í samráðsgátt, að þar séu lagðar til svo viðurhlutamiklar refsingar og viðurlög við tilteknum atriðum, að vegið er alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi á Íslandi. Vísar SFS með þessu m.a. til þess að í frumvarpinu er eldisfyrirtækjum refsað fyrir strok með því að minnka framleiðsluheimildir þeirra þannig að fyrir hvern strokinn frjóan lax skerðist þær skv. nánar tilgreindum reglum. Þykir SFS refsingarnar vera of harðar.
SFS tekur undir það markmið frumvarpsins að efla þurfi stjórnsýslu, eftirlit og umhverfi sjókvíaeldis á Íslandi, svo atvinnugreinin geti haldið áfram að vaxa, tryggt aukna verðmætasköpun og orðið ein af burðarstoðum íslensks atvinnulífs í sátt við náttúru og samfélag. Samtökin styðja því tillögur ráðherra þess efnis.

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við ýmis ákvæði frumvarpsins. Auk athugasemda við refsihlutann segja SFS að ráðherra gangi gegn skýrslu Boston Consulting Group sem unnin var fyrir matvælaráðherra á liðnu ári þar sem mælt var með hóflegri gjaldtöku í vaxandi atvinnugrein. Ráðherra leggur bæði til háa og íþyngjandi skatta og vegur að rekstrargrundvelli fyrirtækjanna segir í yfirlýsingunni.
SFS segir að lögð sé til grundvallarbreyting á gjaldaumhverfi sjókvíaeldis, en núverandi fyrirkomulag byggi á tilliti til vaxtar greinarinnar svo ekki yrði vegið að rekstrargrundvelli. „Með frumvarpinu ætlar ráðherra að auka þunga skatta og gjalda á fyrirtæki í sjókvíaeldi. Ganga þessi áform verulega lengra en gert er í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem stutt var við vöxt greinarinnar með skynsamlegu gjaldaumhverfi í árdaga uppbyggingar.“
Ráðherra gengur gegn hagsmunum fjölda fólks í þeim sveitarfélögum sem byggja lífsviðurværi sitt á ábyrgu og sjálfbæru sjókvíaeldi segja SFS. Einnig sé með tillögu um friðun svæða í frumvarpinu vegið að framtíðarmöguleikum sveitarfélaga til verðmætasköpunar með sjókvíaeldi á svæðinu en í frumvarpinu er lagt til að friða bæði Eyjafjörð og Öxarfjörð fyrir sjókvíaeldi.

Tálknafjörður: fjórir vanhæfir við umræðu og afgreiðslu á byggðakvótareglum

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar tók fyrir úthlutun byggðakvóta á fundi sínum í síðustu viku. Fjórir af fimm sveitarstjórnarfulltrúum, Lilja Magnúsdóttir, Guðlaugur Jónsson, Jenný Lára Magnadóttir og Jón Ingi Jónsson vöktu athygli á vanhæfi sínu til að fjalla um málið og viku af fundi við afgreiðslu þess.
Í þeirra stað komu þrír varamenn inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Úthlutun byggðakvóta til Tálknafjarðar á fiskveiðiárinu 2023/2024 er 285 þorskígildistonn. Rætt var um sérreglur sem sveitarstjórnir geta sett um úthlutun byggðakvótans. Samþykkt var samhljóða að sótt verði um að óbreyttar sérreglur verði fyrir Tálknafjörð vegna byggðakvóta fiskveiðiárið 2023/2024 frá fyrra fiskveiðiári með þeirri viðbót að breyting
verði á 3. mgr. 6 gr. reglurgerðar á þann veg að þá daga sem fiskvinnsla sér sér ekki fært að taka á móti afla í vinnslu verði heimilt að bjóða afla upp á fiskmarkaði.
Á síðasta ári var helmingi byggðakvótans úthlutað jafnt á milli báta á Tálknafirði og hinum helmingi kvótans úthlutans samkvæmt veiðireynslu árið á undan. Þá var skylt að landa aflanum í Tálknafjarðarhöfn. Auk þess vildi sveitarstjórnin fella brott ákvæði um vinnsluskyldu aflans þar sem engin fiskvinnsla væri innan sveitarfélagsins. Því hafnaði Matvælaráðuneytið og setti skilyrði um að byggðakvótanum yrði landað til vinnslu.

Ísafjarðarbær: nýtt ákvæði um afturköllun lóðarúthlutunar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerði á síðasta fundi sínum breytingar á samþykkt Ísafjarðarbæjar um gatnagerðargjald, stofngjald vatnsveitu og stofngjald fráveitu auk þess að samþykkja breytingar á reglum um úthlutun lóða.
Bætt var við samþykktina ákvæði um afturköllun lóðarúthlutunar vegna vanskila eða dráttar á framkvæmdum.
Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild til þess að afturkalla byggingarleyfi að undangenginni viðvörun hafi ekki gatnagerðargjald verið greitt eða framkvæmdir hafnar innan 12 mánaða.
Sveitarstjórn skal með 30 daga fyrirvara senda lóðarhafa með sannanlegum hætti viðvörun um hina fyrirhuguðu afturköllun áður en byggingarleyfi og/eða lóðarúthlutun er afturkölluð.
Í minnisblaði bæjarritara segir að breytingarnar séu gerðar vegna ábendinga um að bæta þurfi nákvæmni í orðalagi varðandi afturköllun og innköllun lóðarúthlutana vegna vanskila eða dráttar á framkvæmdum. Skýrt þarf að vera að frestur bæjarstjórnar sé 30 dagar til handa lóðarhafa.

Nýjustu fréttir